Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það fer að líða að því að við ljúkum 1. umr. um bráðabirgðalögin og þau komist til nefndar þannig að umfjöllun um þau í nefnd geti hafist. Þó er margt eftir ósagt og ég spái því að við eigum eftir að eiga um þetta mál langar umræður við 2. og 3. umr.
    Mér finnst, eftir að hafa hlustað á mjög fróðlegt erindi hv. 2. þm. Norðurl. e., ( KP: Erindi?) það hljómaði þannig í mín eyru, að hér sé fyrst og fremst um uppgjör milli gömlu flokkanna að ræða. Það fer ekkert á milli mála að gömlu fjórflokkarnir, þ.e. Sjálfstfl., Alþfl., Alþb. og Framsfl., hafa farið hér með völdin til skiptis undanfarna áratugi og í rauninni skiptir ekki nokkru einasta máli hvaða samsetning úr hópi þessara fjögurra flokka myndar ríkisstjórn hverju sinni því að niðurstaðan er ávallt hin sama. Það er allt í kaldakoli og það endar alltaf með einhverju skelfilegu uppgjöri alveg eins og því sem við erum vitni að nú á þessari stundu.
    Hvað hefur í rauninni gerst? Jú, það hefur verið mynduð ný ríkisstjórn fyrir nokkrum vikum og eina breytingin er sú að nokkrum ráðherrum Sjálfstfl. hefur verið skipt út fyrir nokkra í hópi alþýðubandalagsmanna. Það er nú öll breytingin. Ég held að ástandið í íslenskum þjóðmálum sé að verða þannig að ef við förum ekki að losna við gömlu flokkana úr valdastólunum endar þessi þjóð eins og nýfundnalendingar. Hún verður gjaldþrota. Hún missir hreinlega efnalegt og fjárhagslegt sjálfstæði sitt. Gömlu flokkarnir eru fast niðurnjörvaðir í hagsmunagæslu fyrir ýmsa hagsmunahópa sem þeir standa vörð um og hagsmunir þjóðarinnar í heild sinni koma þar langt á eftir. Gamli fjórflokkurinn er aldeilis orðinn óhæfur um að stjórna þessu landi og ég held að því fyrr sem kjósendur átta sig á þessu því betra. Það er orðið nauðsynlegt og það fyrir löngu að koma nýjum mönnum og nýjum flokkum að til að taka við stjórnartaumunum.
    Það er alltaf gripið til sömu úrræðanna og ég held að hæstv. forsrh. hafi komist þannig að orði að flestar ríkisstjórnir undanfarinna ára og jafnvel áratuga hafi ávallt verið myndaðar með þeim hætti að grípa hefur orðið til bráðra aðgerða í efnahagsmálum, þá jafnan með bráðabirgðalögum því að bráðræðið hefur verið svo mikið. Allt hefur verið í kaldakoli og það hefur þurft að grípa til einhverra úrræða strax til að atvinnulífið nánast gufi ekki hreinlega upp. Þessir sömu aðilar hafa hagað efnahagsmálum þjóðarinnar á þann veg að erlendar skuldir þjóðarinnar eru nú orðnar um það bil 130 milljarðar kr. eða nærri tvöföld fjárlög hins íslenska ríkis. Þetta er álíka og að fjölskylda skuldi tvöföld árslaun sín. Skyldi henni líða vel? Ég spyr. Ef fer sem horfir að gömlu fjórflokkarnir halda áfram að fara með stjórn landsins, þá stefnir hér í algera ringulreið og það er þá skammt undan að sjálfstæði þjóðarinnar sé komið í hættu.
