Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig gott og blessað að flytja frv. eins og það sem hér er flutt um breytingu á lögum um námslán og námsstyrki og var athyglisvert að heyra upphafsorð 1. flm., hv. 10. þm. Reykv. Finns Ingólfssonar, um ástæður þess að frv. væri flutt. Hann greindi frá því að í málefnasamningi ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar væri ekki stafkrók að finna um Lánasjóð ísl. námsmanna og þess vegna hlyti hann að draga þær ályktanir að ekki væri meiningin að hreyfa þar við neinu. Það er þess vegna athyglisvert, ef þetta er meginástæða þess að frv. er flutt, að það eru fjórir stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstjórnar sem flytja þetta frv., og sýnist nú að a.m.k. í þessu máli sé farið að sneyðast heldur betur um meiri hluta hæstv. ríkisstjórnar í Nd.
    En þetta mál á sér auðvitað sögu eins og öll önnur mál og hv. flm. rifjaði hana upp að sumu leyti í sinni framsöguræðu. Þegar þáv. hæstv. menntmrh. Sverrir Hermannsson breytti reglugerð um Lánasjóð ísl. námsmanna á þann veg að framfærsluvísitalan var tekin úr gildi um tíma, sem þýddi nokkra skerðingu á lánum til námsmanna, þeir meta það nú að sú skerðing sé um 17%, þá var það auðvitað ekkert einkamál hæstv. menntmrh. Sverris Hermannssonar. Þessi ákvörðun var tekin sem liður í aðhaldi að ríkisfjármálum hjá þeirri ríkisstjórn. Þáv. hæstv. menntmrh. var skammtað fé til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það framlag sem þurfti til að viðhalda reglugerðinni að fullu var skorið niður og á því bar auðvitað ábyrgð að fullu öll ríkisstjórnin, þar á meðal hæstv. þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og núv. reyndar einnig. Þetta var enn fremur samþykkt í fjvn. Fjvn. í heild tók á sig fulla ábyrgð á því að skerða námslánin með þessum hætti þannig að ákvörðun hæstv. þáv. menntmrh. var raunverulega ekki annað en að setja stimpil á orðinn hlut, að taka ákvörðun um hvernig sú skerðing yrði framkvæmd sem öll þáv. hæstv. ríkisstjórn bar fullkomlega ábyrgð á og Framsfl. ekki minni en aðrir flokkar, enda var hann í forustu fyrir þeirri ríkisstjórn. Þannig er það auðvitað hreinn tvískinnungur þegar verið er að reyna að klína því alfarið á þáv. menntmrh. að hann hafi verið fyrst og fremst bölvaldurinn í þessu máli, að hann hafi verið vondi maðurinn gagnvart námsmönnum.
    Á tíma þeirrar ríkisstjórnar voru gerðar atlögur að því að endurskoða námslánakerfið og fyrirkomulag námslána. Var þá skipuð sérstök nefnd af hálfu stjórnarflokkanna. Í þessari nefnd áttu m.a. sæti hv. 10. þm. Reykv. og fleiri ágætir þingmenn eins og 1. þm. Reykv. Mér er tjáð að sú nefnd hafi komist að samkomulagi, ekki einu sinni heldur tvisvar, og nefndarmenn skrifað undir nál. en hv. 10. þm. Reykv. í tvö skipti hlaupist frá undirskrift sinni um leið og eitthvað andaði á móti. Um leið og fram kom gagnrýni á þær tillögur sem þeir höfðu flutt hafi hv. flm. í bæði skiptin hlaupið frá sinni undirskrift og ekki treyst sér til að standa við hana.
    Ég gegndi starfi menntmrh. í síðustu ríkisstjórn í

14 mánuði og ég minnist þess ekki í þeirri ríkisstjórn, t.d. þegar verið var að fjalla um fjárlög og ákveða fjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessu ári, sem sagt fyrir árið 1988, að hafa heyrt neina tillögu, hvorki innan ríkisstjórnar né hér á þingi, frá þingmönnum Framsfl. um að hækka bæri námslánin um þessi 17% sem nú er talið að þau hafi verið skert um. Enginn ráðherra Framsfl. taldi ástæðu til þess þegar við vorum að fjalla um fjárlögin og enginn þingmaður Framsfl., hvorki í fjvn. né á þingi, flutti tillögur um að þetta framlag bæri að hækka. Það voru reyndar aðrir þingmenn sem fluttu tillögur um það og Framsfl. greiddi atkvæði gegn því ásamt með okkur fulltrúum Sjálfstfl. og Alþfl.
