Einnota umbúðir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. síðasti þm. meinti að ég hefði verið hvumpinn nú eða hvumpinn fyrir ári. ( HG: Fyrir ári.) Já, fyrir ári. Ég hygg að það sé rétt. Ég tek undir það, sem fram hefur komið hjá þessum tveim hv. þm., fyrirspyrjanda og hv. 2. þm. Austurl., að málið hefur gengið hægt, það hefur í raun gengið of hægt, en vil ítreka það, sem ég held að hafi komið alveg skýrt fram hjá mér áðan, að það er ekkert nýtt fólk að koma að þessu máli. Það varð samkomulag um það í fyrra milli iðnrh. og heilbrmrh. að skipa sameiginlega nefnd í þetta og það er ekki falið sérstaklega fulltrúum iðnrh. vegna þess að ég, til þess að árétta það, las upp það fólk sem skipar þessa nefnd. T.d. á Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins, sæti í nefndinni, svo og fulltrúi heilbrmrn., Ingimar Sigurðsson yfirlögfræðingur, sem hefur verið formaður stjórnar Hollustuverndarinnar um árabil og þekkir þau mál þess vegna mjög vel. Ég ítreka líka að nú hafa þeir lokið fyrri hluta af sinni starfsáætlun og hefja nú vinnu við það verkefni sem hér er sérstaklega spurt um og jafnframt að þau drög sem fyrir lágu hér í fyrra að reglugerð um málið voru send nefndinni þannig að þau hafa verið þar fyrir liggjandi og henni ætlað að fjalla um það, þessari sömu nefnd sem er og hefur verið að vinna að þessu verkefni sem henni var þá falið þó hún hafi raðað þessu í þennan forgang hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
    Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér er um að ræða alvarlegt mál sem fer því miður ört versnandi vegna þess hvað þessar einnota umbúðir ýmiss konar hafa orðið vinsælar hér á landi. Þetta má ekki verða að óþolandi mengunarvandamáli heldur verður að knýja á um að niðurstöður úr þessu nefndarstarfi liggi fyrir hið allra fyrsta.