Eignarleigustarfsemi
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um þær ábendingar sem fram komu hjá hv. 5. þm. Reykv. Hann benti réttilega á að það hefði borið á ógætilegum auglýsingum um frádráttarbærni leigugjaldanna og ég tek undir það með honum að nauðsynlegt er að fjalla með skýrari hætti um skattmeðferð fjármagnskostnaðar þannig að hann sé ekki háður fjármögnunarformi. Að því þarf að gæta vandlega, því þarna er nokkur vandi á höndum, en við þetta efni hefur nokkuð verið fengist innan fjmrn. undanfarið ár. Ég vona að þaðan komi alveg ótvíræðar leiðbeiningar um málið.
    Ég tek undir það með hv. 5. þm. Reykv. að það hefur borið nokkuð á því að í samningum á þessu sviði hafi hallað á leigutakann. Það hefur nú vafalaust stafað af því að menn fengu glýju í augun þegar auðveldara reyndist en áður að útvega fé til framkvæmda eða hlutakaupa og ekki skeytt mikið um smáletrið á baksíðunni á blaðinu sem hv. 5. þm. Reykv. las upp úr. Því miður er þetta svo. Ég vék nokkuð að þessu áðan. Ég vildi sérstaklega benda á ákvæði sem ég tel mikilvægt og er í 9. gr. frv. þar sem segir að það skuli vera í samningunum ákvæði um rétt beggja aðila, leigusala og leigutaka, til að rifta eignarleigusamningnum og hvaða skilmálum þurfi að fullnægja til þess að rifta megi. Það hefur nefnilega komið fyrir þegar menn hafa deilt um framkvæmd leigusamninganna og um ábyrgð og tryggingar eins og hv. þm. vék að, að þá hafi menn sagt sem svo: Þessi samningur er órjúfanlegur, þú ert bundinn af honum svo lengi sem hann stendur. Þ.e. leigusalinn hefur haldið þessu fram við leigutakann og réttur leigutakans þótt óljós í mörgum tilfellum. Ég held að það geti líka verið full þörf á að ræða það í nefndinni sem um þetta fjallar hvort setja þurfi sérstakar reglur um tryggingar í öðru en hinu leigða, þegar um slíka samninga er að ræða. Það var hins vegar niðurstaðan í nefndinni sem frv. samdi að gera ekki tillögur um þetta mál, en það er vafalaust rétt að huga þarf að því.