Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér fer fram um fjármál ríkisins er næsta óvenjuleg á þessum tíma. Hér fer fram umræða utan dagskrár um þetta efni með tilliti til þess að fjárlagafrv. er ekki komið fram og í tilefni af því að yfirlýsingar hafa gengið frá hæstv. fjmrh. sem hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl. og fyrrv. forsrh., sá sig knúinn til að gera athugasemdir við utan dagskrár í fyrri viku.
    Ég tel þessa umræðu þýðingarmikla og ég undrast það nokkuð hversu lítinn áhuga hv. alþm. sýna þessari umræðu vegna þess hve fásótt er í þingsalnum. Hér er einungis viðstaddur einn hæstv. ráðherra, þ.e. hæstv. fjmrh. Sá hæstv. ráðherra sem athyglin hlýtur einkum að beinast að, hæstv. fyrrv. fjmrh., hefur séð sig knúinn til þess að ganga til annarra starfa. Ég hef einnig veitt því athygli að einn stjórnarflokkurinn hefur verið hér fáskipaður og einungis setið hér inni einn til tveir varaþm. Framsfl. Mér sýnist að stjórnarflokkunum, þeim sem nú fara með völd í landinu, beri skylda til að fylgjast með umræðum um þessi mál og taka þátt í þeim eftir því sem ástæða þykir til eða þörf krefur. E.t.v. hafa verið mistök hjá hæstv. forseta, þó að ég sé ekki að kasta steinum að henni, að hafa ekki þessa umræðu fyrr að deginum en nú er. Nóg um þetta. Ég vil aðeins ljúka þessum inngangi ræðunnar með því þó að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það yfirlit sem hann hefur gefið fyrir sitt leyti og það mun svo fylgja í kjölfarið að Ríkisendurskoðun mun leggja fram skýrslu sem beðið hefur verið um af hv. 1. þm. Reykn. sem jafnframt er nauðsynlegt.
    Það kemur fram að staða ríkisfjármála nú er alvarleg, mun alvarlegri en áður hefur komið fram. Fram kom hjá hæstv. fjmrh. að fyrstu níu mánuði þessa árs er halli á ríkisfjármálum yfir 5,2 milljarða kr. og líkur benda til þess miðað við þau gögn eða áætlanir sem nú liggja fyrir að halli í árslok á ríkisrekstrinum í A-hluta ríkissjóðs verði um 3 milljarðar kr. Þetta er sannarlega alvarleg staða og þess virði að vera rædd.
    Að sjálfsögðu er það svo eins og hér hefur komið fram að hæstv. fjmrh. vill gjarnan að það komi í ljós hver staðan var í þessum málum við stjórnarskipti. Það er ekkert óeðlilegt. Þannig hefur farið löngum þegar ríkisstjórnir koma og ríkisstjórnir fara að sá sem við tekur vill gjarnan að það sé sem greinilegast gerð grein fyrir því hvernig staðan er þegar hann tekur við. En hluti af þessari niðurstöðu, sem hér hefur verið skýrð, er þó vitaskuld vegna ákvarðana núv. hæstv. ríkisstjórnar sem hér mun og verða gerð grein fyrir ítarlegar þegar til að mynda skýrsla Ríkisendurskoðunar um þessi efni verður lögð fram.
    Þessi staða er sem sé mjög alvarleg. Ég ætla ekki að fjalla hér um ræðu hæstv. fjmrh. í mörgum orðum, en hér flutti einnig fyrirrennari hans í embætti, hæstv. núv. utanrrh., sína varnarræðu. Ég tók eftir því --- og nú þykir mér stórum verra að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna --- að hæstv. ráðherra var óvenjudaufur í málflutningi. Hann var hvergi nærri jafndjarflegur í máli og til yfirlýsinga sinna eins og

honum er tamt. Hann hefur e.t.v. fundið að hann ætti býsna erfiða stöðu að verja. Það var helst í lok ræðu sinnar sem hann tók að sækja í sig veðrið.
