Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. talaði hér í máli þessu og sagði að til þess hefði komið með því að ég hefði kveikt í honum með fyrri tölu minni hér í þessum umræðum. Þó ekki væri nema af þessu tilefni hefði ég nú kvatt mér hljóðs til þess að þakka fyrir mig. En nú er illt í efni. Hv. 4. þm. Vesturl. hefur fjarvistarleyfi í dag. Ég hefði heldur viljað að hann væri hér viðstaddur. En með því að ég ætla nú frekar að bera lof en last á hv. þm. þá ætla ég með fáum orðum að víkja að ræðu hans. Raunar er það ærin ástæða þar sem ég heyrði ekki betur en að við værum sammála í meginatriðum þess máls sem við ræðum hér nú. Var hv. 4. þm. Vesturl. því síður fær að rekja refilstigu Alþb. í þessu máli.
    Hv. þm. vitnaði orðrétt í svofelld ummæli í minni ræðu: ,,En oftar en ekki hafa svokallaðar efnahagsaðgerðir haft takmarkað gildi, verið ómarkvissar, fálmkenndar og árangurslausar ef þær hafa ekki gert illt verra.`` Ég skildi hv. þm. svo að hann væri hjartanlega sammála mér um þetta og um ástæðurnar fyrir þessu. En ég lagði megináherslu á það í máli mínu að ástæðurnar fyrir þessu væru þær að menn réðust ekki gegn sjálfum orsökunum sem valda þeim vanda sem efnahagsráðstöfunum er ætlað að ráða bót á. Í ræðu minni vék ég svo að hverjar væru meginorsakir vandans.
    Þetta voru stór orð af minni hálfu og þess vegna þótti hv. 4. þm. Vesturl. sjálfsagt bitastætt í að vitna til þeirra. En hann gerði meira. Hann lagði út af orðum mínum og finnur út að sökina á mistökum í efnahagsaðgerðum beri fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. En ég var ekki með hinum tilvitnuðu orðum mínum að bera sakir á einn fremur en annan svo að útleggingar hv. þm. eru nokkuð langsóttar. Þvert á móti undirstrikaði ég það gagnstæða. Í beinu framhaldi af orðum þeim sem hv. þm. vitnaði til sagði ég orðrétt: ,,Þetta á ekki sérstaklega við atburði síðustu mánaða, þetta á sér því miður miklu lengri sögu.`` Þessi orð fellir hv. þm. niður þegar hann vitnaði í ummæli mín. Hvers vegna gerir hv. þm. þetta? Það skyldi þó ekki vera að hann falli í freistni, hann vilji geta komið höggi fyrir mína hönd á tilteknar ríkisstjórnir og flokka og jafnframt fríkennt þær ríkisstjórnir sem flokkur hans, Alþb., átti aðild að á árunum 1978--1983?
    Mér þykir leitt að þetta skuli hafa hent jafngóðan mann og hv. 4. þm. Vesturl. er, mann sem svo talar sem hann sé mér sammála um meginatriði þess máls sem við nú ræðum hér. Og mér rennur líka til rifja þegar þessi sami hv. þm., útgerðarmaður og fulltrúi einkaframtaksins, lætur sig henda þá hrösun að kenna sérstaklega frjálshyggjunni um það við hvern vanda nú er að glíma. ( SvG: Eins og Matthías.) ( KP: Já svipað.) Hvort man nú ekki hv. þm. og raunar fleiri fiskveiðistefnuna og kvótakerfið, þessa mestu miðstýringu og sósíalisma sem innleiddur hefur verið á Íslandi fyrr og síðar? Er það ekki nokkuð langsótt að heimfæra þetta undir frjálshyggju? Ég læt svo hv.

þm. eftir við gott tækifæri að gamna sér við að finna út hvað má ættfæra til frjálshyggju og hvað til alræðishyggju af þeirri skipan sem viðgengst í landi okkar að setja hömlur á og skömmtun á öflun gjaldeyris en leyfa frjálsa sölu hans á lögboðnu undirverði.
