Hvalveiðibann
Þriðjudaginn 01. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa gagnlegu umræðu sem hér hefur farið fram og vil segja það alveg eins og er að mér er nokkuð létt yfir þeim anda sem þó er í henni vegna þess að það staðfestir það að Alþingi er í grundvallaratriðum --- mikill hluti þeirra sem hér hafa talað, þótt aðrir hafi talað í gagnstæða átt, hefur talað á þeim nótum sem kom fram hér á Alþingi 1983, þ.e. talað fyrir þeirri stefnu sem þá var mörkuð, en það er sú stefna sem hefur verið fylgt í þessu máli. Það er algjörlega rangt þegar því er haldið fram, fyrst og fremst af fjölmiðlum, að hér sé um að ræða stefnu sem sjútvrh. hefur markað sérstaklega. Það er ekki svo. Sjútvrh. hefur verið að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð var af Alþingi. Það hefur verið gert í samráði við ríkisstjórn og utanrmn. Það má vel vera, eins og hér hefur komið fram, að það samráð hafi mátt vera nánara. En ég hygg þó að ávallt þegar einhverjar breytingar hafa verið gerðar þá hafi það veri rætt á þeim stöðum og ég tel a.m.k. að ég hafi ávallt verið tilbúinn til að koma á fund utanrmn. ef þess hefur verið óskað. Það er alltaf spurning hvar frumkvæði eigi að liggja í máli sem þessu þótt ég viðurkenni að sjálfsögðu að það hlýtur að vera fyrst og fremst hjá þeim ráðherra sem er að framkvæma stefnuna en ekki hjá utanrmn.
    Frá upphafi þessa máls hefur ávallt verið reynt að beita þvingunum með einum eða öðrum hætti, alveg frá því að þetta mál hófst og ég vil segja að það hafi hafist 1972, eins og hér hefur komið fram, þegar ráðstefnan var haldin í Stokkhólmi. Þá voru aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins aðeins 14 talsins. Það voru 8 ríki sem stunduðu hvalveiðar. Árið 1980 voru hvalveiðiríkin 10, en á sama tíma hafði þeim ríkjum, sem ekki stunduðu hvalveiðar, fjölgað úr 6 í 30 og 1982 var hlutdeild svokallaðra hvalveiðiríkja komin í 23%. Það er því alveg ljóst hvað var að gerast í Alþjóðahvalveiðiráðinu á þessum árum. Þjóðir, sem höfðu hér engra hagsmuna að gæta, áttu ekki þessar lífrænu auðlindir eða höfðu aðgang að þeim hvernig svo sem menn vilja skilgreina það, komu inn í ráðið, þjóðir sem höfðu ekki stundað neina vísindastarfsemi. Og jafnvel ríki eins og Sviss, sem hér var vitnað sérstaklega til af því að nóbelsskáldið hafði gert það að umtalsefni, gerðist til að mynda aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það hefur margt gerst síðan, en þessi ákvörðun var tekin með lýðræðislegum hætti jafnvel þó að það væri óeðlilegt að þessi ríki kæmu inn á þennan hátt. Til að mynda hefðu Sovétmenn að sjálfsögðu getað beitt sér sérstaklega fyrir því að ríki Austur-Evrópu gengju í Alþjóðahvalveiðiráðið og menn hefðu með þeim hætti getað reynt að safna liði víða um heim. Það gerðu menn ekki. En þetta gekk svo langt að einstök ríki létu sig hafa það að leyfa fulltrúum umhverfissamtaka í Bandaríkjunum að koma fram fyrir sína hönd. En það fór nú svo illa með sambandið þarna á milli að þeir misnotuðu það með einum eða öðrum hætti þannig að þetta er allt saman ein mikil sorgarsaga.
    Þessi ákvörðun var hins vegar tekin 1982 og

ákvörðun Alþingis var tekin 1983 og þá stóð ekki á því að hingað voru sendir ýmsir sendiboðar til að hræða menn og eiga við menn viðtöl, nú væri eins gott fyrir Íslendinga að vera til friðs. Barátta umhverfissamtaka í Bandaríkjunum hefur leitt af sér þá löggjöf sem þar er, sem er óeðlileg löggjöf vegna þess að hún tekur fyrst og fremst til athafna í öðrum ríkjum en ekki í Bandaríkjunum. Þannig hafa með einum eða öðrum hætti ávallt verið hafðar uppi hótanir í þessu máli og svo verður um langa hríð. En hér er um að ræða nýtanlega auðlind að okkar mati og við megum ekki gefa eftir þann rétt. Það er grundvallaratriði og það hefur komið fram hér í máli margra þm. Og ég fagna því að svo margir skuli tjá sig um þetta grundvallaratriði fyrir utan okkar rétt og okkar skyldu til að rannsaka í okkar lögsögu.
