Mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf.
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það ætla lengi að endast tilefnin til að ræða um mengun frá álverinu í Straumsvík og það sýnir sig að þörfin hefur kannski sjaldan verið brýnni en nú að minna á þennan skaðvald.
    Þetta var rætt hér sl. vor áður en þingi lauk, aðallega innri mengun, mengun vegna gallaðra rafskauta, og þá gat hæstv. ráðherra um það, eins og hann minnti á hér, að lofað væri úrbótum, en við það hefur enn ekki verið staðið. Aðalatriðið sem tengist þessari umræðu er þó það, sem hér kemur fram, að iðnrn. hefur slegist í lið með þessu fyrirtæki á þessu ári til þess að styrkja stöðu þess til að sniðganga íslensk lög og íslenskar reglur varðandi mengun, stillir sér gegn heilbrmrn. Þetta er auðvitað dæmalaust. Árið 1972 var sami maður heilbr.- og iðnrh. Hann hét Magnús Kjartansson. Hann setti reglugerð og hann gerði kröfu um úrbætur og hann hótaði, þegar ekki var orðið við kröfum hans, fyrirtækinu lokun innan sex mánaða ef ekki yrðu gerðar úrbætur. Þá tók fyrirtækið við sér og lofaði úrbótum, en það tók níu ár að þeirra mati að ljúka þessu, menn vonuðu á viðunandi hátt en reynslan hefur orðið allt önnur. Og hvað halda menn að álverið í Straumsvík hafi sparað miklar upphæðir á umgengni sinni við íslensk stjórnvöld að því er snertir umhverfismengunarvarnir?