Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Það er nokkuð um liðið síðan við ræddum þetta mál hér í hv. deild, eða u.þ.b. hálfur mánuður ef ég man rétt. Ég þarf ekki að rifja upp þau atriði sem komu fram í minni ræðu. En frá þeim tíma hefur hæstv. ráðherra flutt sína aðra ræðu og vikið þar að nokkrum atriðum sem komu fram í mínu máli fyrir u.þ.b. hálfum mánuði síðan.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að það þarf ekki að koma hæstv. ráðherra neitt á óvart þótt menn kjósi í umræðum um þetta mál að ræða skylda hluti. Fjármagnsmarkaðurinn er þannig að verði gerðar breytingar á honum á einum stað hafa þær breytingar að sjálfsögðu áhrif á aðra þætti hans. Þannig er t.d. ekki nokkur vafi á því að breyting á löggjöf um bankastarfsemi mun hafa áhrif á verðbréfasjóðina og breytingar á lögum um verðbréfasjóði munu að sjálfsögðu hafa áhrif á bankastarfsemina í landinu.
    Ég sagði það í upphafi míns máls um daginn að ég fagnaði framlagningu frv. Það var unnið á sínum tíma á vegum fyrrv. ríkisstjórnar og fulltrúar Sjálfstfl. tóku þátt í þeirri vinnu. Frv. er flutt til þess að festa í sessi verðbréfasjóðina og setja þeim ákveðnari reglur. Því ber að fagna. Hins vegar minntist ég á það, sem hefur jafnframt komið fram í ræðu hæstv. ráðherra, að 30. gr. er ekki í frv. að tilmælum nefndarinnar sem málið vann, heldur kaus hæstv. ráðherra að setja þá grein inn í frv. Með öðrum orðum, nefndin sem var ekki ásátt og sammála um þessa grein ákvað að skila tillögunni án þess að hafa greinina inni.
    Ég vil jafnframt benda á að fulltrúar Alþb. hafa ekki tekið þátt í þessum umræðum. Og það er ákaflega athyglisvert, ekki síst vegna þess að í umræðum um verðbréfasjóði hafa alþýðubandalagsþingmennirnir hv. gjarnan talað um ,,okurbúllur`` og þeir hafa virst hafa horn í síðu þessarar starfsemi. En nú bregður svo við að flutt er stjfrv., unnið af fulltrúum fyrrv. stjórnarflokka sem Alþb. átti ekki aðild að, og Alþb. virðist nú hafa kúvent þar sem frv. er flutt sem stjfrv. og væntanlega ber að skilja það þannig að Alþb., allt í einu lagi, styðji þetta frv. eins og það kemur frá hæstv. ríkisstjórn. Þessum sinnaskiptum ber auðvitað að fagna.
    Það var hins vegar athygli vert þegar fyrri hluti þessarar fyrstu umræðu fór fram að enginn alþýðubandalagsmaður var í salnum. En nú situr hér hv. þm. Guðrún Helgadóttir, forseti Sþ., og ég veit að hún mun að sjálfsögðu staðfesta að hér er um að ræða stjfrv. sem Alþb. stendur að eins og aðrir stjórnarflokkar. Hins vegar hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson aðra skoðun. Hann hefur flutt brtt. við frv. Það veldur því auðvitað að maður veltir fyrir sér hvenær svokölluð stjfrv. eru stjfrv. og hvenær ekki. Eins og fram kom í máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í fyrra skiptið er hann talaði í þessari umræðu sagði hann að sér hefði verið sýnt þetta frv., enda væri það flutt sem stjfrv. Ber að skilja það svo, og ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, að þegar um stjfrv. er að ræða séu frv. borin undir hv.

þm. Stefán Valgeirsson --- eða er hann frjáls og óbundinn þegar um stjfrv. er að ræða? Þetta hefur mjög mikla þýðingu þegar þarf að vega og meta hvort stjfrv. séu mótuð og flutt með þeim hætti að líklegt sé að einhvers konar meiri hluti geti orðið um slíkt frv. því að ef hv. þm. Stefán Valgeirsson er ekki sammála stjfrv. er ekki augljóst að hægt sé að koma slíkum frv. í gegnum þingið svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það vakti nefnilega athygli mína að hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti brtt. við það frv. sem hér er til umræðu.