    Allar þær ráðstafanir sem hér er verið að grípa til eru bráðabirgðalausnir. Það er um að ræða að bjarga í horn því sem er brýnast í dag, en í raun og veru er

ekkert gert til að reyna að koma með einhverjar varanlegar lausnir sem gætu gert það að verkum að hefja íslenskt atvinnulíf upp, reyna að hlúa að þeim vaxtarbroddi sem er í íslensku atvinnulífi, reyna að búa atvinnuvegunum hagstæð ytri skilyrði og umfram allt reyna að stuðla að meiri útflutningi. Þessi þjóð hefur hagað sér undir stjórn þeirra valdhafa, sem ég hef hér verið að lýsa, á þann veg undanfarin mörg, mörg ár að það er engu líkara en þjóðin hafi engan áhuga á því að flytja út vörur. Þjóðin vill bara flytja inn. Það er allt leyfilegt í sambandi við innflutningsverslunina. Útflutningsverslunin er hins vegar háð alls kyns höftum og leyfum. Maður talar nú ekki um þegar um er að ræða einhverja menn sem vilja brydda upp á nýjungum t.d. í iðnaði, flytja út hugvit og þekkingu, flytja út iðnaðarvörur. Þetta eru einhverjir vandræðamenn úti í bæ sem eru alltaf nöldrandi. Rekstrargrundvöllurinn er svo erfiður, fjármagnskostnaður allt of mikill og vextirnir of háir. Því geta þessir menn ekki hætt þessu nöldri, þeir eru svo óþægilegir, gerst venjulegir launþegar, lagt launin sín inn á banka og fengið vexti og spilað á fjármagnsmarkaðnum? Það er engu líkara en ráðamenn í þessu þjóðfélagi haldi að þjóðin geti lifað á því að við seljum hvert öðru alls kyns verðbréf, flytjum að vísu einhvern fisk út meðan við nennum að veiða hann. Ég veit ekki hve lengi við nennum því því að það liggur alveg ljóst fyrir að við getum alveg eins selt Efnahagsbandalaginu fiskinn í sjónum og fengið síðan atvinnuleysistékkann sendan þar sem við viljum búa. Það getur t.d. verið á Spáni. Síðan gætum við komið heim á sumrin til að veiða lax endrum og eins.
    Nei, ég held að það þurfi að fara fram alger uppstokkun í íslensku þjóðfélagi, algerlega frá grunni. Sú uppstokkun þarf fyrst og fremst að verða í hinu pólitíska mynstri sem er við lýði á Íslandi. Það þurfa að koma nýir menn og nýir flokkar til. Það þarf að hreinsa algerlega út úr fjósinu ef á að vera hægt að koma einhverju lagi á hlutina.
    Svo ég fjalli örlítið um sjálf bráðabirgðalögin, sem hér eru til umræðu, þá hefur mikið verið talað um færslurnar fjórar, hinar svokölluðu fjórar færslur. Þ.e. millifærslan sem reyndar er sú leið sem var valin í
bráðabirgðalögunum og í stjórnarsáttmálanum. Það er mikið búið að tala um niðurfærsluna eða niðurgangsleiðina sem stóð til að fara í lok ágúst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Síðan hefur verið talað um uppfærsluleiðina þegar um er að ræða gengisfellingu. Og svo er að sjálfsögðu undanfærsluleiðin þegar menn færast undan því að gera nokkurn skapaðan hlut. Mér sýnist að stefna núv. ríkisstjórnar sé nánast blanda af millifærsluleið og undanfærsluleið.
    Millifærsluleiðin er mjög andsnúin þeim vaxtarbroddi í íslensku atvinnulífi sem ég var að víkja að áðan. Það er einungis hugsað um að reyna að rétta við hag nokkurra fyrirtækja í sjávarútvegi sem eru komin á heljarþröm vegna rangrar stjórnarstefnu og þeirrar óáranar sem hefur verið við lýði í íslensku þjóðlífi undir stjórn gömlu fjórflokkanna undanfarin ár. Hins vegar er varla um stafkrók að ræða í

stjórnarsáttmálanum eða í fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem lýtur að því að reyna að styðja við einhverjar nýjungar í atvinnulífinu, hjálpa þeim sem hafa nýjar hugmyndir, vilja efla framleiðsluiðnað, vilja auka útflutning og vilja reyna að markaðssetja íslenska þekkingu og hugvit þar sem það er hægt. Slíkir menn, eins og ég gat um áðan, eru yfirleitt taldir til óþurftar af ráðamönnum. Þeir eru óþægilegir, eru alltaf að kvarta og kveina og biðja um aðstoð.
