Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þennan brennandi áhuga á málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna sem birtist síðustu dagana. Það er hver flokkurinn á fætur öðrum hér með þingmál um Lánasjóðinn. Framsóknarmenn flytja þetta frv. ásamt þingmönnum Alþb. Borgfl. er kominn með þingmál um Lánasjóð ísl. námsmanna. Kvennalistinn lætur sig þessi mál varða þannig að hér er bersýnilega um að ræða eitt af allra dýrmætustu málum þingsins að mati hv. þm. Og sömuleiðis Sjálfstfl., sem hefur verið heldur rólegur í sambandi við það að gera kröfur fyrir Lánasjóðinn, er allt í einu orðinn nokkuð hástemmdur í sambandi við að það þurfi endilega að rétta við Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég vil segja alveg eins og er: Það er full ástæða til að fagna þessum mikla áhuga. Vonandi kemur hann síðar fram í verki í þinginu þegar fram líða stundir. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því, því að það er rétt sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði, batnandi mönnum er best að lifa, í hvaða flokkum svo sem þeir kunna að vera.
    Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði áðan að þess sæi ekki stað að það stæði til að auka umfang Lánasjóðsins í fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir verulegri aukningu á umfangi Lánasjóðsins, það er rétt, en þar er um að ræða nokkra raunaukningu. (Gripið fram í.) Það er gert ráð fyrir nokkurri raunaukningu á ráðstöfunarfé sjóðsins og ef hv. þm. áttar sig á því hvernig það er samsett sér hún undir eins að þar er gert ráð fyrir nokkurri breytingu frá því sem verið hefur, en hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og aðrir þingmenn verða að gera sér grein fyrir því hvað var verið að gera í menntmrn. á undanförnum árum. Það var ekki bara verið að setja reglugerðir um skerðingu á lánum til íslenskra námsmanna. Það var ekki þannig. Það var ekki aðeins það. Það var verið að setja reglugerðir um að breyta viðmiðunarmörkum sem höfðu það í för með sér að námsmenn með hærri tekjur höfðu möguleika til að fá námslán umfram það sem áður hafði verið og það kostar Lánasjóðinn langleiðina sömu upphæð og nemur skerðingunni samkvæmt reglugerð Sverris, þeirri frægu frá því sennilega í ársbyrjun 1986. Í rauninni er það ekki þannig að menn hafi verið að spara stórkostlega á útgjöldum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Nei, íhaldið var ekki að því. Það var verið að skera niður rétt tiltekins hluta námsmanna og gefa öðrum hluta námsmanna miklu meiri rétt en þessi hópur hafði nokkru sinni áður haft, enda er niðurstaðan núna sú að menn geta verið að fá námslán þegar þeir eru komnir upp í 700--800 þús. kr. árstekjur.
    Lánasjóður ísl. námsmanna er félagslegur jöfnunarsjóður og þær breytingar sem Sjálfstfl. lét gera á þessum sjóði og úthlutunarreglum hans eru algerlega óeðlilegar. Ég vil láta það koma fram, eins og ég hef gert reyndar áður opinberlega, að við munum beita okkur fyrir því að þessum úthlutunarreglum verði breytt en í samráði við samtök námsmanna. Annað kemur ekki til greina. Annað væri ekki í samræmi við

okkar stefnu. Þess vegna er útilokað fyrir hv. þm. að lesa út úr fjárlagafrv. að menn eigi hér, námsmenn, á næstunni að búa algerlega við óbreytt kerfi. Það er rangt. Það er ætlunin að breyta úthlutunarreglunum þannig að þeir tekjuhæstu jafnvel missi einhvern rétt frá því sem nú er, en þeir tekjulægstu fái betri rétt en um er að ræða í dag. Það eru eftirfarandi meginatriði sem ég vil taka fram í sambandi við Lánasjóðinn:
    1. Ég mun á næstunni skipa hér vinnuhóp námsmanna og ráðuneytanna til að fjalla um þessi mál, úthlutunarreglurnar. Ekki um endurskoðun á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna heldur um úthlutunarreglurnar.
    2. Sú breyting mun hafa það að markmiði að skerðingarákvæði reglugerðar Sverris Hermannssonar bitni ekki á hinum almenna lágtekjunámsmanni í þessu landi.
