PCB-mengun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er ekki meira að segja um stöðu málsins. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að um þetta gilda ekki sérstakar reglur utan það sem almennt er, en eins og kom fram í svari mínu áðan er nú unnið að því. Kann að vera að það sé seint á ferðinni ef umræða hefur verið sérstaklega um þetta mál á árunum 1970--1974. Ég kann ekki frekari skýringu á því.
    Hitt vildi ég undirstrika, sem kom fram í máli hv. þm., að sú stofnun sem á að fylgjast með þessum mengunarmálum, þ.e. Hollustuvernd ríkisins, hefur á undanförnum árum verið fjársvelt. Það hefur komið margsinnis fram á síðasta þingi varðandi fsp. sem komu fram í þinginu um ýmsa þætti mengunarmála og það er sannarlega ekki vanþörf á að gera þar á bragarbót. Ég vænti þess að eftir þá umræðu og það sem hér kemur upp nú strax í þingbyrjun varðandi ýmis mengunarmál ætti mönnum að vera ljóst að það þarf að bæta stöðu Hollustuverndar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989. Ég tel reyndar vonir til þess að það verði gert og menn búi þá stofnun betur til þess að takast á við þau mál sem henni ber að fást við.
    Því miður hefur það reyndar heyrst oft í umræðunni á undanförnum árum að stofnanir eins og Hollustuverndin og Vinnueftirlitið og kannski fleiri slíkar eftirlitsstofnanir séu óþarfar og séu mikil bákn og gleypi mikla fjármuni, en þegar kemur að því að menn fara að horfa á verkefnin þeirra kemur allt í einu í ljós að þessar stofnanir hafa ekki verið færar um að gegna sínu hlutverki vegna þess að þær hafa í raun verið fjársveltar. Þetta vildi ég undirstrika en að öðru leyti fullvissa hv. þm. um að það er verið að vinna að þessum málum og ég mun reyna að fylgja því eftir.