Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Tilefni þessara umræðna utan dagskrár eru, eins og fram hefur komið, athugasemdir formanns Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., sem hann gerði í tilefni af því að hæstv. fjmrh. lét þess getið á fundi í Garðabæ að skuldareikningar síðustu ríkisstjórnar hljóðuðu upp á 5--9 milljarða eins og eftir hæstv. ráðherra var haft á fundi sem hann átti með flokkssystkinum sínum í Garðabæ á laugardegi fyrir tæpum hálfum mánuði. Athugasemdir hv. 1. þm. Suðurl. voru m.a. við það að málið skyldi tekið upp með þessum hætti þegar tillit var tekið til þess að hæstv. utanrrh., sem var fjmrh. í síðustu ríkisstjórn, var um þetta leyti staddur erlendis, í Bandaríkjunum vegna opinberra erinda.
    Ég held að ástæðan fyrir því að hæstv. fjmrh. nálgaðist þetta mál með þessum hætti hafi verið sú, og það kom reyndar fram í umræðum fyrr um þetta mál, þeim umræðum sem ég vitnaði til hér áðan, að hæstv. ráðherra þarf að koma lagi á fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., strika undir og segja: Þetta var Jóni Baldvini að kenna, nú tók ég við --- til þess m.a. að réttlæta það að hæstv. ráðherra kemur inn í núv. ríkisstjórn án þess að ná fram meginstefnumálum Alþb. eins og þau birtust m.a. í ræðum hæstv. fjmrh. fyrir u.þ.b. ári síðan hér á hinu háa Alþingi þegar hann gekk svo langt að segja að þáv. fjmrh., hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, væri brennimerktur maður sem ekki væri hægt að treysta nema hann drægi til baka matarskattinn alræmda. M.ö.o.: Núv. hæstv. fjmrh. þurfti að fá réttlætingu fyrir því að hann kæmi inn í ríkisstjórnina eftir það sem á undan var gengið án þess að leggja fram tillögur við stjórnarmyndunina um það að draga matarskattinn til baka, án þess að gera það að skilyrði að launastöðvun væri hætt og samningarnir tækju gildi og án þess að koma fram mikilvægustu stefnumálum Alþb. Þetta átti að gerast með þessum hætti og ráðið sem gripið var til er alkunnugt, það er að kenna einhverjum öðrum um. Og auðvitað lá beint við að kenna hæstv. utanrrh. um þetta allt saman. Hann var í útlöndum, hann gat ekki varið sig á þessari stundu, það var gott að koma höggi á hann. Og síðan átti að segja hér: Ég er með hreint borð. Hæstv. utanrrh., sem var fjmrh., stóð sig illa og nú ætla ég að taka við og hreinsa upp allt saman eftir hann. Þetta held ég að hafi verið meginástæðan fyrir því að svona var farið að í þessu máli.
    Ef við lítum aðeins til þessara mála hjá síðustu ríkisstjórn, þá gaf hæstv. utanrrh., þáv. fjmrh., þeirri ríkisstjórn oft og tíðum upplýsingar um það hver fjárhagur ríkisins var á hverjum tíma. Við afgreiddum fjárlög fyrir yfirstandandi ár með nokkrum rekstrarafgangi, að mig minnir u.þ.b. 25 millj. kr. Það var strax ljóst eftir nokkra fyrstu mánuði ársins að sú áætlun kom ekki til með að standast. Það komu upplýsingar frá fjmrn. um það að rekstrarhallinn í árslok gæti orðið 400 millj. kr., 500 millj. kr. og lengst af eftir mitt árið var talað um að rekstrarhallinn yrði væntanlega 693 millj. kr. Þessi tala, svo nákvæm

sem hún er, var miklu nákvæmari en 5--9 milljarðar sem er nú ekki mikil nákvæmni hjá hæstv. núv. fjmrh. þegar hann fer með tölur. Það munar dálitlu, 5--9 milljarðar. En fyrrv. ráðherra, sem er nákvæmur maður í fjármálastjórninni, sagði 693 millj. kr. Og þessi tala stóð í a.m.k. 1 1 / 2 mánuð eða til ágústloka. Ég man eftir skjali dags. 31. ágúst þar sem þetta var enn þá endurtekið, 693 millj. kr. yrði rekstrarhallinn í árslok. Reyndar gerðist það nokkrum dögum seinna að það kom svarbréf frá fjmrn. vegna afskipta Ríkisendurskoðunar af málinu og í því bréfi kom fram að líklega mundi greiðsluhallinn verða 870 millj. kr. og rekstrarhallinn jafnvel 1170 millj. kr. í árslok --- þetta var í septemberbyrjun, mig minnir að dagsetningin hafi verið 3. sept. --- enda væri þá búið að taka tillit til vaxta, sem hefðu hækkað, tillit til vaxta og geymslugjalds, sem gætu hækkað, og sjúkratrygginga sem höfðu farið talsvert fram úr þeim áætlunum sem fjárlög fyrir yfirstandandi ár gerðu ráð fyrir. Engar aðrar upplýsingar bárust frá fjmrn. á dögum síðustu ríkisstjórnar en hins vegar var sagt og kom fram í bréfum frá ráðuneytinu að verið væri að vinna að nýrri áætlun og yrði hún tilbúin síðar í þeim mánuði, þ.e. síðar í septembermánuði.