    Ein átakanlegasta spurning sem hæstv. utanrrh. varpaði fram var sú hvort hann hefði gerst sekur um að blekkja samstarfsmenn sína varðandi stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármála á þessu ári. Hann taldi svo ekki vera. En staðreyndir málsins eru hins vegar þær að þegar opinberar stofnanir, hlutlausar, opinberar og virtar stofnanir, bæði Þjóðhagsstofnun og ítrekað Ríkisendurskoðun, gáfu yfirlit yfir stöðu ríkissjóðs, t.d. Ríkisendurskoðun eftir mitt ár, í ágústmánuði, þá hóf fjmrh. að rífa þessar skýrslur í sig og gagnrýna þær í ýmsum efnum og taldi þær í mörgum efnum rangar sem sannast m.a. af því að þegar út kom skýrsla Ríkisendurskoðunar í ágústmánuði sl., þá taldi Ríkisendurskðun að eftir horfum mundi halli á A-hluta ríkissjóðs á þessu ári verða 1,5--2 milljarðar kr. En þetta gagnrýndi þáv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., og taldi að hallinn yrði ekki nema 693 millj. kr. Þó að hann breyti nokkuð um nú, þá haggar það ekki þessari staðreynd og það haggar ekki því að hann leitaði lags við það að gagnrýna og koma með aðrar niðurstöður en þær óháðu og virtu stofnanir þjóðfélagsins, m.a. Ríkisendurskoðun sem heyrir undir Alþingi, höfðu lagt fram. Sínar niðurstöður birti hann vitaskuld sínum samstarfsmönnum í þáv. ríkisstjórn.
    Ég er ekki að segja hér að hann hafi verið að blekkja samstarfsmenn sína vísvitandi. En hitt er ljóst að hann leitar eftir því að finna aðrar niðurstöður, hagstæðari fyrir útkomu í ríkisrekstrinum, með sínum mannafla í fjmrn., en þar hafði hann m.a. komið á sérstakri hagdeild, til þess að bera brigður á það sem opinberar stofnanir, svo sem Ríkisendurskoðun, leggja fram. Þetta eru ekki eftirbreytnisverð vinnubrögð. Ég vænti þess að núv. hæstv. fjmrh. taki eftir þeim orðum mínum. Það er ekki eftirbreytnisvert af framkvæmdarvaldinu að leitast við að rífa í sundur álit og niðurstöður hinna virtustu stofnana okkar stjórnkerfis, óháðra hagstofnana.
    Ég ætla ekki að fara í orðhengilshátt eða talnaleik um þessi efni frekar. Ef umræðan heldur áfram væri e.t.v. nær að það gerðu fyrrv. ráðherrar úr fyrrv. hæstv. ríkisstjórn. En ég get ekki látið hjá líða að segja þessi orð varðandi þessa fsp. sem hæstv. utanrrh. varpaði fram í sinn eigin garð.
    Um annað í ræðu hæstv. utanrrh., um orsakir þess að hallast hefur á merinni í ríkisrekstrinum, er auðvitað ýmislegt hægt að segja. Það er engin nýlunda, að til falli ýmis útgjöld á árinu sem ekki er að fullu gert ráð fyrir í fjárlögum. Meðal þess sem hann nefndi var til að mynda samningsbundnar greiðslur, sem ríkisstjórnin sjálf hafði gert samninga um, svo sem greiðslur til landbúnaðarins vegna riðubóta og vegna niðurgreiðslna sem stöfuðu af hækkandi verðlagi, m.a. vegna gengisbreytinga, og ýmis önnur slík efni sem hæstv. ráðherra nefndi hér.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt ofan í þau mál. En það er rétt að hluti af þessu dæmi er vegna þess að samdráttur hefur orðið í veltu og veltuskattar

hafa reynst ívið minni en gert var ráð fyrir. En útgjöldin hafa líka vaxið um u.þ.b. 1 / 2 milljarð kr. Og þá segi ég að sá sem var húsbóndi í fjmrn. hafði ekki gætt þess þegar sýnilegt var að tekjurnar voru að dragast saman vegna minnkandi veltu í þjóðfélaginu að bregðast við með því að halda aftur af útgjaldaaukningunni með sama hætti.