    Nú er rétt að taka það fram vegna þess að menn hafa sagt að þessar rannsóknir hefði mátt stunda með ýmsum öðrum hætti, og það má vel vera að gera megi ýmsar breytingar á þessari rannsóknaráætlun, enda hefur það verið gert, að þessi rannsóknaráætlun hefði aldrei verið framkvæmd nema vegna þess m.a. að það var ákveðið að taka ákveðinn fjölda dýra. Það var talið nauðsynlegt og það var líka talið miklu kostnaðarminna. Er einhver tilbúinn til að réttlæta það að það eigi að leggja í jafnvel fleiri hundruð millj. kr. kostnað sem hægt er að komast hjá með því að taka nokkur dýr? Ég skyldi taka undir þá skoðun ef um væri að ræða dýrastofn sem væri í útrýmingarhættu. Við megum aldrei falla í þá gryfju að ráðast að dýrastofni í útrýmingarhættu, enda er enginn Íslendingur sem heldur því fram. Og þessi staðreynd er mikilvæg. Hún er m.a. mikilvæg þegar líffræðingar halda því fram að þetta hefði allt saman mátt gera með öðrum hætti.
    Í þessu sambandi er e.t.v. rétt að vitna aðeins til þess sem er sagt í þessari frægu vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins því að þar eru fjórar spurningar samkvæmt ályktun sem þar hefur verið samþykkt sem þarf að svara. Ein af þeim spurningum sem þarf að svara er einmitt þessi: Beinast rannsóknirnar að lausn vandamála sem ekki verður svarað með athugunum á fyrirliggjandi gögnum og/eða með rannsóknum án veiða? Þetta er eitt af því sem vísindamenn þar þurfa að svara í skýrslu til ráðsins. Og í lauslegri þýðingu
var þetta bókað:
    Jóhann Sigurjónsson taldi að engar af meginrannsóknum áætlunarinnar, t.d. þungunartíðni og áhrif umhverfisþátta á vöxt og viðkomu, yrðu framkvæmdar með rannsóknum án veiða svo raunhæft væri, einkum þegar tímarammi rannsóknanna væri hafður í huga. Í þessu tilliti benti hann jafnframt á erfiðleika við framkvæmd ýmissa rannsókna óháðra veiðum á opnu úthafinu vestan við Ísland, t.d. notkun ljósmyndunaraðferða á langreyði. Það þyrfti sem dæmi a.m.k. 8 skip til að safna nægilegum efniviði til úrvinnslu við eina af mörgum tilraunum sem framkvæma þyrfti ef einhver von ætti að vera til þess að einhverjar marktækar niðurstöður ættu að nást.

    Holt, sem hefur verið mjög gagnrýninn vísindamaður á þessar rannsóknir, samsinnti að ekki væri unnt að framkvæma allar rannsóknirnar án veiða, en taldi þær heldur ekki allar nauðsynlegar gagnvart veiðistjórnun eða endurmati stofnanna þar sem rannsóknir án veiða, talningar, svokölluð DNA-ljósmyndun, hefðu nú þegar sýnt ágæti sitt.
    Þá komu aðrir vísindamenn, þeir Hester og Kato frá Japan, sem lýstu sig sammála Jóhanni Sigurjónssyni um erfiðleika þess að beita ljósmyndatækni á langreyðar. Hester gat þess einnig að DNA-aðferðin væri enn á tilraunastigi. Osimi frá Japan taldi íslensku áætlunina gott dæmi þess að rannsóknir með og án veiða væru besta leiðin til árangurs. Chapman frá Bandaríkjunum taldi erfitt að meta árangur rannsóknanna og það hvort rannsóknir án veiða gætu leyst aðrar aðferðir af hólmi.
    Dómur sem þessi, sem þarna kemur fram í meðferð vísindanefndarinnar, er túlkaður þannig af því fólki sem er að fjalla um þessi mál að hér væri verið að gagnrýna mjög íslensku áætlunina. Það hefði komið fram í vísindanefndinni að þetta væri óþarft o.s.frv.