    En það er spurning: Hvað skyldi þetta ganga lengi ef við ætlum virkilega að hugsa dæmið þannig að héðan verði ekkert flutt út nema fiskur því að mér sýnist stefna mjög hratt í það? Hvað iðnaðinn varðar getur það varla verið mögulegt öllu lengur fyrir nokkurn mann að sinna slíku, a.m.k. ekki framleiðsluiðnaði sem byggir á útflutningi. Það má vera að við getum um sinn verið hér með iðnaðarframleiðslu sem byggir á neyslu innan lands. Í því felst að sjálfsögðu blekking, því það er nákvæmlega sama og ég sagði áðan: Iðnaður sem einungis byggir á neyslu innan lands er sama atvinnustarfsemi og stundum er kölluð því nafni að menn lifi á því að klippa hvern annan. Við aukum a.m.k. ekki gjaldeyristekjur þjóðarinnar með þeim hætti.
    Ég held að það hafi verið hæstv. menntmrh. sem í fyrstu ræðu sinni undir þessum umræðum kvartaði yfir því að það hefði verið lítið um tillögur af hálfu núv. stjórnarandstöðuflokka í sambandi við hvernig skyldi leysa þessi vandamál þjóðfélagsins og eins vék hann að nokkru að lánskjaravísitölunni. Ef ég tek fyrra atriðið fyrst langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp úr fréttatilkynningu sem Borgfl. sendi frá sér um mánaðamótin ágúst/september sl. en þar lögðum við til eftirfarandi ráðstafanir sem þyrfti að gera nú þegar:
    1. Matarskattur verði felldur niður.
    2. Lánskjaravísitala verði afnumin og vextir aðlagaðir að því sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar.
    3. Sjálfvirk tenging verðlags við vísitölu verði ekki heimil.
    4. Gripið verði til tafarlausra aðgerða til að treysta rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna í landinu svo komið verði í veg fyrir atvinnubrest. Í því sambandi verði peningastofnunum gert kleift að beita víðtækum skuldbreytingum vegna þess neyðarástands sem nú ríkir sökum óstjórnar í efnahagsmálum og stóraukinnar skattheimtu hins opinbera.
    5. Stórátak verði gert til þess að efla íslenskan samkeppnisiðnað og útflutning á íslensku hugviti og tækniþekkingu m.a. með því að tryggja þessum aðilum eðlilega samkeppnisstöðu.
    6. Fólki verði gefinn kostur á víðtækum skuldbreytingalánum til þess að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fjölskyldna og einstaklinga.
    7. Dregið verði úr ríkisútgjöldum með samræmdum aðgerðum í samstarfi við forsvarsmenn og annað starfsfólk ríkisstofnana.

    8. Skattlagningu á fyrirtæki og einstaklinga verði stillt í hóf þannig að þeir hafi sem mest sjálfsaflafé til ráðstöfunar.
    9. Samskipti hins opinbera við einstaklinga og fyrirtæki verði einfölduð með það í huga að draga úr óþarfa afskiptum ríkisvaldsins. Traust undirstaða þjóðfélagsins byggist á sjálfstæði einstaklinga og félaga þeirra.
    10. Dregið verði úr miðstýringunni og völd og verkefni færð til landshlutanna.
    Þetta voru í stuttu máli tíu atriði sem við lögðum til að yrðu kjarni þeirra ráðstafana sem grípa þurfti til við þau tímamót sem voru undanfari þess að ný stjórn var mynduð hér síðustu dagana í september sl. Vissulega hljóma sumar þessar tillögur mjög álíka þeim sem verið er að ræða hér, m.a. að það þurfi að grípa til tafarlausra aðgerða til að treysta rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna. Því verður ekki móti mælt. En hins vegar er þar um að ræða ýmislegt sem mætti huga betur að, en núv. ríkisstjórn hefur lítið velt fyrir sér að því er best verður séð í stjórnarsáttmálanum.
