Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Hér í hv. Nd. hefur verið lagt fram frv. til l. um hvalveiðibann. Það kemur fram í frv. og í grg. með því að það hafi átt sér stað tvískinnungur í landinu í þessu máli og hér er gerð tillaga um að allar veiðar séu bannaðar til ársins 1993 en eftir þann tíma megi aflétta þessu banni eða framlengja eftir því sem við teljum best fyrir hagsmuni okkar þá. Ég átti von á því að hv. 1. flm. mundi gera grein fyrir því hvaða stefnu hann vildi taka í þessum málum. Hann kaus hins vegar að lesa að mestu leyti upp úr þeim umræðum sem hafa átt sér stað undanfarna daga í fjölmiðlum. Ég tel í reynd nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um hvernig sú stefna sem fylgt hefur verið varð til í þessu máli og hvernig henni hefur verið fylgt síðan þá.
    Það vill svo til að á Alþingi Íslendinga, í febrúarmánuði 1983, var samþykkt till. til þál. um mótmæli gegn hvalveiðibanni, en þar kom fram hjá meiri hluta nefndarinnar eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Utanrmn. hefur að undanförnu fjallað ítarlega um hvort samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins varðandi bann við hvalveiðum skuli mótmælt. Nefndin hefur kallað til fundar fjölmarga aðila sem hafa veitt margvíslegar upplýsingar. Að athuguðu máli er það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að ekki sé ráðlegt að bera fram mótmæli.
    Undirritaðir nefndarmenn telja að mikilvægt sé að auka enn rannsóknir á hvalastofnum þannig að ávallt sé til staðar besta möguleg vísindaleg þekking sem liggi til grundvallar umræðum og ákvörðunum um veiðar í framtíðinni.``
    Undir þetta nál. skrifa Halldór Ásgrímsson frsm., Ólafur Ragnar Grímsson, Albert Guðmundsson, Eyjólfur Konráð Jónsson.
    Í áliti minni hluta, þar sem var talið að mótmæla ætti þessu banni, kemur þetta fram: ,,Jafnframt beinir Alþingi því til ríkisstjórnarinnar að auka enn rannsóknir á hvalastofnum hér við land í samvinnu við vísindaráð Alþjóðahvalveiðiráðsins í því skyni að fyrir liggi sem fullkomnust þekking á þessum hvalastofnum við frekari meðferð málsins.``
    Undir þetta nál. skrifuðu Geir Hallgrímsson, formaður nefndarinnar og frsm., Jóhann Einvarðsson fundaskrifari og Kjartan Jóhannsson. Það lá fyrir á þessum tíma að það var óeining um það á Alþingi Íslendinga hvort banninu skyldi mótmælt eða ekki og það var samþykkt með naumum meiri hluta, með eins atkvæðis mun, að gera það ekki þannig að um það voru skiptar skoðanir hér á Alþingi. Hins vegar var alger samstaða um að það bæri að stórauka rannsóknir á hvalastofnum. Hver einasti alþingismaður greiddi í reynd atkvæði með því. Um það má deila hvort hér var tekin rétt ákvörðun eða röng og ég skal vel viðurkenna að ég hef oft velt því fyrir mér hvort ég hafi tekið rétta afstöðu á þeim tíma, en komist að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið. Það hafi verið rétt að fylgja samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins, framfylgja stofnskrá Alþjóðahvalveiðiráðsins, en það

höfum við Íslendingar gert frá upphafi, síðan við gengum í ráðið, og aldrei brotið hvorki stofnskrá né samþykktir ráðsins.
    Að þessu samþykktu bar að sjálfsögðu að kanna með hvaða hætti rannsóknir yrðu auknar og það kom í minn hlut sem sjútvrh. vorið 1983 að undirbúa það mál og það var gert með því að skipa undirbúningsnefnd til að koma með tillögur um hvernig það yrði best gert. Í þessari nefnd voru lögfræðingar, því hér er um lagalegt mál að ræða, og vísindamenn voru þar jafnframt að störfum og þeim bar að koma með tillögur um hvernig þessari stefnu, sem mörkuð var á Alþingi, yrði framfylgt, en þessi stefna var í þrennu lagi í reynd:
    1. Hvalveiðar í atvinnuskyni skyldu aflagðar í samræmi við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins. Um það þyrfti í sjálfu sér ekki frekar að ræða.
