Frumvarp um efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég held að ég, sem svona með eldri þingmönnum nú orðið, hljóti að æskja þess að forseti úrskurði í því efni hvort ég hafi ekki talað um þingsköp áðan. Hv. þm. Eiður Guðnason hélt því fram að ég hefði ekki talað um þingsköp í þeim þrem setningum sem ég sagði. Ef það er hugsun forseta og meining að þetta séu rétt ummæli af hálfu þm. bið ég auðvitað afsökunar. Er það svo? --- Þögn forseta þýðir væntanlega að það sé ekki tilefni til þess að segja að ég hafi ekki rætt hér um þingsköp.
    Ég lít svo á að þögn við þessu síðasta sé samþykki þess að ég hafi sem sagt rætt um þingsköp. Hitt er mikið vafamál hvort allir hér, t.d. síðasti ræðumaður, hafi rætt um þingsköp, en hitt eru þingsköp þegar hann lýsir því yfir, þ.e. um störf þingsins, um störf í þessari deild, að hann muni svo sem geta haldið uppi málþófi og að við höfum farið hér með ýmiss konar fleipur o.s.frv., þegar farið er að ræða um málið svo vítt og breitt og þegar hæstv. menntmrh. lýsir því yfir að það verði kannski haldið uppi miklu málþófi af stjórnarsinna hálfu. Það undirstrikar það sem ég sagði að það er ríkisstjórnin sem er að draga málið á langinn. Hún vill ekki fá umræðu um það. Hún hefur lýst því yfir að það verði ekki á dagskrá fyrr en næsta þriðjudag, ef það kemur þá á dagskrá.
    Þetta sýnir auðvitað aðeins eitt, sem alþjóð á að vita og hlýtur nú að vera farið að gruna, að það er algjört upplausnarástand í ríkisstjórnarflokkunum og Alþingi hefur enga forustu.