Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Tilefni þessara umræðna er, eins og fram hefur komið, sérstaklega orðaskipti sem áttu sér stað milli hæstv. fyrrv. forsrh. og núv. fjmrh. Þessi orðaskipti munu hafa átt sér stað meðan ég var fjarverandi, að hluta til í opinberum erindagjörðum. Mér er hins vegar tjáð að af hálfu fyrrv. forsrh. hafi sú spurning verið vakin upp hvort núv. fjmrh. væri að bera forvera sinn þeim sökum að hafa blekkt fyrrv. ríkisstjórn og samráðherra að því er varðar upplýsingar um raunverulega stöðu ríkisfjármála.
    Eins og fram kom áðan í máli fjmrh. taldi hann ekki tímabært á þeim stað og stundu að svara því eða verða við óskum um að Alþingi Íslendinga sé upplýst um staðreyndir þessara mála hér og nú. Að sjálfsögðu segi ég það sama. Ég hefði gjarnan kosið að fyrrv. forsrh. og samstarfsmaður minn í fyrrv. ríkisstjórn hefði haft tækifæri til að vera viðstaddur þessa umræðu.
    Áður en lengra er haldið, virðulegi forseti, leyfist mér aðeins að rifja upp til þess að setja þessi mál örlítið í samhengi? Rifjum upp að þegar fyrrv. ríkisstjórn var mynduð undir forsæti hv. þm. Þorsteins Pálssonar blasti við mikill vandi í ríkisfjármálum. Það var svo metið að halli á ríkisfjármálum væri mikill og vaxandi, allt að 3,4 milljarðar kr. á sumrinu 1987, og það þrátt fyrir þá staðreynd að undanfarin þrjú ár höfðu verið mikil uppgangsár að öllu leyti, nærri því einsdæmi í íslenskum þjóðarbúskap. Ég rifja upp að í starfssáttmála ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var lögð á það áhersla, og það var eitt af grundvallarstefnuatriðum þeirrar ríkisstjórnar, að snúa þessari þróun við og tryggja jöfnuð í ríkisfjármálum. (Gripið fram í.) Ég þakka þessa ábendingu því það var mín næsta setning. --- Í þessum starfssáttmála segir nefnilega að þetta skuli gert og það skuli stefnt að því að gera þetta á þremur árum. Þegar leið á haustið 1987 og nálgaðist þingsetningu bar okkur samstarfsmönnum í þeirri ríkisstjórn saman um að fyrirsjáanlegar breytingar, þá á byrjunarstigi, í íslenskum efnahagsmálum kölluðu á nauðsyn þess að hraða þessu og skömmu fyrir upphaf þings var ákveðið að hluta til að frumkvæði og góðum atbeina forsrh. að leggja fram fjárlagafrv. í upphafi þings sem tryggði jöfnuð í ríkisfjármálum, að vísu mjög tæpan, þegar í stað. Rökin fyrir þessu voru þau að þetta væri nauðsynlegt til að reyna að draga snarlega úr undirrót þenslu, verðbólgu, og koma í veg fyrir að slaki í ríkisfjármálum væri verðbólguvaldur og til þess að leggja áherslu á undirstöðuatriðin í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Það sakar ekki að geta þess að þetta þótti nokkuð umdeilt og stjórnarandstæðingar á þeirri tíð töldu þetta alls ekki nauðsynlegt eins og fram kom í umræðum og reyndar við afgreiðslu fjárlaga þar sem á það var bent af hálfu stjórnarandstöðunnar að hér væri farið offari, það væri allt í lagi þótt ríkissjóður væri rekinn með halla.
    Nú erum við þar stödd að við verðum að játa, ég sem fjmrh. fyrrv. ríkisstjórnar verð að játa að okkur,

mér og samstarfsmönnum mínum í fyrrv. ríkisstjórn, tókst ekki að tryggja að markmiðið um jöfnuð í ríkisfjármálum næðist í reynd. Hæstv. fjmrh. dreifði hér blaði um endurskoðaða áætlun um afkomu ríkissjóðs eftir fyrstu níu mánuði ársins. Ég hefði kannski kosið líka að hann hefði dreift öðru upplýsingaskjali, sem nú liggur fyrir í fjmrn. dagsett degi seinna, sem er endurskoðuð áætlun um afkomu ríkissjóðs til ársloka 1988. Hverjar eru tölurnar? Þær komu að vísu fram í máli fjmrh., en þær eru þessar: Fjmrn. spáir því nú að rekstrarafkoman í árslok 1988 verði neikvæð upp á 2 milljarða 981 millj. kr. og að greiðsluafkoman, þ.e. rekstrarafkoman að viðbættum lánahreyfingum og yfirdrætti Seðlabanka, verði neikvæð um 2 milljarða 556 millj. kr. Þetta þýðir að miðað við spá fjmrn., sem birt var og lögð fram í ríkisstjórn 14. júní sl. og byggð á niðurstöðutölum fjögurra fyrstu mánaða ársins, janúar, febrúar, mars, apríl, og þá um að hallinn yrði trúlega um tæplega 600 millj. kr., rekstrarafkoman er u.þ.b. 2,3 milljörðum lakari en þá var talið. Hvort tveggja, rekstrarafkoma og greiðsluafkoma í lok september eftir fyrstu níu mánuði, er enn lakara, eins og fram kom í máli fjmrh., eftir þessa fyrstu níu mánuði, en það er mat fjmrn. að þrátt fyrir upplýsingar um hríðfallandi tekjur muni afkoman í lok árs verða mun betri en hún er á þessum tímapunkti vegna hinnar árstíðabundnu sveiflu í ríkisfjármálum sem er á þá lund, eins og mönnum er kunnugt hér, að útgjöldin leggjast með meiri þunga á fyrri hluta árs en tekjurnar skila sér mun betur á seinni hluta árs, reyndar 60% tekna á seinni hluta ársins en 40% á fyrri hluta árs.
