Plútonflutningar
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Hvað er á næstu árum? Hvaða tímabil er það? Hugmyndirnar eru um það að hefja þessa flutninga jafnvel á árinu 1990, í síðasta lagi um 1992. Er það ekki á næstu árum? Í Viðauka V með þeim samningi sem Bandaríkjaþing og Bandaríkjaforseti hafa samþykkt varðandi þetta mál eru leiðbeinandi ákvæði varðandi þessa fyrirhuguðu loftflutninga. Þar kemur m.a. fram að vopnuð flugsveit muni fylgja flutningavélinni eftir sem á að flytja þetta efni ef loftleiðin verður valin. Ég vísa til þessa, svo og margra annarra upplýsinga sem fyrir liggja og íslenska utanrrn. hefur undir höndum. Ég heiti á hæstv. ráðherra að fylgja þessu máli eftir, einnig á alþjóðavettvangi hvar sem því verður við komið til þess að verja okkar hagsmuni.