Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það sem vekur í rauninni sérstaka eftirtekt við þessa umræðu er sú ræða sem hæstv. forsrh. flutti á miðvikudaginn var, síðari ræða hans í þessari umræðu. Ég hygg að það hafi fleirum farið sem mér að þá hafi undrað hvað ræðan var veik og raunar á margan hátt ónákvæm. Ég held að það sé kannski skýrasta dæmið um það hvað aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru markvissar þegar fyrirsvarsmaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., talar ekki með skýrari og nákvæmari hætti en ræða hans gaf tilefni til.
    Það hefur blandast inn í þessa umræðu hverjar séu ástæðurnar fyrir því hvernig komið er í sjávarútvegi og í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar. Það hefur verið imprað á því í umræðunum að þar sé um að kenna hinni svokölluðu frjálshyggju, sem mönnum sumum hverjum liggur býsna létt á tungu. Nú var það svo að í þeim efnum hefur ekki orðið nein sérstök breyting á síðustu árum. Í efnahagsmálum hefur í meginatriðum verið fylgt sömu stefnu frá árinu 1983 og þar til núv. ríkisstjórn tók við. Orsakirnar verða þess vegna ekki raktar til neinna slíkra skýringa sem menn eru að reyna að fela í orðinu frjálshyggja. Árið 1987 var annað árið í röð sem íslenskur sjávarútvegur hefur búið við hagstæðan rekstur og bætt afkomu sína. Lengra er ekki síðan. Íslenskur sjávarútvegur hefur aldrei búið við eins gott verðlag á sjávarafla á erlendum mörkuðum eins og var í upphafi þessa árs. Þetta eru allt staðreyndir. Það sem hins vegar gerist, aðallega á fyrri hluta þessa árs, er að verðlag á sjávarafla, helstu framleiðslugrein okkar, lækkar um 9--10%, reyndar lækkaði verð meira á saltfiski. Þetta gerist einkum á þremur mánuðum, mars, apríl og maí. Síðan hefur reyndar átt sér stað verðlækkun, en einkum þó á saltfiski nú í september. Þetta eru að sjálfsögðu ástæðurnar fyrir því hvernig komið er. Og þegar menn eru hér að tala um að þessu hafi ekki verið mætt af fyrrv. ríkisstjórn verða menn að athuga að ákvarðanirnar sem voru teknar í mars og í maí hækkuðu verð á erlendum gjaldeyri um 18% eða hér um bil helmingi meira heldur en nam erlendu verðlækkuninni. Þetta eru allt saman óyggjandi staðreyndir. Og menn mega heldur ekki gleyma því að fyrrv. ríkisstjórn tók ákvörðun um kaupbindingu sem var svo aftur framlengd í bráðabirgðalögunum í september og núna í bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar fram í miðjan febrúar.
    Það sem skiptir svo máli í þessari umræðu er að gengisfelling er ekki eins markviss aðgerð og hún áður var og sérstaklega vegna þess að nú verður ekki um gengishagnað að ræða með sama hætti og var áður vegna þess að 2 / 3 af rekstrinum eru bundnir í erlendum lánum og taka því hækkun um leið og gengisfelling á sér stað. Gengishagnaður verður þannig ekki með sama hætti og áður var en áhrif slíkra aðgerða þegar til lengri tíma er litið eru að sjálfsögðu þau sömu og áður gerðist. Það væri náttúrlega fróðlegt að velta því fyrir sér, út frá ummælum hæstv. forsrh. þar sem hann sagði að fyrri aðgerðin hefði runnið út í sandinn, hvernig væri komið fyrir sjávarútveginum

ef gengið væri hækkað til móts við þær gengisfellingar um 15%. Þetta eru allt saman óyggjandi staðreyndir.
