Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Mér þykir vænt um að sjá að hv. 3. þm. Vestf. ætlar að vera við þessar umræður fyrir hönd Alþfl. og ég kann að meta þann mikla áhuga sem hann hefur sýnt málinu gagnstætt öðrum þm. Alþfl. og ráðherrum. Á hinn bóginn sakna ég þess að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér í deildinni. Hann hefur tekið þátt í þessum umræðum og ég geri ráð fyrir að hann sé við því búinn að til hans sé beint fyrirspurnum. Jafnframt er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari hér fyrirspurnum vegna þess hversu frjálslega hann hefur fjallað um ýmis efnisatriði frv. í sjónvarpi og ég geri ráð fyrir því hann sé einnig við því búinn að stjórnarandstaðan biðji um frekari skýringar á því sem hann hefur þar sagt, einkum vegna þess að sumt af því stangast mjög á við það sem hæstv. forsrh. hefur sagt hér í þessari deild. Ég geri því ráð fyrir að hann sem vanur er góðri verkstjórn í ríkisstjórninni skilji að verkstjórinn vilji gjarnan hafa svona eftirlit með honum og þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að þessir tveir hæstv. ráðherrar gefi sér tíma til að líta hér inn, en ég ítreka enn sem fyrr að mér dugir hv. 3. þm. Vestf. fyrir Alþfl. ( Forseti: Hæstv. menntmrh. mun enn ekki vera kominn í húsið, en ég mun athuga með hæstv. fjmrh.) Já.
    Ég vil fyrst, herra forseti, rifja upp að þegar ég talaði fyrir hálfum mánuði um frv. í kjölfar ræðu hæstv. forsrh. varpaði ég til hans fyrirspurnum sem hann lofaði í ræðu sinni fyrir tæpri viku að svara öllum. Ég held að hann hafi komist svo að orði í ræðu sinni að hann teldi sig hafa svarað öllum þeim fyrirspurnum sem fram hefðu komið frá mér. Þess vegna er nauðsynlegt að ég rifji aðeins upp nokkur atriði. Þetta sýnir auðvitað hversu óhentugt er að láta rúma viku líða á milli þess sem menn taka til máls því að eðlilega gleyma menn ýmsum efnisatriðum á þeim tíma þó þeir séu minnisgóðir.
    Ég spurði hæstv. forsrh.: Fullvissaði hæstv. forsrh. forseta lýðveldisins um að bráðabirgðalögin hefðu nægan stuðning í báðum deildum Alþingis? Hæstv. forsrh. svaraði þessu svo: ,,Hv. þm. hafa fleiri en einn spurt að því hvort forseta hafi verið gerð grein fyrir því fylgi sem þetta mál hefur öruggt á þingi. Að sjálfsögðu var forseta gerð grein fyrir því. Þetta frv. var þegar undirbúið þegar stjórnin var mynduð og þá var forseta gerð grein fyrir því að þessi ríkisstjórn hefði meiri hluta í Sþ. og Ed. en jöfn atkvæði í Nd.`` Ég leyfi mér að skilja þessi ummæli svo, hæstv. forsrh., að forseta lýðveldisins hafi verið gerð grein fyrir því að þetta frv. hafði ekki þinglegan meiri hluta í Nd. Ég get ekki skilið þessi orð öðruvísi. Er það rétt skilið? ( Forsrh.: Eins og ég sagði.) Mér finnst að þingið eigi alveg rétt á því að fá skýr svör um þetta atriði. Ég tek, herra forseti, ekki gilt ef við getum ekki fengið skýr svör frá hæstv. forsrh. um grundvallaratriði eins og það hvort hann hafi gert forseta lýðveldisins grein fyrir því hvort frv. hafði meirihlutastuðning í báðum deildum þingsins eða ekki. Það er nauðsynlegt fyrir þingið að vita í hvaða trú

forseti lýðveldisins var þegar hann skrifaði undir bráðabirgðalögin. ( Forsrh.: Hef ég leyfi til að svara úr sæti mínu? Ég hélt ekki, samkvæmt þingsköpum. Ég skal svara þessu á eftir.) Ég er mjög þakklátur hæstv. forsrh. fyrir að hann mun svara þessu afdráttarlaust. Það er líka vegna þess að við vitum að samkvæmt stjórnarskránni ganga bráðabirgðalögin ekki í gildi nema undirskrift forseta lýðveldisins komi til og þess vegna er nauðsynlegt að við fáum að vita það undanbragðalaust hvaða upplýsingar forsetinn hafði í höndum þegar hann undirritaði bráðabirgðalögin. Eins og ég skil svar hæstv. forsrh. ber að skilja það svo að forseta hafi verið gerð grein fyrir því að málið hefði meiri hluta í báðum deildum Alþingis.
    Ég þekki hv. þm. Stefán Valgeirsson af gamalli og góðri reynslu, herra forseti, og þykir þess vegna leiðinlegt, þegar ég vitna nú til hans, að hafa ekki hér við púltið handhægar upplýsingar um það hvernig á að ávarpa hv. þm., hvernig á að skírskota til hv. þm. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur hvað eftir annað lýst því yfir að í Nd. sé huldumaður sem muni hjálpa ríkisstjórninni til að koma þessum bráðabirgðalögum í gegn og ég efast ekki um að þessi hv. þm. segi það satt. Hann er að vísu skapríkur maður en á hinn bóginn held ég að hann sé alveg falslaus og hafi sínar ástæður til þess að segja frá því eins og er ef huldumaður er á ferðinni á annað borð. Þetta er nóg um þetta atriði.
    Þá er í öðru lagi --- ég sá að hæstv. menntmrh. var kominn í salinn. Það væri út af fyrir sig ágætt að geta flutt ræðuna nokkurn veginn eins og ég hef hripað hana hjá mér af því að það líður svona langt á milli. Annars er verst að vera ekki með rauðan penna svo að ég geti merkt við að þetta verði að bíða þangað til hæstv. ráðherrar Alþb. hafa tíma til að koma hingað í salinn. (Gripið fram í.) Það verður að gera það.
    Ég spurði hæstv. forsrh. um það hvort hæstv. fjmrh. hefði ráðið orðalagi IV. kafla laganna eða hvort hann hefði verið sáttur við orðalagið. Við höfum ekki fengið nein svör við því, en það væri fróðlegt vegna þeirra ummæla sem þessi hæstv. ráðherra hefur haft um IV. kaflann. Ég sá að hæstv. fjmrh. rétt rak inn nefið hér áðan og frískaði upp á deildina með glæsilegu útliti sínu, en ég sé að hann hefur skotist út aftur. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. bað mig að
segja ræðumanni að hann væri að kynna fjárlagafrv. með hefðbundnum hætti, en mundi koma svo fljótt sem því er lokið.) Ég vissi ekki að fjárlagaumræðan væri hafin í Sþ., en venjulega kynnir hæstv. fjmrh. fjárlagafrv. með hefðbundnum hætti fyrir Sþ. og væri kannski rétt að gera hlé á fundinum svo að maður geti setið þennan fund í Sþ. En það gengur heldur ekki að koma að þessu máli.
    Það kemur enn í ljós hversu óheppilegt það var að við gátum ekki haldið umræðunni áfram sl. miðvikudag þegar ráðherrarnir voru hér í salnum. Mér líst ekki á þinghaldið ef jafnvel í hinum þýðingarmestu málum er ekki hægt að komast neitt áleiðis vegna þess að maður fær ekki nauðsynlegar upplýsingar. Ég bað um ákveðnar upplýsingar þegar