    Nú er það svo að umræður um þessi mál urðu talsverðar á sl. sumri. Um miðjan júlí kom þjóðhagsspá. Í þeirri þjóðhagsspá gerði Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að rekstrarhalli yrði talsvert meiri en þáv. fjmrh. hafði gert ráð fyrir eða eitthvað á annan milljarð. Fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., brást ókvæða við og í fimm dálka fyrirsögn í málgagni ráðherrans, Alþýðublaðinu, hinn 14. júlí getur að líta fyrirsögnina ,,Rangfærslur að yfirlögðu ráði.`` --- Ég endurtek: ,,Rangfærslur að yfirlögðu ráði,,, segir Jón Baldvin Hannibalsson fjmrh. um niðurstöður Þjóðhagsstofnunar um ríkisfjármálin í endurskoðaðri þjóðhagsspá. Og í byrjun fréttarinnar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Jón Baldvin Hannibalsson fjármálaráðherra segir að tölur Þjóðhagsstofnunar um stöðu ríkisfjármála í nýbirtri þjóðhagsspá gefi kolranga mynd af raunveruleikanum.`` Og síðan er orðrétt haft eftir fjmrh.: ,,Það er ótrúlegt að svona texti skuli vera sendur út í nafni Þjóðhagsstofnunar.``
    Nú hefur hæstv. fjmrh. gert grein fyrir stöðu málsins eins og hann lítur á
það í dag. Með því er verið að gefa það í skyn að við stjórnarskiptin hafi hæstv. ráðherra ekki gert sér grein fyrir hve staðan var slæm, m.ö.o. þetta sé allt nýtilkomið af ástæðum sem hann reyndi að rekja hér áðan. En það var nú einhvern veginn ekki þannig í sumar þegar hæstv. fjmrh. tók til máls í fjölmiðlum um þessi mál því að í Þjóðviljanum einmitt nákvæmlega sama dag og ég var að vitna í Alþýðublaðið hér áðan, í Þjóðviljanum, þar sem hann gaf út sérstaka greinargerð um þessi mál, á forsíðu Þjóðviljans, sem er nákvæmlega jafnstór og forsíðan í Alþýðublaðinu, segir hann: ,,Ótrúleg óstjórn``. ,,Ótrúleg óstjórn,,, segir hæstv. fjmrh. á þessum sama degi og hæstv. utanrrh. sagði í Alþýðublaðinu að það

væru rangfærslur að yfirlögðu ráði af hálfu Þjóðhagsstofnunar.
    En Alþýðublaðið hafði líka samband við Ólaf Ragnar Grímsson, núv. hæstv. fjmrh. og í Alþýðublaðinu þennan sama dag, þann 14. júlí er fyrirsögnin: ,,Hrikaleg mistök í stjórn ríkisfjármála, segir Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., í greinargerð vegna nýrrar þjóðhagsspár.`` Allt þetta m.ö.o. vissi hæstv. ráðherra strax 14. júlí í sumar eða a.m.k. vildi trúa. Og í grein í Þjóðviljanum, þessari greinargerð sem birtist þar þennan sama dag, segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það er því ljóst að hrikaleg mistök sem nema mörgum milljörðum hafa orðið í meðferð og stjórn ríkisfjármála. Grundvöllur fjárlaganna er hruninn og óbreytt stefna mun leiða til þess að í árslok verður stórt gat á fjármálum ríkisins. Í stað þess að ríkissjóður væri tæki til að draga úr verðbólgunni hefur hann í höndum núv. fjmrh. [þ.e. hæstv. núv. utanrrh.] orðið hreinn verðbólguvaldur.``
    Það sem núv. hæstv. ráðherra er auðvitað að gera nú í dag er að birta annan kaflann í því áliti sem hann hefur á hæstv. utanrrh. í tíð hans sem fjmrh. Þetta er aðeins annar kaflinn og skýrist kannski betur þegar maður rifjar fyrsta kaflann upp.