    Dregið verði úr miðstýringunni og völd og verkefni færð til landshlutanna. Ég held að þarna sé um lykilatriði að ræða sem gæti hamlað gegn þeirri óráðsíu og þeirri hít sem ríkisútgjöldin eru að verða, þ.e. hin botnlausa hít ríkissjóðs, vegna síaukinna útgjalda. Með því að gera landshlutana ábyrgari fyrir sínum eigin málum er ekki nokkur vafi á því að miklu betri nýting fengist á þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum til þess m.a. að reka
heilbrigðiskerfi þjóðarinnar, menntakerfi og samgöngukerfi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að virk yfirstjórn landshluta mundi fara miklu betur með þá fjármuni sem henni væru ætlaðir til að kosta heilbrigðiskerfi sitt og menntakerfi og samgöngukerfi þó svo að Alþingi þurfi að sjálfsögðu að leggja þar meginlínurnar, þ.e. ákveða hvað sé til skiptanna í hverjum málaflokki fyrir sig og skipta því síðan milli hinna ýmsu landshluta. En þar með gæti hlutverki Alþingis verið lokið.
    Samfara þessari ráðstöfun væri afar auðvelt að hugsa sér að fækka alþm. og gera allt landið að einu kjördæmi. Með sjálfstjórnarvaldi landshlutanna með þeim auknu völdum og verkefnum sem því fylgdi þyrfti ekki lengur á því að halda að þingmenn hinna ýmsu kjördæma tækju að sér að reka málefni kjördæmanna eins og hingað til hefur verið.
    Svo að ég víki lítillega að fyrstu tillögum okkar, sem voru þær að matarskatturinn skyldi felldur niður, munum við halda áfram að berjast fyrir afnámi matarskattsins. Við munum ekki breyta skyndilega afstöðu okkar eins og hv. þm. Alþb. bara við það að komast hinum megin við borðið, að komast í valdaaðstöðuna og geta sest í hina margþráðu stóla. Þar með sé hægt að fleygja burtu öllum sínum fyrri hugsjónum og skoðunum, nú er allt í einu í lagi að hafa matarskatt hér á öllum helstu lífsnauðsynjum almennings.
    Matvælaframleiðsla á Íslandi hlýtur eðli síns vegna

að vera mjög dýr. Við búum á norðurhjara veraldar og það segir sig sjálft að landbúnaðarafurðir á Íslandi hljóta alltaf að verða dýrar og mun dýrari en gerist t.d. í helstu nágrannalöndum okkar, helstu samkeppnislöndum okkar. Þar af leiðandi er það náttúrlega algert glapræði að ætla sér að leggja mikinn söluskatt á matvæli og það hjá þjóð sem hefur enn þá ekki, þrátt fyrir 70 ára baráttu verkalýðshreyfingarinnar í landinu, megnað að skaffa þegnum sínum mannsæmandi laun fyrir átta stunda vinnudag. Að gera helstu lífsnauðsynjar eins dýrar og þær eru orðnar hér á Íslandi er hreint glapræði í mínum huga. Við munum því halda áfram að berjast gegn matarskattinum, enda töldum við það einu réttlætinguna fyrir því að hægt væri að fótumtroða samningsrétt launþegahreyfingarinnar í landinu að hún fengi þá a.m.k. það í staðinn að matarskatturinn yrði afnuminn. Við það að menn gátu ekki fallist á að hreyfa við matarskattinum finnst mér persónulega algerlega fráleitt að fallast á að hægt sé að taka samningsréttinn af launþegum eins langan tíma og ríkisstjórnin hefur ákveðið, þ.e. til 15. febr. nk. Það var því aðeins hægt ef matarskatturinn hefði verið að mestu leyti eða öllu felldur niður. Þá fengu launþegar a.m.k. það í staðinn. En þeir hafa nánast ekki fengið neitt í staðinn fyrir að mega hlíta því að samningsrétturinn er tekinn af þeim þetta langa tímabil. Það er enn sem fyrr launafólkið í landinu sem á að draga vagninn, þ.e. launafólkið í landinu, lágtekjufólkið sem á að bjarga öllum efnahagsvandanum þegar allt er komið í kaldakol vegna óstjórnar gömlu fjórflokkanna. Og ég geri engan greinarmun á því hvort þeir eru allir í ríkisstjórn eða einhver þeirra er í stjórnarandstöðu hverju sinni.