    Hæstv. ráðherra hefur farið fram á að hv. þm. ræði ekki að sinni um lánskjaravísitöluna. Ég gerði hana að umtalsefni í minni fyrri ræðu, einkum og sér í lagi vegna þess að fram hafði komið í blöðum að hæstv. forsrh. hefði sagt að krafan um breytingar á lánskjaravísitölu hefði komið frá fulltrúum Alþfl. og Alþb. vegna þrýstings frá launþegasamtökunum. Fulltrúi launþegasamtakanna, Ari Skúlason, sagði í viðtali við DV að þetta væri lygi. Ég nota beinlínis orðið sem Ari Skúlason hagfræðingur notaði um þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., og mér skildist þá á hæstv. ráðherra, þar sem hann kallaði fram í úr sæti sínu, að fulltrúi Alþýðusambandsins hefði borið þessa ásökun til baka. Hann kom ekkert inn á þetta í sínu máli þrátt fyrir að ég bæði hann sérstaklega um að geta þess í sinni ræðu, sem hann þá átti eftir að flytja, hvað væri sannleikur og hvað væri lygi í þessum efnum.
    Hins vegar sagði hæstv. ráðherra að hugmyndin væri í raun komin frá fyrrv. forsrh., hv. þm. Þorsteini Pálssyni, sem hefði í sínum málamiðlunartillögum til að freista þess að halda áfram því stjórnarsamstarfi sem var við lýði áður en núv. ríkisstjórn tók við sett fram hugmynd um að launavísitala yrði tekin sem viðmiðun ásamt byggingarvísitölu og framfærslukostnaðarvísitölu að einum þriðja. Það er alveg rétt. Það var gert vegna þess, ef ég man rétt, og hæstv. viðskrh. getur auðvitað staðfest það eða mótmælt því, að sú krafa kom frá hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni á þeim tíma, en hæstv. forsrh. hefur verið manna áhugasamastur um að breyta lánskjaravísitölunni og jafnframt að fella hana algjörlega úr gildi.
    Nú lét hæstv. viðskrh. fara fram talsvert starf í fyrrasumar í verðtryggingarnefnd. Niðurstöður þess nefndarstarfs liggja fyrir, en þá
bregður svo við að fulltrúar Framsfl., þeir hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og Ólafur Þ. Þórðarson ef ég man rétt, hafa flutt þáltill. um að sett verði á fót nefnd fimm manna til að endurskoða grundvöll lánskjaravísitölunnar. Ég tel, herra forseti, að þar með hafi fulltrúar Framsfl. kastað stríðshanskanum og það verði ekki hægt að komast hjá því að ræða þetta mikilvæga mál, annaðhvort nú í tengslum við það mál sem hér er til umræðu, sem auðvitað er náskylt, eða þá sérstaklega þegar þessi till. þeirra tveggja hv. þm. Framsfl. verður til umræðu í Sþ. Ég spyr hæstv. ráðherra: Var hann spurður að því þegar þessir hv. þm. lögðu fram sína þáltill. hvort hann vildi að till.

yrði lögð fram eða er þetta einkaframtak þeirra? Og hvernig líkar hæstv. ráðherra að fá þessa till. fram í ljósi þeirra ummæla, sem hann viðhafði áðan, að nú skyldu menn geyma um hríð að ræða um lánskjaravísitöluna? Ég held það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta vegna þess að mér segir hugur um að það sé ekki full samstaða innan hæstv. ríkisstjórnar og meðal stjórnarflokkanna um þetta mikilvæga mál.
    Þetta mál er mikilvægt vegna þess að það hefur þá þýðingu fyrir þá sem lagt hafa fé til hliðar að þeir vita ekki í dag við hverju þeir geta búist í framtíðinni á meðan hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn mótað nægilega vel sínar hugmyndir um hvernig hún ætlar að standa að þessum málum í framtíðinni. Maður verður a.m.k. að álíta svo á meðan tveir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar flytja till. á borð við þessa.
    Þá vík ég örlítið að 30. gr. frv. sem ég nefndi í ræðu minni og ég vil endurtaka spurninguna sem ég lagði þá fyrir hæstv. ráðherra. Hún var ekki um það hvar slík löggjöf væri til heldur hvernig og hvenær henni hafi verið beitt. Ég sagði í minni ræðu að ég vissi til þess að ákvæðið væri til í löggjöf nokkurra þjóða. Það hefur hæstv. ráðherra staðfest, en hann getur ekki sagt hvenær og hvernig slíkt lagaatriði hefur verið notað í þeim löndum. Ég held nefnilega og hef upplýsingar um það að þetta atriði hafi ekki verið notað í þeim löndum þar sem þessi löggjöf er til.
    Ég rakti það jafnframt í mínu máli að það væri mikill munur á annars vegar bankastarfsemi og hins vegar starfsemi verðbréfasjóða. Ég benti á að í fyrsta lagi lofa verðbréfasjóðir ekki ákveðinni ávöxtun heldur ákvarðast hún af afkomu sjóðanna eins og gildir um annað eigið fé. Ég benti í öðru lagi á að sparnaður í verðbréfum er í flestum tilvikum til mun lengri tíma en í bankakerfinu. Í þriðja lagi lofa verðbréfasjóðir ekki innlausn samdægurs og verðbréfasjóðirnir taka ekki áhættu af töpuðum kröfum á sama hátt og innlánsstofnanir þurfa að gera. Það er þess vegna mjög mikill munur á starfsemi verðbréfasjóðanna annars vegar og bankastarfsemi hins vegar. Það er einmitt það grundvallaratriði sem þetta mál snýst um.
