Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er andstætt þeim grundvallarsjónarmiðum sem ég hef í sambandi við þessar hvalveiðar. Varðandi starfsemi náttúruverndarsamtaka þá vil ég segja að það getur verið mjög gott fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í samstarfi um náttúruvernd og umhverfisvernd að því marki sem við eigum samleið með þeim, t.d. um verndun úthafanna sem er náttúrlega gífurlega mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Ég legg áherslu á það að við eigum þar verulega samleið með þeim aðilum sem fyrst og fremst er við að glíma í þessu umrædda máli. Mér finnst að gagnvart þeim þætti málsins gætum við jafnvel sýnt þeim meiri áhuga um samstarf á sviði verndunar úthafanna en við höfum gert hingað til, t.d. varðandi losun eitraðra úrgangsefna í höfin. Það má vel vera að losun eitraðra úrgangsefna í höfin sé þegar farin að hafa meiri áhrif hér á okkar fiskimiðum en við höfum nokkra hugmynd um. Það eru engin gögn til um það en auðvitað hefur þetta áhrif á lífríkið.
    Það mál sem hér er til umræðu snertir grundvallarmannréttindi um sjálfstæði þjóðanna. Að við látum ekki neyða okkur til þess að taka upp aðra stefnu en við teljum sjálf að okkur henti. Eins og í þessu umrædda máli. Það er talin grundvallarregla hjá lýðræðisþjóðum að frjálsræði borgarans til orðs og æðis sé í hávegum haft. Á sama hátt er sjálfstæði þjóðanna grundvallaratriði í samskiptum við aðrar þjóðir. Í þessu tiltekna máli er verið blandað saman máli sem er umhverfismál, sem búið er að gera að tilfinningamáli, og síðan eru aðilar í viðskiptum úti í hinum stóra heimi farnir að notfæra sér þetta í viðskiptatilgangi. Þeir náttúrlega renna fljótt á það að það er hægt að nota þetta á okkur til þess að fá lækkun á verði og um leið að þjóna hagsmunum þessara sterku aðila, þannig að þeir geti fengið prik frá þeim sem þeir eiga kannski undir högg að sækja hjá á öðrum sviðum.
    Þessu máli má ekki hræra í einn graut. Því það er ekkert víst að viðskiptastaða okkar á erlendum mörkuðum batni þó svo við förum að láta undan í máli sem þessu. Það eru akkúrat engin rök sem hafa verið færð fram fyrir því að líkur séu á því.
    Ég tel að svona hótanir um efnahagslegar refsiaðgerðir ef við förum ekki að skoðun einhverra annarra séu ekkert annað en hótun um efnahagsleg hryðjuverk. T.d. þegar verið var að ráðast á flutningafyrirtæki, opna gáma o.s.frv. Hvað er þetta annað en tilraunir til skemmdarstarfsemi? Það er stigsmunur á ofbeldisaðgerðum, hvort beitt er líkamsárásum, mannránum eða efnahagsþvingunum. Það er bara stigsmunur. Mér finnst að þetta hafi e.t.v. vantað inn í umræðuna og þurfi. Það er verið að tala um að það þurfi alþjóðalög um hryðjuverkamenn. En þetta er spurning um flokkun þá á hvað eru hryðjuverk. Það er illa komið ef lýðræðisþjóðirnar ætla sér að fara að leggja blessun sína yfir það að smáþjóðir séu kúgaðar gagnvart því sem þær telja að þeim sé fyrir bestu.

    Tilgangur þessara samtaka er eins og áður sagði að reyna að neyða okkur til að taka upp ranga stefnu í þessu hvalamáli sem við að sjálfsögðu gerum ekki því að þessi löggjafarsamkoma er sú elsta í heimi, ellefu hundruð ára gömul og það er ekki við hæfi að við látum útlenda þrýstihópa fara að neyða okkur til að taka upp ranga stefnu í máli sem þessu. Og af þessum grundvallarástæðum, sem ég hef nefnt hér, þá lýsi ég mig andvígan þessu frv.