    Virðulegi forseti. Í þessu skjali 20. okt. 1988 frá fjmrn. segir svo, með leyfi forseta: ,,Meginniðurstaða þessarar endurskoðunar er sú að rekstrarafkoma ríkissjóðs á þessu ári versnar um tæplega 2,3 milljarða kr. frá júníáætlun. Skýringin er í stórum dráttum þríþætt:
    1. Minni tekjur vegna samdráttar í veltu 1800 millj. kr.
    2. Útgjaldatilefnin sem þekkt voru í júní en ákveðin til greiðslu síðar, þar á meðal t.d. niðurgreiðslur sjúkratrygginga o.fl., 400 millj. kr.
    3. Auknar vaxtagreiðslur vegna tekjusamdráttar og þar með versnandi afkomu
ríkissjóðs 600 millj. kr.``
    Reyndar þarfnast vaxtabyrði eða aukningin í vaxtaútgjöldum ríkissjóðs nánari skýringar en hér koma fram. Þar kemur margt til, ekki bara afleiðingar tveggja gengisfellinga og mun hærra vaxtastigs framan af ári en áætlað var heldur líka í annan stað að innlend lánsfjáröflun á vegum bankakerfisins upp á tæplega 1300 millj. kr. brást því sem næst algjörlega þar til kom fram í septembermánuð. Hvort tveggja þýddi þetta að lánsfjármögnun ríkissjóðs jókst verulega með yfirdrætti í Seðlabanka og vaxtaútgjöldin fóru langt umfram það sem áætlað hafði verið svo nam ekki aðeins hundruðum milljóna heldur yfir 1 milljarð kr. Að vísu standa vonir til með samkomulagi því sem tókst að gera við viðskiptabanka og

verðbréfafyrirtæki í ágústmánuði að það ástand muni snarbatna á seinni hluta ársins vegna þess að ríkissjóður hefur með þeim samningi tryggt sér tekjur í samræmi við áætlanir hvað svo sem líður niðurstöðum um kaup vegna þess að áhættan er bankakerfisins í því efni.
    Virðulegi forseti. Þetta eru staðreyndir málsins og þær staðreyndir eru óvefengjanlegar. Þær staðfesta að okkur, sem störfuðum saman í fyrrv. ríkisstjórn, tókst ekki að tryggja þann jöfnuð í ríkisfjármálum sem við svo kappsamlega leituðum eftir. Að sjálfsögðu getum við síðan spurt: Hver ber nú ábyrgð á því? Og aldrei skal það út yfir mínar varir koma sem fyrrv. fjmrh. þeirrar ríkisstjórnar að viðurkenna ekki að ég beri mína ábyrgð á því. Undan því skal ég ekki skorast. Það kann hins vegar að koma betur fram í mínu máli hér á eftir hvort fjmrh. fyrrv. ríkisstjórnar ber þá ábyrgð einn eða hvort fyrrv. samstarfsmönnum mínum í Sjálfstfl. og Framsfl. þykir tilefni til að láta sem svo sé. Ég trúi því ekki fyrir fram að það sé þeirra málflutningur.
    En áður en ég vík að því síðar er kannski ástæða til að spyrja: Hverjar eru nú helstu skýringarnar á því að þetta mistókst? Eru það eingöngu þær skýringar sem fram koma hér um mikinn samdrátt í veltu, viðskiptum og innflutningi í þjóðfélaginu sem leiðir af sér tekjufall ríkissjóðs? Nei, það er ekki einhlít skýring. Hún er að vísu veigamesta skýringin og er áminning til okkar um að ríkisfjármál beri aldrei að skoða í einangrun. Þau hljóta náttúrlega að endurspegla það ástand sem er í þjóðfélaginu, í efnahagslífinu, í atvinnulífinu. Vissulega er það svo að ríkisfjármálin eru tæki í hagstjórn og vissulega eigum við að reyna að beita því af fremsta megni til að jafna út sveiflur, vega gegn þenslu o.s.frv. En við verðum líka að horfast í augu við að þau eru líka afleiðing af ríkjandi skilyrðum í hagkerfinu og að sumu leyti er örðugt við það að ráða.
    Einn hv. þm. spurði áðan: Vissu mennirnir ekki, þeir sjálfir, hinir sömu sem stefndu að því að draga úr þenslu, að afleiðingar af gerðum þeirra voru líklegar til þess að verða slíkar? Jú, jú, menn vissu það, vonuðu að það tækist að draga úr þenslu. Ég vil samt sem áður benda á að allt fram á seinustu stund samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar virtist lítt draga úr þenslu. Hvað er til marks um það? Ég bið menn að rifja upp fyrir sér spár Þjóðhagsstofnunar um viðskiptahalla, 4 1 / 2 --5% af þjóðarframleiðslu talið á bilinu frá 11 upp í 13 milljarða kr. Ég bið menn að athuga að þrátt fyrir frystingu launa eftir maíaðgerðirnar var spá Þjóðhagsstofnunar og annarra sú að mjög óverulega drægi úr kaupmætti, aðeins reyndar um 1% á næstu mánuðum, þannig að flest virtist benda til þess að kaupgeta, neysla breyttist lítið og innflutningur, sbr. viðskiptahallann, yrði enn mikill, reyndar of mikill.