    Og í leiðara Þjóðviljans þennan sama dag er gefin einkunn og sú einkunn sem hæstv. utanrrh. fær fyrir fjármálastjórn er: Fjmrh. fær núll. Ég veit að þessi fyrirsögn hefur verið borin undir formann Alþb., hæstv. fjmrh., því að hann hefur góðan aðgang, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið, að ritstjóra og ritstjórnarfulltrúum á Þjóðviljanum. ( Utanrrh.: Og vanur einkunnagjöfum.) Og vanur einkunnagjöfum úr Háskólanum sem satt er. En fyrir hönd hæstv. utanrrh. þá held ég að muni þó mega þakka fyrir að hafa ekki verið í námi hjá prófessor Ólafi Ragnari Grímssyni. Þetta sem sagt vissi hæstv. fjmrh. allt í sumar þannig að það þarf ekki að koma honum neitt á óvart. Hann sagðist ekkert vita um þetta um daginn. Hann vissi þetta í Garðabænum. Hann vissi þetta ekki þegar hann kom inn á Alþingi en nú veit hann þetta því nú fyrst hefur hann upplýsingar í höndum. En í sumar þurfti hann engar upplýsingar. Þá var hægt að koma höggi á hæstv. utanrrh. án þess að hafa upplýsingar. Nú hefur hann fengið nýjar upplýsingar og nú kemur annar kaflinn í þessari samskiptasögu þeirra hæstv. ráðherra. Reyndar hafa þeir nú hist áður, þessir ágætu ráðherrar. Þeir hafa verið á ferðalagi í íslenskum stjórnmálum um skeið. Annar þeirra kemur úr Alþb. og var að fara yfir í Alþfl. til hægri þegar hinn var á leiðinni úr Framsfl. eftir að hafa verið í læri þar ásamt Steingrími Hermannssyni hjá Eysteini Jónssyni og var á leiðinni til vinstri. Þeir hittust fyrir í flokki, sem hét ,,Samtök frjálslyndra og vinstri manna`` ef ég man rétt, tókust þar rétt í hendur og héldu svo í sitt hvora áttina. Nú hafa þeir hist aftur í núverandi ríkisstjórn og það verður spurning hvort þeim kemur jafn vel saman þar eins og þeim kom saman í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, sem voru samtök, ef ég man rétt, til að sameina alla vinstri

menn á Íslandi. Hugsið ykkur! Hugsið ykkur tækifærið sem þessir menn hafa í dag til þess að ná þessu sameiginlega markmiði sínu sem þeir reyndar hafa byrjað á, ef ég man rétt, í mat heima hjá Bryndísi.
    Spurningin sem hæstv. fjmrh. verður að svara er þessi: Er það rétt að hann hafi ekki gengið eftir því að fá þessar upplýsingar þegar stjórnarskiptin urðu? Eða telur hann að hæstv. utanrrh. hafi sem fyrrv. fjmrh. leynt þessum upplýsingum fyrir þeim sem stóðu að þeirri stjórnarmyndun? Þetta verða menn að fá að vita því að ef hæstv. fjmrh. vissi þetta á þeirri stundu --- reyndar sagðist hann vita þetta allt í sumar, en við skulum taka svona hæfilega mikið mark á því þó kannski sé full ástæða til að taka stundum mark á hæstv. fjmrh., þá er spurningin: Vissi hæstv. fjmrh. af þessu við stjórnarskiptin? Það hefur nefnilega verulega þýðingu.
    Nú hefur verið lögð fram beiðni til virðulegs forseta um það að Ríkisendurskoðun verði gert að gefa skýrslu um stöðu A-hluta ríkissjóðs þann 30. sept. 1988 og horfur um afkomu í lok þessa árs. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur beðið um þessa skýrslu og ég á von á því að hann skýri það mál frekar síðar hér í umræðunni, en ég held að það sé mjög mikilvægt að sú stofnun, sem nú heyrir undir Alþingi, taki þetta mál út, ekki síst í ljósi þess að fjmrn. hefur á öllu þessu ári ekki verið treystandi fyrir því, að sögn hæstv. fjmrh., að koma fram með réttar upplýsingar í þessum málum.
