Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Ég hefði vonast til þess að bæði flutningsmenn þessa þingmáls, sem hér er til umræðu, svo og hæstv. sjútvrh. gætu verið viðstödd þessa umræðu og vildi mælast til þess við forseta að það væri kannað hvort þau væru ekki hér nær. ( Forseti: Boðum hefur verið komið áleiðis til þessara þriggja aðila, þ.e. hv. þm. tveggja og hæstv. ráðherra, og árangur er þegar tekinn að birtast þar sem 1. flm. till. hefur gengið í salinn.) Það munar vissulega um hann, herra forseti. En er hæstv. ráðherra upptekinn annars staðar? ( Forseti: Því er til að svara að boðum hefur verið komið til ráðherra. Þau skulu nú ítrekuð.) Já, herra forseti.
    Enn einu sinni hefur nú blossað upp umræða um hvalveiðar Íslendinga, en að þessu sinni kveður við nýjan tón þar sem æ fleiri virðast nú haldnir efasemdum um réttmæti málstaðar okkar og afstöðu. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. flm. þessa frv. fyrir að leggja það fram og gefa þannig tilefni til ítarlegra umræðna í þingsölum um þetta mál og hvernig á því hefur verið haldið því það er sannarlega tími til kominn.
    Til skamms tíma voru þeir tiltölulega fáir sem kváðu einarðlega upp úr með það að stefna stjórnvalda væri röng eða alla vega vafasöm í þessum efnum og skoðanakannanir sýndu yfirgnæfandi stuðning við þá stefnu sem fylgt hefur verið. Það er í rauninni ekki undarlegt eins og atburðarásin hefur verið og eins og málið hefur verið kynnt og túlkað og jafnvel lagt upp sem sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar og andstæðingar stimplaðir sem þekkingarsnauðir öfgamenn, jafnvel öfugsnúnir ónytjungar velferðarríkja, eins og einn greinarhöfundur orðar það í Tímanum í gær.
    Áróðursstaða stjórnvalda hefur verið mjög sterk. Fjölmiðlar hafa fyrst og fremst skilað sjónarmiðum þeirra til þjóðarinnar og andmælendum hefur ekki á sama hátt tekist að ná til fólks með sín sjónarmið. Þetta er nú að breytast, en svona hefur þetta verið og maður hefur virkilega þurft að hafa fyrir því að fá fram allar hliðar málsins.
    Forsögu þessa máls er óþarft að rekja í löngu máli. Það hafa fyrri ræðumenn gert í þessari umræðu. Það er þó rétt að endurtaka og undirstrika að Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti árið 1982 tímabundið hvalveiðibann, þ.e. stöðvun hvalveiða í ábataskyni frá 1986 til 1990. Sú samþykkt var ekki gerð í neinni fljótfærni heldur höfðu þessi mál sannarlega verið til umræðu um langt árabil innan ráðsins og meðal vísindamanna og umhverfisverndaraðila um allan heim. Og það ekki að ófyrirsynju.
    Saga hvalveiða ber ekki manninum fagurt vitni, það verður að segjast eins og er. Saga hvalveiða er saga ofveiði og útrýmingar og það er því ekki að undra þótt margir vildu í raun ganga miklu lengra og fá fram lengri stöðvun veiða. En þetta varð niðurstaðan. Þetta samkomulag varð niðurstaðan eftir mikla umfjöllun og umræður. Ætlunin var síðan að afla víðtækra gagna um hvalastofnana og byggja

framtíðarstefnu í hvalveiðum á slíkum grunni, vitaskuld með það fyrir augum að koma í veg fyrir ofveiði og útrýmingu einstakra tegunda sem væru í hættu og væntanlega taka ákvörðun um hvort hvalveiðum yrði yfirleitt haldið áfram, en ekki e.t.v., eins og mér heyrðist á hæstv. ráðherra hér áðan, að markmið rannsóknanna væri að halda hvalveiðum áfram. Hann orðaði það einhvern veginn svoleiðis í sínu máli að rannsóknirnar væru til vegna þess að menn ætluðu að nýta hvalinn og var að skilja að það væri eini tilgangur rannsóknanna. Mig brestur þá skilning því að ég hélt að rannsóknirnar væru hugsaðar til þess að komast að raun um hvort menn teldu óhætt að nýta hvalastofnana eða ekki og þá hvernig.
