Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu, frv. til l. um hvalveiðibann, tengist stefnumörkun af hálfu Alþingis og íslenskra stjórnvalda sem er ekki ný af nálinni. Sú stefnumótun lá fyrir með samþykkt Alþingis á till. til þál. um að mótmæla ekki banni við hvalveiðum í atvinnuskyni, ályktun sem gerð var í febrúarbyrjun 1983. Mál þetta hefur verið opið til umræðu fyrir Alþingi Íslendinga allar götur síðan. Hver og einn þm. sem hér á sæti hefur átt þess kost að taka málið upp til umræðu, lýsa inn í samhengi þess, óska eftir breytingum, flytja till. Það hefur gerst í örfá skipti á þeim fimm árum, sem liðin eru frá því Alþingi markaði þessa stefnu, að málið hafi borið hér á góma í sölum Alþingis. Ég held ég muni það ekki rangt að það er fyrst og fremst í tengslum við fsp. sem fram hafa komið frá hv. 13. þm. Reykv. Guðrúnu Helgadóttur að málið hefur verið rætt hér, nema þá kannski að á það hafi verið minnst í tengslum við umræður um utanríkismál og skýrslu utanrrh., en mig rekur ekki minni til þess sérstaklega. Ég hlýt að vekja athygli á þessu hér þegar það gerist með nokkuð skjótum hætti að fram kemur frv. til l. um hvalveiðibann sem felur í sér að hendur Íslendinga í þessu máli verði bundnar með lögum, ekki í eitt ár heldur í fimm ár. Og fyrir sameinuðu Alþingi liggur nú till. til þál. svipaðs efnis, að vísu efnislega með öðrum hætti fyrir lagt, um endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga þar sem gert er ráð fyrir samkvæmt tillögutexta að stöðva vísindahvalveiðar, eins og það er orðað í till., um a.m.k. þriggja ára skeið.
    Hér hafa talsmenn þessara tillagna, frv. og þáltill., lagt orð í belg og rökstutt sitt mál, svo sem eðlilegt er, þótt þáltill. eigi auðvitað eftir að koma til umræðu sérstaklega í sameinuðu þingi. Hér hefur hv. 13. þm. Reykv. lýst sínum skoðunum sem eru ekki nýjar hér á Alþingi því að hún er ein af tiltölulega fáum þm. sem ég minnist að hafi haldið uppi ákveðinni gagnrýni á stefnu stjórnvalda í þessu máli, þótt með mismunandi blæ hafi verið og ekki hafi hún sett fram kröfur um endurmat á stefnunni, slíkar tillögur hafa ekki verið fluttar af henni hér inn í sali Alþingis. Hér kemur talsmaður Kvennalistans, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, og upplýsir þingheim um það að hún hafi verið um eitthvert skeið með allt aðrar sannfæringar í þessu máli heldur en fram hafa komið og heyrst hafa á Alþingi, verið andvíg stefnu stjórnvalda í þessu máli með jafnafgerandi hætti eins og skilja mátti á hennar máli. Ég spyr hv. þm. og ég spyr hv. 1. flm. frv. og ég spyr hv. þm. Árna Gunnarsson: Hvenær urðu sinnaskiptin? Hvenær varð þessum hv. þm. það ljóst að þeir væru andvígir opinberri stefnu í þessum málum? Hafa þeir haft langan meðgöngutíma varðandi sín sjónarmið og hvers vegna hafa þeir ekki komið fram með sínar efasemdir innan þingsins eða á öðrum þeim vettvangi sem þm. stendur opinn í sambandi við málflutning, m.a. í utanrmn. Alþingis þar sem fulltrúar allra þingflokka hér á Alþingi eiga fulltrúa eða a.m.k. áheyrnarfulltrúa?

