Frumvarp um efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Forseti (Jón Helgason):
    Ég frétti það hjá forseta Nd. að hann hefði ákveðið að halda fundi áfram kl. hálfsex og af þeim sökum var ljóst að fundartími til þingflokksfunda var ekki langur. Þess vegna óskaði ég eftir því að hæstv. forsrh. frestaði sinni ræðu og lyki henni nú á eftir þannig að við funduðum ekki á þingflokksfundartíma. Hins vegar hef ég heyrt það á öðrum þm. að þeir óski eftir því að umræðunni nú sé frestað, enda er það ljóst að við ljúkum ekki málinu hvort sem er í dag. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir kvöldfundi, ekki heldur í Nd. Hins vegar vildi ég vonast til þess að við gætum lokið þessu og hinum málunum á þriðjudaginn. Þá er rýmri tími til fundahalda og sýnist mér ekki skipta öllu máli hvort það er einni ræðunni fleira eða færra nú heldur að við reynum að ljúka umræðunni á þriðjudaginn og málinu þar með.