Einnota umbúðir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í grg. hv. þm. með þessari fsp., í máli hv. þm. áðan, var þetta mál einnig til umræðu á síðasta þingi og þá var því vísað í ákveðinn farveg sem hefur því miður gengið hægar en efni stóðu til og vonir mínar stóðu til á þeim tíma þegar við ræddum þetta í fyrrahaust eða fyrir u.þ.b. ári. Ályktun Alþingis sem samþykkt var 11. maí sl. varðandi undirbúning frv. til l. um einnota umbúðir var vísað til nefndar sem starfað hefur frá byrjun þessa árs í samræmi við stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun fyrri ríkisstjórnar til að huga að endurvinnslu úrgangs á Íslandi og gera skýrslu um það með hverjum hætti nýtanlegum úrgangi verði safnað og hann endurunninn eða ráðstafað þannig að komist verði svo sem kostur er hjá umhverfisspjöllum. Þessi nefnd, sem skipuð var af fyrrv. iðnrh. í samráði við og í samvinnu við heilbrmrh., hefur á undanförnum mánuðum unnið að gerð frv. til l. um meðferð brotamálma og skilagjalda af ökutækjum og mun nefndin skila tillögum varðandi þann þátt í þessari viku. Í upphafi lagði nefndin fram starfsáætlun sem samþykkt var af þessum tveimur ráðherrum þar sem lögð var áhersla á að taka fyrst til meðferðar brotamálma og er nefndin að ljúka vinnslu slíks frv. Samkvæmt starfsáætlun nefndarinnar verður því næsti áfangi eða næsta verkefni hennar að gera tillögur um söfnun og endurvinnslu einnota umbúða, ekki síst þeirra sem notaðar eru undir drykkjarvörur. Stefnir nefndin að því að unnt verði að leggja fram lagafrv. um það efni á því Alþingi sem nú situr.
    Til fróðleiks er kannski rétt að rifja upp eða geta þess hverjir eiga sæti í þessari nefnd sem er, eins og fram hefur komið, að vinna sitt verk samkvæmt þeirri starfsáætlun sem samþykkt var. Formaður nefndarinnar er Páll Líndal deildarstjóri, en auk hans eiga sæti í nefndinni Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins, Ingimar Sigurðsson, yfirlögfræðingur heilbr.- og trmrn., Hermann Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður sjútvrh., Katrín Fjeldsted borgarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Ragnar Birgisson, forstjóri Sanitas hf., og Ásgeir Einarsson framkvæmdastjóri Sindrastáls. Hér eru að störfum menn sem ættu að vera þessum málum mjög vel kunnugir.