Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það hefur margt athyglisvert komið fram í þessari umræðu og ég ætla ekki að bæta miklu við það mál sem ég flutti hér fyrr í umræðunni. Það sem mér finnst þó einna athyglisverðast er það sem hv. 1. flm. málsins, Hreggviður Jónsson, mælti hér áðan þegar hann tók sérstaklega undir málflutning tveggja hv. þm., Matthíasar Bjarnasonar og Kristínar Einarsdóttur, sem bæði hafa í raun mælt gegn þessu frv. í ítarlegu og skýru máli. Mér sýnist það staðfesta það sem hér hefur verið sagt um þetta mál að flutningur þessa frv. sé ekki á réttum stað miðað við stöðu málsins.
    Það liggur líka fyrir í þessu máli að enginn flokkur hér á Alþingi, enginn þingflokkur hefur séð ástæðu til þess af sinni hálfu að taka þetta mál hér upp í þinginu á þeim tíma sem liðinn er síðan Alþingi ályktaði um málið í byrjun febrúar 1983. Það er í rauninni aðeins einn þm., hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir, sem hefur tekið þetta mál hér upp í fyrirspurnarformi án þess þó að gera kröfu til þess að stefnu væri breytt í málinu frá því sem hún hafði verið á þeim tíma þegar það var hér rætt, síðast af hennar hálfu í fsp. til hæstv. sjútvrh. fyrir tveimur þingum eða veturinn 1986--1987. Það hefur líka verið samstaða um meginatriði þessa máls í utanrmn. á þessum árum þó að þar hafi auðvitað komið fram athugasemdir og ábendingar frá þeim sem í nefndinni hafa setið og verður það ekki rætt hér á þessum vettvangi. Það á jafnt við um aðalfulltrúa í nefndinni og áheyrnarfulltrúa sem þar hafa setið á þessu tímabili.
    Ég held að það sé mjög þýðingarmikið að menn bæði viðurkenni og horfist í augu við það, að hér hefur til skamms tíma a.m.k. verið allgóð samstaða um meginatriði málsins. Og þó að hér hafi komið fram mismunandi sjónarmið þá sýnist mér að á heildina litið hafi þessi umræða frekar orðið til þess að stilla menn saman heldur en hitt í þessu máli. Og það tel ég vera mjög þýðingarmikið í þeirri stöðu sem við nú stöndum í að reynt verði að leita hér samstöðu og auðvitað málamiðlunar að svo miklu leyti sem sjónarmið eru andstæð til þess að okkar undirstöðuhagsmunir í þessu máli verði ekki fyrir borð bornir og við höfum möguleika á því að halda á málinu út í frá framvegis, þannig að við höfum styrk til að ná fram þeim markmiðum sem menn eru ásáttir um að keppa beri að.
    Ég hvatti hæstv. sjútvrh. til þess að beita sér fyrir aukinni kynningu á okkar málstað, m.a. á niðurstöðum þeirra rannsókna sem þegar hafa farið fram, inn á við hérlendis og á erlendum vettvangi. Ég held að það sé eitt af því sem þurfi að gerast sem allra fyrst, jafnframt því sem nefndir þingsins, sem hafa fengið mál þetta til meðferðar, náttúrlega utanrmn. áframhaldandi og svo sjútvn., fjalli um það og taki á einstökum þáttum með það að leiðarljósi að stilla menn saman og ná hér þeirri samstöðu sem þörf er á í þessu að mörgu leyti vandasama máli.