    Hér minntist hv. 6. þm. Suðurl. á launaútgjöldin þar sem á hálfu ári hefur stöðum fjölgað hjá ríkinu um ígildi 725 stöðugilda. Þar af er veruleg aukning yfirvinnu sem þó var ærin fyrir. Ég tel ástæðu til að vitna til þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í ágúst sl. eru fluttar ábendingar eða sterk aðvörunarorð, m.a. þessa vegna, þar sem hvatt er til þess og talin brýn nauðsyn að efla til muna eftirlitskerfi launaskrifstofu fjmrn., en þar fer einmitt eftirlitið fram með aukningu á starfsmannafjölda ríkisins, aukningu á yfirvinnugreiðslum og öðru slíku sem nauðsynlegt er að fjmrh. hverju sinni leitist við að hafa hemil á. Með tilliti til þess að Ríkisendurskoðun telur brýna nauðsyn til að á þessum málum sé fastar tekið þá felst vitaskuld í því sá dómur að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi ekki sinnt þessu hlutverki sínu eins og skyldi.
    Það segir einnig í skýrslu Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt sé að innheimta sölugjalda sé hert og það er vitaskuld eitt af þeim atriðum sem eru í verkahring fjmrh. og var á sl. sumri fram að stjórnarskiptum í verkahring núv. hæstv. utanrrh. Það er a.m.k. skoðun Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt hefði verið að sinna þeim málum betur. Ég man hins vegar eftir því sem vakti furðu að hæstv. þáv. fjmrh. lét þess eitt sinn getið í fjölmiðlum, og hann kom oft í fjölmiðla, að viðurlög vegna vanskila og dráttarvaxta yrðu felld niður. Þetta var hans aðferð við það að ná betri tökum á innheimtunni.
    Enn er að því vikið að í ábendingum Ríkisendurskoðunar á miðju ári þegar sýnt er að hallast tekur á merinni sé lagt til að settar verði skýrar reglur um fjárhagsábyrgð þeirra aðila sem annast þjónustu fyrir ríkissjóð og hann greiðir að öllu leyti eða að hluta til. Í þessum atriðum, sem Ríkisendurskoðun telur brýn, felst auðvitað sá dómur að hæstv. þáv. fjmrh., hæstv. núv. utanrrh., hafi ekki nægilega staðið sig í stykkinu um þessi atriði. Þannig að það er vitaskuld hin mesta nauðsyn að þegar það markmið næst að draga úr þenslu og þar með að draga úr veltu í þjóðfélaginu, sem var markmið fyrrv. ríkisstjórnar og efnahagsleg nauðsyn, þá er það jafnframt brýn nauðsyn að fjmrh. beiti þeim tækjum sem hann hefur í höndunum og að hann skerpi sín tæki til þess að taka á þessum atriðum til þess að draga úr þenslu útgjaldanna og ná þar meiri sparnaði og meira aðhaldi. Það var því miður ekki gert.
    Ég sá það í sjónvarpi að núv. hæstv. fjmrh. taldi að um það hvernig komið væri fyrir ríkissjóði og ríkisbúskapnum nú væri auðvitað ekkert við fyrirrennara sinn að sakast. Þetta væri allt saman viðskilnaður Þorsteins Pálssonar, ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, hæstv. fyrrv. forsrh. Hæstv. fyrrv. fjmrh.

hefði ekkert fengið að gert. Önnur átakanleg spurning hæstv. utanrrh. hér í þessum ræðustól áðan var einmitt þessi: Hver ber ábyrgðina? Og ég segi þá honum til lofs að hann skoraðist ekki undan því að hann bæri ábyrgð. Auðvitað ber ríkisstjórn í heild alltaf ábyrgð á slíku að sínum hluta. En á fjármálum ríkisins ber auðvitað fjmrh. hverju sinni ábyrgð umfram alla aðra og það þýðir ekkert að reyna að koma því á forsrh. hverju sinni eða ríkisstjórnina í heild nema að því leyti sem lagðar eru línur um tiltekin skilyrði fyrir fjmrh. og afkomu ríkissjóðs.
    Þessi orð hafa nú sjálfsagt verið mælt í fljótræði af hæstv. núv. fjmrh. og tók auðvitað enginn þau alvarlega, enda eru þau í sjálfu sér hlægileg, sem sanna má á því að ef núv. hæstv. fjmrh. yrði slíkur lukkunnar pamfíll að honum tækist sem fjmrh. að ná góðum tökum á sínu verkefni, á ríkisfjármálunum, þá kæmi hann í lok ríkisstjórnarferilsins og segði: Þetta er allt saman hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni að þakka. Ég átti engan hlut að þessu. Ég gat ekkert að þessu gert. Þetta bara fór svona. Steingrímur Hermannsson, hæstv. forsrh., hann kom þessu í kring. ( Gripið fram í: Hann tekur þetta til baka, þessi orð sín.) Og eins ef svo skyldi nú fara að eitthvað hallaðist líka hjá
núv. hæstv. fjmrh., sem ég vona að verði ekki því íslenska þjóðin þarf á því að halda að það takist að halda vel á þessum málum, þá hef ég ekki trú á því að hann færi að kenna það núv. hæstv. forsrh. Þetta er auðvitað ekki til annars en að hlæja að því.