    Ég mæli þessi orð vegna þess að ég harma það að þessi mál skuli vera komin hér til umræðu á Alþingi Íslendinga með þeim hætti sem þetta mál ber að. Ég hef enga ástæðu til að finna að því að málið sé rætt hér í þingsölum, alls enga. Það er skylt og hefði kannski verið æskilegt að málið kæmi upp við aðrar aðstæður út frá þeim forsendum sem hv. þm. mæla hér fyrir. Ef ég lít til málflutnings hv. síðasta ræðumanns þá eru það ekki viðskiptahagsmunirnir sem þar ráða sjónarmiðum heldur svokölluð umhverfissjónarmið í þessu máli, umhverfisverndarsjónarmið. Þau hlutu að vera hv. þm. dagljós fyrir löngu síðan ef hann hefur þá ekki skipt um skoðun mjög nýlega í þessu efni, en ég skildi ekki mál þm. þannig. Ég segi hið sama --- að svo miklu leyti sem hv. 1. flm. frv. sem hér er til umræðu tjáði sig þegar hann mælti fyrir málinu. Þar var hann að tvinna saman, með mjög óljósum hætti þó, annars vegar viðskiptahagsmuni Íslendinga sem hann telur að ógnað sé, og það er ósköp eðlilegt að menn ræði þau mál og þau viðhorf hér á Alþingi, en ræddi einnig um umhverfisverndina, án þess þó að gera skýra grein fyrir sínum viðhorfum í því efni og hvernig það tengist þessu máli. Það var í slíkri þoku og svo óljóst að það er alls ekki frambærilegt að koma með þessi mál inn í sali Alþingis án þess að tala skýrt. Hvers vegna eru menn andvígir þeirri rannsóknaráætlun sem stjórnvöld hafa fylgt í þessu máli? Hvers vegna gera þeir fyrirvara við hana nú, hver er meginástæðan? Stefnumörkun sú sem hv. þm. vilja sjá í þessu máli hlýtur að taka mið af þeim forsendum sem þeir leggja til grundvallar sínu máli. Þess vegna bið ég um að forsendurnar séu lagðar fyrir hér með skýrari hætti heldur en fram hefur komið í máli þeirra hv. þm. sem hér hafa gagnrýnt þá stefnu sem mörkuð hefur verið af Alþingi og framfylgt hefur verið af stjórnvöldum með samþykki, þegjandi samþykki Alþingis Íslendinga undanfarin fimm ár, með örfáum undantekningum sem ég hef aðeins getið um. Ég bið t.d. hv. þm. Borgfl., sem hafa átt hér sæti í á annað þing, að greina frá því og benda mér á það hvenær þeir hafi komið með fyrirvara á opinberum vettvangi í sambandi við þessa málafylgju, í sambandi við rannsóknaráætlunina varðandi hvalastofnana við Ísland. Ég bið hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um að upplýsa Alþingi um hvenær hún hefur á opinberum vettvangi og hvenær Kvennalistinn
hefur á opinberum vettvangi gert þá fyrirvara í sambandi við þetta mál sem skilja mátti af hennar máli, þar sem hún lýsti eindreginni andstöðu við þá stefnu sem hér hafði verið fylgt á undanförnum árum. Hið sama má gilda um hv. þm. Árna Gunnarsson þó að hann tengdi þetta mál mun skýrar en hinir hv. þm. við þá viðskiptahagsmuni sem menn óttast að séu hér í húfi, miðað við mál manna. Og ég get vel skilið það að menn telji eðlilegt að fara yfir stöðu málsins og hugsa sinn gang.
    Ég hef átt sæti í utanrmn. þingsins mestan hluta þessa tímabils ef ekki allt tímabilið, ég vil ekki fullyrða það án nánari umhugsunar en mig minnir

það. Í öllu falli hef ég verið þar þann tíma sem rannsóknaráætlunin varðandi hvali var til umræðu og í mótun og lögð fyrir af hæstv. sjútvrh., þeim sama og gegnir því embætti nú. Og ég hef ekki orðið var við, á þeim vettvangi frekar en hér í sölum Alþingis, óeiningu um meginatriði þeirrar stefnu sem hefur verið fylgt, ég hef ekki orðið var við það. En af því máli sem hér hefur verið flutt af sumum hv. þm. í umræðunni mætti ætla að hér hafi allt verið kraumandi í ósætti út af þeirri stefnu og hafa þó tilefnin verið mörg til þess að taka málið upp til umræðu og endurskoðunar. Þetta er ekki fyrsti áreksturinn sem við erum að lenda í út af þessu máli. Þetta hefur verið umræðumál, þetta hefur verið fjölmiðlamál númer eitt í agúrkutíð dagblaða og annarra fjölmiðla í landinu sumar eftir sumar vegna árlegra funda Alþjóðahvalveiðiráðsins, vísindanefndar þess og aðalfundar. Og ekki síður vegna afstöðu stjórnvalda í Bandaríkjunum og hótana sem hafa komið trekk í trekk úr þeirri átt um að reyna að binda hendur Íslendinga í sambandi við rannsóknir á sínum auðlindum og lífríkinu í hafinu í kring.
