Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu geysiviðamikið og mikilvægt mál fyrir Ísland og íslensku þjóðina. Ber því að ræða það æsingalaust með það í huga að menn geti komist að einni niðurstöðu, einni stefnu. Því verðum við að vera þess megnug að kyngja ofurlitlu af stolti hvort heldur menn eru með eða móti hvalveiðum, enda er það ekki málið í mínum huga þessa stundina hvort við veiðum nokkra hvali eða ekki. Málið hvað mig snertir er öllu fremur það hvort við eigum að láta neyða okkur til stefnubreytingar vegna baráttu einhverra öfgamanna úti í heimi. Auðvitað getur áróður þeirra orðið svo sterkur að svo geti farið að við verðum að viðurkenna okkur sigraða og væri það í raun miður. En við verðum hins vegar að líta á staðreyndir og ef staðreyndirnar eru þær að allumtalsverðir hagsmunir þjóðar og þegna eru í húfi verðum við að taka stefnu okkar til gaumgæfilegrar endurskoðunar æsingalaust og án allrar tilfinningasemi.
    Það er nauðsynlegt til þess að geta myndað sér skoðun í þessu máli að hæstv. sjútvrh. upplýsi þingið sem gleggst um hvað hér er í húfi, svo sem eins og um eftirfarandi spurningar: Hversu miklum fjárhæðum höfum við þegar tapað vegna hvalveiða? Hversu miklir fjármunir eru í hættu nú í ljósi þeirra hótana sem liggja í loftinu? Hversu margir geta átt á hættu að missa atvinnu sína ef allt fer á versta veg, þ.e. ef við höldum áfram vísindaveiðum á hvölum og hótanir verða að veruleika? Hvaða áhrif getur þetta haft á byggðamál og byggðaröskun? Hversu mikilvægt er það fyrir vísindarannsóknirnar að haldið sé áfram veiðum í eitt ár í viðbót? Hverjar eru þær rangfærslur sem Greenpeace fyllir heila síðu með og ráðherra gat um í viðtali við Stöð tvö fyrir tveimur dögum, en gat hins vegar ekki munað eina einustu rangfærslu af heilli síðu?
    Nú er vitað um tvö þýsk fyrirtæki sem hafa í hótunum, þ.e. Tengelmann og Aldi, og eitt í Bandaríkjunum, í Boston. Er um fleiri hótanir eða fyrirspurnir tengdar hvalveiðum okkar að ræða? Ef Þýskalandsmarkaður hrynur, hvaða markaði sér þá ráðherra fyrir sér í staðinn? Reyndar kom fram í máli hans hér fyrr í dag að öflun markaða í framtíðinni yrði ekkert vandamál og er sannarlega gleðiefni að svo skuli vera, en það þarfnast nánari skýringar. Svona er auðvitað hægt að spyrja áfram lengi vel, en þetta ætti að duga í bili.
    En hæstv. forseti. Það er mjög merkilegt að hlusta á ráðherragengið okkar þessa dagana. Þeir virðast vera gersamlega úti á þekju og svo langt yfir aðra hafnir að þeir telja sig ekki lengur þurfa að svara eðlilegustu spurningum þings né fjölmiðla. Ég skal nefna nokkur dæmi.
    Á Stöð tvö í gærkvöld gekk hæstv. utanrrh. úr viðtali við fréttamann vegna þess einfaldlega að hann var kominn út í horn sem kemur nú ekki oft fyrir þann ágæta mann. Hann er kominn í vandræði með viðskilnað sinn í fjmrn. og virðist vera að hann hafi gefið þáv. ríkisstjórn og þjóðinni rangar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs.

    Hæstv. sjútvrh. var spurður um yfirlýsingar grænfriðunga í þýskum fjölmiðlum. Hann brást hinn versti við og svaraði því að þar væru á ferðinni ósannindi sem fylltu heila síðu. Engu að síður var hann ekki betur inni í málinu en svo að hann gat ekki nefnt eitt einasta dæmi máli sínu til stuðnings.
    Hæstv. fjmrh. telur sig eiga fyrst og síðast að gera flokksbrotum Alþb. grein fyrir stöðu þjóðmála, Alþingi getur beðið, eins og glöggt kom fram um daginn í utandagskrárumræðu um viðskilnað síðustu ríkisstjórnar. Svona er nýja ráðherragengið og hver getur átt von á góðu frá svona mönnum?
    Og við skulum ekki gleyma sjálfum forsrh. sem einn daginn segir að vel komi til greina að stöðva hvalveiðar á næsta ári, en næsta dag, hvað segir hann þá? Sagði þetta aldrei.
    Hæstv. forseti. Er það hugsanlega rétt, sem heyrst hefur, að Tengelmann-fyrirtækið hafi komið á viðskiptum við okkur fyrir rúmu ári með það eitt í huga að geta staðið fyrir þeirri uppákomu sem þeir nú standa fyrir, að þetta hafi allt verið úthugsað og skipulagt í raun af grænfriðungum? Mér finnst það ekki ósennileg tilgáta og reyndar verðugt rannsóknarefni. Tengelmann er þekkt fyrir baráttu sína fyrir alls kyns umhverfismálum og verndunarsjónarmiðum. Því miður virðist þessi lúalega baráttuaðferð grænfriðunga ætla að bera árangur því hérlendis er farið að gæta verulegrar taugaveiklunar vegna hvalveiða og virðast grænfriðungar því hafa náð allverulegum árangri.
    Ég er ekki að hvetja til þess að við látum undan þrýstingi, en tel að við verðum að endurskoða stefnu okkar í ljósi atburðarásarinnar. Um rétt okkar til hvalveiða efast ég ekki, en þegar á heildina er litið verður þjóðarheill að ráða í lokin.
    Um frv. og þáltill. hv. þm. Árna Gunnarssonar vil ég aðeins segja að mér þykir hvort tveggja vera of fljótt á ferðinni. Ég hefði kosið að sjútvrh. hefði strax skipað nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að fjalla um málið. Sú nefnd hefði átt að fá mjög skamman tíma til að skila áliti. Upp úr því hefði svo mátt athuga með framhaldið, hvort sem þá hefði orðið um stefnubreytingu að ræða eða framlagningu málsins hér á þingi í formi frv. eða
þáltill. Slíka málsmeðferð hefði ég talið líklegri til árangurs frekar en að valda óróa og óeiningu hér inni á þingi því að það er í raun enn einn sigurinn fyrir grænfriðunga.