    2. Rannsóknir á hvalastofnunum skyldu auknar þannig að ávallt væri til staðar besta vísindaleg þekking.
    3. Rannsóknirnar skyldu verða grundvöllur ákvarðana um veiðar eftir 1990.
    Það lá alveg fyrir að hér á Alþingi kom fram sá vilji að sjávarspendýr, þar með taldir hvalir, væru nýtanleg auðlind og það bæri að haga nýtingu þessarar auðlindar á grundvelli vísindalegrar þekkingar og það ætti að vera stefna Íslendinga að halda áfram að nýta þessa auðlind eftir 1990. En því miður verður að viðurkennast að okkar þekking á þessum stofnum hefur verið takmörkuð, við höfum vanrækt rannsóknir á þessu sviði eins og á svo mörgum öðrum sviðum og því bar að auka þær og í reynd algjörlega nauðsynlegt til þess að hægt sé að taka skynsamlega ákvörðun eftir 1990 og uppfylla þær skyldur sem þessi ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins lagði á okkur. Það var að sjálfsögðu skylda okkar að auka vísindalegar rannsóknir að þessu samþykktu ef við vildum fara að vilja Alþjóðahvalveiðiráðsins. En sannleikurinn er hins vegar sá að mikill hluti þeirra sem stóðu að þessari samþykkt vildi fyrst og fremst fylgja 1. liðnum en gáfu lítið fyrir 2. liðinn, þ.e. að algjört endurmat færi fram á stofnunum. Það var ekki nóg með að það væri endurmat heldur algjört endurmat.
    Starf okkar Íslendinga og sérstaklega okkar vísindamanna hefur haft mikla þýðingu í þessu sambandi. Þeir hafa haft mikið frumkvæði og ég fullyrði að ef okkar starfs hefði ekki notið innan Alþjóðahvalveiðiráðsins væri þessi vinna
ekki komin í eins miklum mæli í gang og raun ber vitni.
    Þetta er að sjálfsögðu aðalatriði málsins. Það sem næst má spyrja um: Er nauðsynlegt að rannsaka hvali með því að taka sýni? Er ekki hægt að komast hjá því að gera það? Það liggur alveg fyrir að það hefur aldrei verið meginatriði í þessu máli að taka sem flest sýni heldur að fullnægja þessum vilja og komast að niðurstöðu. Þá verða menn að hafa margt í huga. Auðvitað er hægt að fá hluta af upplýsingum sem tengjast veiðunum með öðrum hætti. En það tekur miklu lengri tíma og kostar miklu meira fé. Þá er ekki

rétt að tala um tugi milljóna kr. heldur rétt að tala um hundruð milljóna kr. Hins vegar er jafnframt ljóst að stór hluti þessarar rannsóknaráætlunar tengist ekki veiðum. Ef hefði staðið til að fara út í rannsóknir án veiða hefði sú rannsóknaáætlun litið allt öðruvísi út. Hún hefði verið til miklu lengri tíma og kostað miklu meira fé. Ég fullyrði að það hefði aldrei verið farið af stað með það. Þeir sem halda því fram að það hefði vel mátt framkvæma þessar rannsóknir með öðrum hætti vaða í villu. Það er þá best að það sé hreinlega sagt að menn vilji ekki fara út í þessar rannsóknir, menn vilji ekki nýta þessa auðlind því auðvitað er út í hött að vera með einhverjar feiknarlegar rannsóknir ef ekki stendur til að nýta auðlindirnar. Þá er alveg eins gott að sleppa því og sýna þá þann kjark, af því að það hefur nú verið talað um kjark, það er nú allt orðið kjarkur í þessu sambandi, að vera ekkert að þessu og viðurkenna það með þeim hætti. Það er einmitt það sem aðilar sem eru að berjast gegn okkur vilja gjarnan. Þeir vilja koma í veg fyrir að menn viti hið rétta í þessu máli. Þetta er álíka og þegar menn voru á miðöldum á móti vísindunum og ef menn voru að reyna að komast að hinu sanna voru menn jafnvel brenndir á báli. Aðferðir þessara aðila minna óneitanlega nokkuð á það.
