Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 31. október 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja að hv. síðasti ræðumaður hefur tekið af mér ómakið að svara ofstæki og köpuryrðum hv. 2. þm. Austurl. út af þessu máli. En mér þykir rétt, vegna þess sem þessi hv. þm. sagði, að rifja upp hér aðeins örfá atriði sem skipta Alþingi sérstaklega máli.
    Það var með staðfestingu aðalskipulags Reykjavíkur 1967 sem stigið var það skref að ákveða staðsetningu ráðhúss við norðurenda Tjarnarinnar, þ.e. sunnan Vonarstrætis, og þá var ætíð gert ráð fyrir að húsið stæði fyrir miðju Vonarstrætis. Á þeim rúmum 20 árum sem síðan eru liðin veit ég ekki til að nokkru sinni hafi Alþingi gert athugasemd við þessa ákvörðun eða mótmælt henni. Ég veit ekki heldur um mótmæli eða athugasemdir einstakra þm.
    Þegar fram fór samkeppni um gerð og skipulag nýbyggingar Alþingis samkvæmt þál. frá 1981 var gert ráð fyrir ráðhúsi á þeim stað þar sem það er nú ráðgert. Það skeður svo að Alþingi barst bréf í febrúar sl. þar sem því var gefinn kostur á, sem eigandi húsa við Vonarstræti og Tjarnargötu, að tjá sig um fyrirhugað ráðhús á lóðinni við Tjarnargötu 11. Þetta var til þess gert að fullnægja lagaákvæðum um grenndarrétt. Forsetar Alþingis leituðu þá m.a. álits húsameistara ríkisins, en embætti hans hefur umsjón með húseignum Alþingis. Húsameistari gaf álit sem fram kemur í fskj. með þáltill. sem við nú ræðum. Í þessu áliti er aðalatriðið að fyrirhugað ráðhús hafi engin veruleg áhrif á hugmyndir Alþingis um nýtingu sinna lóða. Núverandi tillaga að staðsetningu, segir í þessu áliti, er öllu hagstæðari fyrir hagsmuni Alþingis en vænta hefði mátt eftir staðfestingu aðalskipulags 1967.
    Þessu áliti framvísuðu forsetar til byggingarfulltrúans með bréfi sem er einnig að finna sem fskj. með þáltill. En aðalatriðið sem forsetar Alþingis lögðu áherslu á í þessu bréfi var, eins og þar er tekið skilmerkilega fram, að tekið verði fullt tillit til þarfa Alþingis við ráðstöfun byggingar lóða í næsta nágrenni Alþingishússins. Ekki einungis varðar þetta ráðhúsið, sem var þó aðalatriðið og tilefni þessara ummæla, heldur og almennt vegna húsa í næsta nágrenni Alþingishússins. Þetta er að sjálfsögðu aðalatriði þessa máls sem við nú ræðum hvað varðar Alþingi sjálft.
    En efni þessarar till. er annað mál. Ég ætla ekki að fara að ræða það að Alþingi kveði á um lögbrot og valdníðslu sem hv. flm. telur að hafi verið framin. Hv. flm. veit ekki neitt um þrískiptingu valdsins eða hvert er hlutverk Alþingis og hvert er hlutverk dómstóla, það er alveg víst, og hann veit ekki margt, eins og fram kemur í hans máli. Hann gaf það í skyn að forsetar hefðu ekki svarað opnu bréfi sem hann birti á sl. sumri. Það er rétt hjá flm., hv. 6. þm. Norðurl. e., að forsetar svöruðu ekki bréfinu beinlínis, enda var það mikið vandamál að svara því í einstökum atriðum þó að það væri ekki nema um rétt Alþingis til netlaga í Tjörninni í Reykjavík. En forsetar Alþingis birtu tilkynningu um það sem var

aðalatriði þessa máls og ég hef hér gert grein fyrir og sú tilkynning kemur fram sem fskj. með þáltill.
    Ég vil aðeins segja það að hér er rætt um þýðingarmikið mál að því er varðar Alþingi og það skulum við öll hafa í huga. Alþingi verður að hafa ráðrúm til allrar sinnar starfsemi á þessum stað en búningur þessa máls er fásinna frá upphafi til enda og till. naumast þinghæf.