Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir og er á þskj. 31 er ekki nýtt af nálinni hér á hv. Alþingi. Ég hef flutt það tvisvar áður og fengið við það góðan stuðning í þessari hv. deild. Á síðasta þingi var flm. auk mín að þessu frv. hv. 5. þm. Norðurl. e. Valgerður Sverrisdóttir og nú hefur okkur bæst góður liðsauki því að auk okkar eru nú einnig meðflm. hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Guðmundur Ágústsson.
    Frv. þetta fjallar um breytingu á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, með síðari breytingum, en eins og áður sagði hefur það verið flutt á tveimur seinustu þingum en ekki hlotið afgreiðslu og er því endurflutt nú með nokkrum breytingum.
    Samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumál, sem fyrrv. forsrh. Þorsteinn Pálsson skipaði í ágúst 1987 og skilaði áfangaskýrslu í ágúst sl. um skóla og dagvistarmál, fjallar um stjórn skóla í kafla 1.5. í þessari skýrslu. Þar eru gerðar till. um breytingar á lögum um grunnskóla sem lúta að starfsemi skólaráða, þ.e. það eru gerðar tillögur um þau sömu atriði og þetta frv. hefur fjallað um en með nokkrum breytingum.
    Það var víðtæk samstaða innan þessarar samstarfsnefndar um tillögur hennar og þess vegna þótti flm. þessa frv. rétt að taka tillit til þessarar skýrslu og því er frv. flutt nú með þeim breytingum, sem samstarfsnefndin gerði á frv., er varða 1. og 3. gr. þess.
    Breytingarnar varðandi 1. gr. eru þær að bætt er við síðustu mgr. þeirrar gr. sem varðar 20. gr. laganna um að fræðsluskrifstofur skuli hafa yfirlit um starfsemi foreldra- og kennarafélaga og stuðla að samstarfi þeirra innan fræðsluumdæmisins.
    Tillaga samstarfsnefndarinnar um breytingar á 3. gr. frá upphaflega frv. er sú að fækka í þessu skólaráði. Tillaga nefndarinnar var sú að það skyldi aðeins skipað þremur mönnum og flm. þessa frv. töldu rétt að fallast á þessa breytingu og þess vegna er þetta frv. flutt þannig breytt nú.
    Í grg. frv. kemur fram að samkvæmt grunnskólalögum er grunnskólanum fyrst og fremst ætlað það hlutverk að mennta og fræða börn og unglinga. Síðustu áratugi hafa orðið miklar breytingar á þjóðfélagsháttum, ekki síst hvað varðar líf fjölskyldunnar. Atvinnuhættir hafa breyst og þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur aukist svo að nú stunda 80% þeirra atvinnu utan heimilis. Einnig hefur fjöldi barna sem dvelst hjá öðru foreldri sínu farið vaxandi og lætur nærri að um sjötti hver nemandi í bekk sé barn einstæðs foreldris.
    Í kjölfar þessa fylgja ný viðhorf til hlutverks skóla. Nú er ætlast til að þeir sinni í ríkari mæli en áður ýmsum þáttum uppeldis og mótunar sem ekki falla beint undir hefðbundnar námsgreinar og fræðslu. Það kemur því í hlut grunnskólans að taka í auknum mæli að sér gæslu barna og jafnt líkamlega sem andlega umönnun þeirra.
    Þessi þróun hefur í för með sér vaxandi þörf á

tengslum milli heimila og skóla og raunverulegri samvinnu foreldra og starfsfólks skóla um uppeldi og skólastarf.
    Sú breyting sem hér er lögð til á grunnskólalögunum er tilkomin í beinu framhaldi af vinnu sem unnin var af vinnuhópi sem hæstv. þáv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir skipaði til að fjalla um ,,tengsl fjölskyldu og skóla``.
    Með grg. þessa frv. eru m.a. fskj. úr skýrslu þess vinnuhóps sem beinlínis fjalla um þennan þátt. En það voru niðurstöður vinnuhópsins að í raun og veru þyrfti aðeins eina lagabreytingu til að koma á nánara samstarfi foreldra og skóla og það er sú till. sem er flutt með þessu frv. Breytingin felst sem sagt í því að varðandi 20. gr. grunnskólalaganna þá skuli skólastjóri bæði hafa samráð við skólaráð og kennara við stjórn grunnskóla.
