PCB-mengun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur lagt fyrir mig fsp. í fjórum liðum um svokallað PCB-mengun, sem hann hefur nú gert grein fyrir, og er í fyrsta lagi spurt um hve víða sé talið að mengun hafi orðið af völdum PCB-efna hérlendis. Því miður er ekki ljóst hversu víða þetta kunni að vera, en á vegum Hollustuverndar ríkisins hefur farið fram athugun á PCB-menguninni. Niðurstöður athugunarinnar eru þær að einungis sé staðfest mengun vegna óvarlegrar eða óviðunandi förgunar rafþétta sem innihalda PCB í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði.
    Í öðru lagi er spurt hvaða athuganir og rannsóknir hafi farið fram á útbreiðslu þessarar mengunar og til hvaða starfsemi hún sé rakin. Á vegum Hollustuverndar ríkisins hefur á yfirstandandi ári staðið yfir skráning og upplýsingaöflun um notkun á PCB hér á landi. Þetta starf hefur verið unnið í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, Vinnueftirlit ríkisins og Rafmagnseftirlit ríkisins. Hvað snertir PCB-mengunina á Austfjörðum voru tekin lífríkissýni í framhaldi af staðarkönnun í maí í samvinnu við Siglingamálastofnun ríkisins og Hafrannsóknastofnun. Greining sýna fór fram hjá sjávarlíffræðistofnun háskólans í Kiel í Vestur-Þýskalandi en sýnatakan sjálf fór fram í Norðfirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Samkvæmt niðurstöðum þykir fullljóst að rekja megi PCB-mengunina í Neskaupstað til rafþétta úr síldarbræðslunni, en um 20 þéttar voru urðaðir á sorphaugum neðan við kirkjugarðinn í Neskaupstað. A.m.k. þrír rafþéttar úr Hraðfrystihúsi Fáskrúðsfjarðar voru urðaðir á sorphaugum við botn Fáskrúðsfjarðar.
    Í þriðja lagi er spurt hvaða reglur hafi gilt um eftirlit með PCB-efnum, meðferð þeirra og förgun og hvernig þeim hafi verið framfylgt. Engar sérstakar reglur gilda hér á landi um eftirlit, meðferð og förgun á PCB-efnum umfram þær reglur sem er að finna í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og í heilbrigðisreglugerð. Samkvæmt hollustuháttalögum er það í verkahring heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna að annast slíkt eftirlit í héraði. Hins vegar ber þess að gæta að hér er einnig um mjög sérhæft eftirlit að ræða sem eðlilegt væri að Hollustuvernd ríkisins annaðist, alla vega að hluta til. En því miður hefur ekki verið tóm til að ræða um aukið eftirlit á vegum Hollustuverndarinnar því staðreyndin er sú að til þessa hefur ekki einu sinni tekist að fá fjármuni til rekstrareftirlits sem þegar er rekið og stofnunin þarf nauðsynlega á að halda. Í stuttu máli hefur fjárveitingavaldið ekki sýnt starfsemi þessarar stofnunar þann skilning sem til hefur þurft. Vænti ég þess að við fjárlagagerð fyrir næsta ár verði á þessu nokkur breyting til batnaðar, enda sannarlega þörf á því.
    Og í fjórða lagi er spurt hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir frekari mengun af völdum PCB-efna. Heilbr.- og trmrn. hefur falið

Hollustuvernd ríkisins í samráði við Vinnueftirlit ríkisins og eiturefnanefnd að gera drög að reglum um notkun PCB-efna m.a. með hliðsjón af hugsanlegu banni við slíkri notkun eins og t.d. á sér stað gagnvart efnum eins og asbesti. Er sú vinna nú í gangi en vandasöm og nauðsynlegt að hafa samráð við ýmsa aðila. Því tekur þetta sinn tíma. Til greina kemur þó og hefur verið rætt um að setja bráðabirgðaákvæði í reglugerð um málið meðan unnið er að ítarlegri útfærslu. Hvað snertir ástand mála eins og það er í dag hefur Hollustuvernd ríkisins í framhaldi af skráningu á notkun PCB-efna hafið innsöfnun á þessum efnum. Í samvinnu við sænskt fyrirtæki er efnið nú flutt til Bretlands þar sem því er eytt á viðeigandi hátt með háhitaaðferð. Ráðuneytið hefur enn fremur lagt fyrir Hollustuvernd ríkisins að stofnunin reyni að vinna sem nákvæmastar upplýsingar um það hvar PCB-mengun sé að finna við strendur landsins, t.d. á sorphaugum, og í hve miklu magni. Ráðuneytið hefur m.a. óskað eftir upplýsingum um kostnað við að leita að slíkri mengun og hversu langan tíma slík leit tæki. Það er vilji ráðuneytisins að vandamálið verði kortlagt á fyrri hluta næsta árs.
    Hvað snertir PCB-mengunina í Neskaupstað hefur ráðuneytið falið Hollustuvernd ríkisins að fylgjast með menguninni og hefur farið fram á að stofnunin geri tillögur um hvernig slíku eftirliti verði best háttað, t.d. hvað snertir upplýsingar um tíðni mælinga og kostnað þeim samfara. Hefur ráðuneytið óskað eftir upplýsingum hér að lútandi fyrir nk. mánaðamót. Komi í ljós vaxandi mengun í Neskaupstað mun ráðuneytið að sjálfsögðu beita sér fyrir viðeigandi ráðstöfunum, en sem stendur telur ráðuneytið ekki ástæðu til annarra aðgerða en að fylgjast með málinu og vera á varðbergi þurfi að grípa til enn róttækari ráðstafana.