    Hér er um stofn að ræða sem er ekki í neinni hættu. Langreyðarstofninn er talinn eftir síðustu athugun 6500 dýr. Hann kann að vera stærri, en ég held að það sé álit flestra að það sé ekki líklegt að það sé um færri dýr að ræða. Þessum dýrum fjölgar allnokkuð á ári hverju þó um það séu deildar meiningar. En ætli það sé minna en 3--4% án þess að ég ætli að fullyrða nokkuð um það. Þá kemur sú spurning: Er verjandi fyrir þjóð eins og Íslendinga að afsala sér því að taka nokkur sýni þegar er ekki um neina hættu að ræða? Okkar saga er sú í þessu máli að við höfum aldrei tekið hval úr stofni sem er verndaður eða talinn í hættu, aldrei nokkurn tímann.
    Vísindamenn héldu því m.a. fram, þessir alþjóðlegu vísindamenn sem oft er vitnað til, sem hafi sýnt efasemdir í Alþjóðahvalveiðiráðinu, að hrefnustofninn hér við land væri líklega 3000 dýr. Við vissum allt of lítið um það og vorum ekki hæfir í sjálfu sér til umræðu um þau mál því við höfðum ekki sinnt þessum rannsóknum. Nú er komið í ljós að hrefnustofninn hér við land er á bilinu 10--15 þúsund dýr þannig að sá stofn þolir í sjálfu sér allverulega nýtingu.
    Þetta er að því er varðar upphaf þessa máls. Ég hef a.m.k. staðið í þeirri trú allan tímann að um þetta ríkti góð samstaða á Alþingi, að þessar rannsóknir skyldu auknar. Þetta mál hefur verið rætt í ríkisstjórn á hverjum tíma, borið undir utanrmn. m.a. þar sem hv. þm. Hreggviður Jónsson hefur átt sæti. Það hefði í sjálfu sér verið mjög auðvelt að ræða þetta mál nánar þar. Auðvitað má alltaf um það deila hvort þetta mál hafi verið nægilega rætt.
    En síðan kemur upp nýtt tilefni í þessu máli. Það kemur í ljós að fyrirtæki í Þýskalandi hyggist hætta að kaupa af okkur afurðir og það verður þess

valdandi, að því er virðist, að ýmsir telja að nú sé rétt að hætta við allt saman, gefa sér ekki einu sinni tíma til að athuga málið og fullyrða að það sé best, ef við hugsum um framtíðina, að hætta þessu alveg á stundinni. Það er mat þeirra. En ég er þeirrar skoðunar að það sé rangt mat. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það verði mesta vandamál íslensks sjávarútvegs og íslensks þjóðarbús á næstu mánuðum og árum að selja afurðir á erlendum mörkuðum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það verði aðalvandamál íslensks sjávarútvegs og íslensks þjóðarbús hversu mikið er hægt að veiða.
    Það má vel vera að þessir aðilar geti komið einhverjum fyrirtækjum til þess að hætta að kaupa af okkur afurðir tímabundið. Ég skal ekkert fullyrða um það. En ætli það komi ekki að því að þessi fyrirtæki sem önnur hugi að því með hvaða hætti innkaup eru gerð í frjálsum viðskiptum í heiminum.
    Það er fleira en verndun hvals sem samtökin Greenpeace og ýmis önnur eru að berjast fyrir. Þau eru líka að berjast fyrir því að höfin séu ekki menguð sem er mjög gott mál og við Íslendingar erum algerlega sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Ef þessi fyrirtæki ætla að framfylgja slíkri stefnu mundu þau væntanlega hætta að kaupa vörur af Hollendingum, Dönum, Bandaríkjamönnum, Sovétmönnum, Japönum, Brasilíumönnum, Frökkum og sjálfsagt miklu fleiri þjóðum. Ef fyrirtækin ætla hins vegar eingöngu að binda sig við að hætta að kaupa vörur af þjóðum sem drepa hval --- mundu kannski sleppa stórveldunum af því að þau eru að bjarga þessum tveimur --- má benda á að þessi sömu stórveldi drepa marga hvali, m.a.s. hvali sem eru verndaðir stofnar
í heiminum. Auðvitað er, ef eitthvað er tvískinnungur, þessi æfing þarna uppi í Norðurhöfum stórveldunum til stórrar skammar og náttúrlega þáttur í auglýsingamennsku sem viðgengst í kringum þetta mál og áróðursstríði.
