Sjálfseignarstofnanir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega hreyft þörfu máli sem ástæða hefði kannski verið til að hreyfa miklu, miklu fyrr vegna þess að það eru ýmsar stofnanir í þessu þjóðfélagi sem vel færi á að væru sjálfseignarstofnanir en það er í hæsta máta rétt að um þessar stofnanir hefur skort skýr lagaákvæði. En nú hygg ég að það muni vera svo, enda þótt hæstv. iðnrh. sé hér ekki staddur, að mér sé heimilt að segja frá því að fyrir allnokkru síðan flutti hann tillögu um þetta mál í ríkisstjórninni og ég hygg að það sé raunar þegar komið á rekspöl og hafi málið verið kannað í Noregi og gagna aflað þaðan. Norðmenn settu lög um slíkar stofnanir upp úr 1980 eða þar í kring, að ég hygg, og hafa síðan breytt ýmsum af sínum fyrri ríkisstofnunum, þar á meðal norska ríkisútvarpinu, í sjálfseignarstofnun eða stiftelse eins og það heitir á þeirra máli. Það er því, held ég, hægt að gleðja flm. þessa máls með því að þetta mál er þegar komið á rekspöl og var það áður en þessi ágæta tillaga kom hér fram.