í minni frumræðu sem ég hef ekki fengið og það auðvitað tefur fyrir flutningi málsins nú.
    Ég spurði hæstv. forsrh. um það í minni frumræðu hvort samningur hefði verið gerður milli stjórnarflokkanna um það að þing yrði ekki rofið nema samþykki allra stjórnarflokkanna kæmi til. ( Gripið fram í: Og Stefáns.) Þessu svaraði forsrh. engu. Hann svaraði mér heldur ekki um það hvort samþykki hv. 6. þm. Norðurl. e. þyrfti að koma til, en það vekur athygli þegar maður les stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að honum er hnýtt aftan við eins og nokkurs konar stofnauka þannig að hann er hluti af þessari ríkisstjórn eins og hún er sett upp í málefnasamningnum. Þess vegna er líka nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hvort þing verði ekki rofið nema allir þeir flokkar samþykki sem eiga aðild að ríkisstjórninni og þar að auki hv. 6. þm. Norðurl. e. utan flokka sem hefur að vísu lýst því yfir að þessi ríkisstjórn sé ekki á sumar setjandi og hefur óskað eftir því fyrir norðan að kosningar verði nú í vor. Ég get því vel skilið að hæstv. forsrh. skuli þakka fyrir að þingrofsvaldið skuli ekki vera í höndum þess þm. eins, því að þá yrði seta hans skömm að þessu sinni í sæti forsrh.
    Ég verð að segja varðandi þau ummæli sem féllu hér, bæði hjá hv. 3. þm. Vestf. og eins hjá hv. 4. þm. Vesturl., um það sem ég sagði í sambandi við það hvort þessi ríkisstjórn stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar, að ég hef ekki haldið því fram að neitt það hafi enn komið fram sem staðfestir það að um stjórnarskrárbrot sé að ræða og var það rétt hermt hjá hæstv. forsrh. þegar hann vék að því í sinni ræðu. Á hinn bóginn ítrekaði ég og lagði ríka áherslu á að sú venja hefur skapast að bráðabirgðalög séu ekki gefin út nema áður hafi verið tryggt að þinglegur meiri hluti sé fyrir þeim eins og þingið er saman sett þegar þau eru gefin út. Ég held að um þetta sé ekki ágreiningur.
    Hæstv. menntmrh., mig langar til að víkja fyrirspurn til þín. Nú hefur hæstv. forsrh. upplýst að gildistöku virðisaukaskatts verði sennilega frestað um eitt ár, til 1. júní á árinu 1990. Nú hefði ég að vísu talið heppilegra að löggilding hans hefði getað farið fram 1. jan. 1990, en mitt atkvæði vegur ekki þungt í því, atkvæði þm. í stjórnarandstöðu. Ég hlýt þó að leggja áherslu á að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef nú gengið eftir og eftir því sem mér hefur verið sagt bæði af ríkisskattstjóra og endurskoðendum er heppilegra að skattalagabreyting af þessu tagi taki gildi um áramót en um mitt ár. Það er tæknilegt atriði og annað mál og auðvitað hægt að koma því í kring á miðju ári. Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. menntmrh. hvort Alþb. sé í fyrsta lagi sammála hæstv. forsrh. um það að virðisaukaskattur verði lagður á, sennilega á miðju ári 1990, ef þessi ríkisstjórn lifir svo lengi, gagnstætt vonum hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar, og þá langar mig einnig til að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann geri ráð fyrir að virðisaukaskatturinn verði þá í tveim þrepum þannig að virðisaukaskattur á matvæli verði annar og lægri en

á aðrar vörur. Og ef það skyldi nú vera tilfellið að hugmyndin sé sú að virðisaukaskatturinn á matvæli verði lægri en á aðrar vörur langar mig að spyrja hæstv. menntmrh. hvernig hæstv. utanrrh. hafi tekið slíkum hugmyndum, hvort hann sé búinn að jafna sig í bakinu eða hvernig hann líti á það mál ef tvö þrep verða í virðisaukaskatti hér á landi eins og víðast hvar í löndum Efnahagsbandalagsins. Við þessu fékk ég ekki nógu glögg svör í minni frumræðu.
    Ég hlýt, herra forseti, að vekja athygli á því að í mjög þýðingarmiklum málaflokkum hefur ríkisstjórnin ekki meiri hluta hér í þessari deild nema stjórnarandstaðan hlaupi undir bagga. Það upplýstist við þessar umræður af hv. 3. þm. Vestf. og af hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssyni að þeir séu enn sömu skoðunar og á síðasta Alþingi varðandi ýmis grundvallaratriði, hv. 3. þm. Vestf. varðandi afstöðuna til söluskattsins, sem er auðvitað mjög mikill liður í fjármálapólitík hæstv. ríkisstjórnar, og báðir þm. töluðu með þeim hætti að ekki verður skilið öðruvísi en svo að þeir séu fullkomlega andvígir þeirri fiskveiðistefnu sem hæstv. sjútvrh. fylgir. Ég held að það sé öldungis ljóst, eins og meiri hlutinn í deildinni er nú saman settur, að gjörsamlega væri útilokað fyrir hæstv. sjútvrh. að fá stuðningsyfirlýsingu frá meiri hluta þessarar deildar, nema ef vera kynni að hann fengi einhverja hjálp frá stjórnarandstöðunni. Þetta er sá trausti grundvöllur sem þessi ríkisstjórn stendur á og vekur auðvitað athygli á því hvernig á því standi að fyrstu aðgerðir hennar voru jafnmáttlausar og blautlegar eins og raun ber vitni.
Sannast sagna þannig að enginn þeirra manna, sem reka sjávarútvegsfyrirtæki eða útflutningsfyrirtæki hér á landi og hæstv. forsrh. þykist vera að bjarga, hefur áttað sig á því að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar, þetta er nú sannleikurinn í málinu. Og kannski er ástæða til, í þessu samhengi, að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann hafi virkilega meint það sem hann sagði í ræðu sinni, að ýmis fyrirtæki hér á landi hefðu verið komin á vonarvöl eða eitthvað þvílíkt þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lét af störfum og hann sjálfur hafi nú staðið að einhverju því sem ætla mætti að geti reist fyrirtækin við.
    Hæstv. menntmrh. sagði með miklu yfirlæti --- ég vil nú ekki segja að hann hafi minnt á frelsarann en biblíulegur var hann í framan þegar hann sagði um okkur sjálfstæðismenn: Voru þeir með lykilinn að Paradís í höndunum, af hverju notuðu þeir hann ekki? --- eins og þessi hv. þm. þóttist vera að gera. Hann þóttist hafa fundið lykilinn að Paradís og það Ísland sem við nú búum í --- og ég tek undir með honum að auðvitað svipar ástandinu hjá atvinnuvegunum nú að mörgu leyti til Paradísar Alþb., því að ekki aðeins af þessum ummælum hæstv. menntmrh. er ljóst og einnig af því sem Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., hefur sagt í fjölmiðlum að Alþb. stefnir markvisst að því að brjóta niður atvinnuvegina, þau fyrirtæki sem enn halda velli, og vilja með opinberum íhlutunum, opinberum millifærslum knýja fram gjaldþrot og eigendaskipti hjá fyrirtækjunum. Um þetta sagði

hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu, er hann talaði um hlutverk Atvinnutryggingarsjóðs, þegar hann var að útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna þingleg stjórn ætti ekki að stýra þeim sjóði og hvers vegna það væri nauðsynlegt að einstakir ráðherrar ættu þar sína fulltrúa, sína mattadora sem myndu spila eins og ríkisstjórninni sýndist, þegar hann var að útskýra fyrir þjóðinni af hverju þurfi að fara þannig að, af hverju þurfi að brjóta aldagamla hefð hér í þinginu, að stjórnir af þessu tagi væru þinglega kjörnar þannig að minni hlutinn gæti haft eftirlit með ríkisstjórninni, sagði hæstv. ráðherra: Það þarf að knýja fram eigendaskipti og uppstokkun á þessum fyrirtækjum. Það þarf að knýja fram eigendaskipti og uppstokkun á þessum fyrirtækjum og stjórnarandstöðunni var ekki treystandi til að taka þátt í því. Þetta er skýringin sem hæstv. forsrh. gefur á því að þessi leið var valin að skipa stjórn Atvinnutryggingarsjóðs með þeim hætti sem í bráðabirgðalögunum segir og það er eftirtektarvert ( Forsrh: Sagðirðu hæstv. forsrh. gaf?) Ég ætlaði að segja hæstv. fjmrh. --- hafi ég sagt annað hef ég mismælt mig og biðst afsökunar. Það kom a.m.k. stundum fram, en það var hæstv. fjmrh. sem hafði þessi ummæli í sjónvarpi. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég var að minna á að báðir þm. stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað, hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason og hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson, hafa gert athugasemdir við þá skipan Atvinnutryggingarsjóðs sem í bráðabirgðalögunum er gert ráð fyrir.
    Hv. 3. þm. Vestf. sagði hér fyrir viku og vitnaði mjög til sinnar greindarvísitölu að hann væri maður fyrir sínum orðum, hann þyrði að segja á einum stað það sem hann talaði um á öðrum og ef menn hefðu á annað borð heyrt skoðanir hans þyrfti enginn að vera í vafa um það hvaða afstöðu hann tæki. Nú verður auðvitað fróðlegt að fylgjast með því þegar frv. kemur til 2. umr. hvort þessi hv. þm. hefur þrek til þess að fylgja eftir þeim skoðunum sínum að nauðsynlegt sé að breyta þeirri skipan sem hér er gert ráð fyrir að verði á stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins eða hvort það verði tilfellið, eins og mig grunar reyndar, að hann sé svona að slá úr og í, gefa í skyn að hann gæti kannski og ef til vill verið reiðubúinn til þess að hugsa sér að annar háttur yrði á stjórn þessa sjóðs en hafi síðan ekki þrek til þess að fylgja eftir sínum eigin skoðunum. Á þetta mun reyna og eftir því mun verða tekið sérstaklega vegna þess að í ræðu sinni þar sem þetta kom fram brýndi hv. þm. ýmsa aðra þm. á því að þeir hefðu ekki þorað að fylgja eftir sínum skoðunum þegar mikið lægi við. Það má vel vera. Stundum var sagt um einn þm. sem hér var í stjórnarliðinu í gamla daga og hafði gaman af því að tala út og suður og þykjast vera með málum eða móti gagnstætt samherjum sínum í ríkisstjórninni að hann hefði þó alltaf þrek til þess að greiða atkvæði út og suður þegar hann vissi að málið hafði meiri hluta í þingdeildinni hvort sem var. Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þessi hv. þm. sé sömu gerðar, að hann muni tala um það hér í þinginu að skipan

stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs sé óeðlileg og hvort hann muni þora að greiða þannig atkvæði að skipan sjóðsstjórnarinnar verði breytt. Það er ekki aðeins í þessu eina máli. Það er líka í ýmsum öðrum málum sem koma fyrir á þinginu í vetur þar sem í ljós mun koma hvort þessi hv. þm. hefur sama þrekið til þess að veifa sjálfstæðum skoðunum eins og á síðasta þingi þegar hann gat verið í skjóli annarra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sem þá sat. Á því veltur hver karlmennskan er.
    Hv. 3. þm. Vestf. og hæstv. forsrh. töluðu báðir um niðurfærsluna og var ekki annað að heyra en þeir væru báðir þeirrar skoðunar að sú leið hefði verið farsæl til lausnar á vandamálunum og ekki dreg ég það í efa að þeir segi það
satt. En ég held, hæstv. forsrh., að enginn muni trúa þeim orðum nema fram komi hvaða hugmyndir hæstv. forsrh. hafði um hvernig farið yrði með niðurfærsluna í sjávarútveginum. Það er auðvitað gott að geta leyst málið með því að segja eitt orð. Það er auðvitað afskaplega auðvelt að segja bara núna: Ég vildi fara niðurfærsluleiðina. Niðurfærsluleiðin hefði verið miklu betri. Niðurfærsluleiðin hefði gert þetta og niðurfærsluleiðin hefði gert hitt, en hafa síðan ekki þrek til þess að útskýra hana í einstökum atriðum. Það var auðvitað mjög eftirtektarvert sem fram kom hjá hv. 3. þm. Vestf. þegar hann sagði að hann hefði verið til viðtals um það og það hefði verið álitamál í sínum huga og komið til skoðunar hvort mætti breyta skiptakjörum sjómanna. Ég efast um að þessi hv. þm. hefði talað svo á þingi sjómanna fyrir vestan. En hann sagði það berum orðum hér í deildinni fyrir viku að það mætti koma til skoðunar hvort rétt væri að breyta skiptakjörunum. ( KP: Nú hefur hv. þm. ekki heyrt rétt.) Ja, ( Gripið fram í: Svona mátulega. Því ekki að fletta greinunum.) Ræða hv. þm. er hér á borði mínu og við skulum fletta því upp --- en ef það er rétt sem þm. segir, að nú sé ég að fara rangt með, herra forseti, finnst mér sjálfsagt að hv. þm. komi við athugasemdum hér í deildinni þannig að það sjáist svart á hvítu að hann hafi mistalað sig. En þetta mun koma í ljós. Ég hef orðrétt ræðuhandritið. Ég skal að vísu viðurkenna að ég las það ekki yfir fyrir þennan fund heldur heyrði ég hvað hv. þm. sagði og mun þá að sjálfsögðu biðjast afsökunar hafi ég heyrt rangt. En það staðfestir þá að hv. þm. var þeirrar skoðunar að ekki kæmi til greina að breyta skiptakjörum sjómanna. Er það rétt? ( KP: Það var ekki búið að skoða málið.) Hv. þm. ítrekar enn með sínu svari að það hafi ekki verið búið að skoða málið, ekki búið að skoða hvort kæmi til greina að breyta skiptakjörunum. Það þýðir á mæltu máli að það hafi komið til greina. Hv. þm. segir að það hafi ekki verið búið að skoða hvort skiptakjörum yrði breytt. Þetta þýðir annaðhvort það að þessi fulltrúi vestfirskra sjómanna hér í þinginu hafi verið reiðubúinn til þess að breyta skiptakjörum sjómanna eða ekki. Var þessi hv. þm. reiðubúinn til þess að gera það? Hann var reiðubúinn til þess að skoða það. Vildi fulltrúi vestfirskra sjómanna fallast á að þær kringumstæður gætu verið fyrir hendi að

heimilt væri að breyta skiptakjörum sjómanna? Skoða það, sagði hv. þm. (Gripið fram í.) Hv. þm. sagði skoða það. ( KP: Það var ekki skoðað.) Hann sagði skoða það sem þýðir auðvitað að hann er annaðhvort að gefa í skyn eða gefa undir fótinn að hann væri reiðubúinn að breyta skiptakjörum. Hann er a.m.k. ekki viss í sinni sök. ( KP: Vill ekki hv. þm. lesa ræðuna?) En hæstv. forsrh.? Var hæstv. forsrh. reiðubúinn til þess að breyta skiptakjörum sjómanna? Það væri mjög upplýsandi að fá hugmyndir um það. ( Gripið fram í: En ræðumaður?) Var hæstv. forsrh. reiðubúinn til þess? Ég held að hæstv. forsrh. verði að svara þessu. Hann getur ekki haldið áfram að tala um að hann vilji niðurfærsluleiðina en geti svo ekki svarað grundvallarspurningum í sambandi við hana. Var það skoðun sjútvrh. að það ætti að lækka fiskverð um 5% og hafa óbreytt skiptakjör? Af hverju alltaf að vera að tala, hæstv. forsrh., um að niðurfærsluleiðin sé svona mikilvæg ef ekki er hægt að svara einföldustu spurningum.
    Nú sé ég að sjútvrh. er kominn í salinn. Það er kannski rétt að spyrja hann: Er það rétt, hæstv. sjútvrh., að sú hafi verið skoðun hæstv. ráðherra í síðustu ríkisstjórn að fiskverð ætti að lækka um 5% ef til niðurfærslu kæmi. Já, svo fjölorðir sem þessir hæstv. ráðherrar báðir eru, sérstaklega forsrh., um niðurfærsluleiðina þegar enginn er til að spyrja, þegar þeir þykjast geta sloppið án þess að svara, eru þeir fáorðari þegar þeir eru spurðir út úr.
    Það er auðvitað laukrétt sem hv. 14. þm. Reykv. sagði hér um þessi mál að það þýðir ekkert að ætlast til þess að það fólk hér á landi sem hefur lægstu launin í landinu, fátækasta fólkið í landinu, eigi að sætta sig við 9% kjaraskerðingu á sama tíma og þeir sem hafa hæstu launin fái kannski enga. Og halda svo áfram, ekki aðeins í þinginu heldur í öllum fjölmiðlum landsins, á fundum út um allt land, að tala um þessa niðurfærsluleið eins og hæstv. forsrh. hafi einhvern tíma viljað fara hana. Hann hefur ekki einu sinni kjark til að skýra út í grófum dráttum hver voru aðalatriði niðurfærsluleiðarinnar í hans huga. Hann segir: Niðurfærsluleiðin átti að bjarga sjávarútveginum. En hann hefur ekki kjark til þess að segja, hvorki hér í deildinni né annars staðar, hvernig niðurfærsluleiðin átti að koma við sjávarútveginn, hvernig niðurfærsluleiðin átti að koma við sjómennina og hvernig hún átti að koma við fólkið í frystihúsunum. Hann þorir ekki að segja hvernig það átti að koma við þá sjómenn sem lögðu aflann upp í frystihúsunum úti á landi, hvernig það átti að koma við þá sjómenn á frystitogurunum sem lögðu upp á mörkuðunum hér á landi og þar fram eftir götunum. Ekkert þetta hefur komið fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Það ber auðvitað málstaðnum vitni.
     Það er auðvitað afskaplega þægilegt þegar menn eru að verja rangan málstað að geta alltaf vísað til einhvers sem menn sjá í þoku og geta ekki virt greinilega fyrir sér, en sjá aðeins útlínurnar, það er afskaplega auðvelt að segja við mann sem hvorki hefur sjónauka eða hefur lesið stjörnufræði að