    Hér liggur að sjálfsögðu ekki fyrir neinn endanlegur vísindalegur dómur um að það sem við séum að gera sé ómögulegt. Það eru um það skiptar skoðanir og vísindamenn segja ýmislegt í þessu efni, en þó er sú almenna skoðun sem hér kemur fram að ekki sé hægt að svara öllum spurningum nema með veiðum. Það verður að gera þá kröfu til vísindamanna sem fjalla um þessi mál að þeir fjalli um það af fullri varúð, m.a. með þeim hætti sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir sagði hér áðan, að hún vildi ekki kveða upp einhvern dóm sem líffræðingur í þessu efni vegna þess að hún hefði ekki nægilega þekkingu á þessu sviði til þess að kveða þar upp endanlegan dóm. Þannig er nú með vísindin og alla þekkinguna að jafnvel þótt einhver hafi lært líffræði og beri það ágæta starfsheiti líffræðingur, þá er ekki þar með sagt að viðkomandi persóna sé fær um að dæma vísindalegar rannsóknir annarra líffræðinga sem viðkomandi líffræðingar hafa alls ekki kynnt sér. Og þegar 21 líffræðingur kvað upp þennan dóm, ég held það hafi verið á sl. ári, þá gera þeir það væntanlega sem persónur en ekki sem líffræðingar eða sérfræðingar á þessu sviði.
    Ég kynnti mér allvandlega hvaða nám og störf þetta fólk hafði að baki og mér sýndist að fæstir þeirra hefðu sérstaklega kynnt sér þessi mál og hefðu því fremur átt að kveða upp þennan dóm sem einstaklingar en ekki með þessum hætti í nafni líffræðinnar. Ég held að þetta sé einfaldur sannleikur. Og það á við um hvaða vísindi sem er og raunverulega alla þekkingu að þótt menn beri ákveðið sérfræðiheiti, þá vita menn ekki allt um viðkomandi vísindi og viðkomandi mál, enda fyrnist nú oft og tíðum yfir lærdóminn. Og þótt einhverjir beri eitthvert sérfræðiheiti sem hafa verið alþm. árum og áratugum saman, þá er ég nú hræddur um að sumir hverjir séu ekki orðnir umræðuhæfir um margt það sem þeir höfðu lært í fyrndinni, enda breytast hlutirnir ansi

hratt nú til dags.
    Ég vildi aðeins koma inn á nokkrar fullyrðingar sem hér hafa komið fram. Það kom m.a. fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Kristínu Halldórsdóttur að við hefðum ekki virt alþjóðasamþykktir þótt það hefði verið orðað með ýmsum hætti. Þetta hefur komið fram í umræðunni og þessu vil ég mótmæla mjög harðlega. Ég vil líka mótmæla því vegna þess að það hafa verið hér aðilar á ferðinni, sendiboðar, það eru alltaf sendiboðar á ferðinni til þess að skýra fyrir þm. hvað hafi verið samþykkt hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu, jafnvel að því látið liggja og beinlínis sagt að rangt sé sagt frá af hálfu okkar Íslendinga og því er ástæða til þess að fara örfáum orðum um þetta mál.
    Í fyrsta lagi höfum við Íslendingar alltaf fylgt stofnskrá Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þar kemur fram án þess að nokkur beri brigður á það réttur hvers ríkis til þess að taka dýr í vísindatilgangi. Við höfum ávallt fylgt samþykktum ráðsins sem aðeins er hægt að breyta með 3 / 4 hluta atkvæða. Síðan hafa verið samþykktar þar ýmsar ályktanir sem fela í sér tilmæli til viðkomandi ríkis. Þar er í fyrsta lagi ályktun frá 1986 sem var samþykkt af Alþjóðahvalveiðiráðinu mótatkvæðalaust, með consensus eins og sagt er, og við Íslendingar töldum okkur fært að standa við þær skuldbindingar. Við greiddum ekki atkvæði á móti þeirri ályktun og töldum okkur fara að þeim tilmælum. Hins vegar eru þessi tilmæli oft og tíðum afar óljós og það þurfti
t.d. að fá úr því skorið með viðræðum við Bandaríkjamenn hvernig bæri að skilja þessi tilmæli að því er varðar samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Þar á ég við hversu mikið væri hæfilegt að éta af kjötinu hér á landi, sem er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikli þáttur í þessu máli hver étur kjötið og var fyrst í stað algjört aðalatriði, m.a. aðalatriði í hugum flestra svokallaðra umhverfisverndarsinna, ekki aðalatriði hversu mörg dýr voru drepin heldur hver át kjötið. Um þetta náðum við samkomulagi við Bandaríkjamenn hvernig bæri að skilja þessa átklásúlu sem við vorum að sjálfsögðu mjög andvígir, en erum þannig gerðir að við erum alltaf að reyna að sættast á sjónarmið annarra í þessu máli, svo undarlegt sem það virðist sumum, og féllumst á þessa klásúlu --- sem við trúlega hefðum ekki átt að gera.
