Íslenska skjaldarmerkið á Alþingishúsinu
Mánudaginn 31. október 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð um þessa þáltill. hv. 3. þm. Norðurl. e. Þar er lagt til að fjarlægð verði kóróna og fangamark Kristjáns konungs níunda af Alþingishúsinu og komið þar fyrir skjaldarmerkinu frá 1944.
    Hér er um harla óvenjulega þáltill. að ræða svo að ekki sé meira sagt. Það er ekki venja að þingið álykti um breytingar sem varða Alþingishúsið sjálft. Samkvæmt þingsköpum hafa forsetar umsjón með eignum þess. Forsetar ákveða framkvæmdir við húsið og þá í samráði við þingflokka og húsfriðunarnefnd þegar sérstakt tilefni er til. Stundum koma fram hugmyndir um breytingar frá einstökum þm.
    Ýmislegt hefur verið gert fyrir Alþingishúsið á undanförnum árum svo að ekki sé farið langt aftur í tímann og þarf ekki að tíunda það hér. En það skal tekið fram að hv. 3. þm. Norðurl. e., flm. þessarar tillögu, hefur aldrei fært í tal við forseta þingsins þetta áhugamál sitt að fjarlægja kórónuna. Mér er spurn hvort hv. þm. hafi haft samþykki síns þingflokks og haft samráð við húsfriðunarnefnd um þennan tillöguflutning sinn. ( ÁrnG: Ég er einn flm.) Það skal tekið fram að forsetar þingsins ákváðu fyrr á þessu ári að láta fara fram vandlega athugun á ásigkomulagi þessa minnismerkis með tilliti til viðhalds þess og það verk stendur nú yfir.
    Þegar þáltill., sem við nú ræðum, kemur fram rís sú spurning hvort eigi að fjarlægja kórónuna. Ég ætla að hv. þm., flm. tillögunnar, eigi sér fáa skoðanabræður um að svo sé rétt að gera. Í verki hefur þessari skoðun verið algjörlega hafnað með því að láta þetta minnismerki standa óhaggað frá 1944. Það er ekki vegna þess að það hafi gleymst eða verið vanrækt að fjarlægja merkið. Það er vegna þess að menn hafi talið rétt að merkið stæði á sínum stað og það er engin tilviljun.
    Mér þykir fara vel á að vitna til greinar í Morgunblaðinu frá 16. síðasta mánaðar sem rituð er af Þór Magnússyni þjóðminjaverði í tilefni af þeirri hugmynd að fjarlægja kórónuna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingishúsið er friðlýst samkvæmt lögum sem Alþingi sjálft setti, enda er það hús eitt merkasta byggingarsögulega minnismerki landsins og verða menn að taka því að það skuli teiknað af dönskum arkitekt og byggt af dönskum múrarameistara. Friðun þess þýðir að húsinu skuli ekki breytt að ófyrirsynju, enda hefur þess verið gætt í seinni tíð að halda því sem best við og í sinni réttu og upphaflegu mynd, ytra sem innra. Færi Alþingi nú í fljótræði að svipta húsið þessu sögulega minnismerki væri framið mikið óhæfuverk og slíkt eru aðrar þjóðir löngu hættar að gera. Mundi þá fleira geta komið á eftir og mætti ætla að skjaldarmerkinu á safnahúsinu með kórónunni yrði þar næst lógað og síðan kynni mönnum að detta í hug að mátulegra væri að setja styttu af einhverjum stjórnmálamanni sem getið hefði sér orð framan við Stjórnarráðið í stað styttunnar af Kristjáni konungi níunda.``

    Ég á ekki von á að minnismerkið gamla verði fjarlægt af Alþingishúsinu. Til þess eru hv. alþm. nógu víðsýnir og minnimáttarkenndin gagnvart Dönum er löngu farin veg allrar veraldar. Við megum heldur ekki gleyma að Kristján níundi var ekki einungis konungur Danmerkur, hann var konungur Íslands einnig.
    Við hljótum að vera menn til þess að varðveita sögulegar minjar og friðhelgi okkar fagra Alþingishúss. Mér skildist raunar í lokaorðum hv. 3. þm. Norðurl. e. að hann hefði sjálfur enga trú á því að þessi tillaga hans næði fram að ganga.