    Ég tel að það skipti mjög miklu að menn ræði þetta mál á sem skýrustum grunni. Er þetta umhverfismál, er þetta umhverfisverndarmál sem menn eru að tala um hér? Eru menn að krefjast stöðvunar á rannsóknum og töku dýra í rannsóknaskyni á íslenskum hafsvæðum undir merki umhverfisverndar, væntanlega vegna þess að menn telja að þeim hvalastofnum sem verið er að taka dýr úr til rannsókna sé ógnað, þeir séu í útrýmingarhættu, eða, sem einnig kann að vera og ekkert er óeðlilegt að tengja þessari umræðu, að þeir telji að framganga okkar Íslendinga í þessu samhengi opni leiðir fyrir aðrar þjóðir til þess að ganga gegn eðlilegum verndarsjónarmiðum og kröfum um eðlilega vernd hvalastofna hvarvetna í höfunum. Mér finnst síðari þátturinn mun eðlilegri fyrirvari út frá sjónarhorni umhverfisverndar, vegna þess að auðvitað höfum við orðið vör við hugmyndir af því tagi frá öðrum þjóðum að hefja nýtingu í hagnaðarskyni eða að hefja hvalveiðar sem atvinnurekstur í ábataskyni. Við minnumst t.d. rannsóknaráætlunar sem lögð var fram á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins, líklega 1986, af Suður-Kóreu sem við nánari athugun virtist ekki mjög merkilegur pappír og ég hygg að Íslendingar hafi ekki treyst sér til að mæla með eða styðja á þeim vettvangi vegna þess að svo virtist sem hugmyndin væri að halda áfram hvalveiðum sem atvinnurekstri undir fölsku flaggi.
    Ég hef ekki farið nóg ofan í saumana á þessum málum varðandi áætlanir annarra þjóða, t.d. Japana, þannig að ég treysti mér að fullyrða eitthvað í þeim efnum, en mér finnst sjálfsagt að menn hafi auga á þessari hættu. Og ég segi í þessu samhengi: Við eigum að setja mjög ákveðnar og strangar kröfur um það að reyna að tryggja í alþjóðlegu samstarfi að ekkert verði tekið úr stofnum sem geta verið í útrýmingarhættu að bestu manna yfirsýn. Og ég veit ekki annað en þeir íslenskir vísindamenn sem að

þessum málum hafa starfað hafi unnið eftir því leiðarljósi. Ég tel ekki, út frá þeirri vitneskju sem ég hef reynt að afla mér, að stofnarnir sem dýr hafa verið tekin úr hér undir merkjum rannsóknaráætlunar sem Hafrannsóknastofnun hefur mótað, hvalastofnarnir á Íslandsmiðum, séu í neinni útrýmingarhættu. Í rauninni virtist ástand þeirra mjög þokkalegt, hvað langreyði snertir sannað, að ég tel, með talningum. Varðandi sandreyði er samhengið óljósara og þar ætla menn að afla fyllri gagna.
    Ætlum við Íslendingar og þeir sem bera umhverfisvernd fyrir brjósti að gangast undir einhver merki, sem haldið er á loft í krafti ákalls um alþjóðlega samstöðu, ef við teljum að þau séu ekki á rökum reist, að það sé ekki haldið þar á máli með rökum? Ég segi nei. Ég tel að það beri að skoða samhengi hlutanna og það sé skylda okkar Íslendinga að horfa á samhengið frá okkar bæjardyrum með fullri ábyrgð, á alþjóðlegt samhengi þessara hluta og með ríkri ábyrgðarkennd að leggja þar lóð okkar rétt á vogarskálar.
