Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu, a.m.k. ekki í fyrstu umferð, en það var sá ágæti hv. 3. þm. Vestf. sem eiginlega gaf mér upp boltann og ég stóðst ekki mátið því ég komst að því að það væru ekki margir á mælendaskrá að segja nokkur orð í tilefni af upphafsorðum í hans ræðu.
    Það var í fyrsta lagi að honum þótti þeir sem hafa talað í þessu máli ekki hafa lagt mikla áherslu á að ræða málefnalega um þetta frv. heldur hefði stjórnarandstaðan fyrst og fremst rætt um lögmæti bráðabirgðalaganna. Ég er nú ekki alveg sammála honum í þessu, enda eyddi hann talsverðum tíma í að svara þeirri málefnalegu gagnrýni sem hafði komið fram á frv. einmitt af þeim ástæðum að hér hefur verið fjallað málefnalega um þetta frv. af svo mörgum hv. þm., einnig úr mínum flokki, að ég þarf í raun og veru engu við það að bæta. En það þarf engan að undra þó að mönnum hafi hér orðið tíðrætt um bráðabirgðalögin og gagnrýni að hæstv. ríkisstjórn hafi sett þau svona stuttu fyrir þingsetningu, ekki síst þegar það er haft í huga á hve veikum grunni þessi ríkisstjórn er reist. Hún er hreint ekki reist á bjargi heldur á sandi og undirstöður hennar geta hvenær sem er hrunið. Þetta vita allir hv. alþm. Við getum e.t.v. gert ráð fyrir því að þetta frv. komist í gegnum þessa hv. deild, a.m.k. eftir að hv. síðasti ræðumaður og fleiri hafa talað sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þó maður hefði haft kannski grun um að einhver þeirra væri í vafa um sinn stuðning. En þrátt fyrir það er alls ekki útséð um hvernig þetta gengur þegar frv. kemur til hv. Nd. Þá verður ríkisstjórnin að treysta á ,,bónus`` og huldufólk. Og það er ekki séð fyrir hvernig huldufólkið reynist og jafnvel ,,bónusar`` geta brugðist.
    En hv. þm. varð tíðrætt um að menn geti ekki leyft sér að skipta um skoðun frá mánuði til mánaðar. Mér varð bara hugsað svo: Hvað þá með að skipta um skoðun frá degi til dags eða frá hádegi til kvölds eins og stundum gerist nú á stjórnarheimilum á Íslandi? En það er þetta með kýrhausinn, það er svo margt skrýtið í honum og oft hefur nú læðst að manni við yfirlýsingagleði hinna nýju hæstv. ráðherra Alþb. að það er hægara um að tala en í að komast. Þegar Alþb. fór t.d. inn í stjórnarmyndunarviðræður Steingríms Hermannssonar um myndun meirihlutastjórnar samþykkti Alþb. ályktun þar sem settar voru fram forsendur fyrir stjórnarmyndunarviðræðum þess við hina tvo flokkana, Framsfl. og Alþfl. Þar var lögð áhersla á númer eitt, tvö og þrjú að bráðabirgðalögin sem banna frjálsa samninga verkalýðshreyfingarinnar verði afnumin, að kaupskerðing verði afnumin og samráð haft við samtök launafólks um skipan kjaramála og að matarskatturinn verði tekinn til endurskoðunar. Þetta voru meginforsendur þingflokks Alþb. fyrir því að ganga til viðræðna við Steingrím Hermannsson og árangurinn höfum við í ríkisstjórninni sem sett var á laggirnar og frv. sem hér er á dagskrá.