    3. Fjallað mun verða um það að breyta viðmiðunarreglunum.
    Þetta eru meginatriði og auðvitað er hugsanlegt að einhverjir þættir séu inni í þessu dæmi sem þarf að skoða varðandi breytingar á lánasjóðslögunum sjálfum, en það er í raun og veru ekki aðalatriðið af því að þessi lög eru góð. Þetta eru góð lög. Það er auðvitað rangt, sem hv. þm. Páll Pétursson, vinur minn og stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar sagði, að framsókn ,,ætti`` þessi lög. Það er óvart þannig að fjöldi manna hefur komið að þessu á undanförnum árum með ýmsum hætti og aðalatriðið við lögin er að þau fólu í sér samning á milli ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins þá og þá og námsmannahreyfingarinnar um fyrirkomulag þessara mála. Það sem er verið að gera með því litla frv. sem hér liggur fyrir er ósköp einfaldlega að það sé ekki hægt á miðju námsári að koma í bakið á námsmönnum eins og dæmi eru um varðandi breytingar á úthlutunarreglum heldur verði fjallað um málin af þriggja manna nefnd sem sé sett saman með tilteknum hætti. En auðvitað ber ráðherra reglugerðarvaldið og ábyrgðina. Þannig er það í okkar stjórnkerfi og því verður ekki breytt með lögum af þessu tagi.
    Ég held, herra forseti, að það sé nauðsynlegt að þessi atriði komi fram og við veltum því fyrir okkur hvernig hægt er að lagfæra Lánasjóðinn og það er auðveldlega hægt að gera það án þess að þar þurfi að verja til neinum stórkostlegum viðbótarfjármunum frá því sem nú er. Það eru miklir fjármunir
sem fara í Lánasjóð ísl. námsmanna og það hlýtur að skipta þjóðina miklu máli að það sé farið vel með þá fjármuni.
    Það er kannski rétt að láta koma fram að það hafa verið uppi á undanförnum árum tillögur um stórkostlega vaxtatöku af lánum til námsmanna. Það er fróðlegt að vita hver er afstaða manna til hennar. Það er fróðlegt að frétta af því. Er t.d. Sjálfstfl. þeirrar skoðunar að það eigi að leggja vexti á námslán, jafnvel mjög háa vexti? Ég á ekki von á að menn ungi út úr sér svari við þeirri spurningu hér og nú vegna þess að hún er svo erfið fyrir þá í þessari stöðu. Þeir eru að reyna að gera sig dýrlega út af

málefnum Lánasjóðsins, íhaldið af öllum flokkum.
    Það hefur verið alveg sérstakt skemmtiatriði að fylgjast með því að undanförnu hvernig talsmenn Sjálfstfl. hafa verið að reyna að hengja menntmrh. þegar hann er varla tekinn til starfa fyrir það að hann sé búinn að blóðsvíkja alla hluti eins og þeir leggja sig í þessum lánamálum án þess í rauninni að það hafi nein veruleg tíðindi gerst önnur en þau sem nú liggja fyrir eftir opinberar yfirlýsingar mínar og m.a. þetta fjárlagafrv.: breyta úthlutunarreglum í þágu jafnaðar. Það getur vel verið að það sé það sem íhaldið er á móti, en þá skulu þeir líka segja það. Þá skulu þeir líka segja að þeir séu á móti jöfnuði í Lánasjóði ísl. námsmanna.
    Ég vil vekja athygli á því að lokum, herra forseti, að í fjárlagafrv. sem hér er lagt fram og hefur verið gerð grein fyrir opinberlega og legið á borðum hv. þm. síðan í gær er komið inn á eitt mjög stórt hagsmunamál námsmanna til viðbótar við Lánasjóðinn. Það er jöfnun námskostnaðar í dreifbýli. Það eru líka námsmenn það fólk sem stundar nám í framhaldsskólum. Það er líka fólk sem á rétt á því að því sé sýndur fullur sómi. Og ég vil líka benda á að í þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að það verði veitt framlag á árinu 1989 til byggingar stúdentagarða sem er tvímælalaus stuðningur við hagsmunabaráttu námsmanna og skiptir einnig máli í þeirra kjörum. Við skulum veita núverandi ríkisstjórn, eins og ríkisstjórnum alltaf fyrr, fullt aðhald. Ën við skulum fara yfir málin af fullri sanngirni og spyrja: Hvað mundum við hafa gert í sömu stöðu, við sömu aðstæður í ríkisfjármálum og í þjóðfélaginu almennt?