    Á það er svo að líta að upplýsingar fjmrn. um þessa þætti, þ.e. um veltu, viðskipti og tekjur af óbeinum sköttum, tollum, söluskatti, vörugjaldi og aðflutningsgjöldum, berast fjmrn. því miður, og það er

staðreynd, með tveggja mánaða millibili. Ástæðan er sú að menn fá þessar upplýsingar í mánaðarlok eftir söluskattsskil, en það eru söluskattsskil veltu mánaðarins á undan. M.ö.o. þær upplýsingar sem við höfðum í höndunum í september eru upplýsingar sem eru byggðar á staðreyndum mála í júlí. Þetta skyldu menn hafa í huga.
    Við erum að leita skýringa til að draga af því lærdóma sem að gagni mættu koma. Fallið í tekjum er meginskýringin á því hvernig fór, það er rétt. En við skulum líka játa að að sumu leyti er hér um að ræða afleiðingar tveggja efnahagsaðgerða sem fyrrv. ríkisstjórn tók ákvarðanir um, þ.e. aðgerða í febrúar og aðgerða í maí. Í báðum tilfellum var um að ræða gengisfellingar sem því miður reyndust ekki duga til að bæta hag atvinnuveganna, fyrirtækjanna í útflutningsgreinunum en báðar áttu það sammerkt að auka byrðar ríkissjóðs og kollvarpa forsendum fjárlaga, bæði vegna aukinnar verðbólgu, vegna verulegrar hækkunar vaxta og vegna beinna útgjalda sem þetta hafði í för með sér fyrir ríkissjóð.
    Virðulegi forseti. Við skulum aðeins líta á hvaða ákvarðanir það voru sem teknar voru af samstarfsaðilunum í fyrri ríkisstjórn og höfðu þau áhrif bæði á tekju- og gjaldahlið að draga úr eða veikja stöðu ríkisfjármála.
    1. Á tekjuhlið. Með febrúaraðgerðunum var ákveðið að fella niður álagningu launaskatts á útflutningsgreinar sem kostaði ríkissjóð umtalsverðar tekjur. Á sama tíma var ákveðið að stórauka sem nam nokkrum hundruðum millj. kr. endurgreiðslur uppsafnaðs söluskatts til fyrirtækja í sjávarútvegi sem varð
líka til þess að veikja stöðu ríkissjóðs. Í maí eftir 10% gengisfellingu blasti það við að verðlags- og launaforsendur fjárlaga höfðu raskast mjög verulega og þessar tvær gengisfellingar höfðu reyndar þau áhrif á ríkisfjárlagadæmið að lækkun tekna var umfram lækkun gjalda alveg tvímælalaust eins og seinna kom heldur betur á daginn.
    2. En það voru fleiri ákvarðanir teknar. 1. janúar var ákveðið að hækka útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna umfram verðlagsforsendur og það var ákveðið að gera aftur 1. júní. Þetta jók útgjöld ríkissjóðs umfram heimildir fjárlaga og umfram verðlagsþróun um 220 millj. kr.
    3. Það kom fljótlega á daginn að útgjöld vegna sjúkratrygginga voru mjög vanmetin. Í fyrstu áætlunum fjmrn. á fyrri hluta ársins voru þau metin 80 millj. kr. Nú er komið á daginn að vegna vanmats á þessum útgjaldaþætti af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins hvað varðar einkum endurgreiðslur sveitarfélaga hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um yfir 200 millj. kr.
    Við gengisfellinguna í maí þótti ófært annað en að auka útgjöld til Lánasjóðs ísl. námsmanna af þeirri einföldu ástæðu að lántakendur þess sjóðs eru háðir gengisskráningu, dvelja erlendis. Þau útgjöld umfram heimildir fjárlaga voru 132 millj. kr.
    Ég nefni enn eitt dæmið, það er sennilega fimmta

dæmið, um aukin útgjöld umfram heimildir fjárlaga sem leiddi af þessari þróun vegna ríkisábyrgða á launum sem er lögbundin, en menn hafa tekið eftir því í þjóðfélaginu: samdráttur, gjaldþrot, lokun fyrirtækja. Aukningin í ríkisábyrgð á launum hefur numið verulegum upphæðum þó að í þeim tölum sem ég hafði seinast hafi þær ekki verið hærri en 60 millj. kr.
    Muna menn eftir því að það hafi nokkurn tíma á liðnu sumri komið til nokkurra deilna milli fjmrh. þáverandi og samstarfsaðila hans, einkum framsóknarmanna, um útgjöld vegna landbúnaðarmála sem að mestu leyti eru lögbundin? Kannski rifjast það upp fyrir einhverjum en það sem deilan stóð þá um var að að kröfu samstarfsflokka okkar alþýðuflokksmanna var þess krafist að útgjöld vegna niðurgreiðslna yrðu aukin til þess að það yrði gersamlega tryggt að söluskattsálagningin á matvæli yrði ekki til að hækka verð þrátt fyrir afleiðingar gengisfellinga. Þetta þýddi að niðurgreiðslur umfram heimildir fjárlaga hafa aukist alls um 350 millj. kr. eingöngu vegna hefðbundinna búvara en einnig vegna niðurgreiðslna á ull og reyndar má bæta við 40 millj. auknum útgjöldum, ófyrirséðum, til viðbótar öðrum vegna riðuveikifjár.
    Þá er að geta þess að á hverjum tíma eru teknar ákvarðanir um aukafjárveitingar. Þær koma stundum til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Aukafjárveitingar fyrstu níu mánuði ársins voru veittar alls að upphæð 511 millj. 346 þús. kr. Hvað er um það að segja? Er þetta ekki bruðlið og sólundin í hæstv. fjmrh.? Þetta mun að vísu vera eitthvert lægsta hlutfall aukafjárveitinga sem um getur. Á fyrri hluta árs 1987, og nú treysti ég minni mínu, voru aukafjárveitingar komnar upp í 650 millj. í fjárlögum sem voru með miklu lægri niðurstöðutölur. Ég held að ég geti fullyrt að þetta sé einhver lægsta upphæð aukafjárveitinga sem hlutfall af niðurstöðutölum fjárlaga sem um getur. En hvað er að segja um þessar ákvarðanir?
