Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Það er nú aðeins örstutt. Mig langaði til þess að leggja nokkur orð í þessa umræðu og taka undir með hv. framsögumanni og ekki síður með hv. síðasta ræðumanni þar sem ég hef einnig, eins og hún talaði um, kynnt þetta frv. lítillega fyrir skólafólki og nemendum og ég hef ekki heyrt þær efasemdir sem hafa komið fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. og jafnvel hæstv. menntmrh. um þetta mál. Eins tel ég ekki að þetta eigi að geta skaðað starf foreldrafélaga þar sem þetta er aðeins þriggja manna ráð. Mér finnst miklu frekar að þessi breyting, ef af verður, ætti að geta aukið upplýsingastreymið. Við vitum að það er af skornum skammti og hef ég meira að segja reynslu af því sjálf eftir að hafa verið leiðbeinandi við grunnskóla, lítinn grunnskóla á landsbyggðinni þar sem maður hefði búist við að upplýsingar ættu að geta borist auðveldlega milli foreldra og kennara þar sem allir þekkja alla. En því miður varð maður oft var við það að einhver tortryggni var þarna á milli. Ég tel að með því að lítill hópur, sem er þrír aðilar, komi saman og fjalli um þessi mál geti einmitt komið fram ýmis sjónarmið sem ekki komi fram þegar foreldri talar við barn sitt. Ég lít svo á að það geti einmitt víkkað sjóndeildarhringinn, ef svo má segja, að foreldri tali við annað barn um málefni skólans og kennari sé þar einnig viðstaddur.
    Sem sagt, ég styð þetta mál eins og ég gerði í fyrra og ég held að sú breyting sem gerð hefur verið á því sé frekar til bóta. Ég sit í hv. menntmn. þessarar deildar og þar munum við að sjálfsögðu fjalla frekar um málið og fá aðrar umsagnir sem það varða. Ég tek undir með hv. þingdeildarmönnum sem hér hafa talað, það er alltaf viðkvæmt þegar verið er að breyta í skólakerfinu, grunnskólalögum og málefnum sem snerta skólann. En mér finnst að málið sé gott mál og vona að það nái fram að ganga.