    Síðan kemur ný ályktun 1987 og sú ályktun er að okkar mati algjörlega ólögleg og fluttum við um það langar lagalegar útskýringar og töldum þá ályktun brjóta í bága við sjálfa stofnskrá ráðsins.
    Árið 1988 var enn á ný samþykkt ályktun sem var mikið þref um, þær ályktanir sem fyrst voru bornar fram voru miklu verri, en endaði þó með því að sú ályktun var samþykkt án atkvæðagreiðslu, en við tókum það skýrt fram að vegna tilvitnunar til ályktunarinnar 1987 teldum við enn þá ályktun ólöglega. Við þetta höfum við staðið og við fengum bætt inn í þessa ályktun einu atriði, sem var það að við mundum gefa skýrslu til Alþjóðahvalveiðiráðsins um framkvæmd þessa máls að okkar eigin ósk, m.a.

til þess að það væri ekki alltaf verið að mistúlka þetta mál með þessum hætti.
    Þetta vildi ég nú taka mjög skýrt fram. Þetta hefur margsinnis verið rætt í utanrmn. og ég vænti þess að um þetta eigi ekki að vera neinn misskilningur.
    Á hvern hátt hefur verið rætt um þetta mál í fjölmiðlum er í sjálfu sér ekki hægt að taka neina ábyrgð á. Því hefur verið haldið fram að hlutir hafi verið þýddir ranglega og það má vel vera að einhvers staðar hafi hlutirnir verið þýddir ranglega, en það hefur ekkert slíkt skjal farið frá opinberum stjórnvöldum hér. Þetta segi ég m.a. vegna þess að ég veit að hér var fulltrúi frá World Wild Life Fund að tala við alþm. og hélt því fram, þetta upplýsti formaður utanrmn. mig um, að íslensk stjórnvöld hefðu farið með ósannindi í þessu máli og var að ræða það við þm. og hélt því jafnframt fram að ranglega hefði verið þýtt það sem fram kom. Þetta er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál að fulltrúar slíkra stofnana skuli hafa í frammi slíkan málflutning án þess að leita upplýsinga um það eða ræða við viðkomandi stjórnvöld.
    Að sjálfsögðu er það svo með allar ályktanir og öll tilmæli að túlkað er með mismunandi hætti og vill alltaf verða svo, t.d. þetta með hversu mikið mætti nota af kjötinu hér innan lands og úr því þurfti að skera. Svo verður alltaf með ályktanir sem ekki eru nægilega vel orðaðar og orðalagið er nú einu sinni oft þannig þegar verið er að ná samkomulagi að það er ekki alveg skýrt sem við er átt. Við teljum hins vegar að okkar skilningur á þessum ályktunum sé réttur og við höldum að sjálfsögðu okkar skilningi fram en við tökum ekki við slíkum skilaboðum eins og eru alltaf að koma frá mörgum þessara aðila. Nú vil ég gera mikinn greinarmun á World Wild Life Fund og Greenpeace vegna þess að það er stofnun sem hefur átt mjög góð samskipti við Ísland og Íslendinga í gegnum tíðina með margvíslegum hætti og þess vegna er það alvarlegra. En svo virðist sem fulltrúar þessara aðila eigi afar góðan aðgang að hlutum hér á landi, fjölmiðlum o.s.frv., og ef þeir segja eitthvað um að næst ætli þeir að taka sér þetta fyrir hendur og ráðast á Íslendinga með þessum hætti og með ýmsu móti vantar það ekki að það eru ýmsir tilbúnir til þess að koma því afar skilmerkilega á framfæri og er svona nokkuð víst að það virðist vera eins og það sé talað þar algjörlega í gegnum menn.
    Það hefur ýmislegt annað komið fram í þessum umræðum, m.a. það sem kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og reyndar fleiri hv. þm. sem hafa talað um þetta mál, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem hefur fjallað afar vel um þetta mál í þessum umræðum. Það hafa komið fram þau sjónarmið að við þyrftum að koma okkar sjónarmiðum betur á framfæri og undir það vil ég taka og það hefur m.a. komið fram að rétt væri að bjóða fulltrúum þeirra ríkja sem skilja okkar mál til viðræðna um þessi mál. Undir það ber að taka. Ég held að það sé fyllilega tímabært að við reynum að koma á ráðstefnu hér á landi um nýtingu og verndun hafsvæðanna. Að

mínu mati fer nýting og verndun saman. Það er grundvallaratriði í lífssýn okkar Íslendinga að verndun og nýting fari saman, séu ekki andstæður heldur fari saman. Ef menn eru ósammála því, eins og hefur komið fram hjá einstaka aðila, er þar mikill skoðanaágreiningur.