    Svo virtist vera sem hæstv. menntmrh. hafi gluggað eilítið í grein sem ég skrifaði í Dagblaðið einhvern tíma í sumar þar sem ég fjallaði um afnám lánskjaravísitölunnar. Ég komst nefnilega þar svo að orði að lánskjaravísitalan og reyndar allar vísitölur væru eins og hitamælir. Þeim er einungis ætlað að sýna ástand viðkomandi þáttar í efnahagslífinu en ekki að lækna þetta ástand. Þetta er alveg á sama hátt og það dytti engum lækni í hug að ætlast til þess að hitamælirinn lækni sjúklinginn. En stjórnvöld, a.m.k. undanfarið, virðast halda að lánskjaravísitalan, sem er ekkert annað en hitamælir, geti læknað efnahagsástandið. Þetta er svo fráleitt að það geta allir sem reyna að hugsa um þetta mál séð hvað þetta er vitlaust. Lánskjaravísitalan gerir ekkert annað en að hún viðheldur verðbólgunni, sennilega að lágmarki 15--20%. Meðan lánskjaravísitalan er sjálfkrafa tengd við fjárskuldbindingar eins og hér hefur verið er ómögulegt að koma verðbólgu niður. Það má vel vera að það sé hægt að falsa niður verðbólguna eins og núv. ríkisstjórn leggur til með því að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar þannig að launin vega nú, eða það er hugmynd hæstv. ráðherra að launin muni vega allt að 70% í lánskjaravísitölunni. Með því að frysta síðan launin til 15. febr. eins og bráðabirgðalögin gera

ráð fyrir er ósköp eðlilega hægt að kýla niður lánskjaravísitöluna. En þá gerist ekkert annað en það að þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur verður hér alger sprenging og lánskjaravísitalan fer nánast lóðrétt upp á við á nýjan leik. Það þarf enginn að segja mér að launþegar ætli sér ekki að sækja eitthvað af þeirri kaupmáttarskerðingu sem þeir hafa orðið að þola á undanförnum mánuðum.
    Ég held að það verði ómögulegt að koma nokkrum skikk á íslenskt efnahagslíf fyrr en við afnemum allar sjálfvirkar vísitölutengingar. Annaðhvort verður að vísitölutengja allt, laun, lánskjör og hvað eina, eða vísitölutengja ekki neitt. Hins vegar er sjálfsagt, og ég skal mæla með því og ekki hafa neitt við það að athuga, að lánskjaravísitölu eins og hún hefur verið skilgreind má reikna og birta daglega að mínu viti fram á næstu öld eða
endalaust mín vegna, aðeins þó ef hún er ekki á sjálfvirkan hátt látin stýra því að fjárskuldbindingar og innistæður manna hreyfist sjálfkrafa við það að t.d. kaffi hækkar í Brasilíu. Þá hækkar nefnilega framfærsluvísitalan og þá hækka allar skuldir íbúðaeigenda og þeirra sem hafa tekið húsnæðislán og sömuleiðis allar innistæður á sparifjárreikningum. Það sjá allir hvað þetta er vitlaust. Það er enginn vandi að stýra fjárskuldbindingum og koma við einhvers konar verðtryggingu á sparifjárreikningum með öðrum hætti. Ef ekki vill betur mundi ég a.m.k. frekar kjósa að nota gengisviðmiðun en lánskjaravísitölu.
