PCB-mengun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 14 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. varðandi PCB-mengun sem svo er kölluð. Fsp. er svohljóðandi:
,,1. Hve víða er talið að mengun hafi orðið af völdum PCB-efna hérlendis?
    2. Hvaða athuganir og rannsóknir hafa farið fram á útbreiðslu þessarar mengunar og til hvaða starfsemi er hún rakin?
    3. Hvaða reglur hafa gilt um eftirlit með PCB-efnum, meðferð þeirra og förgun og hvernig hefur þeim verið framfylgt?
    4. Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir frekari mengun af völdum PCB-efna?``
    Þetta er fsp. Tilefni hennar mun vera öllum hv. alþm. ljóst svo og almenningi því að mikið hefur verið fjallað um þetta mál eftir að það upplýstist fyrr á þessu ári að slík mengun væri til staðar á nokkrum stöðum á landinu. Fyrst varð vart við þetta í minni heimabyggð, Neskaupstað, þar sem það kom í ljós að starfsmenn, iðnaðarmenn, höfðu handfjatlað þetta efni og leitað til læknis í framhaldi af því. Þá upplýstist það jafnframt að þar væru urðaðir þéttar tengdir rafbúnaði sem hefðu að geyma þetta efni.
    Í framhaldi af því hefur komið á daginn að mengun af þessu tagi er víðar á landinu, Fáskrúðsfjörður eystra þar tilnefndur, og mælingar hafa þegar farið fram á þessum tveimur stöðum sem sýna verulega mengun af þessu hættulega efni. Hitt er jafnframt ljóst að líkur eru til þess að þessi mengun sé mun víðar á landinu, en um það fáum við væntanlega upplýsingar frá hæstv. heilbrmrh. hér á eftir.
    Það efni sem hér um ræðir, ,,pólíklórínerað bífeníl``, PCB, er einn af hættulegustu mengunarvöldum í náttúrunni og hefur verið mikið umrætt í sambandi við þessi mál erlendis þar sem reglur hafa verið settar eftir að menn hafa rekið sig harkalega á vegna þessarar mengunar.