Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það væri vissulega tilefni til þess að fara lengi og ítarlega yfir þessa síðustu ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar. Það er hins vegar varla ástæða né tími til þess að gera það svo síðla dags, en ég vil þó fyrst segja að það er mjög sérkennilegt hvernig formaður og varaformaður Sjálfstfl. hafa brugðist við hinum fræga Garðabæjarfundi þar sem ég í fáeinum setningum greindi frá því að ef lagðar væru saman skuldirnar við atvinnufyrirtækin í landinu og aðrir reikningar úr ríkisstjórnarferli Þorsteins Pálssonar mundi það nema þessari upphæð. Það varð til þess að fyrrv. forsrh. sá ástæðu til þess að koma strax upp í sérstökum tíma í Nd., sem ekki er nú venja að sé vettvangur fyrir slíkar umræður, og gat ekki beðið næsta dags í Sþ. til þess að koma því á framfæri að hér væri á ferðinni atlaga, ekki að sér, heldur að fyrrv. fjmrh. Og hv. þm. Friðrik Sophusson og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, tveir hæstv. fyrrv. ráðherrar, komu sérstaklega hér upp í stólinn til þess að lýsa því yfir að þeir hefðu ekki vitað í síðustu ríkisstjórn að það stefndi í svona útkomu vegna þess að þeim hefði verið sagt annað.
    Það var þess vegna alveg ljóst að það voru þessir tveir fyrrv. ráðherrar Sjálfstfl. sem notuðu þetta tækifæri, sem ég gagnrýndi að hæstv. utanrrh. fjarstöddum, til þess að flytja hér í þingsölum þær yfirlýsingar að þeir hefðu fengið rangar upplýsingar. Það þýðir ekkert fyrir Sjálfstfl. að vera að reyna að nota útúrsnúninga af þessu tagi til þess að reyna að telja einhverjum öðrum trú um að eitthvað illt, eða óheilindi, sé á milli mín og hæstv. núv. utanrrh. Það er ekki, það hefur ekki verið og það verður ekki.
    Það er hins vegar athyglisvert að þessir tveir forustumenn Sjálfstfl., sem tóku við fyrir skömmum tíma síðan og hafa síðan leitt flokkinn út í nýja eyðimerkurgöngu, nota hér tækifærið til þess að segja með ýmiss konar hætti: Við áttum ekki neina sök á því hvernig komið er. Hins vegar viðurkenndi hv þm. Eyjólfur Konráð Jónsson af sinni alkunnu hreinskilni að það hefði verið efnahagsstefna ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sem hann svo dagsetti alveg sérstaklega hvað mistökin snerti að hans dómi á haustdögum 1987, sem hefði verið orsökin að því hvernig fór. Hæstv. utanrrh. lýsti hér einnig mjög ítarlega og með greinargóðum hætti hvaða afleiðingar gengisfellingarnar tvær, sem framkvæmdar voru í febrúar og maí, hefðu haft fyrir þessa stefnu, gengisfellingar sem voru gerðar þvert ofan í yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar allrar og sérstaklega hv. þm. Þorsteins Pálssonar, sem sagði hér í þessum sal í október 1987 að fastgengisstefnan væri hornsteinn ríkisstjórnarsamstarfsins. Það er þess vegna hægt að fara mjög ítarlega og rækilega yfir það hvernig rangar ákvarðanir í efnahagsmálum af hálfu þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar á undan hafa smátt og smátt leitt atvinnulífið og þjóðina að þeim dyrum sem við stöndum við nú. Við gagnrýndum það í Alþb. í janúar- og febrúarmánuði 1987 að þá þegar stefndi í það að verðbólgan væri að fara úr böndunum. En

eins og hæstv. núv. forsrh. hefur lýst yfir var ekki samstaða innan þeirrar ríkisstjórnar til að grípa til aðgerða vegna kosningahagsmuna Sjálfstfl. sem þurfti þá að gefa til kynna að flokkurinn væri á réttri leið, eins og það hét yfir þveran vegg Laugardalshallarinnar á landsfundinum, og telja þjóðinni trú um það að verðbólgan yrði undir 10% í árslok. Hins vegar gat hver maður séð þá að hún stefndi í a.m.k. 25--30% ef ekkert yrði að gert. Síðan hefur því einnig verið lýst hvernig ekki náðist samstaða um það við stjórnarmyndunina að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Og það er einmitt þessi tregða forustu Sjálfstfl., allt frá fyrstu mánðum ársins 1987 til dánardaga síðustu ríkisstjórnar, sem er ein af meginorsökunum fyrir því hvernig er komið. Það væri hægt að rekja það í miklu ítarlegra og lengra máli en ég tel eðlilegt að gera hér og nú.