    Ég spurði hæstv. forsrh. að því hvað gengi að lækka vextina. Ég bað hæstv. forsrh. um að gera okkur í stuttu máli grein fyrir tilraunum ríkisstjórnarinnar til að fá vexti lækkaða, en svo er að heyra á viðbrögðum bæði viðskiptabankanna og Seðlabankans að það sé ekkert allt of auðvelt verk. Ég ítreka þessa fyrirspurn um að fá stutta greinargerð um hvernig þetta gangi.
    Hér var aðeins komið inn á fiskveiðistefnuna. Ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hafði um þau mál að segja. Ég stórefast um að það sé þingmeirihluti fyrir núverandi fiskveiðistefnu í deildinni eins og hún er skipuð núna. Að vísu er þar við að bæta að þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem áður neyddust til að greiða atkvæði með fiskveiðistefnunni, með undantekningum þó, geta nú væntanlega séð sér leik á borði og verið henni andvígir þar sem þeir eru nú ekki rígnegldir niður í stjórnarsamstarf með hæstv. núv. sjútvrh.
    Annars er það annað atriði sem við þurfum að fara að taka upp til grandgerðrar endurskoðunar, þ.e. fiskveiðistefnan. Mér sýnist stefna í að við klárum einfaldlega fiskstofnana, helstu nytjastofna okkar, sem við ætlum að lifa á því ekki viljum við lifa á neinu öðru, a.m.k. er það greinilega ákvörðun valdhafa og núverandi stjórnvalda að iðnaðarbrölt er ekkert vel séð og við höfum engan áhuga á að skapa okkur auknar útflutningstekjur á slíkan hátt. Því er það alvarlegt mál að það virðist stefna í að fiskstofnarnir séu hreinlega að hruni komnir. Það er kannski stutt í að fiskafli við Ísland verði ekki svo mikill að hann geti haldið uppi

því sukki sem hefur viðgengist í þjóðfélaginu undanfarin ár.
    Það kom fram mjög athyglisverð tillaga á þingi smábátaeigenda í síðustu viku sem fjallar um frekari friðun uppeldis- og hrygningarstöðva fiskistofnanna við strendur landsins. Þar var hreyft hugmynd um að taka upp svokallaða togveiðilandhelgi. Þ.e. að meina öllum skipum togveiðar innan við skulum segja 3 mílna landhelgi milli grunnlínupunkta. Þetta er afar athyglisverð tillaga sem ég held að við ættum að kanna betur og mér þykir það orðið löngu tímabært að fjalla miklu meira og betur um aðgerðir til að vernda fiskistofnana. Það var nefnilega mjög athyglisvert í þeirri miklu umræðu sem fór fram á síðasta þingi um fiskveiðistefnuna hve lítið heyrðist úr stjórnarherbúðunum um nauðsyn þess að vernda fiskistofnana. Það voru einna helst fulltrúar stjórnarandstöðunnar þáverandi sem bentu á þau vandamál sem því eru samfara að ástand fiskistofnanna við landið er orðið slæmt.
    Borgfl. hefur boðað nýjungar í atvinnuháttum og margháttaðar hugmyndir sem við höfum komið fram með um hvernig við getum nýtt okkur legu landsins og smæð landsins til að skapa okkur ný tækifæri í atvinnulífinu og skapa okkur ný útflutningstækifæri. Lítið af þessu hefur heyrst úr herbúðum gömlu flokkanna.
    Við höfum t.d. bent á að lega landsins gerir Ísland að kjörinni miðstöð fyrir alþjóðleg verslunarviðskipti. Hér væri mjög rakið að vera með t.d. heimsverslunarmiðstöð sem hefði bein tölvufjarskipti við allar kauphallir heimsins og gefa mönnum kost á að reka alþjóðleg viðskipti að vild og hafa til þess fullt frelsi. Það er nefnilega löngu orðið tímabært að afnema hér ýmiss konar höft og hömlur sem fylgja því að stunda eðlileg viðskipti landa í milli. Það er enn þá þannig að það er einna helst að innflutningsverslunin fái að hafa nokkurt frjálsræði í þeim efnum. Þó er það furðulegt, og það bentum við reyndar á þá stundina sem við drógumst inn í stjórnarmyndunarviðræðurnar hér fyrir mánuði síðan eða svo að það væri aldeilis með ólíkindum að innflutningsverslunin fær ekki enn þá að notfæra sér erlendar greiðsluheimildir og erlend vörukaupalán. Þetta eru leifar af þeirri gömlu haftastefnu sem gömlu fjórflokkarnir og embættismenn þeirra ríghalda í.