það gangi fólk um á tunglinu, ef viðkomandi hefur aldrei lesið neina bók og aldrei heyrt neitt um tunglið. Það er enginn vandi að segja að þar sé kannski annar Framsfl., ekki nokkur vandi ef viðkomandi veit ekki neitt um tunglið áður. Eins er það með niðurfærsluleiðina. Það er afskaplega einfalt, hæstv. forsrh., að halda því fram eins og kom fram í ræðunni fyrir viku að niðurfærsluleiðin, lækkun launa um 9%, hefði fært einhverjar kjarabætur til einhverra, en það er auðvitað algerlega úr lausu lofti gripið, í hvaða samhengi sem það er talað, að lækkun verðlags hefði fært launþegum kjarabót. Auðvitað hefði einhver lækkun verðlags í kjölfar 9% lækkunar á launum ekki fært einum einasta manni kjarabót. Ef vörur lækkuðu í kjölfarið hefði það dregið úr kjararýrnuninni. Það er bara allt annað mál. Ég skal ekki á þessu stigi fara mikið lengra út í þessa sálma nema aðeins vekja athygli á því að hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu að eftir að niðurfærsluleiðin var úr sögunni hefði verið séð fyrir endann á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og taldi hann það orsök stjórnarslitanna.
    Hæstv. forsrh. sagði: Upp úr því stjórnarsamstarfi slitnaði vegna þess einfaldlega að við náðum ekki samkomulagi um þessa leið. Hér er að mati forsrh. alveg um skýran tímapunkt að ræða í ferli síðustu ríkisstjórnar. Í hans huga kom frekara stjórnarsamstarf við Sjálfstfl. ekki til greina eftir að slitnaði upp úr viðræðunum um niðurfærsluleiðina. Á öðrum stað kvartar hann undan því að við sjálfstæðismenn hefðum ekki viljað verja ríkisstjórn Framsfl. og Alþfl. vantrausti, að við hefðum ekki viljað styðja slíka ríkisstjórn án þess að eiga hlutdeild í henni. Ég skil ekki alveg hvað hæstv. forsrh. er að fara með því þegar hann spyr og segir hér í þinginu: Við vorum þrír flokkar saman í ríkisstjórn. Nú þykir mér eðlilegt að einn flokkurinn fari út úr ríkisstjórninni og haldi áfram að styðja þau mál á Alþingi sem ríkisstjórn þá tveggja flokka í stað þriggja leggur fram. Eitthvað er nú þetta grautarlegur hugsunarháttur að halda að stjórnmál gangi þannig fyrir sig, að einhver einn flokkur sé reiðubúinn til þess að ganga úr ríkisstjórninni, missa þannig áhrif og völd, en láta einhverjum öðrum eftir að stjórna og sýna ábyrgð. Auðvitað er þetta ekkert annað en útúrsnúningur, að slá svona úr og í, og dæmigert fyrir málflutning hæstv. forsrh. þegar hann vill ekki tala skýrt eins og hann hefur ekki fengist til að gera í sambandi við niðurfærsluleiðina svo sem ég hef hér gert skýra grein fyrir.
    Málsvari Alþfl., hv. 3. þm. Vestf., sagði í sinni ræðu, þegar hann fjallaði um það hvort skynsamlegt hefði verið af Sjálfstfl. að bera niðurfærsluleiðina undir samtök launafólks, undir stjórn Alþýðusambands Íslands, að það hafi verið gert til þess að loka þessari leið og verið beinlínis sett fram til þess. Ber að skilja ummæli hv. 3. þm. Vestf. þannig að undir vissum kringumstæðum geti aðstæður í þjóðfélaginu verið svo alvarlegar að það sé beinlínis óráðlegt fyrir forsrh. að bera það traust til stjórnar Alþýðusambandsins að ræða við hana um ýmsa þá möguleika sem uppi eru

um það hvernig eigi að taka á erfiðleikum í atvinnulífinu? Mér kom auðvitað mjög mikið á óvart að þessi hv. þm. skyldi tala með þeim hætti sem hann gerði. Hann hefur jafnan fram undir þetta verið einn þeirra manna hér í þingsölum sem harðast hafa talað fyrir hagsmunum launafólks og hvarvetna viljað tryggja að áhrif þess væru eðlileg og að samtökum launafólks væri sýnd ekki aðeins virðing heldur sá trúnaður að við þau mætti tala og bera undir þau hvers konar málefni, ekki síst þegar mikið er í húfi, að ég tali nú ekki um, eins og hæstv. sjútvrh. óttast svo mjög, þegar mikið atvinnuleysi blasir við. Ég hélt að einmitt undir slíkum kringumstæðum þætti hv. 3. þm. Vestf. mikilsvert að forsrh. væri þeirrar gerðar að hann vildi tala við stjórn Alþýðusambandsins og reyna að efla trúnað milli sín og forustumanna launþega.
    Það er af þessum ástæðum sem mér þykir mjög undarlegt að þessi hv. þm. skuli komast svo að orði að áhersla hæstv. fyrrv. forsrh., Þorsteins Pálssonar, á að styrkja trúnaðarsambandið við verkalýðshreyfinguna hafi einungis verið til þess að útiloka leið sem að öðrum kosti hefði kannski verið farin til góðs fyrir launþega. Ég veit ekki hvort það á að skilja hv. þm. svo að hann telji að fyrrv. ríkisstjórn hefði betur ekki talað við Alþýðusambandið því að þá stæðu okkar mál betur. Var það það sem hv. þm. meinti? Kom stjórn Alþýðusambandsins illa fram í þessu máli og talaði gegn hagsmunum launþega? Voru það m.ö.o. hagsmunir launþega að niðurfærsluleiðin væri farin eins og hún var lögð til af ráðherrum Alþfl. og Framsfl.? Var það sú stefna sem þessi hv. þm. vildi fara? Og ber þá að skilja hann þannig að stjórn Alþýðusambandsins í heild hafi með afstöðu sinni unnið gegn hagsmunum launþega? Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar að stjórn Alþýðusambands Íslands hafi í þessu tilviki haft hagsmuni launþega í huga og haft rétt fyrir sér hlýtur þessi hv. þm. líka að vera þakklátur formanni Sjálfstfl. fyrir það að hann skyldi hafa borið það traust til launþegahreyfingarinnar að hann vildi bera þessi mál undir hana áður en lengra yrði haldið.
    Ég held að það sé ekki bæði hægt að segja, hv. þm., að niðurfærsluleiðin sé góð og að hún sé á móti hagsmunum launþega. Það er ekki bæði hægt að segja
að Þorsteinn hafi gert illt af sér með því að niðurfærsluleiðin var ekki farin og segja þá um leið að niðurfærsluleiðin hafi falið í sér óréttlæti, kannski mesta óréttlæti frá lýðveldisstofnun gagnvart einstökum þjóðfélagshópum. Það er ekki bæði hægt að segja að hún sé góð og vond eftir því um hvað talað er.
    Ég held því, herra forseti, að hv. þm. verði ekki skilinn öðruvísi, ef höfð eru í huga afskipti hans af launamálum áður og þau orð sem hann hefur áður sagt hér á Alþingi um launþegasamtökin, um þá lægst launuðu, um launamismuninn í landinu, um það hvernig hann vilji einmitt koma til móts við þá sem helst þurfa þess með, með hliðsjón af öllum þeim orðum er ekki hægt að skilja hv. þm. öðruvísi en svo

