Getraunir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil gjarnan taka undir það með hæstv. ráðherra að það sé ástæða til að greiða fyrir þessu frv. í gegnum þingið og hef ekkert við það að athuga sem hann sagði um þetta mál.
    Ég vil hins vegar vekja á því athygli að þessi starfsemi hefur fengið kveðju frá hæstv. ríkisstjórn með því fjárlagafrv. sem lagt var fyrir Alþingi í gær, en í fylgigögnum með því er gert ráð fyrir að á þessa starfsemi leggist 12% söluskattur. Þetta eru kaldar kveðjur til þess fólks og þeirra samtaka sem hafa byggt afkomu sína að verulegu leyti á þeirri starfsemi sem hér um ræðir, þ.e. getraunastarfsemi, en þessi skattur á einnig að leggjast á sölu happdrættismiða og sá skattur verður því lagður bæði á þá starfsemi sem á að standa undir íþróttastarfsemi í landinu og framkvæmdum á vegum öryrkja. Um leið og þetta frv. er lagt fram fá þessi samtök því kaldar kveðjur.