Sjálfseignarstofnanir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir svohljóðandi þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn starfsnefnd er vinni að samningu rammalöggjafar um sjálfseignarstofnanir.``
    Meðflytjendur mínir eru þær Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.
    Frú forseti. Fyrirrennara nútímasjálfseignarstofnana á Íslandi má finna allt aftur í fornöld. Þá voru brýr og ferjustaðir stundum eins konar sjálfseignarstofnanir og eins var það háttur kirkjunnar manna að koma á fót og reka velgerðarstofnanir sem áttu sig sjálfar, enda leit kanónískur réttur svo á að kirkjan og stofnanir hennar ættu sig sjálfar. En það hefur ætíð verið einkenni og aðall sjálfseignarstofnana að þær eru stofnaðar með velferð og velgengni almennings og þurfandi hópa í huga. Þekkt dæmi um slíkar stofnanir á seinni öldum á Íslandi eru Thorkillii-sjóður sem stofnaður var af dánarbúi Jóns Þorkelssonar seint á 18. öld til að koma á fót barnaskóla fyrir fátæk börn í Kjalarnesþingi og fyrsti spítali á Akureyri sem stofnaður var 1874 og bar nafnið Godmansminde.
    Þó að rekja megi uppruna sjálfseignarstofnana á Íslandi svo langt aftur og þrátt fyrir það að sjálfseignarstofnanir í nútímamynd eigi sér allmerka sögu hérlendis hefur Alþingi enn ekki sett almenna löggjöf um slíkar stofnanir. E.t.v. er ástæðan sú að á dögum konungssambands Íslendinga og Dana hafi verið farið eftir dönskum lögum í þessum efnum en síðan eftir venjum, hefðum og almennum landslögum. Til eru lög um stöku sjálfseignarstofnanir, svo sem Lýðháskólann í Skálholti og Verslunarskólann, en um flestar íslenskar sjálfseignarstofnanir, t.d. skóla Ísaks Jónssonar, dýraspítala Watsons og sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala, eru engin sérstök lög til.
    Tildrög að sjálfseignarstofnunum geta verið með þrennum hætti a.m.k. Í fyrsta lagi er hægt að koma á fót sjálfseignarstofnunum með sjóðsstofnun einstaklings eða dánargjöf, og er dýraspítali Watsons dæmi um slíka einstaklingsgjöf, í öðru lagi með almennri söfnun, samskotum eða frjálsum framlögum fólks og er skóli Ísaks Jónssonar og meðferðarstofnunin Vogur dæmi um slíkt, og í þriðja lagi að tilhlutan opinberra aðila í samvinnu við einstaklinga eða almenning og mun sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala dæmi um hið þriðja upphafsform.
    Af ofangreindu má sjá að upphaf og tilgangur flestra sjálfseignarstofnana varðar almannaheill en þeir aðilar sem reka og stjórna stofnununum hafa ekki annan hagnað af rekstrinum en eigið kaup því arður af rekstri ef einhver er rennur til stofnananna sjálfra. Það varðar þessa starfsmenn hins vegar miklu að lög um stofnanir þær sem þeir vinna við og fyrir séu skýr og tæmandi. Á síðustu árum hefur sjálfseignarstofnunum fjölgað og þróun mála verið stefna í þá átt enn um sinn. Jafnvel er mögulegt að tegundum sjálfseignarstofnana á Íslandi fjölgi og á ég

þar við að hugsanlega verða byggingarfélög búseturéttar að sjálfseignarstofnunum. En mér vitanlega eru slíkar sjálfseignarstofnanir, þ.e. byggingarfélaga, ekki til hér á landi þó að þær séu nokkuð algengar erlendis. Af þessu má sjá að aukin þörf er á almennri rammalöggjöf um starfsemi sjálfseignarstofnana, stofnun þeirra og rekstur, sem og hvernig leggja skuli þær niður, einnig um réttarstöðu viðskiptavina og skjólstæðinga stofnananna, ábyrgð rekstraraðila og réttarstöðu stjórnenda o.s.frv.
    Ljóst er að sjálfseignarstofnanir geta verið og eru ólíkar að gerð og markmiðum. T.d. liggur í augum uppi að stór munur er á störfum Hjálparstofnunar kirkjunnar og starfsemi Verslunarskólans þótt báðar stofnanirnar séu sjálfseignarstofnanir. Því þarf í ýmsum tilvikum að setja sérákvæði um þær en brýnt er að almenn mörkun laga og reglna um starfsemi þessa verði gerð, ekki síst núna þegar erfiðir tímar og harðindi virðast fara í hönd í íslensku efnahagslífi.
    Frú forseti. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til síðari umr. og allshn.