að hann hafi að vísu með klaufalegum hætti verið að þakka formanni Sjálfstfl. fyrir það að hann skyldi hafa borið niðurfærsluleiðina undir stjórn Alþýðusambands Íslands og að stjórn Alþýðusambands Íslands hafi hafnað þeirri leið vegna þess að stjórn Alþýðusambandsins vissi að sú leið var á móti hagsmunum þess fólks sem minnst má sín í landinu.
    Hitt er svo auðvitað eftirtektarvert að samningsréttarmálin eru ekki lengur neitt grundvallaratriði hjá Alþb. um leið og það er komið í stjórnaraðstöðu.
    Og það er eitt mál annað, þetta þó að launin séu lækkuð. Hæstv. menntmrh. er svo vanur því að grípa inn í kjaramálin með bráðabirgðalögum eða lögum frá Alþingi eða bara hvernig sem hægt er að koma því við að lækka launin hjá fólkinu. Hvort það er 13, 14 eða 20 sinnum skiptir ekki máli. Í biblíunni stendur einhvers staðar: ekki 7 sinnum heldur 70x7 sinnum. Við skulum vona að hæstv. menntmrh. verði ekki svo langlífur í þessu sæti að hann hafi tækifæri til þess að grípa inn í og skerða kjarasamninga 70x7 sinnum.
    En ég vil spyrja hæstv. menntmrh. um annað. Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að koma nokkuð víða við vegna þess að það frv. sem hér liggur fyrir er flutt í tilefni af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, hinni fyrstu. Er hæstv. menntmrh. líka sammála þeim ummælum, sem hæstv. iðnrh. hefur látið sér um munn fara, að rétt sé að róa öllum árum að því að ný stóriðja rísi sem fyrst hér á landi og helst í Straumsvík? Hvað segir hæstv. menntmrh. um það mál? Er kannski Alþb. ekki aðeins búið að kyngja samningsréttarmálunum? Er Alþb. líka orðið mesti stóriðjuflokkurinn hér á landi ef það hentar Alþb. þegar það kemur inn í ríkisstjórn? Ég sá að vísu að hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson var eitthvað að reyna að móast við fyrst í stað. En ég held að það sé búið að koma --- heitir það ekki félagsleg hnapphelda núna sem sett er á þm.? Það er ekki frjálshyggja. Svo mikið er víst. Það er ekki frelsi sem er á einstökum þm. Hnappheldan er félagsleg. Ekki vinstri hnapphelda, heldur er hún félagsleg hnapphelda. Það er nýyrðið núna, félagslega hnappheldan. Ég man eftir því að hæstv. ráðherra talaði fyrr um ,,gengisaðlögun``. Það mátti ekki lengur tala um að fella gengið og þá mátti gengið ekki síga. Þá fann hann upp í sinni ræðu einu sinni gengisaðlögun. ( Menntmrh.: Það var Þorsteinn sem fann hana upp.) En núna þora þeir ekki lengur að mynda vinstri stjórn því að þeir vita að það er óbragð af vinstri stjórn hjá þjóðinni og nú á þetta að heita félagshyggjustjórn. Ég veit nú ekki hvort það er nokkurt ólöglegt litarefni og ólöglegt bragðefni á þessum nýju einkunnum sem þessi ríkisstjórn gefur sér. Því ef þetta yrði allt saman efnagreint þá sjáum við að það er bara ný vinstri stjórn komin í landið. En mér er svo sem alveg sama þó við köllum hana félagshyggjustjórn. Það skiptir ekki máli.
    En er þetta svona, að Alþb. sé í þessari nýju félagshyggjustjórn sinni, félagshyggjustjórninni sem lét það verða sitt fyrsta verk að framlengja kaupránslög

frá íhaldinu, banna verkalýðshreyfingunni að semja? Félagshyggjustjórnin sem bannar launþegunum að fá umsamdar kauphækkanir, er það ekki? Félagshyggjustjórnin sem ætlar að fara að þyngja skattana? Félagshyggjustjórnin sem segir að aðgerðir sínar í efnahagsmálum séu þannig að það megi búast við meira atvinnuleysi en kannski nokkru sinni í sögu lýðveldisins? Það er nú félagshyggjustjórnin.
    Er það líka verkefni félagshyggjustjórnarinnar, hæstv. menntmrh., að reisa álver í Straumsvík? Hvernig er það? Er erfitt að segja já eða nei við því? (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort kratarnir kannast við að eiga fleiri ráðherra en tvo, hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. Þó ég haldi nú að þriðji krataráðherrann sé þeirra vinsælastur þá hefur mér sýnst stundum að forustumenn krata vilji ekki kannast við þennan þriðja af því að hann er best séður hjá þjóðinni og kannski mest við alþýðuskap.
    Hvað segir hæstv. menntmrh. um hervöllinn fyrir norðan eða austan? Heldur hæstv. menntmrh. að hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson kunni vel við hann? Ekki orð um það heldur. NATO-völl fyrir austan eða norðan, það má ekki segja orð um það. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. vilji þá svara þessu hér á eftir af því að við erum nú á annað borð að fjalla um efnahagsaðgerðirnar og vegna þess að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir í gær að efnahagsaðstæður í þjóðfélaginu væru þannig að hann hefði ekki þrek til þess að fara að tillögum
fiskifræðinga um að gera nauðsynlegar friðunaraðgerðir varðandi t.d. þorskstofninn. Rækjustofninn kannski líka? Grálúðuna? Karfann? Hann sagði að af efnahagslegum ástæðum treysti ríkisstjórnin sér ekki til þess að fara að tillögum fiskifræðinga um nauðsynlega friðun á þorskinum, karfanum, grálúðunni, rækjunni. Eða hvað? Og um leið og þetta liggur fyrir, er þá ríkisstjórnin kannski líka að hugsa um að spilla fyrir í sambandi við stóriðjumálin við Straumsvík? Eða hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um það að ráðherrarnir leggist nú allir á eitt um það að skjóta nýjum stoðum undir gjaldeyrisöflun okkar einmitt núna þegar samdrátturinn er og reisa nýtt álver við Straumsvík eða stækka álverið?
    Ég veit að hæstv. forsrh. er góður verkstjóri. Ég veit ekki hvort hann er hins vegar trúnaðarmaður einstakra ráðherra í sínu ráðuneyti. Hafa þeir ráðherrar Alþb. trúað hæstv. verkstjóra sínum og forsrh. fyrir því hvort þeir geti hugsað sér að stækka álverið? Ég man þegar ég hlustaði á hæstv. samgrh. í fyrsta skipti, Steingrím J. Sigfússon, þá fór hann hamförum um allt Norðausturland og það var auðheyrt á hans ræðum þá að það var bara tvennt sem hann ekki vildi. Hann vildi ekki stóriðju og hann vildi ekki varaflugvöll sem gæti gagnast NATO. Hvorugt á þeim tíma. Nú hafa ráðherrar Alþfl. sagt að þeir stefni að hvoru tveggja. Þeir vilja NATO-flugvöllinn. Þeir vilja stóriðjuna. Ekki orð frá hæstv. forsrh. Vonandi kemur það á eftir. Ekki orð frá hæstv. menntmrh. Hæstv. menntmrh. var nú þannig samt í stjórnarandstöðunni að hann átti til

að spyrja menn og ætlaðist stundum til þess að þeir svöruðu já eða nei. En ég sé að hann er orðvarari núna, enda fann maður það á ræðu hans fyrir viku að honum var ekki jafnglatt í geði eins og maður gæti haldið eftir að hann hafði komist í stólinn. Flugið var ekki jafnmikið núna eins og á vordögum. Það var eins og hann væri vængstýfður, ein af gæsunum hans Snorra á Skipalóni, heimaalin gæs eða eitthvað svoleiðis.
    Ég sé nú að formaður fjh.- og viðskn. er kominn hingað. ( Gripið fram í: Er hv. þm. að líkja ráðherranum við gæs.) Ég biðst afsökunar á því, herra forseti, að hafa ekki líkt honum við fálka. ( Menntmrh.: Er hann ekki sameiningartákn Sjálfstfl.?) En á sama tíma og sjútvrh. er að spá atvinnuleysinu segist hæstv. menntmrh. vera með lykilinn í höndunum að paradís verkafólks í landinu. Er það ekki? Það er lykillinn. Hann er með lykilinn í höndunum. Það þarf ekki að spyrja að því. Þannig er það.
    Ég veit ekki hvað maður á að fara langt í þetta. Hv. 3. þm. Vestf. efaðist um að ráðstafanirnar nægðu til að reisa atvinnulífið við, nánast úr rústum. Ég held að hann hafi sagt eitthvað í þá áttina. Er það ekki rétt með farið? Já. Það er verst að hv. 4. þm. Vesturl. skuli ekki vera hér. En það er svona, herra forseti, þegar langt er á milli umræðna þurfa menn kannski að fara bæjarleið og komast ekki til baka í tæka tíð, gleyma kannski að umræðan heldur áfram.
    Ég hef heyrt ýmsa aðra stjórnarsinna tala um það að síðasta ríkisstjórn hafi skilið illa við og er nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um það. Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. lagði formaður Sjálfstfl. mjög ríka áherslu á það í júlímánuði að ekki síðar en í ágústmánuði yrði gripið til ráðstafana sem dygðu til þess að útflutningsatvinnuvegirnir fengju eðlileg vinnuskilyrði. Það var auðvitað rétt að við sjálfstæðismenn skyldum leggja meiri áherslu á þetta en bæði framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn. Ef við skoðum söguna þá hefur það jafnan verið svo að Sjálfstfl. hefur verið óhvikull í þeirri skoðun og stefnu sinni að hið íslenska þjóðfélag verði ekki rekið með öðrum hætti en þeim að útflutningsframleiðslan geti staðið undir sér. Þetta hefur verið forsendan fyrir málefnalegri baráttu, þjóðmálabaráttu okkar sjálfstæðismanna og frá þessu höfum við ekki hvikað. Og einmitt á grundvelli þessarar stefnu hefur okkur tekist að gæða aðra þætti atvinnulífsins lífi og á grundvelli þessarar stefnu hefur okkur tekist að færa bætt lífskjör til fólksins, jafnvel þótt Sjálfstfl. hafi komist til valda við erfið skilyrði.
    Nú gerðist það í ágústmánuði sl. að samkomulag tókst ekki milli stjórnarflokkanna þriggja um til hvaða ráðstafana yrði gripið vegna sjávarútvegsins, vegna útflutningsatvinnuveganna, og eins og við heyrðum og eins og ég hef áður sagt og ,,síterað`` hefur hæstv. forsrh. upplýst að af hálfu Framsfl. hafi frekara stjórnarsamstarf við Sjálfstfl. ekki komið til greina eftir að niðurfærsluleiðin var úr sögunni. Þessi ummæli hæstv. forsrh. skýra auðvitað betur en mörg

