Frumvarp um efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Ég hef að vísu ekki verið ýkja mörg ár hér á hv. Alþingi en það er nýtt í mínum huga að heyra hörðustu stjórnarandstæðinga reka svo á eftir málefnum stjórnarliða eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gerir nú. Það er auðvitað erfitt að gera ýmsum til hæfis. Sumir sitja hér of lítið í hv. deild en aðrir of lengi að því er virðist og ég er líklega einn af þeim.
    Ég dreg í efa að stjórnarandstæðingar hafi fengið minni tíma til ræðuhalda undir þessum dagskrárlið heldur en stjórnarliðar. Ég hygg að hv. þm. Halldór Blöndal hafi haldið hvað lengsta ræðu hv. þm. hér í deildinni það sem komið er og trúlega á eftir að bætast við. Ég sé ekkert athugavert við það að umræður um svo stóran málaflokk geti tekið fleiri en einn eða tvo fundartíma í hv. deild. Það er eðli málsins samkvæmt um svo viðamikið mál að ræða og það er víðs fjarri, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að stjórnarþingmenn dragi hér lappirnar. Mér heyrist miklu frekar að stjórnarandstæðingar séu að reyna að tefja málið með þeim hætti sem haldið er uppi. Ég tel rétt hjá hæstv. forseta að fresta umræðunni. Það er augljóst að hún verður ekki kláruð fyrir kvöldmatarhlé ef það yrði gert. Það eru a.m.k. þrír, fjórir, fimm á mælendaskrá og við stjórnarliðar, sem mér skilst að hv. þm. Halldór Blöndal telji mig ekki vera, ég taldi mig stjórnarliða hér í umræðunum í dag, eigum ábyggilega eftir að setja á einhverjar umræður ef hv. þm. Halldór Blöndal heldur uppteknum hætti. ( Menntmrh.: Eða hvort sem er.) Eða hvort sem er, hæstv. menntmrh., getum við talað enn við hv. þm. Halldór Blöndal eins og við gerðum á síðasta þingi.