Frumvarp um hvalveiðibann
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er á dagskrá deildarinnar í dag málefni sem er mjög mikilvægt og skiptir miklu hver endanleg stefna verður mótuð í því. Ég geri ekki athugasemdir við það þó að umræðu sé frestað þannig að þeir hæstv. ráðherrar sem málið snertir helst geti tekið þátt í umræðunni. Hitt er annað að málið hefur borið að með nokkuð sérstökum hætti að undanförnu. Nokkuð misvísandi yfirlýsingar af hálfu einstakra ráðherra og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar á þingi hafa kannski valdið því að meiri óvissa er um framtíðarstefnu í þessu efni en æskilegt væri.
    Þessi mál snerta ýmis svið, auðvitað fyrst og fremst þörf okkar á því og mikilvægi þess að halda áfram vísindalegum rannsóknum á þessu sviði. Það skiptir okkur mjög miklu. Við höfum fram til þessa fylgt fram mjög sveigjanlegri stefnu að því er þetta varðar, verið tilbúnir til þess að breyta okkar vísindaáætlunum eftir aðstæðum og jafnvel samið um fækkun dýra við Bandaríkjastjórn í því efni. Í annan stað snertir þetta mjög svo viðskiptahagsmuni okkar og það mál heyrir auðvitað fyrst og fremst undir hæstv. utanrrh. Og loks í þriðja lagi snertir þetta mál mjög hagsmuni okkar af því að hindra mengun sjávarins og ná sem víðtækastri samstöðu við þau ríki og þau alþjóðlegu samtök sem geta tekið saman höndum með okkur í því efni.
    Þessi mál hafa fyrst og fremst á erlendum vettvangi verið í höndum Siglingamálastofnunar og samgönguráðuneytis. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, og það er mín tillaga um heildarmálsmeðferð, að þó að ég á engan hátt gagnrýni það frv. eða aðrar þær tillögur sem fram hafa komið í þessu efni teldi ég mjög mikilsvert vegna meðferðar málsins að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu hér á hinu háa Alþingi um stefnumótun í þessu efni og að mínu mati væri eðlilegt að hæstv. forsrh. legði skriflega skýrslu fram fyrir utanrmn. um málið og alla þá höfuðþætti sem því tengjast og ég hef hér nefnt og þess yrði síðan freistað á vettvangi utanrmn. að skapa sem breiðasta samstöðu þingflokkanna um stefnumótun í þessu efni. Við kunnum að þurfa að breyta okkar afstöðu. Við megum þó auðvitað ekki rasa um ráð fram og breyta henni við fyrsta hanagal. En við höfum fylgt sveigjanlegri stefnu í þessu efni og eigum að gera það áfram með tilliti til heildarhagsmuna og það er mín tillaga að það verði reynt að ná samstöðu með þessari málsmeðferð. Þó að hæstv. forsrh. sé ekki viðstaddur þessa umræðu hér í dag mundi ég vilja beina því til hæstv. heilbrmrh. að koma þessum tillögum um málsmeðferð á framfæri og kanna hvort ekki væri grundvöllur fyrir því að taka á málunum með þessum hætti.