    Þá viljum við, eins og ég gat um áðan, stórauka útflutning á hugviti og þekkingu því að Íslendingar hafa upp á margt að bjóða sem við getum gert að söluvöru meðal erlendra þjóða ef við bara hjálpumst að og leggjumst öll á eitt við að notfæra okkur þessa möguleika. En því miður hefur yfirleitt verið fussað og sveiað við öllum hugmyndum af þessu tagi og þeir aðilar sem koma með slíkar hugmyndir og bera þær fyrir valdhafana fá yfirleitt kaldar móttökur, svo ekki sé meira sagt.
    Ég legg höfuðáherslu á það að það þarf að gjörbreyta hugarfari bæði valdhafa og embættismanna hér, og kannski þjóðarinnar allrar, gagnvart útflutningsmálum. Við þurfum að opna miklu meira

fyrir viðskipti okkar til nágrannalandanna þannig að við getum átt fjölskrúðugt samstarf við nágrannalöndin bæði á sviði iðnaðar og með algjörlega frjálsum fjármagnsflutningum til þess að geta staðið undir slíku samstarfi.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til þess, virðulegi forseti, að ég flytji hér öllu lengra mál um bráðabirgðalögin að svo stöddu. Þau eiga eftir að fá ítarlega meðhöndlun í nefnd og ég geri ráð fyrir því að stjórnarandstaðan muni þar koma fram með ýmsar brtt. Við höfum áður vikið að því að Atvinnutryggingarsjóðurinn virkar dálítið einkennilega á okkur og við skiljum satt að segja ekki hvers vegna var ekki hægt að fela Byggðastofnun þetta verkefni, gera Atvinnutryggingarsjóðinn einfaldlega að deild í Byggðastofnun eða hreinlega veita fjármagni til Byggðastofnunar til þess að leysa það sem henni ber að leysa, þ.e. að styðja við atvinnulíf úti á landsbyggðinni. En þessum peningum er fyrst og fremst ætlað að treysta stöðu atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi úti um land.
    Það er margt annað sem væri hægt að vekja athygli á í bráðabirgðalögunum. Af því að hér var rætt áðan lítillega um veðhæfni fyrirtækja, þá er í 11. gr. bráðabirgðalaganna komið inn á mjög nýstárlegar hugmyndir í sambandi við veð. Ég hef reynt að lesa þessa lagagrein í gegn án þess að skilja hana vel. Ég hika ekkert við að játa fávísi mína í þeim efnum að ég er ekki viss um að ég hafi skilið hvað felst í þeirri grein. Mér sýnist samt að það sé farið ansi frjálslega með hugtakið veðhæfni og veðréttindi. Ef ég skil greinina rétt þá sýnist mér að það sé opin leið fyrir fiskeldisfyrirtæki að framreikna t.d. hvað seiði eigi eftir að verða stór, við skulum segja eftir 2--3 ár, og reikna sér það sem öruggt veð. Þ.e. að bjóða bankastofnun upp á veð í kannski ársgömlum seiðum en láta veðið samsvara því hvað þessi seiði verða orðin að stærð og verðmæti kannski að þremur árum liðnum. Ef þetta er rétt skilið hjá mér þá þykir mér vera gengið ansi langt hér í því efni að breyta þeim grundvallarhugmyndum sem hafa ríkt bæði hér í þessu þjóðfélagi og reyndar víðast annars staðar í sambandi við veðhæfni, bæði fastamuna og lausamuna.
    Herra forseti. Ég held að ég láti þetta nægja í bili og hef þessi orð ekki fleiri.