orð ástæðurnar fyrir því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar varð að láta við það sitja 1. sept. sl. að setja bráðabirgðalög sem gerðu hvort tveggja í senn: komu í veg fyrir verðhækkanir og frystu kaupgjald í landinu. Þetta hvort tveggja olli því að vextir í landinu lækkuðu meira í septembermánuði en þeir hafa gert í annan tíma og það er athyglisvert að framfærsluvísitalan var á ársgrundvelli 29,1% í ágústmánuði og gætti þar áhrifa gengisfellingarinnar í maímánuði, í september var hún komin niður í 0,7% eða 9,1 á ársgrundvelli og í kjölfarið fer hún í 0,4% nú í októbermánuði eða 4,2% á ársgrundvelli. Allan þennan mikla árangur einmitt í verðbólgumálum er óhjákvæmilegt annað en rekja til þeirra aðgerða sem ríkisstjórn Þorsteins
Pálssonar beitti sér fyrir og er að þakka bráðabirgðalögunum frá 1. sept. og í framhaldi af þeim var kaupfrystingu haldið áfram og samsvararandi og sams konar verðlagsaðhaldi beitt og við sjálfstæðismenn lögðum til í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Verðstöðvunin, sem ýmsir töluðu þá um sem nú eiga sæti í ríkisstjórninni, hefur ekki orðið. Auðvitað halda vörur áfram að hækka sem keyptar eru erlendis frá eins og við sögðum fyrir fram og eins og við vissum allan tímann. Hins vegar í þessum mánuði, sem nú er nýbyrjaður, nóvembermánuði, mun verðbólgan hækka, hún mun fara upp í 1% eða 12--13% á ársgrundvelli, úr 4,2% í októbermánuði í 12--13% í nóvembermánuði, og öll áhrifin af þessari hækkun verðbólgunnar munu fara beina leið inn í lánskjaravísitöluna, hæstv. forsrh., og hækka öll lán í landinu. Áhrifin af gengisfellingunni fara beina leið inn í vísitöluna og þyngja byrðarnar bæði hjá launafólki og hjá atvinnurekendum í landinu og það er ekki að sjá að af hálfu ríkisstjórnarinnar sé að vænta neinna viðbragða til að reyna að koma í veg fyrir það, engra viðbragða, þó að lánskjaravísitalan fari aftur á leik vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki hugmyndaflug, þrek eða kjark til að gera neinar neyðarráðstafanir til þess að áhrif gengisfellingarinnar kæmu ekki inn í verðlagið. Svo einfalt er það mál.
    Við sjálfstæðismenn sögðum í ágústmánuði að þeim mun lengur sem aðgerðir fyrir útflutningsatvinnuvegina drægjust, þeim mun verr yrðu fyrirtækin sett og við settum okkur af þeim sökum þessi tímamörk. Það má auðvitað segja að við hefðum á síðustu dögum ágústmánaðar átt að leggja til að efnt yrði til kosninga. Eftir sem áður var nauðsynlegt að stöðva frekari víxlgang kaupgjalds og verðlags. Við urðum að setja stöðvunarlögin 1. sept. úr því að framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn voru ekki til viðtals um neitt það sem mætti koma útflutningsatvinnuvegunum til góða, ekki neitt, alls ekkert. Af þeim sökum er auðvitað nauðsynlegt að setja þessi bráðabirgðalög 1. september. Síðan heldur auðvitað tíminn áfram að líða. Og nú er komið í ljós að það sem stóð í Alþýðublaðinu er rétt, að formaður Framsfl. var í baktjaldamakki þessa síðustu daga ágústmánaðar og í septembermánuði. Hann er sjálfur búinn að segja að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi

verið úr sögunni, stjórnarsamstarfið hafi verið úr sögunni eftir að niðurfærsluleiðinni var hafnað og enginn þarf að segja mér að hæstv. forsrh. hafi þá setið auðum höndum. Þannig er nú komið í ljós að baktjaldamakkið átti sér stað. Ég skal ekki gera mikið úr því, hæstv. forsrh., þó svo sé. Mér finnst bara gott og nauðsynlegt að atriði eins og þessi komi fram í dagsljósið þannig að maður átti sig á því hvernig þróun stjórnmálanna er og hvernig málin ganga fyrir sig í einstökum atriðum.
    Síðan kemur fram í septembermánuð og þá segja þeir hver á fætur öðrum að ráðstafanirnar í september hafi nánast reist atvinnulífið úr rústum. Og hverjar voru nú ráðstafanirnar? 3% gengisfelling. Það væri gaman að spyrja frystihúsin 17, sem hæstv. forsrh. vísaði til og talaði um að væru að stöðvast, hvort framkvæmdastjórarnir í þeim frystihúsum telji að þessi 3% muni miklu. Að vísu er rætt um að greiða 5% úr Verðjöfnunarsjóði vegna frystiiðnaðarins, það er rétt, og það kemur auðvitað til góða. En ekki mundi það duga til að reisa neitt úr rústum. Það hefur áður komið fyrir að sjávarútvegurinn hér hefur verið í rústum og þá hefur þurft meira en 3% gengisfellingu og 5% greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði. Verðbólgan var komin niður þegar stjórnarskiptin urðu þannig að ekki hafa þessir tveir ráðherrar gert neitt í þeim efnum. Hún er hækkandi í þessum mánuði. Ekki var neitt gert þar sem þessi ríkisstjórn getur sérstaklega hrósað sér af. Nei.
    En hæstv. forsrh. segir líka fleira. Hann segir að gengi krónunnar sé rangt skráð. Nú er óhjákvæmilegt að lesa úr ræðu hans um það atriði. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að mati Þjóðhagsstofnunar var raungengi um síðustu áramót á mælikvarða launa 30% yfir meðalraungengi undanfarinna 4--5 ára. Einnig að mati Þjóðhagsstofnunar var raungengi á mælikvarða verðlags um 20% yfir meðalraungengi þessara ára. Þjóðhagsstofnun telur að þetta hvort tveggja muni lækka fram í febrúar um um það bil helming, þ.e. á mælikvarða launa niður í um það bil 15% og mælikvarða verðlags niður í um það bil 10%. Þetta er út af fyrir sig afar mikil lækkun.
    Það getur einnig ýmislegt fleira gerst sem lagfærir þetta raungengi. T.d. hafa ýmsir spáð því að það muni verða hækkun á okkar afurðum á erlendum mörkuðum snemma á næsta ári vegna þess að það hefur orðið uppskerubrestur m.a. í Bandaríkjunum og víðar sem muni leiða til hækkunar á matvælaverði. Sömuleiðis held ég því a.m.k mjög ákveðið fram að sú lækkun í fjármagnskostnaði sem verður framkvæmd muni leiða til þess að atvinnuvegirnir þola betur það gengi sem er og vitanlega leiðir lækkun á slíku til lækkunar raungengis á grundvelli verðlags.``
    Ég hef þessa tilvitnun ekki lengri, herra forseti, en hún vekur margar spurningar. Í fyrsta lagi væri nauðsynlegt að fá að vita hvort hæstv. forsrh. telur að raungengi krónunnar hafi verið viðunandi eða rétt um síðustu áramót. Í öðru lagi væri fróðlegt að fá upplýsingar um hversu mikil kjararýrnun felst

