Jafnréttisráðgjafar
Mánudaginn 31. október 1988


     Flm: (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þær ábendingar sem fram komu frá samflutningsmönnum mínum að þessu máli, hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Valgerði Sverrisdóttur, og taka undir það sem fram kom hjá þeim. Ég vísa til þess sérstaklega í sambandi við þær hugmyndir um verksvið fyrir jafnréttisráðgjafa. Eitt af því er að styðja mótun og framkvæmd sérstakra verkefna á vegum stofnana og fyrirtækja sem miða að því að bæta stöðu kvenna. En í 3. gr. laga frá 1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er gert ráð fyrir slíkum sérstökum tímabundnum aðgerðum. Því miður hefur afar lítið farið fyrir því að þessi lagaákvæði í nefndum lögum væru notuð til þess að reyna að leiðrétta eitthvað af því sem á hallar í sambandi við hlut kvenna á vinnumarkaði.
    Ég minni á staðreyndir sem fyrir liggja um launamál kvenna og nýlega hafa komið fram frá framkvæmdanefnd um launamál kvenna sem sendi þær til alþm. með bréfi 30. sept. 1988, en það er bæklingur þar sem dregnar eru saman nokkrar meginstaðreyndir um þessi mál og hvernig þau hafa þróast á tímabilinu frá 1960 til 1985 og sérstaklega þó á síðustu árum. Þar kemur fram það sem ég vék að um hina hrikalegu mismunun sem við blasir á fjölmörgum sviðum á vinnumarkaði þegar litið er til kvenna sérstaklega í samanburði við hlut karla.
    Ég sé ástæðu til þess, virðulegur forseti, að koma því hér að að Jafnréttisráð hefur nýlega sent frá sér niðurstöður úr þrenns konar athugunum varðandi hlut kvenna og borið saman stöðuna 1985 annars vegar og 1987 hins vegar. Þar er um að ræða hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum hins opinbera. Hver skyldi nú hafa verið þróunin í þeim efnum? Þar blasir það við á heildina litið að heildarfjöldi þeirra sem hafa verið kosnir eða skipaðir í opinber ráð og nefndir er 2382. Þar af er fjöldi karla 2067 eða 88,8% og fjöldi kvenna aðeins 261 eða 11,2%. Hvernig ætli þetta líti út þegar litið er til ársins 1985? Þá var hlutfallið 12% en ekki 11,2% þannig að hér hefur þróunin verið í öfuga átt svo nemur 1% á þessu tímabili. Hefur þó hlutur kvenna aðeins skánað hér á Alþingi á þeim tíma sem síðan er liðinn. En þessa gætir ekki þegar litið er til skipana og hver hlutur kvenna er í nefndum, stjórnum og ráðum.
    Einnig hefur verið athugað hvernig þróunin hefur verið varðandi stjórnunar- og ábyrgðarstöður á aðalskrifstofum ráðuneyta. Þar hefur þróunin verið í rétta átt. Hlutur kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstörfum á aðalskrifstofum ráðuneyta var 24% í sambærilegri athugun 1985, en um mitt ár 1987 var hann orðinn 32%. Þar er því nokkur aukning. Ef litið er til hlutfallanna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá nokkrum opinberum stofnunum þá hefur það gerst að hlutur kvenna, að vísu ekki í sömu stofnunum að öllu leyti, var 1985 um 13%, en var orðinn um mitt ár 1987 27%, þannig að þó í þessari athugun sé ekki um sambærilegar tölur að ræða að öllu leyti þá er þarna þó veruleg breyting til bóta.

    Ég vísa hins vegar til þeirra breytinga sem virðast blasa við á vinnumarkaði. Þar þrengir að. Það þrengir að fyrirtækjum í landinu, af ástæðum sem ég ætla ekki að ræða hér, og á hverjum halda menn að það muni bitna? Ég tala nú ekki um ef þau viðhorf væru ráðandi að konurnar ættu fremur heima inni á heimilunum heldur en úti á vinnumarkaðnum, viðhorf sem enn má heyra í máli áhrifamanna í landinu.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að þó að þessi till. snerti aðeins einn þátt þessara mála þá fái hún þá afgreiðslu sem sjálfsögð er að mínu mati og okkar flm., hún fái stuðning hér og að sá kostnaður, sem af henni mun hljótast, verði talinn viðráðanlegur þrátt fyrir þær þrengingar sem við blasa í sambandi við fjárlagagerð.