    Ég hef ekki trú á að til lengri tíma litið muni fyrirtæki taka afstöðu sem þessa. Halda menn virkilega að Íslendingar séu eina þjóðin sem verður ráðist á í þessu máli þótt við liggjum e.t.v. vel við höggi vegna smæðar okkar? Japanar hafa lýst því yfir fyrir mjög skömmu að þeir muni hefja rannsóknaveiðar í Suður-Íshafinu, nánar til tekið í desember, og rannsóknaleiðangurinn muni verða fram í mars og þeir ætli sér að taka 300 dýr. Ég býst við því að í framhaldinu af stríðinu gegn okkur muni menn taka til við Japana og ég býst nú við því að það verði erfitt fyrir þýsk fyrirtæki að taka upp þá almennu stefnu að hætt skuli öllum viðskiptum við Japan.
    Að sjálfsögðu gengur þessi pólitík ekki upp þegar til lengri tíma er litið. En það má vel vera að hún gangi upp til skamms tíma gagnvart einhverjum. En menn skulu þá huga að því hvað muni koma næst. Og að halda því fram, eins og hv. þm. Hreggviður Jónsson gerði áðan, að þetta séu væntanlega miklir vinir okkar og það sé rétt að taka upp við þá mikið

og gott samstarf, það vil ég leyfa mér að efast um. Ég upplýsi hv. þm. Hreggvið Jónsson um að ég á mjög falleg bréf frá þessum samtökum, þar á meðal frá Greenpeace, og þessi bréf komu í kjölfar orða sem ég lét falla á Alþingi 1983 og hrósuðu mér afar mikið fyrir það hugrekki sem ég hafi þá sýnt. Ég býst við því að hv. þm. Hreggviður Jónsson fái sams konar bréf núna þar sem hugrekki hans verði mjög hrósað.
    En ég skal hins vegar upplýsa hv. þm. um að ég er ekkert óskaplega hreykinn af þeim bréfum sem ég fékk þá miðað við þau samskipti sem ég hef átt við þessa aðila sem ég hef talað við í mjög góðri trú þannig að ég er ekki sammála honum í því mati sínu að við eigum að bjóða þessum aðilum að hafa hér höfuðstöðvar, taka upp við þá nána samvinnu þannig að þeir geti stundað hernað sinn héðan frá Íslandi út um allan heim. Þetta er ekki góð framtíðarsýn finnst mér.
    Eins og ég sagði áður hafa mörg fyrirtæki okkar legið undir þrýstingi og hótunum um langan tíma. Það hefur tekist að standast þann þrýsting og það hefur enginn orðið fyrir verulegum skaða enn sem komið er þótt það megi vel vera að einhver skaði hafi verið staðfestur.
    Þetta fyrirtæki, Tengelmann, hefur getið sér orð fyrir að vera vinsamlegt umhverfisverndarmönnum. Þeir hafa lagt þar ýmislegt gott til mála, hætt að selja skjaldbökusúpu, ég get tekið undir að það eigi ekki að drepa skjaldbökur í útrýmingarhættu, en hún var í útrýmingarhættu, og ýmislegt fleira. Þetta fyrirtæki hóf viðskipti við Íslendinga árið 1986 og keypti þá fyrir 11 millj. kr., 1987 keypti það af Íslendingum fyrir 46,5 millj. kr. og á árinu 1988 hefur það keypt fyrir 60 millj. kr. Þetta hafa verið vaxandi viðskipti sem skýrast af því að hér hafa verið vaxandi rækjuveiðar og mjög miklar rækjuveiðar á undanförnum árum, en því miður er það svo að á næsta ári leggur Hafrannsóknastofnun til --- hvað svo sem gert verður --- að draga rækjuaflann á úthafinu saman um 1 / 3 þannig að í mínum huga er það aðaláhyggjumálið að hafa hráefni til að setja í dósirnar, hafa hráefni til að setja á markaðinn því ekki vænti ég þess að menn kaupi dósir með einhverjum fallegum myndum af hvölum í. En þó má vel vera að það verði einhvern tímann útflutningsvara.
