Sjálfseignarstofnanir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir svör hans viðvíkjandi þessu máli þar sem ég reikna með að hann tali fyrir munn ráðherra þar. Það var mér mikið ánægjuefni að heyra að þessi mál skuli vera komin á þennan rekspöl. Ég efast ekki um að úr því að svo langt er komið sem hann segir muni frv. til laga verða lagt fram innan tíðar. Hvort rétt sé að stofna nefnd, eins og við leggjum til í þessari þáltill., til þess að reka endahnútinn á þetta vil ég leggja fyrir þingheim allan. Ég álít að betur sjái augu en auga og að það geti mjög vel verið að til þess að ljúka þessari lagafrumvarpssamningu fljótt og vel og glögglega sé gott að koma á fót nefnd í þessu máli, til þess að reka endahnútinn á þetta. Ég legg eindregið til að það verði gert og ég vonast til þess að innan örstutts tíma verði þetta mál að veruleika.
    Ég hafði af því spurnir fyrir tveimur árum að eitthvað væri byrjað að vinna að þessu máli en ég hafði ekki séð nokkur merki þess að afrakstur þess verks kæmi fram á sjónarsviðið og þess vegna fannst mér ástæða til, og okkur, að hreyfa því og til að reka á eftir að þetta yrði nú loks að veruleika.
    Ég þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir góðar undirtektir við málflutning minn, bæði nú og fyrr, og óska þess að eftir þessa umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. allshn.