    Íslenskt umhverfi er annað en í ríkjum sem sunnar liggja á hnettinum vestan hafs og austan. Íslenskt umhverfi þekkja menn ekki mikið í sjónvarpsherbergjum Ameríku þar sem skoðanamyndun verður svo til, eins og æ oftar gerist einnig hér hjá okkur. Værum við ekki að bregðast skyldum okkar ef við færum að skrifa upp á sjónarmið og staðhæfingar sem verða til, sama af hve mörgum þau eru studd í skoðanakönnunum, ef við teljum þau ekki réttmæt?
    Ég átti hlut að því eins og 32 hv. þm. á Alþingi Íslendinga, mig minnir þeir vera 32 sem studdu ályktunina í febrúarbyrjun 1983, að þál. var samþykkt um að hætta hvalveiðum hér í atvinnuskyni og mótmæla ekki samþykkt
Alþjóðahvalveiðiráðsins að því leyti. Ég tók þetta mál upp í ríkisstjórninni áður en þessi samþykkt var gerð og lýsti þar andstöðu minni við þau sjónarmið sem þar höfðu verið borin fram af þáv. sjútvrh. sem ætlaði sér að mótmæla samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins. Bókun sem þar var gerð hef ég kynnt fyrr í umræðum um þetta mál. Hún skiptir ekki máli hér lengur nema sem sagnfræði.
    Ég sat Stokkhólmsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir 16 árum, 1972, um umhverfi mannsins þar sem hvalamál bar á góma og átti hlut að ályktun sendinefndar Íslands á þeim vettvangi um að stuðla að tíu ára stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni og ég tel mig hafa reynt að leggja málstað umhverfisverndar lið hér í landinu og á Alþingi öðru hverju af mínum veika mætti. En það fær mig enginn til þess að hætta að líta á þessi mál út frá sjónarhóli Íslendinga eða þeim sjónarhóli sem ég stend á og þeim skyldum sem við eigum við íslenskt umhverfi og lífsgrundvöll þessarar þjóðar sem byggir sitt á nýtingu lífrænna auðlinda. Það væri lítill greiði við alþjóðlega umhverfisvernd ef þjóðir færu að fella það merki, ef þjóðir færu að skrifa upp á skoðanir sem verða til í fundarsölum og setustofum og fyrir framan sjónvarpsskerma úti í hinum stóra heimi.

    Ég er í rauninni hreykinn af því framlagi sem Ísland hefur lagt til rannsókna á hvalastofnum í grennd við landið frá því að Alþingi gerði sína samþykkt og ég tel að við höfum gert allt of lítið af því á þeim árum sem síðan eru liðin að fylgja því máli eftir að upplýsa heiminn um það sem hér hefur verið gert í þessum efnum, kynna niðurstöður athugana sem hér hafa farið fram og rannsókna vegna þess mótbyrs sem við höfum haft á þessum árum. En auðvitað eigum við á brattann að sækja í því efni vegna fámennis og fátæktar á almennan mælikvarða heimsins, en þó tel ég að við hefðum mátt gera betur og hef öðru hvoru látið þau sjónarmið í ljós á vettvangi utanrmn. þingsins og ég tel að við þurfum að gera það á næstunni með öðrum og skilmerkilegri hætti en gert hefur verið. Við erum líka komin lengra í þessu máli eftir því sem miðað hefur í þessum rannsóknum og getum nú talað með skýrari hætti á grundvelli þeirra upplýsinga sem aflað hefur verið. Það ár sem er eftir af þeirri áætlun sem Hafrannsóknastofnun mótaði fyrir stjórnvöld mun færa okkur enn frekari vitneskju um hvalastofnana, ekki aðeins við Ísland heldur á öllu norðanverðu Atlantshafi. Og hverjum er það að þakka að þessi upplýsingaöflun fer fram og stöðugt fleiri þjóðir við norðanvert Atlantshaf hafa slegist í hóp með Íslendingum til þess að eiga hlut að þessum rannsóknum? Það hefur komið alveg nýverið sérstök hvatning frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu og ég hygg að undir það hafi verið tekið af Alþjóðahvalveiðiráðinu, en vil ekki fullyrða það, að fleiri þjóðir gerist þátttakendur í því talningarverkefni sem er þungamiðjan í rannsóknum komandi árs. Það sýnir þá virðingu sem Íslendingar njóta vegna síns framlags til þessa að Hafrannsóknastofnun hefur verið falin forusta í þessu máli, í þessu talningarverkefni, samhæfing þess og yfirstjórn að ég hygg.