    Við höfum reynt að halda uppi starfi á þessu sviði. M.a. var haldin hér ráðstefna í janúar á þessu ári um skynsamlega nýtingu sjávarspendýra. Það var tiltölulega erfitt að koma þeirri ráðstefnu á vegna þess að það var mikil tortryggni í okkar garð. Þau ríki, sem fyrst og fremst vildu sækja þá ráðstefnu, voru ríki sem höfðu þá skoðun að nýta bæri sjávarspendýrin, en önnur ríki vildu ekki koma hér, enda ávallt rekinn sá áróður að þeir sem eru með þessum hópi þjóða hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu sem eru kallaðir ,,likeminded`` --- ég veit ekki einu sinni almennilega hvernig á að skilja það, sem eru sem
sagt vinsamlegir hvalnum væntanlega --- það er ávallt rekinn sá áróður að það sé ekki rétt að vera í samfélagi með aðilum eins og Íslendingum, Japönum og fleiri þannig. Þarna er því nokkuð á brattann að sækja og ekki alveg auðvelt mál að koma á slíkum ráðstefnum, en ég tel að við eigum að halda þessu áfram og reyna að ná vinsamlegu sambandi við sem flest ríki. Þetta hefur tekist í nokkrum tilvikum. Ég vil nefna það að Frakkar fluttu tillöguna um bannið á sínum tíma. Frakkar hafa hins vegar stutt okkur afar vel í þessu máli, m.a. franskir vísindamenn.
    Á þessari ráðstefnu voru m.a. í lokaávarpi mínu kynnt viðhorf Íslendinga og ég vildi gjarnan fá að vitna aðeins í þau orð sem ég hafði þar í frammi, með leyfi hæstv. forseta, og skal ekki vera langorður:
    ,,Lífsafkoma Íslendinga byggist nær eingöngu á nýtingu auðlindanna í hafinu kringum landið. Það er því mjög brýnt að nýtingu allra sjávarauðlinda okkar sé hagað á þann hátt að besti langtímaafrakstur sé tryggður. Sumar sjávarauðlinda okkar eru mikilvægari í efnahagslífi Íslands en aðrar. Engin þeirra verður þó nýtt ein og sér. Jafnvægi í vistkerfinu verður að ríkja. Nútímavinnubrögð krefjast að beitt verði þekkingu margvíslegra fræðigreina að teknu tilliti til alls lífríkisins.
    Þar eð lífshagsmunir Íslendinga tengjast hafinu svo augljóslega er verndun þessara auðlinda sérstakt hagsmunamál íslenskra stjórnvalda. Sú vissa að Íslendingar sjálfir gætu best metið verndunarþarfir í hafinu lá til grundvallar viðleitni okkar til að ná alþjóðlegri viðurkenningu á fullveldisrétti okkar yfir fiskimiðum umhverfis landið. Eftir 40 ára baráttu hlaut þessi grundvallarregla alþjóðlega viðurkenningu með hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Til þess að vera í stakk búin að nýta sem best sjávarauðlindirnar umhverfis landið verða ætíð að vera fyrir hendi sem nákvæmastar vísindalegar upplýsingar. Á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar fara fram vísindalegar rannsóknir á nær öllum auðlindum hafsins í kringum Ísland. Það er um líf eða dauða að tefla fyrir Íslendinga að öðlast heildarmynd af sjávarlífríkinu.
    Íslendingar bera mikla virðingu fyrir náttúrunni.

Gestir, sem sækja okkur heim, sjá fljótt að við búum í nánari tengslum við umhverfi okkar en líklega nokkur önnur þjóð. Það er einlæg trú okkar Íslendinga að allar lífverur eigi rétt til verndunar gegn rányrkju mannsins. Vegna hinna takmörkuðu auðlinda landsins verða Íslendingar að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Ríkisstjórn Íslands mun gera allt sem hún getur til að vekja athygli umheimsins á þessum staðreyndum.
