Menningarsjóður félagsheimila
Mánudaginn 31. október 1988

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Þetta er gott mál og ber keim af því að það sé flutt þegar við völdin er ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju. En það kom upp úr kafinu að þetta mál hefði verið flutt í fyrra þannig að það er ekki keimur þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat af því. Ég kom kannski fyrst og fremst upp til að benda á að svona tillögur eru oft fluttar hér á hv. Alþingi þó að ekki sé mikil meining á bak við þær, jafnvel ágætistillögur eins og þessi, sem ætti ekki að flytja öðruvísi en það sé meining á bak við þær, eru fluttar af stjórnarsinnum sem leyfa sér við aðrar aðgerðir að skerða stórkostlega framlög til þeirra verkefna sem verið er að leggja til að skuli styrkja. Þannig er með þetta mál. Menningarsjóður félagsheimila hefur verið stórkostlega skertur á undanförnum árum einmitt af hv. þm. Framsfl., samþykkt þing eftir þing að Menningarsjóður félagsheimila skuli skertur. Svo er flutt þáltill. á hv. Alþingi um að hlutirnir skuli vera allt öðruvísi og um þá er fjallað í fjölmiðlum, jafnvel skrifaður leiðari í Tímann.
    Ég og Ingi Björn Albertsson, hv. 5. þm. Vesturl., lögðum fram fsp. á hv. Alþingi í fyrra um stöðu þessa sjóðs og stöðu Félagsheimilasjóðs. Og hvernig skyldi hafa verið um hnútana búið? Hver skyldi afraksturinn af áhuga Framsfl. og framsóknarþingmanna hafa verið á undanförnum árum? Skerðingin á þessum sjóði er þessi: Í staðinn fyrir að Menningarsjóður félagsheimila hefði átt að hafa á tímabilinu 1981--1987 samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi 10 millj. 700 þús. kr. fékk hann aðeins 5 millj. Það var helmings skerðing frá þeim lögum sem þessi sjóður hefur búið við. Svo er verið að koma með þáltill. um að breyta lögunum. Til hvers? Ég tek undir að það er þörf á því að þessi sjóður hafi meiri tekjur og það var þörf á að hann væri ekki skertur á síðustu árum og það var líka þörf á því að sjálfur Félagsheimilasjóður væri ekki skertur. En það var svolítið komið við hann. Hann var skertur samkvæmt svari við sömu fsp., átti að verða 158 millj. á því tímabili sem ég nefndi áður, en hann var skertur um 107 millj. þannig að það sem Félagsheimilasjóður fékk á þessu tímabili voru aðeins rúmar 50 millj.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því þegar verið er að flytja svona till. hvernig hlutirnir eru raunverulega og hvað er að gerast í kringum mann. Ég vona aftur á móti að það sé nú þannig lagaður þingmeirihluti á hv. Alþingi að það verði tekið vel undir þessa till. og hún verði samþykkt og hlutunum verði snúið við, að það verði ekki þessi ákveðni framsóknarsvipur í sambandi við framlög til Félagsheimilasjóðs og Menningarsjóðs félagsheimila eins og hefur verið á síðustu árum.