    Ég ætla ekki að rekja einstaka þætti í þeim rannsóknum og þeim niðurstöðum sem nú liggja þegar fyrir, en ég held að það væri ómaksins vert fyrir hv. alþm. að kynna sér þau efni því að þau liggja áreiðanlega fyrir aðgengileg frá Hafrannsóknastofnun þó að niðurstöður rannsókna, fullnaðarniðurstöður, liggi enn ekki fyrir. Ég hvet hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórn til að gera sérstakt átak nú til þess að kynna málstað Íslands að því er varðar rannsóknirnar og rannsóknarverkefnið og gera það með þeim myndugleik sem innihaldið leyfir. Hér hefur verið gert stórt átak í þágu umhverfisverndar, í þágu hvalarannsókna á norðanverðu Atlantshafi. Menn geta eftir sem áður sett spurningarmerki við töku nokkurra hvala í tengslum við þessar rannsóknir, en taka þessara dýra, veiði á þessum dýrum í rannsóknaskyni hefur samt verið gildur liður í þessari þekkingaröflun fyrir utan að það hefur sparað Alþingi rausnarskapinn að leggja fram fjármagn á þessu tímabili sem ella hefði þurft til að koma til að standa undir þessum rannsóknum.
    Það var sagt hér úr ræðustól áðan að það þyrfti ekki annað en veifa hendi til að þetta fjármagn bærist

hingað frá alþjóðlegum samtökum. Það má vera. Ég vil ekkert um það fullyrða. En ég minni þó á að ekki voru a.m.k. ríkisstjórnir landa í grennd við okkur, sem hafa átt hlut að því að hafa uppi efasemdir og jafnvel fordæmingu á rannsóknum Íslendinga, reiðubúnar að borga sent eða penní í þessar rannsóknir, ég hygg Bretland og Bandaríki Norður-Ameríku meðtalin.
    Síðan eru það, hæstv. forseti, viðskiptahagsmunirnir. Það er mjög eðlilegt að menn hrökkvi við þegar andstæðingar okkar í þessum efnum eru að ná þeim árangri að þess er farið að gæta í sambandi við viðskipti okkar með sjávarafurðir og það er sannarlega ekki til þess fallið að menn taki ekki eftir því og taki ekki mark á því. Spurningin sem við eigum að leysa og eigum að leysa sameiginlega er: Hvernig bregðumst við við? Gerum við það með því að sundra röðunum, með því að vera í orðastríði á Alþingi Íslendinga um fortíðina eins og mönnum hentar nú að gera og vera að gera hér fyrirvara í stefnu þar sem menn hafa þagað í fimm ár og segja: Ég var bara að hugsa mig um? Eða eiga menn að gera það með því að koma með góð ráð? Hvernig bregðumst við við með skynsamlegum hætti?
    Ég hef þegar nefnt það að íslenskum stjórnvöldum ber skylda til þess að skýra frá staðreyndum, í hverju rannsóknirnar hafa verið fólgnar, rannsóknaráætlun Íslendinga, hverjar eru helstu niðurstöðurnar til þessa og hvað er fram undan á því eina ári sem eftir er. Stjórnvöld eiga að reisa þetta mál með skýrum hætti eins og við höfum öll efni á. En við eigum jafnframt að leita annarra leiða í sambandi við sölu þeirra afurða þar sem einstök fyrirtæki eru að setja fótinn fyrir okkur og ætla að rifta samningum. Íslensk ráðuneyti, utanríkisviðskiptaráðuneyti okkar á að sjálfsögðu að gera átak til að koma þessum vörum út með öðrum hætti ef verið er að loka mörkuðum fyrir okkur og rifta samningum á röngum forsendum. Hæstv. sjútvrh. nefndi það áðan í sínu máli að hann teldi að hér væru ekki þeir hagsmunir í húfi að hans mati að menn ættu að hlaupa upp til handa og fóta af þeim sökum og ég leyfi mér að ætla að hæstv. ráðherra muni ásamt öðrum innan ríkisstjórnar leita leiða til þess að bregðast við og tryggja sölu á þessum vörum og reyna að gæta okkar hagsmuna þrátt fyrir þann mótbyr sem við þarna mætum.
