Plútonflutningar
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Sem svar við þessari fsp. hv. 2. þm. Austurl. vil ég taka fram eftirfarandi:
    Utanrrn. var fyrst kunnugt um ráðagerðir um loftflutninga með geislavirkt plúton frá Evrópu til Japans yfir Norður-Atlantshaf í febrúar sl. Það gerðist með þeim hætti að breski þingmaðurinn Paddy Astauen beindi þeirri fyrirspurn til sendiráðsins í London hvort íslensk stjórnvöld mundu heimila slíka flutninga. Þeirri fyrirspurn var svarað neitandi af utanrrh. Blaðaskrif urðu um málið nokkrum dögum síðar í Bretlandi og einnig í Bandaríkjunum seinni hluta aprílmánaðar. Af því tilefni voru fyrirmæli gefin út þann 23. apríl sl. um bann við lendingu flugvéla á Keflavíkurflugvelli með plúton innanborðs. Sendiráðunum í London, París og Washington var þegar falið að afla upplýsinga um fyrirhugaða flutninga og var þeim upplýsingum jafnóðum komið á framfæri við utanrmn. sem hafði tekið málið til umræðu. Í framhaldi af þeim áhyggjum er lýst var í ríkisstjórn og utanrmn. vegna þessa máls fól utanrrn. sendiráðum í London, París og Washington og sendiherra í Tókíó að lýsa alvarlegum áhyggjum okkar vegna fyrirhugaðra flutninga. Bent var á hættuna á því fyrir lífríki á norðlægum svæðum ef slys yrði og geislavirk efni á hafsvæði við Ísland gæti gersamlega svipt Íslendinga lífsafkomu. Sjónarmið okkar hafa þannig verið kynnt ráðherrum og embættismönnum. Fastanefnd Íslands hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni var einnig falið að lýsa áhyggjum okkar við stjórn stofnunarinnar.
    Fulltrúum Flugmálastjórnar Íslands á fundi samtaka flugmálastjóra Vestur-Evrópu var einnig falið að ræða málið við aðra þingfulltrúa, lýsa þar áhyggjum íslenskra stjórnvalda og kanna í leiðinni afstöðu annarra þjóða. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sendiráðsins í París hafa engar ákvarðanir enn verið teknar um þessa flutninga. Athugun mun þó vera í gangi um flutninga með skipum. Þorsteinn Pálsson fyrrv. forsrh. lýsti áhyggjum sínum og Íslendinga vegna þessara flutninga við varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, John C. Whitehead, meðan á heimsókn hans stóð til Washington í ágúst sl. Whitehead varautanríkisráðherra kvað engar áætlanir liggja fyrir um flutninga á plútoni til Japans og ef til slíkra flutninga kæmi lægi ekkert fyrir um það með hvaða hætti þeir yrðu. Hann tók einnig skýrt fram að yrði einhvern tíma samið um slíka flutninga yrði ekki flogið yfir Ísland. Stjórnvöld munu sem fyrr fylgjast náið með framvindu þessa máls og reyna að hafa þau áhrif að ekki komi til þessara flutninga.
    Virðulegi forseti. Þess skal að lokum getið að í sérstakri orðsendingu frá sendiherra Íslands í Osló sem varðar þetta mál segir orðrétt í erindi dags. hinn 19. þessa mánaðar:
    ,,Japanska sendiráðið hefur beðið um að hjálagðri orðsendingu utanríkisráðuneytisins í Tókíó dags. 6. okt. 1988 verði komið á framfæri við íslensk stjórnvöld með þeim skýringum að hugsanlegir flutningar á plútóníum frá Evrópu til Japans muni ekki

hefjast fyrr en eftir nokkur ár og muni allar öryggisráðstafanir verða gerðar til þess að koma í veg fyrir óhöpp.``
    Samkvæmt þessu virðist það ljóst að málið er ekki á dagskrá fyrr en þá eftir nokkur ár eins og þar segir.