    Það er nú þannig, virðulegur forseti, að helstu tekjur ríkisstjórnarinnar koma af launum og veltu. Þegar þensla er mikil fær ríkissjóður mikið í sinn hlut, en þegar samdráttur á sér stað í þjóðfélaginu dregur úr tekjumöguleikum ríkissjóðs. Það er alveg ljóst að á síðustu mánuðum síðustu ríkisstjórnar var verulega dregið úr þenslunni og því hefur verið haldið áfram núna í árdaga nýrrar ríkisstjórnar og samdráttareinkenni hafa þess vegna komið í ljós. Ef við skoðum septembermánuð einan, sem var síðasti mánuður sem síðasta ríkisstjórn sat, var verðbólgan þann mánuð aðeins 9%, þ.e. ef maður margfaldar þann mánuð upp og gerir þetta að ársverðbólgu. Sé hins vegar október tekinn með og síðan skoðaðir þrír mánuðir aftur, þ.e. október, september og ágúst, er verðbólgan ekki nema 13%. M.ö.o.: verðbólgan var á niðurleið, samdráttur var kominn fram, enda var nauðsynlegt að gera það og framkalla það vegna þeirrar þenslu sem átt hafði sér stað í þjóðfélaginu. Þetta hlaut að draga úr tekjumöguleikum ríkissjóðs. Það hlutu allir að sjá og skilja og vissu reyndar að ríkisstjórn, hver sem hún var, varð að taka tillit til þess og taka ákvarðanir á þeim grundvelli.
    En hvað gerði þá hæstv. núv. ríkisstjórn? Brást hún við með réttum hætti? Tók hún mark á þeim upplýsingum sem höfðu komið frá stofnunum? Tók hæstv. fjmrh. mark á sjálfum sér frá því í sumar? Þeirri spurningu held ég að við verðum að svara neitandi í ljósi þess að fyrstu viðbrögð þessarar hæstv. ríkisstjórnar voru þau að auka ríkissjóðshallann

viljandi. Í bráðabirgðalögunum sem gefin voru út segir að 600 millj. kr. til viðbótar megi draga yfir á ríkissjóð vegna þeirra aðgerða sem þar er lýst og það er ekki nóg með það heldur á að greiða 800 millj. kr. í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst yfir að muni falla á ríkissjóð. M.ö.o.: hæstv. fjmrh. á að ábyrgjast lán til Verðjöfnunarsjóðsins upp á 800 millj. kr. Síðan á lánið að falla á ríkissjóð, enda hefur hæstv. ríkisstjórn þegar opinberað þá stefnu sína. Þetta voru viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við því, sem hún átti að vita, að það hafði komið fram ákveðinn samdráttur. Það hlaut að bitna á ríkissjóði. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur því tekið á sig að auka enn á ríkissjóðshallann. Og það er mál sem hæstv. fjmrh. getur ekki eingöngu skrifað á reikning hæstv. utanrrh. Það er ákvörðun sem þeir tóku báðir í sameiningu ásamt öðrum hæstv. ráðherrum. Þessum útgjöldum er auðvitað ætlað að greiða niður verðbólguna um skeið og falsa gengið um nokkurra mánaða skeið með skattpeningum og það er einmitt um þetta atriði sem meginágreiningurinn stóð þegar upp úr slitnaði á milli stjórnarflokkanna í síðustu ríkisstjórn. Sjálfstfl. vildi þá og boðaði almennar aðgerðir og neitaði því að efna til gífurlegra millifærslna eins og núv. ríkisstjórn hefur gert, millifærslna sem eru kostaðar að langmestum hluta úr ríkissjóði. Það eru þessar greiðslur sem koma til með að auka enn á ríkissjóðshallann og auðvitað er búið að taka tillit til þess þegar hæstv. fjmrh. er að lýsa nú hver sé staða ríkissjóðs og hver sú staða mundi verða í árslok. Það er ekki hægt fyrir hæstv. fjmrh. að koma allri sök á fyrrv. fjmrh., hæstv. utanrrh.