    Inn í þessa umræðu, virðulegi forseti, hefur blandast túlkun á ályktunum Alþjóðahvalveiðiráðsins og það er mjög eðlilegt að menn leggi við hlustir í þeim efnum. Ég vil biðja þá hv. þm. sem vitna til þeirra ályktana að kynna sér jafnframt lögfræðilega fyrirvara íslenskra stjórnvalda á sama vettvangi varðandi þær ályktanir. Hafa menn gert það? Eru menn vissir um að þar sé talað úr tómum poka? Gera menn ekkert með þær álitsgerðir eða telja menn af einhverjum öðrum ástæðum að við eigum bara að taka ofan og segja: Þetta eru réttmætar ábendingar. Við pökkum saman.
    Menn skulu líka hafa í huga í þessu máli að spurningin stendur ekki um eitt ár sem eftir er til að ljúka þeirri rannsóknaáætlun sem við ræðum um hér

í þessu samhengi. Spurningin stendur um það dagljóst hvort lokað verði leiðum til að nýta auðlindina hvalur um fyrirsjáanlega framtíð því að það er grunntónninn í stefnu þeirra samtaka sem hafa gert þetta að máli númer eitt. Ég skil út af fyrir sig ekki af hverju menn eru hér í tillögum að leggja til að vera með fimm ára bann og banna vísindaveiðar í þrjú ár því að mér er ekki kunnugt um að ætlunin hafi verið að halda þeim áfram nema til loka næsta árs eða loka næstu hvalvertíðar, ef henni verður áfram haldið að mati okkar. Hæstv. sjútvrh. hefur sagt það margoft, hann hefur sagt það í þessum ræðustól: Við munum meta málin, eins og við höfum gert frá ári til árs, að vori í tengslum við ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins m.a. út frá okkar eigin forsendum. Það eigum við að gera. En við eigum jafnframt að átta okkur á því að við erum ekki bara að tala um hvort við verðum góðu börnin á næsta ári heldur stendur spurningin um það: Erum við að afsala okkur réttinum til að nýta okkur þessa auðlind um fyrirsjáanlega framtíð?
    Við skulum einnig átta okkur á því að það eru fleiri skepnur í sjónum en hvalir og mætti hafa um það mörg orð, en ég nefni það aðeins í því samhengi að við vitum ósköp lítið um hvenær út frá dýraverndunarsjónarmiðum --- og ég segi dýraverndunarsjónarmiðum og þá á ég við sjónarmið eins og þau sem fylkt er um núna norðan Alaska til að bjarga tveimur dýrum --- út frá slíkum, þröngum sjónarmiðum geta menn tekið ástfóstri við hvaða skepnu sem er og farið að heimta verndun, gera hana að flaggi út frá einhverjum forsendum sem snerta afskaplega lítið vitrænt samhengi. Við skulum ekki loka augunum fyrir þeim möguleika að framhald gæti orðið á slíkri historíu.
    Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég vil aðeins segja hér að lokum: Við þurfum að vanda okkur við meðferð þessa máls nú. Það er margt sem hvetur til þess. Það er m.a. sá kraftur sem er í okkar andstæðingum í þessu máli. Við höfum ekki efni á því að sundra okkar kröftum. Ég segi þetta ekki vegna þess að niðurstaðan sé ljós eða ég sé að gefa mér einhverja niðurstöðu heldur vegna þess að það eru lærdómar sem Íslendingar ættu að vera farnir að átta sig á í sinni sögu almennt. Þegar málin snúast um mikla hagsmuni og almennt um hagsmuni þurfum við að leita samstöðu. Annars erum við með tapað mál. Og við skulum reyna að hafa umræðuna á sem skilmerkilegustum forsendum, átta okkur á því hvort við erum að ræða um þetta út frá sjónarmiðum umhverfisverndar, eins og við skiljum þau hvert og eitt, eða hvort það eru viðskiptalegir og fjárhagslegir hagsmunir sem við erum fyrst og fremst að horfa á. Og auðvitað eigum við að skoða þessa þætti einnig í samhengi. Við þurfum hins vegar ekki að vera neitt feimnir við að halda á okkar málstað og skýra okkar málstað því að hann er góður í þessu máli.