Umhverfisfræðsla
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fyrir minn hlut fá að segja fáein orð og lýsa fylgi við þá tillögu, sem hér er á dagskrá, um umhverfisfræðslu. Ég get í sjálfu sér verið fáorður, tilgangurinn var fyrst og fremst sá að koma á framfæri fylgi mínu. Ég tel tillöguna fyrir margra hluta sakir merka og þó fyrst og fremst vegna þess að hér er verið að tala um og leggja til að breyta almennu viðhorfi og að minni hyggju er lagt til að fara rétta leið, einmitt þá einu sem er fær og skilar árangri, þ.e. að efla slíkt starf í skólum og þá ekki síst í grunnskólum.
    Nú er það svo að heimild er í lögum fyrir grunnskóla til þess að starfa ákveðið og reglubundið að ýmsum þáttum þessara mála. En svo vel þekki ég til starfa grunnskólanna að ég er viss um að þar skortir verulega á að skerpa á framkvæmdinni þó svo að unnið sé í þessa átt nær daglega í öllum skólum um allt land. Hér er sem sagt um að ræða að reyna að breyta hinu almenna viðhorfi og það mun taka langan tíma.
    Ég minni á í sambandi við þetta að í næsta mánuði mun Norðurlandaráð koma saman um þennan málaflokk og nær einvörðungu um þennan málaflokk. Það sýnir í sjálfu sér á hvern hátt menn líta á þetta, hversu þýðingarmikið það er. Hér á landi hefur hins vegar vafist fyrir mönnum lengi að finna þessum þætti, umhverfismálunum í heild, á viðunandi hátt ákveðinn stað í stjórnkerfi okkar. Þar er mikið verk í rauninni óunnið. En ég held að hér sé lagt til að fara rétta leið að reyna að breyta hinu almenna viðhorfi.
    Ég tek undir orð formanns hv. félmn., sem hann sagði um þetta efni áðan, og vænti þess að hann veiti málinu þann framgang að það fái afgreiðslu hér í þinginu fyrir jólaleyfi.