    Hæstv. ráðherra segir: Það þarf að vera heimild fyrir viðskrh. að geta veitt Seðlabankanum sams konar völd gagnvart verðbréfasjóðunum og Seðlabankinn hefur gagnvart bankakerfinu --- og nú skulum við taka eftir: Ef verðbréfasjóðirnir fara inn á starfsemi bankanna.
    Síðan segir hæstv. ráðherra síðar í sinni ræðu: Verðbréfasjóðirnir munu ekki á grundvelli þessara laga fara inn á starfsemi bankanna, sú tíð er liðin. Hún leið eftir að Ávöxtun sf. hætti starfsemi sinni. Og þá spyr maður: Til hvers er þetta ákvæði?
    Ég legg til við hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar að nefndin kanni það þá hvort ekki er ástæða til að breyta 30. gr. frv. þannig að það sé skýrt tekið fram að þessa heimild megi nota ef verðbréfasjóðir fara að stunda innláns- og

útlánsstarfsemi.
    Og til viðbótar, herra forseti, hlýtur maður að spyrja: Af hverju gilda ekki þessi lagaatriði jafnframt gagnvart veðdeildum bankanna? Þar fer fram sams konar starfsemi og í verðbréfasjóðunum.
    Þetta fannst mér ekki koma nægilega skýrt fram í máli hæstv. ráðherra. Ég er alveg sammála honum um flestöll efnisatriði. Ég er líka sammála honum um það sem hann sagði um 30. gr. En mér finnst hann sjálfur hafa svarað þeim sjónarmiðum sem hann talaði um í sinni fyrri ræðu með því að segja að verðbréfasjóðunum sé ekki ætluð sams konar starfsemi og bönkunum.
    Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig gangi að koma á laggirnar reglum um að Íslendingum sé leyft að kaupa verðbréf erlendis. Hæstv. viðskrh. var mikill áhugamaður um þetta efni til þess að Íslendingum gæfist kostur á að kaupa verðbréf erlendis og taka þannig þátt í að grynnka á skuldum Íslendinga þar. Ef þetta mál er nú vel á vegi statt, sem ég efast ekki um, í höndum hæstv. viðskrh., ætlar hann þá líka að koma á bindiskyldu gagnvart þeim verðbréfasjóðum sem gefa út verðbréf sem Íslendingar mega kaupa erlendis? Ef svo, hvernig hyggst hann fara að því? Ég vona að hæstv. ráðherra hafi skilið þessa spurningu og svari henni þannig. Vonandi ekki á þann veg að það verði gerður munur á þeim sjóðum sem Íslendingar geta keypt verðbréf hjá. Varla er það það sem hæstv. ráðherra ætlast til.
    Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og varðaði hlutabréfamarkaðinn. Ég rifjaði upp að á vegum Iðnþróunarsjóðs og Seðlabankans
fór fram góð athugun á þessu máli sem Enskilda Securities vann á sínum tíma. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hyggst vinna að þessu máli. Nú er hann bæði viðsk.- og iðnrh., hefur yfir báðum þessum stofnunum að segja. Ég treysti honum betur en flestum öðrum, a.m.k. flestum öðrum hæstv. ráðherrum, til þess að framkvæma þessa hluti því ég veit að hæstv. viðskrh. hefur sérstakan áhuga á þessu máli eins og glögglega kom fram í ágætri ræðu sem hann flutti norður á Akureyri og var vitnað til í dagblaðinu Degi. En hæstv. ráðherra sagði að þetta væri fyrst og fremst skattamál. Þetta væru atriði sem sneru að skattamálunum. Og það er vissulega rétt. Síðan býsnaðist hann yfir því að í tíð Sjálfstfl., þegar Sjálfstfl. hefði farið með fjmrn., hefði ekki verið hreyft við þessum málum. En það var nú aldeilis gert. Það var nefnilega breytt lögum á þeim tíma og breytt á þann veg að það voru settar ákveðnar reglur, sem voru lögfestar og eru í lögum, um það hvenær megi draga frá skatti hlutabréfakaup og hvaða skilyrði ættu að vera til staðar. Þetta man hæstv. ráðherra, ef hann rifjar það upp, að var gert í tíð Sjálfstfl. þegar hann fór með fjármálastjórn. Það var einmitt vegna þess hve vel þetta gekk sem málið var tekið aftur upp í stjórnarsáttmála fyrri ríkisstjórnar. Í síðustu ríkisstjórn sat Alþfl. bæði í fjmrn. og í viðskrn. og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða skref voru tekin í fjármálaráðherratíð Alþfl.? Ég hef svarað hvaða skref

voru tekin í ráðherratíð Sjálfstfl. Það er hægt að rifja það upp. Það var gert árið 1984 eða 1985, ég man ekki hvort árið það var. En nú spyr ég: Hvað gerði Alþfl. í þessu máli en hann hafði sjálfur átt aðild að því að setja þetta með skýrum hætti inn í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar?