    Tilgangur ríkisstjórnarinnar með því að boða til þessarar alþjóðlegu ráðstefnu var að ná saman þeim þjóðum sem deila með okkur sumum þeim grundvallarsjónarmiðum sem ég hef rakið, þ.e. þörf á skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins, meðvitund okkar fyrir þörf verndunar og nauðsyn á forgangi vísindarannsókna.``
    Ég vænti þess að allir geti verið sammála þessum orðum. Þetta er okkar ætlun, en hitt er svo annað mál að oft og tíðum er ætlun okkar mistúlkuð og snúið út úr því með ýmsum hætti og við þurfum að takast á við þá hluti.
    Hér hafa komið fram beinar spurningar. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson spurði hversu miklu við hefðum tapað. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gefa neitt svar við þessari spurningu. Hver á að fullyrða um það hver er að tapa og hver er að hagnast? Ég hef lýst þeirri skoðun minni að aðaláhyggjuefni okkar á næstu árum sé hversu mikið verður veitt hér. Ég tel að það séu ekki þau vandkvæði á mörkuðum að ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur af því í lengri framtíð. Það eru sem betur fer ýmsir markaðir til í þessum heimi og það hefur ávallt reynst þannig að þótt áfall hafi komið á einum markaði hefur sem betur fer oftast tekist að finna annan. Við eigum ávallt í erfiðum samningum um okkar markaðsmál. Við erum að reyna að stórauka sölu til Japans. Við eigum árlega í viðkvæmum samningum við Sovétmenn o.s.frv. o.s.frv. Það að hlaupa upp til handa og fóta út af þessu fyrirtæki í Þýskalandi, Tengelmann, er að sjálfsögðu rangt, og ég tala nú ekki um þegar það er fullyrt fyrir fram að það þýði ekkert að tala við annað fyrirtæki, Aldi, það sé gagnslaust. Þeir séu búnir að ákveða þetta allt saman. Þeir voru aldrei búnir að ákveða það. Þeir báðu hins vegar um upplýsingar og vildu fá fyrirspurnum svarað, en menn höfðu ekki tíma til að bíða eftir því, sumir hverjir, og svo þegar þeir voru búnir að svara lýstu menn því yfir að það væri kannski lítið að marka það vegna þess að neytendurnir mundu hafa síðasta orðið. Það er kannski rétt að vitna þá til þess sem forstjóri þess sagði. Hann sagði eftirfarandi: Hann þakkaði góða framsetningu á sjónarmiðum Íslands og bréf sjútvrh. Forsvarsmenn Aldi höfðu óskað eftir upplýsingum um staðreyndir málsins og töldu sig hafa fengið fullnægjandi svör til þess að geta svarað stuðningsmönnum Greenpeace. Aldi mundi ekki láta stjórnast af þrýstihópum. Þeirra markmið væri að þjóna sínum viðskiptavinum. Þeir hefðu átt góð viðskipti við íslensk útflutningsfyrirtæki og mundu halda áfram að kaupa af Íslendingum vörur meðan eftirspurn væri. Viðskiptavinir þeirra væru

hæstiréttur í málinu. Almennt séð væri hann
andvígur vinnubrögðum grænfriðunga. Eru það einhver ný sannindi að viðskiptavinir séu hæstiréttur í málum? Það hefur alltaf verið og verður alltaf og engin ástæða til þess að draga það sérstaklega fram í þessu sérstaka máli. Þetta er dæmi um það að menn eru ekki tilbúnir til þess að setjast niður yfir mál, kanna þau rækilega og kveða svo sinn dóm upp á eftir eins og hefur verið gert í meðförum þessa máls. Um það hefur verið rætt í utanríkismálanefnd og hefði að sjálfsögðu verið langeðlilegast að boða þar fyrst til fundar, fara yfir málið með yfirveguðum hætti og koma þeim upplýsingum á framfæri við þm. Síðan hefðu menn þá getað ákveðið hvort nauðsyn bæri til að flytja málið hér inn á Alþingi eins og m.a. hefur komið mjög skýrt fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson spurði einnig um byggðamál og hversu mikil áhrif þetta mál hefði í því sambandi. Þessi atvinna hefur verið rekin út um land og t.d. er hægt að geta þess að hrefnuveiðarnar eru mjög mikilvægar á ákveðnum stöðum. Það eru allar líkur til þess að hægt sé að auka hrefnuveiðar frá því sem áður var, þær geti orðið allverulega meiri en síðustu árin sem þær voru stundaðar og þá er ég að tala um lengri framtíð þótt ekkert sé hægt að fullyrða í þeim efnum. Þar er því vissulega um þýðingarmikið byggðamál að ræða. Hvort sem menn geta fært sönnur á það eða ekki að beint samband sé milli afrakstursgetu fiskstofna og þessara dýra er það vitað mál og þarf ekki að deila um það að auðvitað hafa þessar stóru skepnur mikil áhrif í lífríkinu og eru með vissum hætti veiðifloti. Maðurinn rekur umfangsmikinn veiðiflota hér í kringum land og þessi veiðifloti hlýtur alltaf að verða í samkeppni við stærstu sjávarspendýrin. Það er hins vegar enginn annar en maðurinn sem getur grandað þessum virðulegu skepnum í hafinu nema að sjálfsögðu mengunin sem grandar sennilega orðið ansi mörgum og það er miklu alvarlegra mál en þessi fáu dýr sem við erum að taka. Ég tel því að þetta mál séu verulegt byggðamál eins og svo sem öll önnur mál í þessu landi.
    Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði mig um það hvort óbreyttar væru þær forsendur sem hafa orðið til þess að hrefnuveiðar í vísindaskyni voru ekki leyfðar. Svarið við því er að þessar forsendur eru breyttar. Ástæðan fyrir því að hrefnuveiðarnar voru ekki leyfðar var í fyrsta lagi sú að það var nokkur óvissa um mat á stofninum. Stofninn var óflokkaður og það voru ýmsir sem héldu því fram að þessi stofn væri í útrýmingarhættu, m.a. vísindamenn á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það höfðu farið fram rannsóknir á norska stofninum og hann var úrskurðaður verndaður stofn hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu sem kom sér mjög illa fyrir Norðmenn, en þeir héldu samt áfram að veiða úr þeim stofni. Við vorum eina þjóðin sem taldi, eða okkar vísindamenn, að ekki væri rétt að farið að því er Norðmenn varðaði, en menn gerðu sér ljóst að það væri mikilvægt að skera betur úr um þessa óvissu

áður en farið yrði af stað.
    Í öðru lagi lá ekki ljóst fyrir með hvaða hætti yrði komið upp nægilega góðri vísindalegri aðstöðu til þess að stunda rannsóknir og í þriðja lagi hafði aldrei verið lokið við að gera samninga sem tryggðu að þeir aðilar sem stunduðu þessar veiðar hefðu engan hagnað af þeim vegna þess að við höfðum samþykkt að leggja niður veiðar í ábataskyni. Allir þessir óvissuþættir urðu til þess að það var ekki talið ráðlegt að hefjast handa, heldur að reyna að fá betra mat á stofninum. Nú hefur það fengist og komið í ljós að hér er um mjög stóran stofn að ræða, jafnvel þótt talið væri af ýmsum vísindamönnum, sem láta mjög að sér kveða á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins, vinna mjög með svokölluðum umhverfisverndarsinnum, að þessi stofn væri líklega í útrýmingarhættu.
    Þessar forsendur eru því breyttar og ekkert er því til fyrirstöðu að koma þessu í framkvæmd. Hitt er svo annað mál að við höfum gert ýmsar breytingar á okkar áætlunum í gegnum tíðina, m.a. til að koma í veg fyrir árekstra og ég get að sjálfsögðu ekkert um það fullyrt hvort tekin verður ákvörðun um það að hefja þessar veiðar. Það eru ýmis ljón þar á veginum, það er alveg ljóst, en það er ekki lengur um vísindalegar forsendur að ræða fyrir því, að mínu mati, að hefja ekki þessa sýnatöku, en að sjálfsögðu eru þetta rannsóknir sem eru mikilvægar og þurfa að eiga sér stað fyrr eða síðar. T.d. er það mjög áhugavert hvaða þátt hrefnan á í lífríkinu hér á Faxaflóa. Hún er hér í miklum mæli og er alveg ljóst að hún spilar mjög mikinn þátt í lífríkinu hér á flóanum miðað við Norðurlönd o.s.frv. Þessum spurningum verður að svara fyrr eða síðar.