    Helmingurinn af þessum útgjöldum, tæplega þó, 233 millj., er uppsafnaður vandi sjúkrahúsa frá tíð ríkisstjórnarinnar þar á undan sem varð að mæta, bakreikningar frá fyrri tíð. En 77 millj. 547 þús. eru vegna sameiginlegra ríkisstjórnarákvarðana. En um aukafjárveitingar má það annars segja að gangur þeirra mála er sá að það eru yfirleitt svokallaðir fagráðherrar sem sækja á um aukafjárveitingar til fjmrh., fjmrn. og samstarfsnefndar um ríkisfjármál þannig að hér er að verulegu leyti um að ræða óskir eða kröfur um útgjöld frá samstarfsráðherrum fjmrh. og ákvarðanir ýmist um það teknar í samstarfi þeirra eða við ríkisstjórnarborð eða, eins og hér kemur fram, helmingurinn bakreikningar sem ekki er unnt annað en að borga en eru frá fyrri tíð.
    Það er kannski ástæða til líka að líta á það að enginn nýr fjmrh., því miður, tekur við hreinu borði. Það gerði ég ekki og því miður gerði eftirmaður minn það ekki. Það er einn þáttur í því að veikja stöðu ríkisfjármála, og þá ekki endilega í rekstrarafkomu heldur í greiðsluafkomu og vaxtabyrði og í lánastöðu,

þegar berast í stríðum straumum aftan úr fortíðinni fallnir víxlar, bakreikningar sem menn vissu ekki af. Hvað mun það kosta ríkissjóð um það er lýkur að hafa orðið að yfirtaka gjaldþrotafyrirtæki, pólitískt gæluverkefni sem kennt var við salt og sjóefnavinnslu og kostaði ríkissjóð yfirtöku á um 550 millj. kr.? Hvað mun það kosta ríkissjóð um það er lýkur að hafa þurft að yfirtaka um 10 milljarða á undanförnum árum af orkugeiranum í landinu og fjármagna það? Hvað mun það kosta ríkissjóð um það er lýkur að hafa þurft að taka á sig í formi erlendra lána ófyrirséð mörg hundruð millj. kr. vegna flugstöðvar? Hvað munu þeir kosta ríkissjóð þegar allt kemur saman, bakreikningarnir sem þannig var vísað inn um dyrnar? Hvað kostar það ríkissjóð um það er lýkur þegar vísað er þangað bakreikningnum vegna langs hala af hallarekstri sjúkrahúsakerfisins upp á mörg hundruð milljónir? Munið þið eftir Landakotsdeilunni í sumar?
    Loks er eins að geta. Þegar ég nú hef gert grein fyrir því hverjar eru helstu skýringarnar á því að fyrrv. ríkisstjórn, okkur sem þar stóðum í samstarfi tókst ekki að tryggja jöfnuð í ríkisfjármálum, fallið í tekjunum, útgjaldaákvarðanir teknar sameiginlega af ríkisstjórn fyrir mestan part skulum við segja, þá er eftir að bæta einu við og það er þetta:
    Það er laukrétt, sem kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar, að enn var aukið á ríkissjóðshallann með fyrstu ákvörðunum nýrrar ríkisstjórnar. Það er laukrétt. Og sú útgjaldabyrði er metin af fjmrn. núna, þ.e. innan ársins 1988, upp á 515 millj. kr. Og hvað fólst í því? Í því fólust enn auknar niðurgreiðslur á búvörum upp á 170 millj. kr., niðurgreiðslur á ull upp á 20 millj. á þessu ári en áframhaldandi á næsta, hækkun tekjutryggingar bótaþega almannatrygginga upp á 35 millj. á þessu ári og mun meira á næsta ári, til skuldbreytingasjóðs heimilanna 135 millj. kr. í heild, en ég kann ekki að fullyrða hversu stór hluti af því kemur til útgjalda á þessu ári. Endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts til fiskeldisfyrirtækja og loðdýra, 30 millj. á þessu ári. Alls 515 millj. Fyrir utan það að útgjöld vegna vaxtagreiðslna ríkissjóðs hefðu enn aukist þegar líða tók árið, m.a. vegna þess hvernig boginn var spenntur um of, og lánsfjáráætlun, sem lögð var fyrir þetta hv. þing fyrir jól, var m.a. að verulegu leyti limlest vegna þess að boginn var spenntur allt of hátt í lántökum og ríkissjóður neyddur til lántöku langt umfram það sem skynsamlegt var. Af hverjum? Af meiri hluta hv. Alþingis.
    Virðulegi forseti. Ég vona að menn hafi biðlund með mér þótt ég vilji reyna að gera hreint fyrir mínum dyrum. Mér er þetta mikið alvörumál. Ég hef rakið þessar staðreyndir, ekki eftir blaðaúrklippum heldur eftir opinberum gögnum fjmrn. sem voru í höndum ekki bara mínum heldur samráðherra minna, samstarfsmanna minna í ríkisfjármálanefnd o.s.frv. Ef það er rétt hermt að fyrrv. samstarfsmaður minn, fyrrv. forsrh. Þorsteinn Pálsson, hafi gert því skóna að ég hafi í starfi mínu sem fjmrh. blekkt hann eða samráðherra mína um stöðu ríkisfjármála, þá þykir

mér það mjög miður. En reyndar trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því og heyri það upp í opið geðið á mér að því sé haldið fram. En til þess að taka af tvímæli um það hef ég tekið saman í fórum mínum þau gögn sem lögð voru á borð ríkisstjórnar, ríkisfjármálanefndar um þróun ríkisfjármála frá því að fyrsta spá var lögð fram á ríkisstjórnarfundi 14. júní og alveg fram til loka september. ( FrS: Því var haldið fram, ræðumaður, að núv. hæstv. fjmrh. hefði gert því skóna að ræðumaður hefði blekkt fyrrv. samstarfsmenn sína.) Já, ég var ekki viðstaddur þessa umræðu og er ekki til frásagnar um það. En hvað svo sem líður þeim orðaskiptum vil ég að það komi hreint og skilmerkilega fram hvaða upplýsingar menn höfðu í höndunum.
