Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 31. október 1988

     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Hv. þingheimur. Það er mér bæði mikill heiður og mikil ánægja að fá að ávarpa þingheim hér í dag. Að vísu hefði ég kosið að fá að fylgja úr hlaði þáltill. um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna sem ég var 1. flm. að fyrir hönd míns flokks. Ég vænti þess að hún væri á dagskrá, en því miður var ekki unnt að ræða hana í dag, fyrri umr., þar sem hæstv. utanrrh. var ekki í salnum. Vona ég að málið verði tekið á dagskrá næsta mánudag, hvar svo sem utanrrh. kann að vera niðurkominn í heiminum þann dag. ( Forseti: Forseti vill að gefnu tilefni upplýsa að það var ekki haft samráð við hæstv. utanrrh. Það var alveg ljóst að hann hafði ekki tíma til að vera hér í dag. Það er því á ábyrgð forseta þingsins að þessi umræddu mál verða tekin fyrir næstkomandi mánudag og þá verður hv. þm. enn hér á hinu háa Alþingi þannig að það var ekki talið koma að verulegri sök, þar sem tryggt er að hv. þm. mun koma málum sínum að.) Þá er það ljóst, enda hef ég hratt á hæli um þingsali núna, ég verð hér í forföllum Alberts Guðmundssonar og eins og forseti sagði þá er nk. nánudagur síðasti dagurinn sem ég sit hér á þingi og óvíst hvort mér verður hér endurkomu auðið. En það er allt annað mál.
    Hv. 6. þm. Suðurl. Óli Þ. Guðbjartsson sagði mér að ég sæti í sæti Péturs Ottesens og þótti mér það bæði ákaflega merkilegt og skemmtilegt vegna þess að ein uppáhaldssagan mín úr pólitík fjallar einmitt um Pétur. Hún er frá því að haldinn var fundur sjálfstæðismann á Akranesi, þar sem Pétur var fundarstjóri en Bjarni heitinn Benediktsson, formaður Sjálfstfl., var ræðumaður og gestur fundarins og hélt erindi um stjórnmálaviðhorfið og fleira eins og það hefði komið mönnum fyrir sjónir í Reykjavík. Að loknu erindi Bjarna var gengið til almennrar dagskrár og þar var m.a. eitthvert mál sem snerti héraðið sem fundarstjóri, Pétur Ottesen, bar undir atkvæði og voru allir fundarmenn málinu sammála. Þá leitaði Ottesen fundarstjóri að mótatkvæðum og reyndist enginn í salnum vera á móti erindinu nema heiðursgesturinn og formaður Sjálfstfl. Niðurstaðan var að sjálfsögðu augljós hjá fundarstjóra: Málið var fellt með öllum greiddum atkvæðum. Þetta læt ég nú svona fylgja meira í gamni frekar en alvöru.
    En málið sem ég stend upp hér út af, ráðhúsmálið, er hins vegar ekkert gamanmál í mínum huga. Ég er borinn hér og barnfæddur í Reykjavík og hef lýst því yfir áður að ég er andvígur þessu ráðhúsi í þrjá ættliði og vissi ég ekki betur en að það væri full samstaða í fjölskyldu minni um andúð á ráðhúsinu, fyrr en ég las blaðagrein fyrir skömmu og sé að það er flótti brostinn í liðið. Þykir mér ákaflega sárt til þess að vita. En það verður ekki við öllu séð og ekki stjórna ég fjölskyldunni úr því sæti sem ég er í þriðja lið þegar annar liður fær glímuskjálfta undir málarekstri þessum.
    Hugmyndin um ráðhúsið er engan veginn ný af nálinni, þó að ný teikning hafi komið fram fyrir skömmu,. Það hefur áður verið deilt um þetta ráðhús.