    Þá er í 2. gr. frv. ákvæði um að 21. og 22. gr. núgildandi laga um að foreldrafélög og nemendaráð verði sameinuð í eina heildargrein, en ekki er gerð önnur efnisleg breyting á þessum lagagreinum en sú að lögð er aukin áhersla á eflingu samstarfs heimila og skóla.
    Tilgangurinn með stofnun skólaráða er því að skapa sameiginlegan vettvang fyrir foreldrafélag, nemendur og kennara skóla.
    Ég hef áður orðið vör við þann misskilning að með þessu frv. sé verið að gera foreldrafélögin óvirk eða óþörf, en ég vil taka það sérstaklega fram að það er alls ekki tilgangurinn með þessu frv. Það er miklu fremur verið að reyna að efla samstarfið milli foreldrafélaga og þeirra sem stjórna hinum daglega rekstri skólanna með því að tengja þau þannig hinum daglega rekstri að þau eigi fulltrúa í skólaráði sem hefur þá tækifæri til að fylgjast með hvernig starfsemi og rekstri skólans er háttað hverju sinni. Það er ekki gert ráð fyrir að slíkt skólaráð komi saman nema kannski þrisvar á ári, þ.e. að gert er ráð fyrir því í það minnsta þrisvar á ári, en ekki að þetta skólaráð sé kannski með fundi í hverri viku eða svo. Það mætti hugsa sér að skólaráð komi saman í upphafi skólaárs, á miðjum vetri og síðan í lok skólaárs til undirbúnings starfsins fyrir næsta ár.
    Það er fjölmargt sem mælir með þessum tengslum foreldra við innra starf
skólanna. Það er hægt að nefna atriði eins og slysavarnir, umferðaröryggi, og það þarf ekki að fjölyrða um það fyrir hv. þingdeildarmönnum að það eru einmitt börn og unglingar sem eru í stærstu áhættuhópunum hvað varðar slysin. Það er orðið mikið áhyggjuefni hve slys á börnum og unglingum eru orðin tíð hér á landi. Þau eru tíðari hér en í flestum öðrum löndum Evrópu og þótt víðar væri leitað. Það er rétt að taka það fram að það er unnið að slysavörnum af ýmsum aðilum, en það er augljóst að þetta þarf að ná til stærstu áhættuhópanna með því að virkja þá sjálfa, þ.e. börnin og unglingana eða nemendurna, og það yrði best gert með samvinnu foreldra, forráðamanna skóla og nemenda.
    Það þykir ekki ástæða til að lögbinda stofnun

foreldrafélags og nemendaráðs við hvern grunnskóla ef stofnun skólaráðs er gerð að skyldu, því að séu foreldrafélag og nemendaráð starfandi og skóli er af þeirri stærð sem leyfir kennararáð, þá er mikilvægt að auka samvinnu þessara aðila með setu fulltrúa í skólaráði.
    Það er einnig rétt að taka fram að auðvitað gilda í þessum efnum aðrar aðstæður víða í dreifbýlinu heldur en hér á þéttbýlissvæðinu. Því er gert ráð fyrir að skóli sem telur ekki grundvöll fyrir stofnun skólaráðs geti sótt um undanþágu frá ákvæði þessara laga til menntmrn. og þá þurfa að liggja gildar ástæður fyrir þeirri undanþágu, t.d. varðandi smæð skóla. Ef yfirmönnum skóla í landinu er alvara í því að þeir vilji auka samstarf við heimilin, þá held ég að þeir hljóti að taka slíkri breytingu á grunnskólalögunum fagnandi með því að fulltrúar foreldra vilji leggja það á sig að taka sæti í slíku skólaráði til að fylgjast með og hafa möguleika á að koma á framfæri sínum hugmyndum eða athugasemdum þegar verið er að skipuleggja innra starf skólanna hverju sinni.
    Ég sé ekki, hæstv. forseti, ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Það hefur áður fengið góða umfjöllun hér í þessari hv. deild og, eins og ég sagði í upphafi, víðtækan stuðning. Ég vænti þess að frv. fái greiða meðferð í hv. menntmn. sem væntanlega fær þetta frv. til umfjöllunar. Ég á því miður ekki lengur sæti í þeirri nefnd og get því ekki fylgst með starfi hennar, en vænti þess að málið fái þar greiðan framgang.
    En að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.