Getraunir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um getraunir nr. 59 29. maí 1972. Frv. þetta um breytingu á lögum um getraunir er flutt að beiðni stjórnar Íslenskra getrauna sem starfa að íþróttagetraunum skv. lögum um getraunir frá 1972, eins og fram hefur komið.
    Meginefni þessa frv. felst í 2. gr. frv. þar sem fjallað er um hvert skuli vera hlutfall vinninga í getraunastarfseminni miðað við heildarsöluverð miða. Samkvæmt lögum er það nú 50% eða helmingur, en lagt er til að því verði breytt. Verður ákveðið að það skuli ekki vera minna en 40%. Er það sama vinningshlutfall og verið hefur í talnagetraunum Íslenskrar getspár.
    Íslenskar getraunir hafa nú starfað óslitið í liðlega hálfan annan áratug og verið einhver öflugasti stuðningsaðilinn við íþróttahreyfinguna í landinu. Starfið hjá Getraunum hefur byggst á ósérhlífinni sjálfboðavinnu einstakra félagsmanna í íþrótta- og ungmennafélögum um allt land. Allir sem til þekkja innan íþróttahreyfingarinnar eru sammála um að mikilvægi þessarar starfsemi sé ótvírætt.
    Það urðu mikil kaflaskipti í rekstri Íslenskra getrauna þegar Íþróttasamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalagið hófu samstarf um rekstur talnagetrauna eða lottós eins og alkunna er. Að sönnu hafði það áhrif á rekstur Íslenskra getrauna þegar lottó 5/32 hóf starfsemi, enda hefur lottóið verið eignaraðilum sínum drjúg tekjulind.
    Aðstandendur Íslenskra getrauna hafa því í ljósi breyttra aðstæðna á þessum vettvangi leitað að leiðum til að tryggja mætti betri afkomu fyrirtækisins. Nú er svo komið að tekist hefur gott samstarf milli Íslenskra getrauna annars vegar og Íslenskrar getspár hins vegar, sem nú rekur lottó 5/38, og ætti þetta samstarf að koma báðum þessum aðilum til góða.
    Ljóst er að Íslensk getspá hefur lagt í talsverða fjárfestingu í hinu öfluga tölvukerfi sem allir landsmenn þekkja. Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið um nýtingu á tölvubúnaði sem þeim er hér um ræðir leiða í ljós að mun betri nýting fæst út úr fjárfestingunni eftir því sem fleiri leikir eru hafðir í kerfinu.
    Eins og þegar hefur komið fram hafa Íslensk getspá og Íslenskar getraunir nú komið á samstarfi sín á milli og munu getraunirnar nota sölu- og tölvukerfi Íslenskrar getspár.
    Undirbúningur fyrir gangsetningu hins nýja leiks, Íþróttagetrauna, hefur gengið vonum framar. Til að tryggja afkomu Íslenskra getrauna er hins vegar talið nauðsynlegt að breyta lögum um getraunir frá árinu 1972 svo að Íslenskar getraunir geti sinnt hlutverki sínu eins og það er samkvæmt lögum frá sama ári. Varðar það eins og áður segir fyrst og fremst breytt vinningshlutfall.
    Kostnaður við að tengja sölu- og tölvukerfi Íslenskrar getspár er allnokkur. Er það von forráðamanna getraunanna að þessi breytta tilhögun efli stöðu þeirra.

    Það er rétt að taka fram að með þessum breytingum breytist sölukerfi getraunanna verulega. Eins og kunnugt er hefur sölukerfið til þessa fyrst og fremst byggst á áhugasömu liði innan íþróttahreyfingarinnar og íþróttahreyfingin notið ríflegra sölulauna í krafti þessa. Nýja kerfið flytur hina eiginlegu sölu í tölvutengda sölukassa Íslenskrar getspár. Við það hverfa bein sölulaun íþróttahreyfingarinnar að mestu. Til að mæta þessu er fyrirhugað að efla áhuga á getraunastarfseminni innan íþróttahreyfingarinnar með því að gefa þátttakendum kost á því að heita á einstök íþróttafélög og verði fjöldi áheita á félag vísbending til ÍSÍ og UMFÍ um ráðstöfun hagnaðarhluta þeirra af getraunastarfseminni.
    Það er rétt að taka fram að fyrirhugað er að taka hið nýja kerfi í notkun nú um mánaðamótin því að sölustarfsemi hefur hafist og er gert ráð fyrir að fyrsti leikurinn fari fram nk. laugardag.
    Æskilegt er að hið breytta vinningshlutfall geti komið til framkvæmda hið allra fyrsta. Allur undirbúningur hefur við það miðast. Það er því ósk mín til hv. þingnefndar, sem frv. þetta fær til meðferðar, að því verði hraðað svo sem nokkur kostur er.
    Að því er varðar fyrri grein frv. er sú breyting sem þar er lögð til minni háttar. Er þar lagt til að úr lagagreininni verði felld ákvæði um talnagetraunir sem nú er fjallað um í sérstökum lögum. Þá er lagt til að greinin verði aðlöguð hinu nýja sölukerfi þar sem sala getraunaseðla mun nú ekki fara fram fyrr en við afhendingu útfyllts getraunaseðils, en til þessa hafa getraunaseðlarnir verið seldir áður en útfylling fer fram.
    Herra forseti. Efni þessa frv. er ekki margbrotið. Það ætti því þess vegna ekki að þurfa að taka langan tíma að taka afstöðu til þess. En eins og ég hef áður sagt er það Íslenskum getraunum og íþróttahreyfingunni í heild mikið kappsmál að þetta mál fái sem skjótasta meðferð og afgreiðslu hér á Alþingi.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til hv. allshn.