    Auðvitað er það því hreinn tvískinnungur þegar menn nú eru að koma hér upp og hvítþvo sig af ákvörðun af þessu tagi. Þetta var sameiginleg ákvörðun þeirra flokka sem stóðu að ríkisstjórn og ekki síður þess flokks sem hv. 10. þm. Reykv. situr hér fyrir en annarra flokka sem áttu sæti í ríkisstjórninni.
    Það er enginn vafi á að það þarf að laga námslánakerfið. Ég beitti mér fyrir tveimur atriðum í því sambandi. Annars vegar að skoðaður var framfærslugrunnurinn sem núverandi kerfi hvílir á. Ég hafði stuttu áður en ég vék úr embætti fengið nokkuð ítarlega skýrslu um það frá sérstakri nefnd sem að því vann og það hvílir auðvitað í höndum núv. menntmrh. og núv. hæstv. ríkisstjórnar að fjalla um þann þátt, en þar var talið að til þess að koma framfærslugrunninum á það stig að hann væri sambærilegur við það sem hann var á sínum tíma, og þá er væntanlega skerðingin þar innifalin, þyrfti að hækka framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna um 500 millj. kr.
    Ég beitti mér líka fyrir því að athuguð var sérstaklega kerfisbreyting í námslánakerfinu og fékk í óformlegan starfshóp þrjá valinkunna menn og þar á meðal hv. 10. þm. Reykv., flm. þessa frv., og hann starfaði þar mjög vel að því verkefni. Stuttu áður en ríkisstjórnin fór frá fékk ég í hendurnar ítarlegt nál. sem felur í sér mikla breytingu á uppbyggingu okkar námslánakerfis. Ég hef ekki það plagg í höndum hér, en í grófum dráttum byggist það á því að skipta aðstoð við námsmenn í tvennt, þ.e. annars vegar í styrki og hins vegar í lán sem bæru þá einhverja vexti. En sömuleiðis bíður
þetta álit ákvörðunar núv. ríkisstjórnar.
    Við hljótum auðvitað að spyrja okkur að því þegar fjórir stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar leggja fram frv. af þessu tagi: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum íslenskra námsmanna? Ég spyr t.d.: Hefur þetta frv. fengið samþykki og loforð um stuðning frá þingflokkum þeim sem þessir hv. þm. sitja í? Hefur þingflokkur Framsfl. og hefur þingflokkur Alþb. heitið stuðningi við þetta frv.? Það er nauðsynlegt að fá það fram í þessari umræðu og þá jafnframt að þessir flokkar séu reiðubúnir að segja ekki bara a, ekki aðeins að breyta þessu að formi til, heldur líka að segja b, þ.e. að breyta þessu að efni til, að hækka námslánin sem þessu nemur. Það er grundvallaratriði

í þessum umræðum að fá þetta hér fram. Að öðrum kosti verður maður að álykta sem svo að hér sé fyrst og fremst um sýndarmál að ræða.
    Kannski er þetta enn eitt dæmið um hina alþekktu pólitísku hegðun Framsfl. að þakka sér, reyna að koma því yfir á sig og þakka sér allt það sem vel er gert en koma af sér ábyrgð ef um er að ræða einhverjar óvinsælar ráðstafanir eða eitthvað sem mætir andbyr í þjóðfélaginu. Við fengum dæmi um það t.d. á fimmtudaginn var þegar var verið að ræða um afkomu ríkissjóðs sem talið er að hafi verið óþægileg fyrir síðustu ríkisstjórn. Enginn ráðherra Framsfl. sat undir þeirri umræðu og enginn þingmaður Framsfl. var í salnum þegar þessi umræða fór fram. Í því dæmi eins og reyndar oft öðrum sást undir iljar framsóknarmanna þegar þeir voru að hlaupast frá vanda og hlaupast frá erfiðum málum sem eru lítt fallin til vinsælda.
    En við hljótum að spyrja nú í umræðum af þessu tagi: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Við höfum auðvitað enga vitneskju um það, en við höfum vísbendingar.
    Fyrsta vísbending er sú, sem hv. 10. þm. Reykv. sjálfur gat um í sinni framsöguræðu, að í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er ekki orð að finna um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Í öðru lagi höfum við orð núv. hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., sem var fjmrh. í síðustu ríkisstjórn. Hann sagði í umræðu á fimmtudaginn var í Sþ., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við höfum heldur ekki efni á því að reka örlátasta, niðurgreiddasta námslánakerfi sem nokkur þjóð á byggðu bóli rekur, miklu betra, gjafmildara og örlátara en auðugustu þjóðir heims, eins og Svíar, Svisslendingar eða Bandaríkjamenn, telja sig hafa efni á.``
    Þetta voru orð formanns Alþfl. og hæstv. fjmrh., formaður Alþb., sat undir þessari umræðu og jánkaði þessu.