    Það var fleira sem kom til. Ég er hér með leiðara úr Þjóðviljanum. ,,Málefnin ráða``, heitir hann. Hann er frá 20. sept. Ég stenst ekki freistinguna, hæstv. forseti, og ég ætla að lesa hérna örfáar setningar úr þessum leiðara, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Alþýðubandalagsmenn hafa tekið þá eðlilegu afstöðu að málefnin eigi að ráða. Þeir hafa lýst sig reiðubúna til viðræðna án þess að líta á flokksskírteini``, hvað sem það á að þýða, ,,og eru þegar byrjaðir að ræða við Steingrím Hermannsson, sem nú fer með stjórnarmyndunarumboð, og samstarfsmenn hans í Alþfl. Þeir leggja áherslu á að þar verði einnig rætt um Samtök um kvennalista sem hljóta að láta af einangrunarhneigðum og láta reyna á pólitík sína í viðræðum.``
    Og ofurlítið neðar í þessum leiðara stendur: ,,Nú er að sjá hvað er á bak við vinstri bros Steingríms Hermannssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar og nú er að sjá að hvaða marki Kvennalistinn telur sig vera með í stjórnmálum á Íslandi.``
    Það var fróðlegt að lesa þennan leiðara. Mér dettur í hug þetta með flokksskírteinin, að þeir ætli ekki að líta á þau, því að svo minnir mig að einhvern tíma seinna hafi komið fram í Þjóðviljanum að þeir settu það skilyrði að Borgfl. mætti ekki vera með. Hvað var þá orðið um flokksskírteinin, það veit ég ekki.
    En það má segja að bragð sé að þá barnið finnur og verður fróðlegt að fylgjast með hví hve lengi þetta vinstra bros helst innan ríkisstjórnarinnar hjá þessum tveimur flokkum sem Alþb. er þarna á leiðinni til samstarfs við.
    Ég get ekki látið það fram hjá mér fara að minnast á að það þurfi engan að undra þótt það hafi verið rætt um kjarasamninga í tengslum við þetta frv. um bráðabirgðalögin og samningsréttinn og gagnrýnt hvernig hafi verið staðið að þessum málum, ekki síst þegar haft er í huga hvaða leik hv. þm. t.d. Alþb. hafa leikið hér á undanförnum árum í sambandi við kjarasamninga og allt það, að það megi ekki skerða þá o.s.frv. Í raun og veru þarf ég hreint ekki að fara að tíunda þau orð hér. Þetta ætti öllum að vera vel í minni. Það á ekki að
þurfa að minna á að kaup var skert 14 sinnum hér þegar Alþb. átti síðast sæti í ríkisstjórn. Síðan þegar menn koma í stjórnarandstöðu gleymist þetta og þá byrja menn að hrópa eitthvað allt annað. Það er von að mönnum detti í hug að oft sé þá hægara um að tala en í að komast.
    En það var eitt annað sem hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason minntist hér á. Þetta fannst mér ansi góð ræða hjá honum. Hann hefur kannski staðsett sig í sama greindarvísitöluflokk og hv. 2. þm. Norðurl. e. eins og hann gerði hér áðan. Það var margt skynsamlegt sem hv. þm. sagði og ekki síst þegar hann var að tala um muninn á kaupráni og því að verja kjörin. Þetta er kannski einmitt það sem menn hafa verið að basla við að gera á undanförnum árum í efnahagserfiðleikum þjóðarinnar og það er einmitt að reyna að verja kjörin. Þá hefur oft orðið að grípa til þess óyndisúrræðis að ganga kannski á svig við gerða

samninga.
    En ég get ekki látið hjá líða í lokin að þessu gefna tilefni að minna á að þegar slitnaði upp úr viðræðum við verkalýðsforustuna um niðurfærsluleiðina, þegar fyrrv. ríkisstjórn var með sínar hugmyndir um efnahagsaðgerðir, lýsti núv. hæstv. forsrh., sem sat í fyrri ríkisstjórn þó að hann væri reyndar í stjórnarandstöðu þar, yfir miklum vonbrigðum með hversu fljótt þeim tilraunum var hætt, þ.e. að fara niðurfærsluleiðina, og hann kenndi þáv. forsrh. um það. Hann virtist ekki taka mikið mark á samráði við verkalýðshreyfinguna eða verkalýðsforustuna sem mótmælti þessu harðlega. Hann taldi það greinilega vera léttvægt. Mig minnir að hann hafi lýst því yfir að hann hafi sjálfur trúað á þessa leið og teldi að það ætti að reyna hana til þrautar og þess vegna ætla ég að gera það að lokaorðum mínum að spyrja núv. hæstv. forsrh. hvers vegna í ósköpunum þessi leið var þá ekki farin þegar hann var sjálfur kominn í þá aðstöðu að ráða ferðinni.