Heimahjúkrun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Guðrún J. Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég blanda mér í þessar umræður vegna þess að ég lít svo á að það sé ekki alveg nóg að lög um heimahjúkrun komi til framkvæmda. Ég held að það sé mikið stærra mál sem þarf að vinna að. Ég held að við þurfum, þ.e. ríkisstjórn og allir aðilar sem að þessum málum standa, að sjá til þess að málin verði endurskipulögð. Ég held raunar að það hafi komið fram í máli hæstv. heilbrmrh. að bæði launamál og önnur mál þessu viðvíkjandi eru í ólestri.
    Það þarf að skipuleggja samstarf hjúkrunarkvenna eða hjúkrunarfólks og þeirra sem heimilisþjónustu stunda. Það er höfuðnauðsynjamál, einkum og sér í lagi á þéttbýlissvæðum, að þessi mál verði endurskipulögð og samstarfshópar ófaglærðra og faglærðra komist á fót. Ekki nægir að faglært fólk geti fengið að stunda vinnu á líkan hátt og heimilislæknar heldur þarf að skipuleggja hópa í þessum málum sem vinna saman því að hver hjúkrunarfræðingur getur sinnt svo fáum og litlu ef það koma ekki fleiri hendur til. Þessa endurskoðun þarf að gera og vinna að henni markvisst bæði hér á Reykjavíkursvæðinu og alls staðar þar sem það er hagkvæmt.
    Í dreifbýlinu, þar sem eru mjög fáir búandi, kemur aftur á móti annað til og það er rétt sem fyrrv. heilbrmrh. Ragnhildur Helgadóttir sagði að hjúkrunarfræðingar mundu koma þar að afskaplega miklu gagni sem einstaklingar og einstæðir starfsmenn.