Íslenska skjaldarmerkið á Alþingishúsinu
Mánudaginn 31. október 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hún féll kannski alveg saman við þá umræðu sem hér fer fram, vitnun hv. síðasta ræðumanns. Hann vitnar hér á hv. Alþingi á danskri tungu og hefur ekki fyrir því að breyta því í íslenskt mál. Ég held að einmitt þessi hlutur sé tengdur því sem við erum að ræða um hér, að vera með danska kórónu á Alþingishúsi Íslendinga. Mér finnst þessi till. vera orð í tíma töluð og vel flutt hér inni á hv. Alþingi. Ég held að það sé alveg fráleitt að jafna öðrum minjum hér á landi við þetta skilti Danakonungs --- ég vil ekki kalla það minnismerki eins og hv. 4. þm. Vestf. sagði. Danskt skilti var sett á þetta hús þegar það var byggt og það er þar enn þá. Ég tel þess vegna að það eigi að fara með það burt og setja íslenska skjaldarmerkið upp. Við erum safnmenn, við Íslendingar viljum gjarnan eiga ýmsa hluti á söfnum, og ég held að þessi gripur væri vel kominn á Þjóðminjasafni Íslendinga, hjá þjóðminjaverði sem leggst svo gegn því að þetta skilti verði afmáð af Alþingishúsi Íslendinga. Það væri gaman að hafa það þar. Gaman að skoða það þar. En það á alls ekki heima á Alþingishúsinu. Og eins og ég sagði áðan, að vera að jafna því við vindhanann á Dómkirkjunni eða ýmsa aðra hluti eins og styttu Friðriks áttunda við Stjórnarráðshúsið er náttúrlega alveg útí hött. Það fer ekkert saman við það að vera með þetta merki hér á Alþingishúsi Íslendinga.
    Ég vil þakka hv. flm., Árna Gunnarssyni, fyrir að hafa komið þessu máli inn á hv. Alþingi. Það má vel vera að það fari svo, eins og lá jafnvel í hans orðum, að þetta mál verði ekki samþykkt á þessu þingi. En ég veit að þótt um það hafi ekki verið fjallað hjá forsetum þingsins og ekki borið upp í þingflokki Alþfl. þá hefur þetta þó nokkuð mikinn hljómgrunn meðal almennings í landinu. Ég vænti þess að þó það verði ekki nú þá líði ekki mörg ár þar til forsetar Alþingis eða hv. Alþingi sjálft samþykkir það að þetta skilti verði af tekið.