    En í tilefni af þessu vil ég samt víkja örfáum orðum að því hvernig búið var í hendurnar á fyrrv. hæstv. fjmrh. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum var það markmið ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum. Í starfslýsingu sagði að vísu ,,á þremur árum`` eins og líka hefur komið hér fram í þessum umræðum, en við versnandi horfur í efnahagsmálum taldi ríkisstjórnin sér nauðsynlegt, og stóð öll að því, að ná þessu markmiði á einu ári. Til þess að gera þetta mögulegt þá gekk ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar í það að auka skattheimtu í landinu um 5,5 milljarða kr. í fyrsta lagi með aðgerðum á sumrinu 1987 og síðan í tengslum við skattkerfisbreytingar og afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er þetta sundurgreint nokkuð og það fjárlagafrv. var lagt fram af hæstv. þáv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þetta er nokkuð sundurgreint en samtals er þessi skattheimta, sem aukin er af ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, að raungildi um 5,5 milljarðar kr. eins og það er metið í athugasemdum með fjárlagafrv. Spyrja má hvort þetta mat hafi verið rétt. En þetta er mat þeirra aðila sem vinna það verk á vegum fjmrh. að búa út þetta plagg.
    Þetta var vitaskuld gert til þess að ná því markmiði sem ríkisstjórnin setti sér að ríkisbúskapurinn yrði hallalaus. Þetta var ekkert létt verk fyrir stjórnarflokkana eða a.m.k. ekki fyrir Sjálfstfl. En Sjálfstfl. stóð að þessu af heilindum, þrátt fyrir að

hann hafi gefið yfirlýsingar í aðra átt, vegna þess hver nauðsyn blasti við í þessum efnum. Það getur vel verið að það hafi verið léttara fyrir hina flokkana vegna þess að bæði Framsfl. og Alþfl. töluðu á stundum þannig að þeir vildu hækka skatta miklu meira. Þetta varð samt niðurstaðan og þetta var gert til að ná því markmiði sem ríkisstjórnin hafði sett sér í ríkisfjármálum.
    Ég held því að fullyrða megi að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi búið vel að sínum fjmrh. og að fjmrh. síðustu ríkisstjórnar hafi með lagasetningu verið fengnar tekjur sem áttu að nægja til þess að sæmileg útkoma næðist í ríkisfjármálum. Þetta er að mínum dómi algjör staðreynd. Þau áföll, sem við getum kallað fyrir ríkisreksturinn, í samdrætti í veltu voru þess eðlis að það átti að mæta þeim með samdrætti í útgjöldum. Þetta var því miður ekki gert. Góður búmaður í fjmrn. hefði haldið þannig á málum. En ég lýsi þeirri skoðun minni að fyrrv. fjmrh., hæstv. núv. utanrrh., hafi ekki reynst sá búmaður sem hann hefði þurft að vera í því ráðuneyti. Sumir kynnu að segja búskussi. Það sem eftir stendur eru þessar staðreyndir:
    1. Ríkisstjórnin setti sér markmið um jafnvægi í ríkisbúskapnum.
    2. Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn vel búið að fjmrh. ríkisstjórnar sem fyrrv. hæstv. fjmrh., svo þetta markmið mætti nást.
    3. Sjaldan eða aldrei hefur fjmrh. gefið jafnyfirlætisfullar yfirlýsingar um störf sín í ráðuneyti sem fyrrv. hæstv. fjmrh.
    4. Sjaldan eða aldrei hefur fjmrh. staðið upp úr sínu ráðuneyti sínu eftir jafnskamman tíma með jafnherfilegan viðskilnað á bakinu.
    Þetta er e.t.v. sú niðurstaða sem núv. hæstv. fjmrh. hefur viljað draga hér fram. Mér hefur þótt rétt að láta hér koma fram mína skoðun eins og hún liggur fyrir án þess að breiða yfir hana einhvern hjúp orðagjálfurs.