    Ég er með þessum orðum mínum ekki að gera lítið úr þeim hótunum og þeim þrýstingi sem er beitt á Íslendinga, mér dettur ekki til hugar að gera lítið úr því. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Hitt er svo annað mál að við verðum að halda áttum í þessu máli og gera það upp við okkur hvernig við viljum halda á framhaldinu. Ég fullyrði að það verður ekkert auðvelt að taka upp nýtingu á hvalastofnunum. Það er langt frá því að um það hafi tekist samkomulag. En það er grundvallaratriði í því sambandi að við höfum þar réttar upplýsingar. Það liggur jafnframt fyrir að við getum ekki tekið upp þá nýtingu nema innan alþjóðlegra samtaka. Við höfum kosið að vera í Alþjóðahvalveiðiráðinu, höfum þá stefnu enn þá, og það er á þeim vettvangi sem þarf að taka nýja

ákvörðun eftir 1990. Að því eigum við að vinna í samvinnu við aðrar þjóðir. Þar hafa verið miklar öfgar. Hins vegar hefur það að nokkru leyti skánað. En framlag okkar Íslendinga hefur haft þar mjög mikið að segja og við ætlum okkur að halda áfram að leggja þar af mörkum og það er búið að skipuleggja að nokkru leyti mjög víðtækar rannsóknir á öllu Norður-Atlantshafi á næsta ári --- ja, vonandi á öllu Norður-Atlantshafi því að Alþjóðahvalveiðiráðið hefur hvatt aðrar þjóðir, eins og Kanadamenn og Bandaríkjamenn og Breta, en við önnuðumst rannsóknirnar í lögsögu Breta síðast því Bretar töldu sig ekki geta lagt til þess fjármagn, að taka þátt í þessum rannsóknum. Þetta eru viðamestu rannsóknir sem hafa átt sér stað, enn þá viðameiri en áttu sér stað 1987, og ég fullyrði að ekkert hefði orðið úr þessu nema vegna þeirrar rannsóknaáætlunar sem var sett fram á sínum tíma.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta frv. fleiri orð. En það er út af fyrir sig
gott að það kemur til meðhöndlunar í sjútvn. og ég býst við að á það hafi skort að mál þetta hafi verið þar nægilega rætt. Það er einhvern veginn þannig að mál eru ekki rædd á Alþingi nema þau séu flutt hér og vísað til nefndar. Það hefur ekki tíðkast í nægilegum mæli að ræða mál innan nefnda án þess að bein frumvörp eða tillögur komi þar til meðhöndlunar. En sjútvn. mun þá fá tækifæri til að kalla á sinn fund alla þá aðila sem að þessu máli hafa komið, kynna sér sjónarmið víðs vegar um landið, m.a. sjónarmið sjómanna um þessar mundir sem sjá mikið af hval umhverfis landið, aldrei meira en nú, sagði einn skipstjóri við mig á þessum morgni þótt það heyrist lítið í þessum mönnum því þeir eru hógværir og eru ekki alltaf að blanda sér í fjölmiðlaumræðuna, þjóðfélagsumræðuna sem þar fer fram og lítið leitað eftir áliti þeirra sem næst þessu búa og verða mest varir við það. Það er meira leitað eftir áliti þeirra sem eru úti í heimi og þeirra sem er verið að pína og pressa. Það eru fyrst og fremst þeir sem eru dregnir fram í umræðum.
Ég vil að lokum segja að hér er um mál að ræða sem varðar nýtingu okkar auðlinda og ef við ætlum okkur að nýta þessa auðlind ber okkur að rannsaka hana. Þær rannsóknir geta ekki farið fram nema með takmörkuðu úrtaki, en þeim mun væntanlega ljúka á næsta ári þótt það verði að sjálfsögðu ekki fullyrt því að við höfum þurft að breyta ýmsu í rannsóknaráætluninni, en sem áður er gert ráð fyrir því að ljúka henni ef við mögulega getum.
