Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Ég get ekki sagt að það hafi komið mér sérstaklega á óvart þó þrír hv. meðflm. hv. 6. þm. Reykn. hafi komið og lýst stuðningi við málið. Ég var nú satt að segja alls ekki hissa á því. Mér fannst það svo sem ósköp eðlilegt. (Gripið fram í.) Nei, en fyrir þetta var þakkað mjög rækilega hér áðan og það er auðvitað sjálfsögð kurteisi.
    En ég neita því ekki að það flögruðu í hug mér sams konar hugleiðingar og hv. 9. þm. Reykn. nefndi hér áðan. Ef fulltrúi nemenda á að eiga sæti í skólaráði, svo sem hér er gert ráð fyrir, þá eru þeir skólar til --- og þeir eru ekki bara til í Reykjaneskjördæmi sem hv. 9. þm. Reykn. nefndi --- þeir eru til í Reykjavík líka, þar sem börn eru á aldrinum frá 6--12 ára. Nú skal allt gott um það sagt að hafa samráð og gott náið samband við börn og nemendur, en er það hugsun flm. að þarna geti kannski 7 ára nemendur, 8, 9, 10 eða 11 ára komið inn í þetta skólaráð? Það yrði að vera þannig í þessum skólum. Ég bara spyr hvort hv. flm. séu í alvöru að tala um þetta. Vissulega háttar svo til í flestum grunnskólum, sem eru óskiptir að þar er 9. bekkur og það má segja sem svo að það væri afar líklegt að fulltrúi í slíkt skólaráð, ef stofnað yrði, veldist úr 9. bekk. ( SalÞ: Ætli það ekki?) En það er ekkert í þessu frv. sem segir að þessi fulltrúi nemenda eigi að vera úr 9. bekk. Hann getur allt eins verið úr 7., 8. eða jafnvel einhverjum öðrum bekk. Ef það er hugsun flm. að það eigi að vera nemandi úr 9. bekk, þá á auðvitað að segja það. Ég veit ekki hvernig hv. flm. hugsa sér þetta í þeim skólum þar sem er ekki nema 6. bekkur, þar sem nemendurnir flytjast burt í annan skóla til að ljúka 7., 8. og 9. bekk.
    Og vegna þess að hér hefur mikið og óspart verið vitnað í skólamenn og jákvæðar undirtektir þeirra, þá er það nú ekki einhlítt. Og ég skal játa það og viðurkenna hér að mín afstaða til þessa máls mótaðist mjög á fundi fyrir líklega þremur árum þar sem ég kynnti þetta mál sérstaklega sem nýlagt fram hér á hinu háa Alþingi. Mín afstaða mótaðist mjög af þeim viðtökum og þeirri gagnrýni sem það fékk hjá skólastjóra og kennurum þess skóla þar sem það mál var kynnt. Það er ekkert samdóma álit skólamanna að það sé til bóta að búa til nýtt nefndakerfi við alla skóla landsins sem á að gera það sama og foreldrafélögin eru nú að gera. Þær röksemdir, sem skólastjóri og kennarar fluttu á þessum fundi sem ég sótti, nægðu alveg til að sannfæra mig um að hér væri verið að fara inn á rangar brautir. Ég segi kannski ekki að það sé verið að búa til hverja silkihúfuna af annarri, eins og hér var tekið til orða áðan, en ég held einfaldlega að verið sé að fara inn á rangar brautir. Ef þetta skref verður stigið, sem ég vona sannarlega ekki þar sem ég tel það rangt, er beinlínis verið að gera foreldrafélög í skólum þar sem þau starfa vel meira og minna óvirk, þó ekki hvarfli að mér að það sé ætlan flm. Ef annað ráð kemur við hlið foreldrafélagsins og á að sinna sömu verkefnum, þá er það mjög óskynsamleg ráðagerð. Ég held að við

bætum ekki ástand í skólamálum með því að samþykkja þetta frv. vegna þess að með því erum við að fara inn á rangar brautir og engin rök hafa komið fram í þessu máli sem sannfært hafa mig um að verið sé að gera rétt með þessu.