    Málið fékk allnokkra umfjöllun hér heima og þótt mjótt væri á munum, eins og hér hefur komið fram, samþykkti Alþingi í febrúar 1983 að mótmæla ekki þessari samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um stöðvun hvalveiða árin 1986--1990. Ég held að mjög margir hafi tekið þessa afstöðu alveg bókstaflega og því ekki verið kannski á varðbergi gagnvart því sem á eftir hefur farið. Það kom a.m.k. þeirri sem hér stendur á óvart þegar farið var að tala um einhverja áætlun um hvalveiðar á því tímabili sem sagt hafði verið að hvalveiðar yrðu ekki stundaðar. Þetta kom mér mjög á óvart, en ráðamenn komu fram með þetta mál og kynntu það af mikilli festu og öryggi og með vísindamenn sér til fulltingis og virtust aldrei eitt andartak í vafa um ágæti og réttmæti sinna gjörða og hafa alla tíð gert mjög lítið úr andstöðunni innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það tók mig a.m.k. allnokkurn tíma að ná áttum í þessu máli og mér virðist sem svo hafi verið um marga, jafnvel virta vísindamenn og kunnáttumenn um þessi mál. Þetta er að mínum dómi meginorsök þess að afstaða Kvennalistans hefur ekki komið fram með fjarska afgerandi hætti í þessu sérstaka máli sem í raun var erfitt að henda reiður á. Hún hefur fremur einkennst af efasemdafullu hlutleysi við þá stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt.
    Af stefnuskrá okkar má það ljóst vera að kvennalistakonur eru eindregnir umhverfisverndarsinnar og leggja mikla áherslu á þann málaflokk. Það er raunar ekki vafi á því í mínum huga að framtíð mannkyns á þessari jörð veltur
beinlínis á því hvernig við umgöngumst náttúruna og hvort við sýnum auðlindum okkar þá virðingu og nærgætni sem nauðsynleg er. Stærstu vandamál nútímans og vaxandi vandamál í framtíðinni eru gróðureyðing og mengun lofts og vatns og sjávar. Í þeim efnum erum við svo sannarlega ekki ein í heiminum. Á þessum málum þarf að taka mjög einarðlega og í samvinnu við aðrar þjóðir og það er ekki síst þess vegna sem Íslendingar verða að taka tillit til annarra þjóða í sambandi við hvalveiðar.
    Því hefur verið haldið fram og með réttu að við hljótum að áskilja okkur allan rétt til að nýta auðlindir okkar, og þá fyrst og fremst fiskimiðin, á þann hátt sem við teljum réttast og best. Með hvali gegnir þó

sérstöku máli, enda eru þeir ekki auðlind neins einstaks ríkis og nýting þeirra er háð samkomulagi milli þjóða eins og kveðið er á um í Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að og áttu raunar verulegan þátt í að semja, en þar stendur m.a., með leyfi forseta: ,,Ríki skulu starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skulu hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.``
    Slík alþjóðastofnun er Alþjóðahvalveiðiráðið sem Íslendingar eru aðilar að. Þessi stofnun hefur ítrekað gert athugasemdir við hvalveiðar Íslendinga í vísindaskyni og skorað á íslensk stjórnvöld að draga veiðiheimildir sínar til baka. Það er mín skoðun að með aðild okkar að Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna séu Íslendingar skuldbundnir til að hlíta fyrirmælum ráðsins.
    Ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið og það kemur mér raunar ekkert á óvart, en ég sagði þetta sem mína skoðun.
    Það hefur ekki verið gert og vegna þeirrar stefnu erum við komin í alvarlega stöðu. Ég óttast að stefna stjórnvalda í þessu máli hafi spillt verulega fyrir lífsnauðsynlegu samstarfi okkar við aðrar þjóðir um víðtæka umhverfisvernd. Við erum ekki í góðri aðstöðu til þess að krefjast þess af öðrum þjóðum að þær virði alþjóðasamþykktir ef við virðum þær að vettugi þegar okkur hentar. Og við skulum ekki gleyma því að einmitt þau öfl sem harðast hafa beitt sér gegn stefnu Íslendinga í hvalveiðum eru okkar dyggustu bandamenn í baráttunni gegn mengun hafsins og tek ég þar undir orð síðasta hv. ræðumanns. Sú barátta getur orðið upp á líf og dauða og skammsýni að gera okkur erfiðara um vik í þeirri baráttu en þörf er á.
    Ég vil leggja áherslu á þetta atriði og vitna í því sambandi til stefnuskrár Kvennalistans, kaflans um umhverfismál, þar sem því er lýst yfir að Kvennalistinn vilji, og ég vitna beint, með leyfi hæstv. forseta, að ,,Íslendingar taki þátt í alþjóðlegu starfi í umhverfis- og náttúruverndarmálum og virði alþjóðasamninga í þessum málaflokkum``. Þetta er mjög mikilvægt atriði og hefur sífellt meira vægi eins og heimurinn er nú orðinn.
    Þeir sem ráðið hafa ferðinni í hvalveiðimálunum halda því auðvitað fram að þeir hafi virt alþjóðasamninga og væni ég þá hreint ekki um að brjóta þá vitandi vits og þeir halda því fram að Íslendingar séu í sínum fulla rétti að stunda hvalveiðar í vísindaskyni nú síðan stöðvun hvalveiða átti að hefjast og margir eru þeim sammála um það.
