Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 31. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Það falla nokkuð stór orð í þessari umræðu um till. til þál. um athugun á lagalegu réttmæti byggingar ráðgerðs ráðhúss í Reykjavíkurtjörn og fleira. Það virðast allmiklar tilfinningar tengdar þessu máli hjá hv. þm. Reykv., svo ekki sé nú talað um þann meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur sem staðið hefur að ákvörðunum um byggingu ráðhúss í norðurenda Tjarnarinnar. Og við heyrðum hér hjá hæstv. félmrh. einkunnirnar sem hún gefur meiri hluta borgarstjórnar í þessu máli. Ég held það sé nú ekkert þægilegt fyrir neina sveitarstjórn að sitja undir slíkum einkunnum, en ég hygg að þær séu réttmætar að svo miklu leyti sem ég hef fylgst með þessu máli. Ámælisverð vinnubrögð, fljótfærni og vanvirðing voru meðal þeirra orða sem hæstv. félmrh. viðhafði.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafði einnig uppi stór orð og taldi það vera sérstaka smán fyrir Alþingi ef einhverjir þm. kynnu að styðja till. sem hann taldi ómerkilega og mótmælti fyrir hönd Reykvíkinga, að mér skildist, að hún skyldi hér fram borin.
    Ég tel að það séu fullar ástæður til þess af hálfu hv. alþm. að bera fram till. sem snerta þetta dæmalausa mál, ákvörðun meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur að troða hér niður ráðhúsi í næsta nágrenni við Alþingi með þeim hætti sem gert hefur verið. Ég ætla ekki að taka afstöðu til einstakra efnisþátta till., en ég tel þó mjög eðlilegt að hún sé fram komin og ég tel eðlilegt að það sé farið ofan í saumana á þessu máli með tilliti til þess sem gerst hefur. En ég ætla ekki að gerast dómari í þeim efnum sem snúa að ákvörðun varðandi skipulagslegan þátt þessara mála. Það er annar flötur á þessu máli sem ég vil gera hér að umræðuefni.
    Ef það er svo, eins og reyndin sýnir, að meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur telur sig þess umkominn að taka ákvarðanir, eins og þær sem fyrir liggja af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans um byggingu ráðhúss hér í Reykjavík, þá hlýtur það að vera Alþingis að bregðast við þeim ákvörðunum og þeim niðurstöðum. Það sem borgarstjórn Reykjavíkur er að gera með sínum samþykktum og þeim framkvæmdum sem hér eru hafnar er að kasta stríðshanska gagnvart Alþingi Íslendinga. Eðlilegu svigrúmi fyrir þingið hér í hjarta höfuðborgar landsins, borgar sem hefur verið höfuðborg fram að þessu --- en sem kannski er ástæða til að fara að endurskoða í fyllstu alvöru, búi Alþingi við þau starfsskilyrði og þær aðstæður, hvort þingið eigi að kjósa sér að sitja og starfa innan marka þessa sveitarfélags, Reykjavíkurborgar. Það er spurningin sem Alþingi stendur frammi fyrir og sem alþm. nú og á næstunni hljóta að verða að svara.
    Ég benti á það þegar mál þessi voru til umræðu á Alþingi líklega fyrir einu ári eða svo, og þá í tengslum við tillögu sem virðulegur núverandi forseti sameinaðs þings, Guðrún Helgadóttir, flutti um rannsóknir á lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík ásamt fimm öðrum hv. alþm., að hér væri ekki um neitt einkamál Reykjavíkurborgar að ræða. Hér væri um að

ræða mál sem snerti landið allt vegna þess að landsmenn hafa fram að þessu kosið að gera Reykjavík að höfuðstað sínum. Mér finnst það afar einkennilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur skuli ekki finna til skyldunnar sem því fylgir að vilja teljast höfuðborg Íslands, en það hefur þessi meiri hluti ekki gert.
    Ég tel eðlilegt að við alþm. förum yfir það í fyllstu alvöru hvort það sé fært að halda áfram starfsemi þingsins í framtíðinni hér á þeim stað sem það nú situr í ljósi þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið af meiri hluta sveitarstjórnar í Reykjavík. Hér troða menn inn í næsta nágrenni þingsins byggingu sem er umdeild, með þeim hætti sem raun ber vitni, af íbúum sveitarfélagsins, Reykjavíkur, að ekki sé talað um álit okkar margra sem á Alþingi sitjum. Og við höfum skyldur við þá sem eiga eftir að starfa á Alþingi Íslendinga. Við hljótum því að fara yfir það í fyllstu alvöru hvort ekki sé kominn tími til þess að athuga hvort flytja megi starfsemi þingsins inn í eitthvað vinsamlegra umhverfi heldur en hér ríkir í sveitarfélaginu Reykjavík. Ég gæti vel hugsað mér það sem skynsamlega ráðstöfun, einnig með tilliti til stöðu annarra hluta Íslands en hér við Faxaflóa, að Alþingi flytti starfsemi sína yfir í annan landshluta. Ég hygg að Alþingi Íslendinga væri mjög velkomið t.d. austur á Fljótsdalshérað, svo dæmi sé tekið, og er ekki frá því að það væri kannski það gildasta sem hægt væri að gera til þess að leiðrétta stöðu landsbyggðarinnar, til að leiðrétta þá hörmulegu stöðu sem hún býr við, að þeir sem eru kosnir sem þm. þjóðarinnar horfðu á landið út frá öðru sjónarhorni en gefst hér í Kvosinni í Reykjavík.
    Ég tel, virðulegi forseti, að forsjármenn Alþingis, forsetar þingsins, hafi ekki staðið að meðferð þessa máls með þeim hætti sem æskilegt hefði verið og nauðsynlegt. Ég tel að það sem fyrir liggur, t.d. í fylgiskjölum með till., sýni að það hefur ekki verið gert með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið.
    Ég ætla ekki hér tímans vegna að orðlengja það en vísa í þá sérkennilegu röksemdafærslu sem er að finna á fskj. I og ekki síður þá sem er að finna á
fskj. II, orðsendingu frá forsetum Alþingis, og ekki síður þá umsögn sem henni fylgir frá húsameistara ríkisins. En þetta mál á eftir að verða rætt hér frekar og það er sannarlega umræðunnar virði.