Það hafa áður komið fram hugmyndir um að misnota Tjörnina á þennan hátt og setja niður í hana þungan kassa. Þá var því mótmælt víða. Þá gengu margir góðir menn fram fyrir skjöldu og mótmæltu húsinu. M.a. var fundinn ágætur staður fyrir ráðhúsið úti í Vatnsmýrinni, þar sem núna er háskólasvæðið í kringum Norræna húsið. Fleiri staðir komu til greina og hirði ég ekki um að telja þá upp hér og nú. Ráðhúsið í Reykjavíkurtjörn er því miður engin ný bóla þó að nú sem sakir standa virðist það ætla að ná fram að ganga og eru það mikil og sorgleg tíðindi fyrir Reykvíkinga. Miðborgin hér morar af skipulagsslysum. Fyrsta verulega skipulagsslys seinni ára var Morgunblaðshúsið, Morgunblaðshöllin sem stendur eins og þrándur í götu í Grjótaþorpinu og eyðileggur þá skemmtilegu húsamynd sem þar var og þar getur verið. Annað hættulegt, leiðinlegt og sorglegt skipulagsslys er bygging Seðlabankahússins nýja í túnfæti landnámsmannsins. Sorglegt skipulagsslys er líka viðbygging og ofanábygging á Útvegsbankann, viðbygging eða hliðarbygging við Landsbankann og fleiri og fleiri. Öll þekkjum við eitthvert dæmi sem særa augun í hvert skipti sem við göngum hér um annars nokkuð þokkalega og fallega miðborg Reykjavíkur.
    Það er undarlegt að menn skuli velja sér Reykjavíkurtjörn sem byggingarstað. Sérstaklega menn sem hafa ort falleg ljóð, sem eru orðin að vinsælum dægurlögum, um bæði Reykjavíkurtjörn og báruhjárnshús. Hefði engum manni dottið í hug þegar hann heyrði þetta fallega lag í fyrsta sinn að þar væri borgarstjóri vor, Davíð Oddsson, að færa aftökulista sinn í ljóðstafi. Að bæði bárujárnshúsin og Reykjavíkurtjörnin skuli nú verða fyrir barðinu á nýskipulaginu hér í Reykjavík. Ég harma það mjög því allt frá bæjardyrum mínum uppi í Breiðholti þar sem ég bý og heim til hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, allar götur norður á Melrakkasléttu er ekkert annað en byggingarlóðir. Það ætti því ekki að þurfa að byggja hér með sama hugarfari og byggt er á dýrustu eyjum í heimi eins og Manhattan eða öðrum stöðum. Það ætti ekki að þurfa að þrengja svo mjög að mannlífinu hér í miðborginu að það þurfi að nota þá fáu vatnsfleti sem við eigum hér og höfum til þess að byggja aðrar eins stórbyggingar og heilt ráðhús er fyrir okkar ágæta borgarsamfélag.
    Stöðumælasjóði er ætlað að kosta byggingu ráðhússins að verulegum hluta. Það hafði í för með sér að stöðumælagjöld í Reykjavík voru stórhækkuð. Sektir og viðurlög og annað var keyrt upp úr öllu valdi. Þegar ráðhúsbyggingin var komin á blað hjá borginni voru sendar út af örkinni sérstakar sveitir stöðumælavarða, bæði til þess að sekta þá bíla sem voru umfram á stöðumælum og eins til að sekta þá bíla eða láta fjarlægja sem höfðu lagt ólöglega hér í annars frekar þröngum miðbænum. (Forseti hringir.) Þetta hafði m.a. í för með sér að fjöldinn allur af viðskiptavinum miðborgarinnar snerist á hæli. Þetta var á svo viðkvæmum tíma þegar stórt verslunarhús var opnað í Kringlunni að fjölmargir viðskiptavinir

munu ekki koma aftur hér niður í miðborgina eftir að hafa fengið þær móttökur sem þeirra biðu hjá stöðumælavörðum. En mér bjallan glymur og ég ætla að stytta þá mál mitt þó að um margt sé að sjálfsögðu að ræða.
    Tónninn í till. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar er þess eðlis, því miður, að hún þjappar Reykvíkingum saman fyrir aftan borgarstjórann þannig að í stað þess að verða að gagni þá leggst till. á sveif með óhamingju Reykjavíkur og er ekki á hana bætandi í þessu máli.
    Ég vil benda á að fyrir þinginu liggur önnur till. sem er ekki hægt að ræða að þessu sinni. Sú till. gerir ráð fyrir að hægt sé að leysa þetta deilumál og forða stórum slysum á miklu skynsamlegri og snyrtilegri hátt. Ég mun vonandi geta komið að þeirri till. síðar áður en ég hverf á braut úr þingsölum til starfa í pylsuvagninum í Austurstræti, en ég hvet þingheim til að hafna þessari till. en fagna hinni.