    Það vekur líka eftirtekt og skýrist enn betur í framhaldi af þessu hversu þær aðgerðir, sem núv. ríkisstjórn greip til, eru aftur á móti veikar og samt talar hæstv. forsrh. um það að þar með eigi hjól atvinnulífsins að fara að snúast. Þetta var hans fyrsti boðskapur. Í þessari frægu miðvikudagsræðu segir hann að með bráðabirgðalögunum og þeim aðgerðum hafi verið komið í veg fyrir þjóðarvoða, eins og ráðherrann orðar það. Og hverjar eru svo þessar aðgerðir sem eiga með þessum hætti að koma í veg fyrir þjóðarvoða? Ég er áður búinn að lýsa því hér að kaupbindingin var framlengd, það var ákvörðun sem búið var að taka og hún var framlengd fram í miðjan febrúar. En rekstrarskilyrðin eru bætt með 3% gengisfellingu. Það liggur ljóst fyrir að það er ekki annað sem kemur til með að bæta rekstrarskilyrðin heldur en 3% gengisfelling sem að sjálfsögðu, með tilvísan til þess sem ég sagði hér áðan um áhrif gengisfellingar, verkar ekki nema að hluta til fyrr en nýjar veðsetningar koma til. Það er sem sagt 1% álag erlends gjaldeyris sem bætir rekstrarstöðuna og kemur hjólunum í gang, eftir því sem hæstv. forsrh. segir. Þetta var þá allur vandinn. Til viðbótar við þetta er eiginfjárstaða fyrirtækja í sjávarútvegi löguð um 800 millj., það er sú innspýting sem kemur úr Verðjöfnunarsjóði, sem hefur farið að langstærstum hluta til þess að greiða upp viðbótarlán, umfram afurðalánin í bankakerfinu. Eiginfjárstaðan er þannig bætt en fjármagnið kemur ekki til ráðstöfunar í rekstri nema þá hjá þeim fyrirtækjum sem voru það vel sett í viðskiptum við bankana að ekki þurfti að skuldajafna með þessum hætti. Lausafjárstaðan verður svo að sjálfsögðu bætt með almennri skuldbreytingu að upphæð sem nemur 7 milljörðum króna. Þetta er það sem um er að ræða í þessu dæmi.
    Fyrstur manna til að kveða upp úr um það að þessar aðgerðir væru ófullnægjandi var sjálfur hæstv. forsrh. Eins og ég rifjaði hér upp í ræðu minni þá komst hann þannig að orði á miðvikudaginn var, í fyrsta boðskap ríkisstjórnarinnar, að fella þyrfti gengið í áföngum. Og nú hefur hann lýst því yfir að raungengi íslensku krónunnar væri 15% of hátt og það þyrfti að
lækka með því að draga úr innlendum kostnaði. Og nú skyldu menn aðeins líta á það að miðað við þjóðartekjur nema laun 73% innlends kostnaðar. Í veiðum, fiskvinnslu og aðkeyptri þjónustu til sjávarútvegsins er ætlað að laun muni nema hátt í 60% af tekjum, þ.e. að af þessum kostnaði eru um 2 / 3 hlutar laun og þá virðist nú fara að verða auðvelt um uppgjör af þessu tagi. Hæstv. forsrh. telur nauðsynlegt að lækka raungildi íslensku krónunnar um 15% með því að draga úr kostnaði innan lands. 2 / 3 hlutar af þeim kostnaði eru laun og það er að sjálfsögðu alveg augljóst mál að jafnviðamikil gengistilfærsla eins og þessi yrði að taka mið af öllum kostnaðarliðunum og þá ekki síst launakostnaðinum þannig að ef launin

eiga að bera sinn hlut af þessari gengisaðlögun þurfa þau að lækka um 10%.
    Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að það komi ekki til mála að framlengja lögbindingu launa eða taka ákvarðanir um frekari kjaraskerðingu. Laun eiga samkvæmt bráðabirgðalögunum að hækka um miðjan febrúar um 1,25%. Hvernig ætlar forsrh. að færa niður verðlagið innan lands, m.a. launin, þegar teknar eru ákvarðanir um það að í lok þessa tímabils yrði að hækka en ekki lækka? Það er satt að segja ómögulegt að fá nokkra meiningu út úr öllum þessum yfirlýsingum hjá hæstv. forsrh. Það vekur þess vegna mikla eftirtekt þegar hann margendurtekur það hér, í umræðunni á miðvikudaginn var, að það hefði verið ágreiningur um efnahagsmál og um aðgerðir í efnahagsmálum sem gerði það að verkum að fyrrv. ríkisstjórn gat ekki setið lengur. Það sjá allir sem vita vilja að einmitt þessi málflutningur hæstv. forsrh. afsannar það náttúrlega betur en nokkuð annað að svo hefur ekki verið.
    Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu. Það er alveg útilokað annað en að sú nefnd sem tekur við þessu máli, fjh.- og viðskn. Ed., kryfji þessi mál til mergjar, kryfji til mergjar orð og yfirlýsingar hæstv. forsrh. sem eru skýringar og túlkun við þessi bráðabirgðalög og ættu að öðru óreyndu að vera bærilega marktæk. Ég ætla að bíða þess að fá þá úttekt sem hlýtur að koma fram í þeirri afgreiðslu, en mér þótti jafnnauðsynlegt að vekja athygli á því hvernig hæstv. forsrh. hefur skýrt þessi mál og hversu ákaflega ónákvæmur og yfirborðskenndur málflutningur hans er.