    Ég endurtek það, herra forseti, að ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að vinna að þessu máli og treysti honum betur en mörgum öðrum að láta hendur standa fram úr ermum.
    Það er auðvitað svo, þegar fjallað er um þetta frv., að það sem skiptir kannski einna mestu máli er að við höfum sem flest sparnaðarform. Það liggur fyrir og hefur verið kannað að því fleiri sem sparnaðarformin eru þeim mun meira sparar fólk. Ég þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir að hafa tekið undir þá þáltill. sem ég hef leyft mér að leggja fram og tel mig eiga þar á vísan að róa og veit að ég kem til með að njóta stuðnings hæstv. ráðherra þegar sú till. verður til afgreiðslu í Sþ. ( Landbrh.: Vill ræðumaður ganga í ríkisstjórn?) Ja, vill hæstv. ráðherra skipta og fara út? Er þetta tilboð sem á að taka? ( Landbrh.: Ræðumaður er jákvæður í garð ríkisstjórnarinnar.) Ja, ég spyr hæstv. ráðherra, sem hér kemur í salinn og blaðar í bunkanum með sveittan skallann, er hann tilbúinn að ganga út úr þessari ríkisstjórn, standa upp og hleypa öðrum og betri mönnum að? Er þetta tilboð sem ber að taka alvarlega eða er þetta eitthvað sem ráðherrann segir si svona eins og venjulega sem ekki ber að taka mark á? ( SighB: Er þá hv. ræðumaður tilbúinn að taka tilboðinu?) Það er svo annað mál.
    Jæja, herra forseti. Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann sagði um ríkisbankakerfið. Ég er honum nákvæmlega sammála, ríkisbankakerfið er of stórt. Það ber að draga úr því og það má færa rök fyrir því að það sé heppilegra að meira af fjármagns- og lánamarkaðnum sé komið fyrir hjá öðrum en ríkinu, enda hygg ég að það sé langhæsta hlutfall í vestrænu lýðræðisríki hér á landi, það innlánsfé sem gengur í gegnum ríkisbankakerfið. Ég er líka sammála hæstv. ráðherra um að ef selja á Útvegsbankann, sem hæstv. ráðherra hefur reynt í nokkra mánuði, þá á að selja hann öðrum aðilum en ríkisbönkum.
    Að lokum langar mig til þess, virðulegur forseti, að benda á 3. gr. frv. og án þess að flutt sé ákveðin tillaga um það langar mig til að biðja hv. nefnd um að kanna hvort hugsanlegt sé að breyta d-lið í 3. gr. þar sem rætt er um hverjir eigi að fá leyfi til verðbréfamiðlunar. Þar segir í d-lið, með leyfi forseta: ,,Þeir sem hafa sótt námskeið í verðbréfamiðlun sem ráðuneytið gengst fyrir í samvinnu við stjórn Verðbréfaþings Íslands og hafa lokið þar prófi samkvæmt þeim prófkröfum sem settar eru.`` Er ekki hugsanlegt að veita undantekningar t.d. þegar viðkomandi aðili hefur starfað við sams konar starfsemi erlendis? Það er vitað að nokkrir Íslendingar þekkja mjög vel til slíkrar starfsemi á erlendri grund. Jafnframt langar mig til að biðja hv. nefnd um að kanna hvort ekki sé hugsanlegt að öðrum en

héraðsdóms- og hæstaréttarlögmönnum og löggiltum endurskoðendum sé heimilt í einstökum tilvikum að veita viðskiptamönnum sínum þjónustu sem telst til verðbréfamiðlunar og þá á ég sérstaklega við rekstrarráðgjafa, hvort ekki sé ástæða til að bæta þeim við. Þetta vil ég biðja hv. nefnd um að skoða.
    Herra forseti. Að öllu samanlögðu, og ég vil að það komi skýrt fram vegna orða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, er ég mjög jákvæður til þessa frv. og fagna því að það er lagt fram. Ég fagna því að svo víðtæk samstaða hefur náðst um málið að Alþb. styður frv. nú heils hugar, eins og margoft hefur verið áður ítrekað. Ég vænti þess og að tillit verði tekið til þeirra sjónarmiða sem ég hef flutt í mínum ræðum og þá einkum og sér í lagi vegna 30. gr. frv.