í þessum spádómum. Um áramót var raungengi á mælikvarða launa 30% yfir meðalraungengi undanfarinna 4--5 ára, en dettur niður í 15%. Hversu mikil kjaraskerðing er þetta? Hefur hæstv. menntmrh. gert sér grein fyrir hver kjaraskerðingin verður fram í febrúarmánuð? Eftir þessum upplýsingum hæstv. forsrh. virðist þetta eiga að halda svona áfram, rúlla áfram eins og snjóbolti, bætir við sig kjaraskerðingin á hverjum mánuði, stækkar smátt og smátt. Hvað ætli kjaraskerðingin sé orðin mikil núna, hæstv. forsrh., ef það dettur niður í 15% í febrúar? Það er m.ö.o. í gegnum kjaraskerðinguna sem á að reyna að ná genginu réttu, en þó þannig að það á ekki að gera neitt til þess að örva atvinnureksturinn til dáða. Það eru að vísu framlög úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sem ég held að talað sé um að eigi að veita 5% bætur vegna framleiðslu frá 1. júlí sl. En hversu lengi á það að vera? Á það að vera fram í febrúarmánuð eða til maíloka? Er hægt að fá svar við því? Það er ekki í bráðabirgðalögunum. Hversu lengi hugsar ríkisstjórnin sér að þessar greiðslur úr frystideildinni verði í Verðjöfnunarsjóði frystiiðnaðarins? Á framleiðslunni í maí, framleiðslunni í febrúar? Hvenær er lokadagurinn í þeim efnum? Það væri mjög nauðsynlegt að fá um það að vita, líka til þess að fá upplýsingar um hvort sú fjárhæð sé nægileg sem í bráðabirgðalögunum er talað um.
    Ég tók eftir því í fréttum í gær og það er náttúrlega ekki í fyrsta skipti þegar talað er um það að gengi bandaríkjadals fari lækkandi. Þær eðlilegu röksemdir sem menn telja að séu fyrir því eru í fyrsta lagi að ríkissjóður sé rekinn með halla, í öðru lagi að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd sé rekinn með halla og í þriðja lagi vegna þess að bandarísk fyrirtæki standi ekki nægilega vel á erlendum mörkuðum. Það eru þessi þrjú atriði sem valda því að bandaríkjadalur fellur í verði. Nú erum við með ríkisstjórn sem er á öndverðum meiði í þessu. Það er líka þannig hjá okkur að ríkissjóður er rekinn með halla. Það er líka þannig hjá okkur að það er bullandi halli á viðskiptajöfnuði og það er líka þannig hjá okkur að útflutningsiðnaðurinn stendur höllum fæti. Og þá erum við með ríkisstjórn sem segir: Þegar þetta þrennt fer saman skulum við styrkja stöðu íslensku krónunnar gagnvart dollar. Er nokkur maður hér á landi sem heldur að íslenska krónan sé sterkari en dollar? Er ástandið þannig í landinu núna að við getum hrósað okkur af því? Ég held ekki. Sumir segja og vilja halda því fram að það að tala um að strjálbýlið megi standa undir sér sé mikil þröngsýni. En ég verð að segja það að sem þingmaður þess kjördæmis sem kannski framleiðir mest af þorskafurðum á hverju ári, sem þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, ber ég mikinn kvíðboga fyrir þeirri byggðarfjandsamlegu stefnu sem þessi svokallaða félagshyggjustjórn fylgir. Félagshyggja! Og hvað var hitt aftur? (Gripið fram í.) Félagshyggja og bræðralag, já. Það var ágætt, já. Þessi svokallaða félagshyggjustjórn. Þetta orð er ekki jafnfallegt í munni nú og áður en stjórnin var

mynduð. Það er að verða hálfgert óbragð að nafninu, félagshyggjustjórn. ( Gripið fram í: Þetta er ekki fallegt nafn.) Guð minn almáttugur.
    Þessi stjórn er að beita sér fyrir þeirri byggðafjandsamlegu stefnu að fyrirtækin vítt og breitt um landið, í öllum sjávarplássunum hringinn í kringum landið verði ekki rekin öðruvísi en þannig að þau þurfi að fara á einhverja biðstofu hér í Reykjavík til að fá lán frá Atvinnutryggingarsjóði. Og svo segir hæstv. forsrh. að það skipti engu máli hvort fyrirtækin eigi veð sem fái lánin úr Atvinnutryggingarsjóði, engu máli, heldur á að meta lánshæfni fyrirtækjanna eftir einhverju allt, allt, allt öðru, kannski eftir brunabótamati eða guð veit hvað. En matsverð fyrirtækjanna skiptir ekki máli. Hingað eiga þeir að koma í hungurgöngum.
     Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem sá hugsunarháttur gægist upp hjá Framsfl. að þeir hafa gaman af því að gera mönnum og byggðarlögum greiða. Það má ekki leyfa fólkinu að bjarga sér sjálft. Það má ekki leyfa mönnunum úti í atvinnulífinu út um allt land að bjarga sér sjálfir. Það má ekki gefa þeim kost á heilbrigðum rekstrargrundvelli. Það má ekki leyfa okkur Íslendingum að búa við það gengi að atvinnureksturinn standi undir sér og það sé þokkalegur jöfnuður í viðskiptunum við útlönd heldur á þetta að ákveðast við kontórborðið hér uppi í Stjórnarráði og það heitir félagshyggja. Það þarf ekki neinn maður að efast um að það er a.m.k. einn maður í ríkisstjórninni sem skilur þetta. Það er hæstv. sjútvrh. Hann reyndi að þumbast við í síðstu ríkisstjórn. Ég þori ekki að segja, en mig grunar að hann hafi mest reynt að þumbast við þegar hæstv. þáv. utanrrh. var fjarverandi. Hann reyndi að þumbast við þá og hann reynir enn að þumbast við. Hann vekur athygli á því utan ríkisstjórnarfundanna að það standi ekki vel í sjávarútveginum. Hann bendir á að svo er komið að ríkisstjórnin hefur ekki þrek til að reyna að beita sér fyrir þeim aðgerðum að nauðsynlegum friðunarráðstöfunum hjá fiskstofnunum verði komið við og sennilegast af öllu er það að á næsta ári verði atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar sú að halda áfram að ganga á fiskstofnana en hafna möguleikum á nýrri atvinnuuppbyggingu eins og væri t.d. með orkufrekum iðnaði við
Straumsvík eða annars staðar á landinu, hafna nýjum gjaldeyrisskapandi atvinnurekstri, atvinnutækifærum í dældinni og þora svo ekki að horfast í augu við ástand fiskistofna. Þetta er félagshyggjustjórn! ( JE: Það er rétt.) Það var þá --- og persónugervingur félagshyggjunnar gengur í salinn.
    Ég skil mjög vel að einmitt við þessar aðstæður, þegar við sjáum kjarkleysi hæstv. forsrh. í atvinnumálunum og í efnahagsmálunum, skuli þeir hv. þm. þessarar deildar sem enn fylgja stjórninni að máli og eru kunnugastir einmitt í sjávarplássunum, hv. 3. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Vesturl., bera kvíðboga fyrir framhaldinu og báðir létu svo um mælt að þeir efuðust um að þessar ráðstafanir, sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í septembermánuði, væru svo sem

nokkurs virði. Ég er ekki hissa á því þótt hv. 6. þm. Norðurl. e. segi að ríkisstjórnin sé ekki á sumar setjandi og telji það mikinn fagnaðarboðskap á Norðurlandi að láta menn vita af því að þó hann hafi slysast til þess að gefa ríkisstjórninni og setja hana á þennan vetur skuli það ekki vera nema fram á vorið. Þá hefur hann lofað því að losa sig við stjórnina, lofað Norðlendingum því að þeir fái kosningar og geti hrundið þeirri árás á lífskjörin og atvinnumöguleikana í landinu sem þessi ríkisstjórn er.
    Ég skildi ekki hæstv. forsrh., hvernig það var hugsað ef nú yrði gert ráð fyrir því í lögunum að Atvinnutryggingarsjóður fái heimild til að ábyrgjast 5 milljarða. En í ræðunni fyrir viku ýjaði hæstv. forsrh. að því að bankastofnanir mundu jafnvel veita bakábyrgðir fyrir ábyrgðunum sem sjóðsstjórnin veitti þeim sem skulduðu viðkomandi fyrirtæki. Ég veit ekki hvort þessi bandormur er allur rétt skilinn hjá mér. Í öllu falli var alveg ljóst af ummælum hæstv. forsrh. að þessi 5 milljarða bakábyrgð, sem sjóðurinn á að veita útgerðarfyrirtækjum í kröggum, er ekki með ríkisábyrgð, ekki einu sinni einfaldri ríkisábyrgð. Það er einungis sjóðurinn sjálfur sem á að standa undir þessari bakábyrgð. Og eins og hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni er hugmyndin alls ekki sú að sjóðurinn taki örugg veð fyrir sínum lánum heldur eigi hann að horfa á eitt og annað hér og þar, sem er nú erfitt að greina, um leið, eins og hæstv. forsrh. sagði, sjóðurinn á að knýja fram eignaskipti og uppstokkun á útflutningsfyrirtækjunum.
    Ég held að það þurfi að útskýra þetta nánar. Er þetta mórölsk ábyrgð, hæstv. forsrh.? Ekki er þetta peningaleg ábyrgð. Eignir sjóðsins verða svo sem einskis virði ef hlutverk sjóðsins er að lána þeim fyrirtækjum sem ekki geta greitt skuldir sínar og setja ekkert að veði nema hagnaðarvonina. Þá ganga eignirnar skjótt til þurrðar. Hvers virði er þá bakábyrgð slíks sjóðs? Mórölsk ábyrgð? Hefur hæstv. forsrh. trú á því að lánardrottnarnir telji þennan pappír einhvers virði ef sjóður sem ekkert hefur á bak við sig á að ábyrgjast fyrir þá það sem þeir ekki fá með öðrum hætti? Mundi hæstv. forsrh. taka við slíkum pappírum sem tryggingu ef hann bæri ábyrgð á fyrirtæki? Hverjum er ætlað að taka við pappírum sem enginn vill ábyrgjast? Með bráðabirgðalögum er settur upp sjóður sem á að ábyrgjast 5 milljarða fyrir útflutningsfyrirtækin, með bráðabirgðalögum er settur upp sjóður sem á að ábyrgjast 5 milljarða fyrir útflutningsatvinnuvegina. Af hverju er verið að því ef ríkisstjórnin vill svo ekki kannast við ábyrgðina, ef ríkisstjórnin vill svo ekki bera ábyrgð á ábyrgðum sjóðsins? Af hverju er þá verið að þessu? Hvern er verið að blekkja? Hvaðan koma þessar tölur? Mórölsk ábyrgð, félagshyggjuleg mórölsk ábyrgð. Drottinn minn dýri! Það var þá. Ég veit ekki hvernig skiptaráðendum litist á það.
    Ég held, herra forseti, að líka í þessu efni sé hæstv. ríkisstjórn að vekja falsvonir hjá þeim mönnum sem standa fyrir rekstri, hjá fólkinu úti um landið sem á atvinnu sína undir því að rekstur þessara fyrirtækja