    1. Fyrstu gögn um þetta mál eru lögð fram á borð ríkisstjórnar 14. júní. Það er endurskoðuð áætlun um afkomu ríkissjóðs árið 1988. Samkvæmt því skjali er gert ráð fyrir því að halli á ríkissjóði --- og ég tek fram að þetta er eftir upplýsingar um fyrstu fjóra mánuði árins --- muni nema 480 millj. kr. Þó er tekið fram að vitað sé um útgjaldatilefni sem ekki eru komin til greiðslu og reyndar um kröfur sem hreyft hafði verið um aukin útgjöld ríkissjóðs þannig að af texta máls má lesa að það er verið að gera því skóna, ef slíkar ákvarðanir yrðu teknar, að halli ríkissjóðs yrði ekki undir 700 millj. kr. Þann 18. júlí er fundargerð fyrsta fundar ríkisfjármálanefndar um ríkisfjármál þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Fjármálaráðherra setti fundinn og fór yfir þau gögn sem lögð voru fram á fundinum. Sagði hann að ríkissjóður stefndi í halla upp á 1 milljarð á árinu 1988 með þeim málum sem nú væri kunnugt um, t.d. útgjöld vegna landbúnaðarmála og vegna Landakotsspítala, bakreikningar vegna löggæslu, sér í lagi í Reykjavík, o.s.frv.``
    Í fréttatilkynningu frá fjmrn. 21. júlí er vísað til spár fjmrn. um 700 millj. kr. halla sem stefndi í í árslok 1988, en jafnframt gerð grein fyrir því að ekki hafi enn verið greidd útgjöld sem hins vegar blasi við, kröfur um auknar niðurgreiðslur, þá upp á 200 millj. kr., og ýmsir aðrir liðir upp á 250 millj. kr., m.ö.o. það stefni í halla upp á 1150 millj. kr. --- Þetta er fréttatilkynning birt í blöðum 21. júlí á liðnu sumri.
    Fjórða skjalið er minnisblað til forsrh. dags. 20. ágúst, afhent forsrh. og eftir mínu besta minni dreift á ríkisstjórnarfundi, en það fullyrði ég ekki. Þetta eru athugasemdir frá fjmrh. vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga á fyrri helmingi ársins 1988. Þar er enn vikið að Upphaflegri spá fjmrn. frá 14. júní, byggðri á talnaefni fjögurra fyrstu mánaða, um að það stefndi í halla upp á 700 millj. kr., en jafnframt vakin athygli á því að vegna útgjaldakrafna vegna aukinna vaxta- og geymslugjalda, útflutningsbóta o.s.frv. séu á borðinu kröfur upp á 550 millj. kr. þar í viðbót.
    Jafnframt er gerð grein fyrir mati Ríkisendurskoðunar á þessari þróun mála þar sem því er haldið fram að útgjaldatilefni, alls að 1600 millj., blasi við, en þó þess að geta að auknar tekjur,

aðallega vegna beinna skatta, upp á 600 millj. kr. séu einnig kortlagðar þannig að þar er verið að spá halla upp á 700
millj. kr. frá fyrri tíð og 1 millj. í viðbót, þ.e. upp á 1,7 milljarða. Í þessu minnisblaði til forsrh. er um þetta fjallað efnislega á þá leið að ljóst sé að í skýrslu Ríkisendurskoðunar séu réttar ábendingar um mjög aukin fyrirsjáanleg útgjöld vegna aukinna vaxtagjalda --- þó að ég hafi þá vefengt að þau yrðu 600 millj. kr. Ljóst sé einnig að útgjöld vegna sjúkratrygginga hafi stóraukist sem og niðurgreiðslur, þannig að mitt mat er að þarna hafi fjmrn. viðurkennt að stefndi fyrirsjáanlega í halla upp á 1250 millj. kr.
    Fimmta skjalið sem hér er á borðum er frá greiðslu- og eignadeild fjmrn. um afkomu ríkissjóðs og afhent 2. september ríkisfjármálanefndarmönnum. Í því skjali kemur fram að það stefni að óbreyttu í halla á ríkissjóði upp á 1420 millj. kr. og sett upp svona í þessum dálki:
    Halli samkvæmt mati fjmrn. frá því í júní upp á 700 millj. kr., aukin útgjöld vegna vaxta og geymslugjalda upp á 180 millj. kr., aukin útgjöld vegna sjúkratrygginga 140 millj. kr., reyndust síðan greinilega verða meiri, aukin vaxtaútgjöld sem stafa aðallega af afleiðingum gengisfellingarinnar í maí, þ.e. hærra vaxtastigi og reyndar meiri yfirdrætti vegna þess að innlend lánsfjáröflun brást, upp á 450 millj. og síðan ýmislegt, þar á meðal flokkaðar ýmsar aukafjárveitingar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar, upp á 250 millj. kr. Hins vegar þar á móti auknar tekjur, en heildartalan 1420 millj. kr.