    Enn ein vísbending. Það er reyndar enginn alþýðubandalagsmaður í salnum. --- Jú, hér kemur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Alþb. gerði málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna oft að umtalsefni á síðasta kjörtímabili, bæði innan þings og utan. Flutt var þáltill. sem núv. hæstv. samgrh. var 1. flm. að og núv. hæstv. menntmrh. var meðflm. að og reyndar tveir þingmenn Alþb. sem eru meðflm. að þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578/1962, um námslán og námsstyrki, sem gerðar voru 3. jan. og 2. apríl 1986, þannig að þau ákvæði sem áður giltu um útreikning á framfærslukostnaði námsmanna taki gildi að nýju. Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórninni að gera ráðstafanir með aukafjárveitingum og lántökum til að tryggja eðlilega framkvæmd laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, út árið sem er að líða.``
    Í greinargerð með þessari tillögu segir: ,,Þá eru flutningsmenn og reiðubúnir til að ræða sérstaka

skattheimtu, svo sem á bankastarfsemi, stóreignamenn og fjármagnstekjur til fjáröflunar í þessu skyni.``
    Nú skilst manni að þessi fjáröflun sé í gangi og fjárlagafrv. ber þess merki, en engu að síður, og það er gott að hæstv. menntmrh. kemur í salinn, er hann nú á harðahlaupum frá þessari tillögu og frá fyrri yfirlýsingum um þetta mál.
    Ég rifja það líka upp að á stúdentafundi, þar sem hæstv. menntmrh. mætti, sagði hann alveg ákveðið að hann gerði það að skilyrði fyrir stjórnarþátttöku að ákvæði af þessu tagi yrði sett inn í málefnasamning þeirrar ríkisstjórnar sem Alþb. tæki þátt í. Ekkert af þessu hefur komið fram og af yfirlýsingum núv. hæstv. menntmrh. verður ekki annað séð en hann sé kominn á harðahlaup til þess að hlaupast undan þessari yfirlýsingu sinni.
    Enn ein vísbending um stefnu núv. ríkisstjórnar: Í grg. með fjárlagafrv. segir um Lánasjóð ísl. námsmanna, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir svipuðu umfangi í útlánum sjóðsins og í fjárlögum líðandi árs. Ráðstöfunarfé sjóðsins nemur 2532 millj. kr. og hækkar um 17% frá fjárlögum 1988 eða nokkuð umfram verðlagsbreytingar. Þar af er fjárveiting 1617 millj. kr. og lántaka 915 millj. kr. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 var hlutdeild fjárveitingar í ráðstöfunarfé sjóðsins aukin verulega eða úr 54% í rúm 69%. Ástæða þessa var einkum sú staðreynd að sjóðurinn fær með
engu móti staðið undir greiðslubyrði af háum skuldum.``
    M.ö.o.: fjárlagafrv. sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar leggur fram ber ekki vott um að það stefnumið sem felst í þessu frv. eigi að koma til framkvæmda í sambandi við afgreiðslu þessara fjárlaga. Ég vil spyrja hv. 1. flm. þessarar tillögu hvort það megi ekki búast við því að hann og aðrir þingmenn Framsfl. muni fylgja eftir þeirri stefnu, sem þeir hafa boðað hér, að námslánin þurfi að hækka, við afgreiðslu fjárlaganna. Mér finnst nauðsynlegt að fá það alveg skýrt fram hér og nú hvort þeir muni ekki fylgja þeirri stefnu fram við afgreiðslu fjárlaga.
    Ég vil líka spyrja hæstv. menntmrh., úr því að hann er kominn í salinn, það var enginn alþýðubandalagsmaður hér, hvort það frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af tveimur þm. Alþb. m.a., hefur stuðning þingflokks Alþb., hvort búast megi við því að Alþb. og hæstv. menntmrh. styðji það frv. sem hér liggur fyrir og séu reiðubúin að stíga þá skrefið til fulls og koma því til framkvæmda sem gert er ráð fyrir í þessu frv. með þeirri hækkun á framlögum til íslenskra námsmanna sem þetta gerir ráð fyrir.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla öllu meira um þetta mál. Mér sýnist þessi tillaga bera vott um þann tvískinnung sem ríkir hjá Framsfl. í þessu máli, að stíga skrefin aftur á bak eða áfram eftir því hvernig vindurinn blæs. Það verður auðvitað fylgst með því mjög gaumgæfilega hvort flokkurinn muni ekki við afgreiðslu fjárlaga nú fylgja þeirri stefnu eftir sem þetta frv. gerir ráð fyrir með þeirri hækkun á

framlagi til íslenskra námsmanna sem leiðir af samþykkt frv.