    Margt hefur komið fram í þessum umræðum sem ég skal ekki gera frekar að umtalsefni, en ég vil aðeins taka fram varðandi það sem kom fram m.a. hjá hv. þm. Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, þ.e. að við ættum að hafa samband við grænfriðunga og þessa aðila, ekki að sýna þann hroka að vilja ekki tala við þá, að þeim hefur aldrei verið neitað. Það hefur aldrei verið neitað að tala við þá. Þeir hafa oft beðið um viðtal við mig í gegnum þessi ár. Ég hafði frumkvæði að því vorið 1985 að kalla á forsvarsmenn allra umhverfissamtakanna í Bandaríkjunum sem við náðum til og við kynntum þeim okkar vísindaáætlun. M.a. hafði það verið rætt þá af vísindamönnum að taka sýni úr vernduðum
stofnum. Það var hins vegar niðurstaðan að það bæri alls ekki að gera það og þetta var blásið upp af þeim, jafnvel þótt það væri skýrt tekið fram á þessum fundi að það væri alls ekki hugmyndin. Þannig hefur þetta nú verið, því miður, í gegnum tíðina að það hefur lítið þýtt að halda fram ákveðnum hlutum. Það hefur ávallt verið snúið út úr því og villandi upplýsingum haldið á lofti, enda er skipulag grænfriðunga þannig að þar er engin ein skoðun. Þetta eru ekki nein lýðræðisleg samtök. Þar eru margar skoðanir á lofti og ég hef hitt mikið af þeirra forsvarsmönnum og mismunandi blæbrigði hafa verið í þeirra skoðunum. Það er því afar erfitt að reiða sig á að þótt einn segi

eitt segi annar hið sama. Þeir hafa oft komið hér til lands. Við höfum oft hitt þá á ráðstefnum, fundum Norðurlandaráðs o.s.frv. o.s.frv. og ávallt verið tilbúnir til að veita þeim allar upplýsingar og öll gögn í þessu máli. Hins vegar er það svo að menn verða nokkuð þreyttir á að tala við þetta fólk árum saman og geta aldrei almennilega treyst því að rétt sé haft eftir. Ég er alveg tilbúinn til þess ásamt öðrum að eiga enn á ný fundi með þessu fólki. Það kostar ekki neitt og er sjálfsagt að ræða við það. En menn skulu ekki álíta það að slík samtöl breyti öllu. Okkur ber hins vegar, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason tók fram, að eiga vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir um þessi mál og ég tel að við séum m.a. að gera það með talningarleiðangrinum á næsta ári og þeim talningarleiðangri sem fór hér fram 1987, með því að bjóða hingað vinnunefndum Alþjóðahvalveiðiráðsins og skapa hér aðstöðu fyrir vísindamenn.
    Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti 1981 ályktun um að alþjóðleg vísindastöð skyldi vera í Hvalfirði. Þar er alþjóðleg vísindastöð Alþjóðahvalveiðiráðsins samkvæmt ályktun. Þangað geta vísindamenn alls staðar að úr heiminum komið og þar hafa verið svona um það bil 20 vísindamenn á ári hverju að störfum. Það hafa ýmsir aðilar haft við okkur samband, m.a. einn skólabekkur í Bandaríkjunum á sl. vori. Þessi bekkur fékk að vera í hvalstöðinni, kynna sér þar öll gögn, fara í gegnum alla hluti og er nú að skrifa skýrslu um þessa vondu þjóð. Það kom að vísu allt annað upp á borðið hjá þessum ágætu skólabörnum.
    Það hefur því verið reynt að hafa þessa starfsemi alla opna og hún hefur líka verið opin gagnvart blaðamönnum sem hingað hafa komið. Því miður hafa hins vegar margir þeirra komið hér í annarlegum tilgangi og mistúlkað þann trúnað sem þeim hefur verið sýndur, m.a. þýskir sjónvarpsmenn sem fengu allar upplýsingar á sl. sumri og mistúlkuðu þær með ýmsu móti. Og það hefur komið í ljós að þessi sjónvarpsþáttur, sem þarna var gerður, var m.a. gerður með stuðningi fyrirtækisins Tengelmanns.
    Þetta er nú sá heimur sem menn lifa í í þessu efni og hann er ekki allur fallegur og ég veit að menn skilja að það er ekki allt gull sem glóir í þessum samskiptum og við höfum lært það á löngum tíma að við getum ekki vænst þess að allt sé heiðarlegt í þeim efnum. Það hefur hins vegar ekki aftrað okkur frá því að hafa dyr hér opnar og ef áhugi er fyrir því, m.a. af þessum aðilum, að eiga frekari samtöl um þessi mál er það alveg sjálfsagt, a.m.k. af minni hálfu, og ég tel að við eigum að íhuga það vandlega hvort ekki beri að efna hér til alþjóðlegrar ráðstefnu hið allra fyrsta um verndun hafsins og þá um leið nýtingu þess og þá í þeirri trú að það geti orðið til þess að skapa meiri skilning á okkar umhverfi og því landi sem við lifum í.