    Þetta eru þær upplýsingar, virðulegi forseti, sem samstarfsmenn mínir fengu úr fjmrn., samstarfsmenn mínir í ríkisstjórn, samstarfsmenn mínir í ríkisfjármálanefnd og birtar jafnframt að hluta til voru í opinberum fréttatilkynningum frá ráðuneytinu. Það er þess vegna rangt ef því er haldið fram að samstarfsmenn mínir hafi aldrei fengið aðrar upplýsingar frá mér en þær að það stefndi í 700 millj. kr. halla.
    Ég segi: Rúmlega 1400 millj. kr. halli var í þeim seinustu gögnum sem frá okkur bárust um málið og síðan er þess að geta að samkvæmt ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar var bætt við þetta 515 millj. kr. þannig að í lok september er orðið ljóst að það stefndi í 1915 millj. kr. halla.
    Spurningin er hins vegar sú: Vissum við ekki að hann yrði meiri? Nei, við vissum það ekki. Við vissum að það stefndi í samdrátt í þjóðfélaginu, en við vorum með tveggja mánaða gamlar upplýsingar frá því í júlí um þær tekjur sem söluskattur, vörugjöld og aðflutningsgjöld skiluðu þannig að við fórum varlega í að fullyrða í hvað stefndi, en við gerðum okkur grein fyrir því að hallinn var að nálgast 2 milljarða í lok september. Því má síðan bæta við að við gátum svo sem búist við því að samdrátturinn yrði meiri og tekjufallið sem því svaraði meira, sem síðar kom á daginn.
    Þar með held ég að ég hafi gert grein fyrir því hvaða upplýsingar lágu á borðum samstarfsmanna

minna og eins hvaða upplýsingar lágu fyrir í fjmrn. þegar eftirmaður minn kom þar til starfa þannig að það fer ekki á milli mála að menn hafi þar vitað um stöðuna þegar ákvarðanir voru teknar um að auka á útgjöld ríkissjóðs frekar vegna ástandsins í efnahags- og atvinnulífi sem við blasti.
    Ég vil láta þess getið vegna tilvitnunar hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar í blaðaviðtal í Alþb. einhvern tímann á miðju sumri þar sem ég átti í útistöðum við Þjóðhagsstofnun: Um hvað stóð sú deila? Við vorum ekki að rengja tölur út af fyrir sig. Það var a.m.k. algert aukaatriði málsins. Það sem mér þótti óviðunandi af hálfu opinberrar stofnunar eins og Þjóðhagsstofnunar var þetta: að Þjóðhagsstofnun lét eins og það hefðu engar áætlanir verið gerðar af hálfu fjmrn. um að halli yrði fram eftir ári. Ég er að vísa til árstíðasveiflu. Þar sem Þjóðhagsstofnun spáði því að hallinn væri 3,6 millj. kr. á miðju ári lét hún þess hvergi getið í sínum upplýsingum að samkvæmt greiðsluáætlun ráðuneytisins um tekjur og gjöld var ráð fyrir því gert á þeim tíma, um mitt ár, að hallinn væri 2,9 milljarðar. Ég taldi það óviðunandi vinnubrögð af opinberri stofnun þá og tel það enn að láta slíkt koma fram án eðlilegra hlutlægra skýringa. Þess vegna kalla ég þessar upplýsingar villandi fyrir almenning í landinu og þá sem þurftu að nota upplýsingarnar.
    Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á því að þessar útskýringar mínar hafa kannski tekið lengri tíma en ég sjálfur ætlaði, en ég vil nota tækifærið að gefnu tilefni til að taka eindregið undir með hv. 1. þm. Reykn. Matthíasi Á. Mathiesen sem hefur skrifað virðulegum forseta Sþ. og farið þess á leit að deilumál af þessu tagi, um hverjar séu staðreyndir mála, hvaða upplýsingar hafi legið fyrir, verði leyst með hlutlægum hætti af stofnun sem Alþingi sjálft stýrir. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins hefur hv. þm. óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:
    Í fyrsta lagi: Hvaða tekjustofnar hafi gefið minni tekjur en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir og orsakir þeirra breytinga? Það hefur að nokkru leyti komið fram í mínu máli, en sjálfsagt að fá það staðfest.
    Í annan stað: Hvaða útgjaldaliðir hafi helst hækkað frá áætlun fjárlaga og gerð grein fyrir ástæðum þeirra hækkana. Ég hef nefnt nokkuð mörg ærin hækkunartilefni, en sjálfsagt væri rétt að kanna frekar hverjir hafi einkum
beitt sér fyrir kröfum um þær útgjaldahækkanir.
    Í þriðja lagi er beðið um yfirlit yfir aukafjárveitingar samþykktar til septemberloka. Það yfirlit hef ég að verulegu leyti gefið nú þegar og þar með þær upplýsingar að helmingurinn er vegna hallareksturs frá tíð fyrrv. ríkisstjórnar þar á undan, en að öðru leyti stærsti þátturinn ákvarðanir samstarfsmanna minna í ríkisstjórn um slíkar aukafjárveitingar.
    Í fjórða lagi er beðið um yfirlit yfir starfsmannahald hjá ráðuneytum. Það liggur fyrir og er fljótgert. Þar er margt fróðlegt að finna og er sjálfsagt að draga það fram í dagsljósið umfram það

sem þegar hefur verið gert.
    Í fimmta lagi hvaða áhrif efnahagsaðgerðir núv. ríkissjórnar hafi á afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Að því hef ég vikið eftir heimildum fjmrn., en það er alveg sjálfsagður hlutur og eðlilegur, nú þegar Alþingi hefur yfir Ríkisendurskoðun að ráða, að hún vinni þetta verk þannig að við þurfum ekki að eyða frekari tíma í að deila um staðreyndir, þær liggi fyrir. En þá skiptir líka mjög miklu máli að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar séu með þeim hætti að þau verði hafin yfir vafa. (EgJ: Er einhver vafi á því?) Um það skulum við ekkert fullyrða fyrir fram, hv. þm.