    Ríkisstjórnin gaf út í upphafi starfsferils síns stefnuyfirlýsingu og í henni segir um ríkisfjármálin m.a. þegar búið er að birta markmiðin um tekjuafgang upp á 1%: ,,Til þess að ná þessu markmiði verða útgjöld ríkisins ekki hækkuð að raungildi frá því sem er á þessu ári.``
    Mér finnst vera full ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað þessi texti þýði. Þýðir þessi texti að útgjöld ríkisins á næsta ári samkvæmt fjárlögum verði að raungildi ekki meiri en útgjaldaáform á yfirstandandi ári samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs? Þannig skilja langflestir textann og þannig hafa þeir stjórnarsinnar sem ég hef talað við skilið textann. Þýðir sem sagt textinn í stjórnarsáttmálanum að raungildi útgjaldanna á næsta ári verði þau sömu og raungildi fjárlaga yfirstandandi árs? Þetta hefur gífurlega mikla þýðingu að fá upplýsingar um nú þegar á þessari stundu.
    Aðalatriðið er hins vegar þetta: Nú þegar það liggur fyrir að þenslan er búin í þessu þjóðfélagi, samdrátturinn er kominn fram, þá verður ríkissjóður að haga sér með sama hætti og stjórnarherrarnir ætlast til að heimilin í landinu og fyrirtækin í landinu hagi sér. Fyrirtækin verða að rifa seglin, heimilin verða að rifa seglin og auðvitað hlýtur ríkissjóður að verða að rifa seglin. Það er þess vegna ekki nóg að brúa bil með sköttum. Ríkisstjórnin hæstv. hlýtur að standa frammi fyrir því að þurfa að haga sér eins og hún vill

að aðrir hagi sér í þjóðfélaginu. Það verður að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún dragi úr útgjöldum sínum rétt eins og aðrir þurfa að gera í þessu þjóðfélagi þegar illa árar. En við skulum öll taka undir að það hefur komið bakslag í þjóðarbúið vegna ytri áfalla þótt hæstv. fjmrh. hafi í sumar, í júlí í fyrrnefndri grein --- ég nennti nú ekki að lesa það, ég ætla að eiga það til góða síðar þegar ég þarf að stríða honum --- sagt að þetta sé allt saman ríkisstjórninni að kenna, það séu engin samdráttareinkenni, allt saman tóm þvæla og lygi. Ég ætla að minna hann á þetta síðar og taka þá skorpu við hann en eiga það inni því það er aldeilis annað sem hefur komið á daginn. Nú er það hæstv. fjmrh. sjálfur sem heldur hinu gagnstæða fram. Og ég segi:
Velkominn í þann hóp sem horfir þó raunsæjum augum á hlutina eins og þeir gerast.
    Það sem mig langar til að spyrja er: Lágu þessar upplýsingar frammi við stjórnarskiptin? Það er nefnilega talsverður munur á 1 milljarði og 3--4 milljörðum, hvað þá 5--9 milljörðum sem var talað um hérna fyrir tveimur vikum. Og ef þessar upplýsingar lágu ekki fyrir, hvernig hefði hæstv. fjmrh. brugðist við ef þær hefðu legið fyrir gagnvart þeirri ákvörðun að auka enn á ríkissjóðshallann? Hefði það haft þýðingu að vita um það sem hér er verið að upplýsa þegar hæstv. fjmrh. tók ásamt öðrum hæstv. ráðherrum ákvörðun um að auka stórkostlega, um a.m.k. milljarð ef ekki meira, ríkissjóðshallann --- að vísu ekki fullan milljarð á þessu ári en það sem eftir stendur þessa árs? Hefði þetta haft áhrif? Hefði þetta kannski opnað augu hæstv. fjmrh. fyrir því að það var verið að taka í grundvallaratriðum ranga ákvörðun við upphaf stjórnarferils þessarar ríkisstjórnar og það hefði kannski verið skynsamlegra að fylgja þeim ráðum sem Sjálfstfl. gaf við lok síðasta stjórnarsamstarfs? Þetta er mjög mikilvægt að fá fram því að það er ekki hægt fyrir hæstv. fjmrh. að halda því fram að hann hafi ekkert vitað ef upplýsingarnar frá hæstv. utanrrh. lágu fyrir eða hefðu legið fyrir við síðustu stjórnarskipti.
    Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. svari þeim fsp. sem ég hef beint til hans.