    Þetta mál varðar einnig sjálfsákvörðunarrétt okkar Íslendinga. Það hefur oft reynt á þennan sjálfsákvörðunarrétt og það hefur oft verið reynt að hóta okkur. Það má vel vera að mönnum finnist þetta mál vera eitthvað öðruvísi en önnur mál og ekki ætla ég að fara að hafa uppi neina samlíkingu á þessu máli við stærstu mál þjóðarinnar eins og landhelgismálið og önnur slík. Það ætla ég ekki að gera vegna þess að það var miklu stærra mál. En það snertir það þó. Ég vil t.d. minna á að við höfum haft þá eindregnu

afstöðu, Íslendingar, að ekki komi til mála að semja um veiðirétt fyrir viðskipti og að mínu mati er það líka algert grundvallarmál að við getum sinnt þeim rannsóknum sem við teljum nauðsynlegar í okkar landi og okkar lögsögu þannig að ef frjáls náttúruverndarsamtök eiga að hafa þar mestu um að ráða, ég tala nú ekki um ef höfuðstöðvar þeirra yrðu hér, fengju þau trúlega smátt og smátt yfirráðaréttinn yfir þessum ákvörðunarrétti ef ég þekki þau rétt. Það er e.t.v. sú framtíðarsýn sem einhverjir hafa, en ég veit að það er alger undantekning.
    Ég vil einnig vara við því að ef látið er undan þessum þrýstingi núna hljóta menn að verða að gera sér grein fyrir því að það kann ýmislegt að koma á eftir því að hér er um harðsnúið lið að ræða sem svífst einskis. Það svífst einskis að reyna að komast inn í íslenska fjölmiðla, að komast inn í umræðuna, reyna að hafa sem mest áhrif. Þeir eru í þessu og það er þeirra fag. Þeir kunna það. Það er áreiðanlega rétt að við höfum orðið á vissan hátt undir í þessu áróðursstríði. Ekki dreg ég það í efa. Oftast hefur verið sagt þegar um það hefur verið talað að það mundi verða mjög erfitt að vinna slíkt áróðursstríð vegna þess hve áhrifamiklir þessir aðilar eru. En ég get ekki fallist á það að vegna þess að þeir hafi þessa skoðun eða vegna þess að þeir séu svona áhrifamiklir beri okkur að hafa sömu skoðun. Það eru rök sem ég get ekki skilið og ég trúi því vart að nokkur eigi í reynd við það.
    Hér er um mjög vandasamt mál að ræða sem verið er að vinna í. Það er verið að kanna hvað sé um alvarleg mál að ræða, að reyna að gera sér grein fyrir því, og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að menn fái ráðrúm og tóm til þess að gera það á næstunni. Mikil umræða, sleggjudómar og fullyrðingar í þessu máli á þessari stundu er ekki til góðs út á við. Hins vegar er nauðsynlegt að við skerpum skilning okkar á málinu inn á við og það ber okkur að gera. Mál þetta hefur verið rætt í utanrmn. og ég tel að það eigi að halda áfram að ræða það þar og meta það. Það er af hinu góða að það verður nú einnig rætt í sjútvn. og þar verður mögulegt að koma á framfæri við hv. þm. ýmsum trúnaðargögnum og gera þeim betur grein fyrir því. Ég vil vænta þess að þannig megi vinna að málinu, það megi áfram vera mögulegt að viðhalda þeirri stefnu sem Alþingi mótaði í þessu máli samhljóða. Ef menn vilja breyta þeirri stefnu á að sjálfsögðu að gera það að yfirlögðu ráði og það verður ekki gert í ræðustól á Alþingi. Hins vegar er það svo að menn eru alltaf að breyta og breyta stefnu. Það hafa menn oft gert. En það verður þá að vera með þeim hætti að það fullnægi okkar markmiðum, það fullnægi þeim markmmiðum, sem mörkuð voru í upphafi, að komast að réttri niðurstöðu og það má ekki láta þessar ómerkilegu hótanir, sem flestir hugsandi menn sjá í gegnum, þar á meðal forstjórar fyrirtækja á erlendri grund, villa sér sýn.