    Hvað getum við lært af þessari reynslu, virðulegi forseti? Þeirri spurningu beini ég til sjálfs mín, samstarfsmanna minna, fyrrv. og núv.? Þegar ég lít til baka tel ég að það hafi verið mistök, sennilega veikleiki, að hafa ekki bundið svo um hnútana við framlagningu fjárlagafrv. 1987 að hausti við framlagningu míns fyrsta fjárlagafrv., að gert yrði ráð fyrir allverulegum tekjuafgangi í ljósi reynslunnar af því að í meðförum Alþingis var enn verulega aukið á ríkisútgjöld að frumkvæði sameiginlega bæði stjórnarþingmanna og stjórnarandstæðinga umfram það sem skynsamlegt hefði verið að gera. Þegar ég lít til baka tel ég að það hafi verið mjög ógæfusamlegt hvaða meðferð upphaflegt lánsfjárlagafrv. fékk á hinu háa Alþingi, en við umfjöllun Alþingis var stórlega aukið á lántökur ríkissjóðs og teflt þannig á tæpasta vað. Það hefði ekki átt að gera. Í þriðja lagi: Þegar ég hugsa fram í tímann dreg ég þann lærdóm af þessu að nú væri mjög skynsamlegt fyrir alþm., hvar í flokki sem þeir standa, að leitast við að gæta hófs í tillögum um aukin útgjöld ríkissjóðs við afgreiðslu fjárlaga nú og að slá skjaldborg um yfirlýstan vilja eftirmanns míns, hæstv. fjmrh., um það að afgreiða fjárlög með allverulegum tekjuafgangi til þess að hafa eitthvert borð fyrir báru til þess að mæta ófyrirséðum hlutum, til þess m.a. að geta mætt því ef samdráttareinkenni í okkar þjóðfélagi halda áfram að fara versnandi, til þess að geta gripið inn í án þess að hleypa verðbólguöldu af stað með því að hafa ríkisbúskapinn neikvæðan.
    Það er lærdómsríkt að gegna starfi fjmrh. þótt það hafi í mínu tilfelli verið í stuttan tíma, mjög holl lexía fyrir stjórnmálamann. Ég hef lært mikið af því og legg auðvitað mín störf í ykkar og annarra dóm um það hvort mér hafi þar alvarlega mistekist. Ef menn vilja spyrja um ábyrgðina endurtek ég það: Ég skorast ekki undan henni fyrir mitt leyti. En ég mundi draga af þessari reynslu margvíslegar ályktanir.
    Ég segi: Það voru skelfileg mistök af samstarfsflokkum í fyrrv. ríkisstjórn að fylgja ekki fram stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um það að afnema lögbundna sjálfvirkni í útgjaldaaukningu ríkisins. Það voru mikil mistök þegar gerðar voru tilraunir til þess af hálfu fjmrh. að draga úr sjálfvirkri útgjaldaaukningu landbúnaðarkerfisins eða draga úr útgjöldum vegna stofnanakerfis þess að það skuli hafa verið eyðilagt af meiri hluta þings.
    Það nær ekki nokkurri átt, það nær ekki nokkurri

einustu átt í þessu dvergsmáa þjóðfélagi, þar sem þeir sem byrðarnar eiga að bera eru svona fáir, að halda áfram að fjölga opinberum starfsmönnum tífalt á við fjölgun á almennum vinnumarkaði frá ári til árs. Það nær engri átt að magnaukningin í ríkisútgjöldum samkvæmt sjálfvirkri löggjöf Alþingis sé upp á 3,5--4% á ári. Það nær engri átt! Ég harma mjög hvernig fór um tilraunir mínar til að fá flutt lagafrv. um að ýmsar þjónustu- og rannsóknastofnanir atvinnuvega, sem við vildum láta flytja frv. um og höfðum reyndar tilbúið frv. um í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, yrðu gerðar að sjálfstæðum stofnunum, starfsmenn þeirra yrðu ekki lengur ríkisstarfsmenn og forstöðumenn þeirra yrðu ábyrgir fyrir fjárhag þessara stofnana. Ég harma það mjög að menn skuli hafa brostið kjark til þess að fylgja því fram. Ég harma mjög að fyrrv. ríkisstjórn skuli ekki hafa fylgt fram af einurð og djörfung frv. sem lá fyrir um að afnema í stórum stíl ríkisábyrgðir fjárfestingarlánasjóða vegna lánveitinga til einkaaðila í ljósi þess að ríkisábyrgðir í heild, sem ríkið sameiginlega ber, af skuldum annarra eru að nema á annað hundrað milljarða kr. og vanskil vegna ríkisábyrgða, sem fara í gegnum opinbera og hálfopinbera sjóði til einkaaðila, eru farnar að nema hundruðum milljóna kr. á ári. Ég harma það mjög að það skuli ekki hafa tekist samstaða um að fylgja fram svo sjálfsögðum lagabreytingum. Ég harma mjög að samstarfsmaður minn í Framsfl., hæstv. fyrrv. landbrh., skuli ekki hafa fylgt eftir því, sem hann gaf mér loforð um, að koma með lagafrv. um
breytingu á jarðræktarlögum sem með sjálfvirkum hætti utan fjárlaga kveða á um hundraða milljóna kr. útgjöld sem ákvarðanir eru teknar um af hverjum og einum en síðan stendur fjmrh. frammi fyrir bakreikningi og á engra kosta völ annarra en að borga. Þetta eru ekki hafandi vinnubrögð við fjárlagasmíð eða fjárlagastjórn. Það eru engin vinnubrögð og ekkert vit ef það er rétt að 85% af ríkisútgjöldunum séu bundin af hv. alþm. með sjálfvirkum hætti í lagabálka án þess að taka nokkurt tillit til þess hvað gerist í hinum harða veruleika, hvort við erum að fara í gegnum kreppu eða í bullandi uppgangi eða hvað gerist á erlendum mörkuðum eða hvernig aflast því við erum tæknivætt veiðimannasamfélag og verðum að geta brugðist við því hvernig viðrar og hvernig árar og hvernig aflast og hvernig kaupin gerast á eyrinni á erlendum mörkuðum. Sjálfvirkni af þessu tagi er vitlaus og menn þurfa að láta sér lærast það. Ég hef lært mína lexíu úr hörðum skóla.