    Lokakaflinn í síðustu ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar þegar hann var að leggja út af orðum mínum um spariskírteini ríkisins sannaði náttúrlega enn einu sinni hversu litlum skilningi kenningar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar mæta innan Sjálfstfl. Því að ef hv. þm. Friðrik Sophusson hefur ekki skilið muninn á skuldabréfum ríkisins og skuldabréfum sem einkaaðilar eða fyrirtæki gefa út hefur hann ekki skilið kjarnaforsenduna í kenningu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar.
    Það er einnig alveg ljóst, eins og kemur fram í þeim yfirlýsingum sem hæstv. núv. ríkisstjórn gaf út, að menn gerðu sér fulla grein fyrir því við stjórnarmyndun að það þyrfti að grípa til róttækra ráðstafana í ríkisfjármálum og hæstv. fyrrv. fjmrh., hæstv. núv. utanrrh., var eindregnasti talsmaður þeirra sjónarmiða við stjórnarmyndunina. Þess vegna er það fullkomlega út í hött að fara að reyna að halda því fram að hann hafi ekki gert sér grein fyrir þessari þróun mála því það var enginn maður eins harður talsmaður þess og hann að í stjórnarsáttmála yrði skýrt tekið fram að menn yrðu í fjárlögum næsta árs að halda inn á braut niðurskurðar og verulegrar tekjuöflunar.
    Hins vegar held ég að engum hafi verið ljóst fyrr en lokatölur septembermánaðar lágu fyrir, og þær lágu ekki fyrir fyrr en í október, að það
stefndi hraðar niður á við í þessum efnum en menn höfðu talið. Það er ósköp algengt að slíkt gerist. Þó að menn geti áttað sig á ákveðinni tilhneigingu sem menn ætla sér að bregðast við og ákveði að bregðast við sýnir reynslan að það þurfi e.t.v. að gera það fyrr. Það er þess vegna, hv. þm. Friðrik Sophusson, sem ég hef sagt undanfarna daga að ég telji að það geti þurft að grípa til aðgerða, til tekjuöflunar eða annarra aðgerða, til þess að draga úr þessu vandamáli fyrr en menn ætluðu áður vegna þess að það hlýtur hver ábyrgur aðili að sjá að það er ekki hægt mánuðum saman að horfa á þessa þróun án þess að grípa til gagnaðgerða.
    Ég vænti þess að ég hafi í þessum orðum að mestu leyti svarað þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Friðrik Sophusson bar fram nema þeirri hvort samanburður á

raunaukningu útgjalda í fjárlagafrv. ætti að taka mið af frv. á undan eða veruleikanum á þessu ári. Mér finnst eðlilegra að taka mið af veruleikanum á þessu ári vegna þess að veruleikinn sýnir að sú mynd sem dregin var upp í frv. hefur ekki staðist, hún er ekki raunhæf af margvíslegum orsökum, sem hafa verið raktar hér í umræðunum. Það væri þá bara bókhaldsæfing, gerð í einhverjum tilteknum málfundatilgangi, að bera saman þær tölur við frv. sem við leggjum fram. Það getur hins vegar líka verið að það frv. verði ekki rétt mynd af veruleika næsta árs eins og oft vill verða með frv. þegar reyndin knýr á og ber að dyrum. Þegar við erum að meta hvað við ætlum að gera hér og nú verðum við auðvitað að taka mið af þeim veruleika sem blasir við hér og nú en ekki einhverjum fortíðaruppdrætti sem settur var fram fyrir rúmu ári síðan.
    Um það má auðvitað deila fram og aftur um hvaða mælikvarða menn velja sér. Það gera menn í stjórnmálaumræðunni ætíð. Ég tel það í sjálfu sér aukaatriði. Það sem ég tel hins vegar kjarna málsins er í fyrsta lagi að leggja fram fjárlagafrv. með verulegum tekjuafgangi, í öðru lagi að hefja umfangsmikla vinnu við að draga úr útgjöldum ríkisins og knýja þar á um margvíslegan sparnað og aðhald og draga úr ýmiss konar sjálfvirkni sem þar hefur verið og í þriðja lagi að stórefla innlendan sparnað í landinu þannig að við getum byggt þróun atvinnulífsins eingöngu á innlendum sparnaði eða að sem mestu leyti. Það er þriðja stóra verkefnið sem blasir við okkur á næstu mánuðum og það var þess vegna sem ég notaði tækifærið í tilefni af hugleiðingum hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar til þess að reyna að skýra mínar hugrenningar í þeim efnum við þetta tækifæri.