Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 02. nóvember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég vil svona undir lokin þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem fram hefur farið um Lánasjóð ísl. námsmanna, þá gagnlegu umræðu sem skýrir kannski að einhverju leyti þann vanda sem við er að glíma í þeim efnum og er það vel.
    Ég vil einnig taka undir þau orð sem hv. 2. þm. Reykv. mælti hér áðan að auðvitað er mjög brýnt að þau atriði sem snúa að Lánasjóði ísl. námsmanna fyrir árið 1989 verði eins skýr og kostur er við afgreiðslu fjárlaga, bæði að því er varðar það sem eftir er af þessu námsári, 1988--1989, og að því er varðar nýtt námsár, 1989--1990. Það er auðvitað rétt sem hér hefur verið bent á, að reglugerðin ræður miklu um það hvernig farið er með það fé sem úr er að spila. Við munum leggja á það áherslu að haga úthlutunarreglunum þannig að peningarnir komi til þeirra sem búa við erfiðustu kjörin. Það er okkar stefna. Það er örugglega alveg rétt hjá hv. 2. þm. Reykv. að það getur verið mjög erfitt að breyta tekjuviðmiðuninni, en ég held að það mál liggi nú ósköp einfaldlega þannig að við séum dæmd til að gera það af því að peningarnir eru ekki ótakmarkaðir. Við sem stöndum að þessari ríkisstjórn erum þeirrar skoðunar að eðlilegra sé að nota það fé sem til er í Lánasjóðnum til þess að tryggja sem best kjör þeirra námsmanna, sem búa við lökustu kjörin fyrir, en láta ekki námslánin elta uppi tekjur manna upp eftir öllum skalanum.
    Hitt atriðið sem ég tel ástæðu til að taka undir með hv. 2. þm. Reykv. er svo auðvitað það, eins og allir þm. vita, að stjórnarflokkarnir allir bera ábyrgð á ríkisstjórninni, líka þeim ráðuneytum sem þeir eru ekki í. Þannig er það vegna þess að efnahagsramminn og fjárlagaramminn ræður úrslitum um það hvernig er hægt að framkvæma margt af þeim lögum sem Alþingi hefur sett á undanförnum árum. Þess vegna getur enginn nokkurn tíma skotið sér undan ábyrgð á ráðuneytum svo lengi sem menn eru stuðningsmenn ríkisstjórnar. Þetta eru auðvitað gömul sannindi og ný. Þau hafa alltaf verið í gildi og eru einnig í gildi hjá núv. ríkisstjórn.