    Við höfum ekki efni á sjálfvirkri löggjöf um landbúnað á Íslandi eins og hún blasir við núna. Við höfum bara ekkert efni á þessu. Hvenær ætlar meiri hluti Alþingis Íslendinga að láta sér það skiljast? Við höfum heldur ekki efni á því að reka örlátasta niðurgreiddasta námslánakerfi sem nokkur þjóð á byggðu bóli rekur, miklu betra, gjafmildara og örlátara en auðugustu þjóðir heims, eins og Svíar, Svisslendingar eða Bandaríkjamenn, telja sig hafa efni

á. Við höfum ekki efni á því að borga læknum 12 millj. kr. á ári og rannsóknarlæknum 18 millj. kr. á ári. Við höfum ekki efni á því. Við höfum ekki efni á því að reka þrjú eða fjögur hátæknisjúkrahús í þessu dvergríki. Við höfum ekki efni á því á sama tíma og okkur vantar fyrst og fremst aðhlynningar- og umönnunarstofnanir aldraðra. Við verðum einhvern tímann að láta af þessum flottræfilshætti og þessari firringu frá öllum veruleika um að halda að við séum 5 eða 10 milljóna manna þjóðfélag. Við verðum einhvern tímann að horfast í augu við veruleikann um það hvað það er sem við höfum efni á og hvað það er sem við höfum ekki efni á og hætta þessu pólitíska snakki úr draumaveröld, hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu, um að við getum allt og höfum efni á öllu og erum svo bónbjargarmenn á framfæri erlendra fjármagnseigenda.
    Við höfum ekki efni á því að láta viðgangast þann skattamóral að best efnuðustu hópar þjóðfélagsins líti á það sem afrek að koma sér með löglegum hætti undan því að leggja fram sinn skerf til að halda uppi siðmenntuðu samfélagi á Íslandi. Við höfum ekki efni á því. Við höfum ekki efni á fleiri pólitískum gæluverkefnum, hvort heldur það heita flugstöðvar, saltverksmiðjur eða hvað það er. Ég held að hv. Alþingi Íslendinga ætti að líta í eigin barm og reyna að sýna þjóðinni gott fordæmi um ráðdeild og sparsemi og aðhaldssemi í meðferð á opinberu fé.
    Við höfum ekki efni á því að reka tólf háskóla á Íslandi í 250 þúsund manna samfélagi. Við höfum ekki efni á því. Það er af og frá. Ég er sammála því þegar sjálfstæðismenn segja við mig: Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt í skattheimtu. Það eru takmörk fyrir því. Og ég er sammála því sem hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson sagði í ræðu sinni hér áðan: Það hlýtur að verða að gera kröfu til þess af núverandi ríkisstjórn --- og vonandi bregst hún betur við þeim kröfum og stendur betur undir þeim --- að það sé kominn tími til að fara að skera niður ríkisútgjöld, koma í veg fyrir síþensluna, 700 ný störf á ári, óheimiluð stöðugildi með verkefnaráðnu fólki og yfirvinnu sem samsvarar 1000 mönnum, 1000 einstaklingum. Við höfum ekki efni á því.
    Og að lokum, virðulegur forseti, spyr ég einkum og sér í lagi hv. þm. sem talaði fyrir hönd Kvennalistans og aðra sem voru í stjórnarandstöðu þegar skattkerfisbreytingin mikla var keyrð í gegn sem verður helsti minnisvarði fyrrv. ríkisstjórnar. Ein spurning: Þið sem lögðust gegn henni, þið sem tölduð enga nauðsyn bera til þess að leggja fram fjárlagafrv. með tekjuafgangi, hvar haldið þið að ríkisfjármálin á Íslandi hefðu verið stödd núna ef þau lög hefðu ekki náð fram að ganga? Hver haldið þið að hallinn hefði orðið á ríkisbúskapnum á Íslandi ef þau lög hefðu ekki náð fram að ganga, ef það hefði átt að byggja á lögum um tekjustofna frá fyrri tíð? (FrS: Er ekki rétt að spyrja Alþb. að því líka?) Jú, reyndar. --- Það er sagt að hver þjóð fái þá stjórnmálamenn og þær ríkisstjórnir sem hún á skilið.
    Lokaorð mín skulu verða þau að ef ég ætti af öllu

lítillæti og hógværð úr þeim harða skóla sem ég hef gegnt að gefa ráð af minni reynslu til eftirmanns míns, þá er það þetta: Vertu enn þá harðari en ég. Vertu miklu harðari en ég gagnvart þeim samstarfsmönnum þínum sem ætla að stilla þér upp við vegg með eilífri kröfugerð um sjálfvirka útgjaldaaukningu trúandi því að þeir lifi í einhverri draumaveröld og það komi aldrei að skuldadögum.