stöðvist ekki. Því miður vitum við að þeir dagar sem fara í hönd nú og þær vikur verða erfiðar í þessum fyrirtækjum og við vitum líka að á næsta ári verður að draga saman í sjávarútveginum þó svo að ríkisstjórnin þori ekki að ganga nógu langt til friðunar á fiskstofnunum. Þess vegna held ég að uppgjör sé alveg óhjákvæmilegt. Og þeim mun lengur sem hæstv. ríkisstjórn dregur lappirnar í þessu máli, þeim mun erfiðara verður að taka á því síðar meir og þeim mun meiri hlýtur skellurinn að verða, ekki aðeins fyrir byggðarlögin úti á landi, ekki aðeins fyrir fólkið sem þar vinnur heldur fyrir alla launþega þessa lands, hvert einasta mannsbarn sem horfir upp á þessa óstjórn, þetta aðgerðaleysi, þetta þrekleysi, þá hræðslu sem einkennir núverandi hæstv. ríkisstjórn og alla þá lygi sem er í kringum það sem þeir þykjast vera að gera, það sem þeir þykjast hafa reist úr rústum. Hvar stendur þeirra höll? Hvar er þeirra höll? Hvar er þeirra paradís? Hvar er þetta allt saman? Hæstv. menntmrh. lýsir kannski paradísinni fyrir okkur á eftir. Það er a.m.k. ekki paradís að vera ritstjóri Þjóðviljans þessa dagana, svo mikið veit ég.
    Ég spurði hæstv. forsrh. einnig að því í minni ræðu fyrir hálfum mánuði hvort það væri stefna ríkisstjórnarinnar að fella gengið smátt og smátt eins og hann sagði á fundi með fréttamönnum sama daginn og ríkisstjórnin var mynduð, á fyrsta fréttamannafundinum, eða smám saman. Ekki er nú efnismunur á því hvort það er smátt og smátt eða smám saman. Hæstv. forsrh. svaraði mér
engu um þetta atriði. Ég held að ég verði að ítreka þessa spurningu um leið og ég ítreka þá spurningu sem ég bar fram hér áðan: Hvað reiknar hæstv. forsrh. með að lífskjörin versni mikið frá 1. jan. 1988 fram í febrúarmánuð 1989, en það er sá tímapunktur sem hann talaði sjálfur um í sambandi við gengið? Og í öðru lagi: Hefur hæstv. forsrh. í huga að fella gengið smátt og smátt? Hefur hann í huga að búa áfram við rangt skráð gengi, sem hæstv. sjútvrh. hefur talað um að sé 15% of hátt en sjálfur forsrh. segir að sé of hátt, eða ætlar hæstv. forsrh. að reyna að reka útflutningsatvinnuvegina með of háu gengi? Það verður að koma skýrt svar við þessu.
    Herra forseti. Þótt hæstv. forsrh. hafi ekki viljað svara mér fyrir viku, þá spurði ég hann að því hvor hefði sagt satt um halla ríkissjóðs á þessu ári, fyrrv. hæstv. fjmrh. eða núv. hæstv. fjmrh. Hæstv. forsrh. vafðist tunga um tönn í sínum svörum. Eins og ég sagði hafði ég vænst þess að hann ætlaðist til þess af sínum ráðherrum að þeir bæru sannleikanum vitni. Nú hefur komið í ljós eftir að hæstv. núv. fjmrh. lagði skýrslu sína fram á Alþingi utan dagskrár fyrir skömmu að báðir sögðu ósatt, bæði núv. og fyrrv. hæstv. fjmrh., um stöðu ríkissjóðs á árinu og skal ég ekki gera það að frekari orðum nú.
    Ég skal svo ekki hafa þessa ræðu mína lengri. Ég vænti þess, herra forseti, að umræðunni verði fram haldið þannig að málið komist til nefndar þó svo margir kynnu að vera á mælendaskrá. Ég held að það sé nauðsynlegt að málið fái sem fyrst þinglega

meðferð. Ástandið er þannig í þjóðfélaginu að óhjákvæmilegt er að þingið veiti þessari ríkisstjórn það aðhald sem það getur. Einstakir ráðherrar hafa talað um það í fjölmiðlum út um hvippinn og hvappinn og hér og þar að verulegt atvinnuleysi blasi við. Jafnframt hefur það komið fram hjá einstökum ráðherrum að þeir þykist hafa gert eitthvað óskaplega mikið í atvinnu- og efnahagsmálum hér á landi sem er alger misskilningur. Það hefur enginn maður í rekstri orðið var við að þeir hafi gert nokkurn skapan hlut og það sem verra er, að það er ekki að sjá á þessum ráðherrum að þeir séu að hugsa um að gera neitt á næstunni annað en að hækka skatta. Það er það eina sem kemst að hjá þessari hæstv. ríkisstjórn núna þegar þrengist að hjá atvinnurekstrinum, þegar hallar undan fæti hjá sjávarútveginum, þegar jafnvel skinnaiðnaðurinn lækkar um 15--20% á erlendum mörkuðum, þegar hallinn á viðskiptajöfnuði fer vaxandi vegna þess að þjóðargjaldeyristekjurnar dragast saman. Það er það eina sem ríkisstjórnin hugsar um núna: Hvernig getum við fundið einhverja nýja skattstofna sem við getum þröngvað í gegnum þingið? Það fer allur tíminn í að auka álögurnar á þjóðinni og voru þær þó ærnar fyrir.
    Ég ítreka það, herra forseti, að ríkisstjórn sem hagar sér eins og þessi, þegar harðnar á dalnum, ríkisstjórn eins og þessi sem þorir ekki að takast á við vanda atvinnuveganna, ríkisstjórn sem hækkar skatta, ríkisstjórn sem ber enga virðingu fyrir samningum launafólks, svívirðir samningsréttinn í landinu, ríkisstjórn eins og þessi sem hefur sýnt sig í skoðanakönnun að hefur minna traust á bak við sig en nokkur önnur ríkisstjórn skömmu eftir að hún var mynduð, ríkisstjórn eins og þessi þarf aðhald. Ef nokkur ríkisstjórn hefur nokkurn tíma þurft aðhald í þessu landi er það þessi ríkisstjórn. Og það er ekki aðeins að gagnrýnin á hana, vantrúin á hana berist hingað inn í þingsalina utan að frá mönnunum sem við hittum úti á götunni í gegnum skoðanakannanir, í gegnum lesendadálka í blöðunum, heldur skín vantraustið og vantrúin á ríkisstjórnina út úr ræðum þeirra hv. þm. sem þó þykjast styðja ríkisstjórnina hér í deildinni, þingmanna sem hafa lýst því opinberlega yfir að þeir séu á móti stjórninni en hafa verið knúðir til þess með flokksaga að greiða atkvæði með hverju einasta stjfrv. sem hérna verður lagt fram, hversu svo sem þeim líst á það, eins og hv. 4. þm. Vesturl. Maður bíður bara eftir því að sjá það, herra forseti, að helsti talsmaður matarskattsins í deildinni verði hv. 3. þm. Vestf.