    Eins og málið var kynnt upphaflega, þ.e. áætlunin um hvalveiðar í vísindaskyni, var ekkert auðvelt fyrir leikmenn og jafnvel ekki vísindamenn að átta sig á því hvort hér væri í raun og veru um vísindaáætlun að ræða eða ekki. Þessa fullyrðingu byggi ég m.a. á ýmsu sem fram kom í viðtölum við ýmsa aðila sem hafa kynnt sér þetta mál. Við kvennalistakonur fengum til fundar við okkur fyrir rúmu ári allmarga

aðila með mismunandi sjónarmið í hvalveiðimálinu. Við fengum fulltrúa frá sjútvrn. og Hafrannsóknastofnun og svo úr hópi þeirra vísindamanna sem hafa gagnrýnt stefnu stjórnvalda í málinu. Einn vísindamanna úr hópi gagnrýnenda komst svo að orði á fundi með okkur um vísindaáætlunina að sér hefði litist nokkuð vel á hana í upphafi en smám saman orðið ljóst að hér væri ekki fyrst og fremst um rannsóknir að ræða heldur bara venjulegar veiðar. Aðrir voru reyndar miklu harðari í afstöðu sinni og sögðust aldrei hafa efast um að stjórnvöld væru á rangri braut og vísindaáætlunin væri fyrst og fremst yfirskin. En þeir hefðu þó veigrað sér við, og gerðu það enn, að beita sér af hörku gegn málinu því sannleikurinn er sá að margir, og þar á meðal sú sem hér stendur, hafa vonað í lengstu lög að þetta mál yrði til lykta leitt án þess að koma þyrfti til átaka eða harðra skoðanaskipta hér innan lands og skiptingu í hópa með og á móti.
    Þannig hefði hag okkar verið best borgið að ráðamenn hefðu séð sér fært að bakka í málinu og komast frá því með sæmilegri reisn. Það er auðvitað farsælla að þjóðin geti sýnt samstöðu í þessu sem öðru gagnvart öðrum þjóðum. En því miður hefur reyndin orðið sú að hvert tækifærið af öðru hefur verið vannýtt og að mínu mati hafa harka og einsýni ráðið ferðinni. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og nú er því miður útlit fyrir að málið sé komið í eindaga og litlir möguleikar á að Íslendingar komist út úr því með reisn og sóma. Það á því miður eftir að verða okkur fjötur um fót í alþjóðlegu samstarfi, ég óttast það verulega.
    Menn taka kannski eftir því að ég legg mikla áherslu á þetta atriði en hef ekki enn minnst á þá stöðu sem nú er komin upp á mörkuðum erlendis fyrir fiskafurðir okkar, en það er sú staða sem hrindir þessari umræðu af stað. Það er þó síður en svo að ég geri lítið úr þeim vanda, sú staða er í rauninni hrikaleg og mikið ólán að menn skyldu ekki sjá að sér í tæka tíð svo að þessi staða þyrfti ekki að koma upp. Þessi hætta hefur vofað yfir okkur allar götur síðan ákveðið var að halda fast við veiðarnar þrátt fyrir athugasemdir og mótmæli. Vitaskuld er það einmitt vegna hagsmuna okkar á erlendum fiskmörkuðum sem við höfum verið á stöðugu undanhaldi í hvalveiðimálinu. Ráðamenn hafa hins vegar ekki borið gæfu til að finna rétta leikinn í því tafli, enda var hann sá einn að ná fullkomnum sáttum við samstarfsþjóðir okkar. Nú er svo komið að hver viðskiptaaðilinn af öðrum í Bandaríkjunum og Evrópu er annaðhvort hættur viðskiptum við íslensk útflutningsfyrirtæki eða íhugar að gera það. Síðasta dæmið er þýska verslunarkeðjan Aldi, stærsti einstaki viðskiptaaðili Sölustofnunar lagmetis, sem keypti vörur héðan fyrir um 400 millj. kr. á síðasta ári. Má mikið vera ef þau tíðindi opna ekki augu einhverra fyrir alvöru þessa máls. Vitnað hefur verið í blaðafregnir af þessu máli og hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér það svo ég ætla ekki að taka tíma í að lesa það upp, en það eru fréttir sem við hljótum að skoða vel. Og

þurfa menn frekar vitnanna við? Treysta menn sér til að bera ábyrgð á því að viðskiptasambönd okkar erlendis bíði enn frekari hnekki og að atvinnulíf okkar lendi í enn frekari þrengingum? Ætla menn enn að þrjóskast við og halda því fram fram í rauðan dauðann, eins og sagt er, að andmælendur stefnu Íslendinga í hvalveiðimálum séu fámennur og áhrifalaus hópur öfgasinnaðra sérvitringa sem ekkert mark sé takandi á? Það er ekki skoðun þeirra fjölmörgu sem finna nú atvinnuöryggi sínu ógnað.
    Það er komið að vendipunkti í þessu máli. Það er mín skoðun að stjórnvöld verði að láta af einstrengingslegri stefnu sinni og hætta öllum hvalveiðum og snúa sér að því að vinna aftur upp það traust sem tapast hefur meðal annarra þjóða.
    Herra forseti. Þar sem Kvennalistinn á ekki aðild að sjútvn. vildi ég óska eftir því við hv. nefnd að hann fái áheyrnaraðild að nefndinni þegar fjallað verður um þetta mál.