    Það þjónar litlum tilgangi fyrir okkur að metast á um atburði fortíðarinnar. Allt veltur á því hvað við gerum í nútíðinni og varðar þá mest að taka til ráða sem duga við íslenskar aðstæður án tillits til erlendra kennisetninga.
    Ég sagði í upphafi þessara orða minna að ég ætlaði að bera lof á hv. 4. þm. Vesturl. og það sem mér fannst lofsverðast var það að mér heyrðist ekki betur en hann talaði sem stjórnarandstæðingur.
    Ég vil þá víkja nokkrum orðum að síðari ræðu hæstv. forsrh. í þessum umræðum Hann fór vítt og breitt svo sem við mátti búast. Fram kom í ræðu hans að hann er sammála ýmsu sem ég hef áður sagt í umræðu þessari. Þannig erum við sammála um að þjóðin lifi um efni fram og af því stafi vandi okkar í efnahagsmálunum. Enn fremur erum við sammála um þá óheillaþróun að hlutur rekstrarútgjalda af fjárlögum skuli sífellt fara vaxandi en fjármagn sem ráðstafað er til framkvæmda fari að sama skapi minnkandi. Og þá hörmum við báðir að niðurfærsluleiðin skyldi ekki hafa verið reynd. Allt þetta varðar hin þýðingarmestu grundvallaratriði.
    En samt er ég hugsi út af ýmsu sem hæstv. ráðherra sagði. Hann sagði að mistekist hefði að hafa stjórn á efnahagslífinu gegnum peningamálin eins og hann komst að orði. Frjálshyggjustefnan hefði ekki hæft íslensku efnahagslífi, peningamálin, gengið úr skorðum, vextir hrjáð atvinnulífið, þenslan magnast á höfuðborgarsvæðinu með sínum afleiðingum, svo sem fjárfestingu í verslunarhúsnæði fram úr öllu hófi. Svo langt nær það sem hæstv. forsrh. sagði.
    Ég tel þessari skýringu mikið ábótavant, svo ekki sé meira sagt. Frjálshyggjustefnan, hvað sem hún nú annars þýðir í þessu sambandi, er hér borin fyrir hlutunum. Hér eru höfð að mínu viti endaskipti á orsökum og afleiðingum. En eitt er víst að sinn hlut í mistökunum ber fyrri ríkisstjórn
Steingríms Hermannssonar og ógæfa ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var sú að halda áfram stefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar.
    Ég vil orða skýringar á mistökunum á allt annan veg en hæstv. forsrh. gerði í sinni ræðu. Mistökin eru að sjálfsögðu margslungin en samt í höfuðatriðum skýr. Atburðaráðsin hefur fundið sér farveg gegnum gengismálin. Þau hafa lengi verið í umræðunni svo sem að líkum lætur. Við munum þá tíð þegar gengislækkanir voru í algleymingi. Þá þótti ekki tiltökumál að gera stjórnvaldsráðstafanir og samninga um kaup og kjör sem ekki voru raunhæfir og ekki gátu því staðist. Það þótti býsna hagkvæmt ráð að gera ráðstafanir, þó óraunhæfar væru, því að á eftir mætti gera þær raunhæfar að forminu til með því að lækka gengið. Þannig var farin kjörin leið til þess að kynda undir elda verðbólgubálsins. Að lokum sáu

menn þó að ekki mátti lengur við svo búið standa.
    Það var þá sem töfraorðið kom til skjalanna: Fastgengisstefna. Kom þá fram sú þjóðarárátta að vaða ýmist í ökkla eða eyra. Nú skyldi genginu haldið föstu hvað sem tautaði án tillits til markaðsástands erlendis og verðlags innan lands. Með slíkum stjórnvaldsráðstöfunum hefur hlutur þeirra sem afla gjaldeyris verið rýrður og færður þeim sem ráðstafa gjaldeyrinum og þar með kippt stoðum undan heilbrigðum rekstrargrundvelli fiskiðnaðarins hvarvetna í landinu, sjávarútveginum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
    Og ekki nóg með það. Þetta varðar ekki einungis frystihúsin í landinu heldur líka iðnaðinn og útflutninginn allan, efnahagslífið í heild. Afleiðingarnar blasa við í geigvænlegum greiðsluhalla við útlönd og erlendri skuldasöfnun, verðbólguhvetjandi þenslu í þjónustu og verslun á höfuðborgarsvæðinu og umturnun í byggðajafnvægi. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og staða þjóðarbúsins er í húfi.
    Ég efast ekki um að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir alvöru málsins. Hann sagði í ræðu sinni að athugun hefði fari fram á 27 frystihúsum og 18 þeirra mundu þurfa að þola rekstrarstöðvun ef ekkert kæmi til. Og hann sagði að raungengið væri um 15% of hátt. Auðvitað er það svo að staðreyndirnar blasa við hverjum sem sjá vilja en vandinn er að bregðast rétt við.
    Og hvernig ætlar þá hæstv. forsrh. að tryggja frystihúsunum rekstrargrundvöll? Hann sagði í ræðu sinni að hann reiknaði með kostnaðarlækkunum samhliða minnkandi þenslu, lækkun vaxta og hækkun afurðaverðs. Ég óttast að hér gæti helst til mikillar bjartsýni eða óskhyggju. Ekki þarf að taka það fram að við ráðum harla litlu um verðlag á erlendum mörkuðum. Og til þess að lækkun reksturskostnaðar verði að veruleika þarf miklu gagngerðari aðgerðir en enn bólar á. Og hæstv. ráðherra minntist ekki í ræðu sinni á það sem er forsenda þess að mínu viti að nokkur lækkun að ráði geti átt sér stað í rekstrarkostnaði frystihúsanna. Hæstv. forsrh. minntist ekki á niðurfærslu á ríkisútgjöldum. Ég vék að þeim þætti í fyrri ræðu minni og lagði megináherslu á það. Og aðalatriðið í tillögum ráðgjafarnefndarinnar um niðurfærsluleiðina var einmitt niðurskurður ríkisútgjalda. Eins og ég hef áður komið að erum við forsrh. sammála um að niðurfærsluleiðina hafi átt að reyna.
    Það er borin von að hjá mikilli gengislækkun verði komist ef ekki verður lát á því að þjóðin eyði um efni fram, ef ekki verður niðurskurður á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs. Raunar er gengislækkun ekki annað en stundarfróun nema jafnhliða séu gerðar efnahagsráðstafanir til að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í gengismálum. Það ber allt að sama brunni, niðurfærsluleið þarf að fara í einu eða öðru formi.
    Víst vekur það furðu mína að hæstv. forsrh. talar ekki í þessum umræðum um niðurskurð ríkisútgjalda. En það er ekki undankomu auðið. Án niðurskurðar

ríkisútgjalda hafa efnahagsaðgerðir þær, sem við nú ræðum, takmarkað gildi, verða fálmkenndar og árangurslausar ef þær gera ekki illt verra, svo ég noti tilvitnun hv. 4. þm. Vesturl.í mín eigin orð.
    Hæstv. forsrh. sagði í upphafi ræðu sinnar að vandinn sem nú væri við að glíma væri miklu meiri en haldið hafi verið fram til þessa. Ég er sammála hæstv. forsrh. um þetta. Það er vissulega mikilvægt að vel sé nú á málum haldið. Þar við liggur heill lands og þjóðar. En ætlar hæstv. forsrh. eða ætlar hann ekki að grípa til svo gagngerðra efnahagsráðstafana sem nauðsyn krefur? Það er spurningin. Annaðhvort gerir hann það sem gera þarf eða lætur það ógert. Þar skilur á milli feigs og ófeigs.